Hoppa yfir valmynd
27.03.2023 Matvælaráðuneytið

Ávarp á ráðstefnu Landgræðslunnar og Rótarýklubbs Rangæinga í Gunnarsholti 22.03.23

Góðir fundarmenn

Það er ánægjulegt að fá að vera með ykkur hér í dag, þótt að hin mjög svo ófyrirsjáanlega dagskrá löggjafarþingsins geri það að verkum að ég geti ekki setið og hlustað á alla ráðstefnuna.

Þemað á þessari ráðstefnu er bæði mikilvægt og tímabært. Fyrr í vikunni fengum við fréttir af enn annarri skýrslunni frá Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna, IPCC, þar sem sagt er frá því að tíminn til þess að halda hlýnun við 1,5°gráðu sé að renna frá okkur. Loftslagsáhrif vegna landnýtingar mannsins eru mikil en jafnframt er margt sem er ennþá á huldu um umfang áhrifanna. Þar þurfum við að bæta í rannsóknir þannig að við getum tekið ákvarðanir á grundvelli bestu vitneskju.

En þrátt fyrir það að við höfum ekki tæmandi vísindalegar upplýsingar þurfum við að hefjast handa strax. Við vitum nú að endurheimt votlendis, landgræðsla og skógrækt eru aðgerðir sem skila árangri í loftslagsmálum. Með útgáfu samræmdrar skógræktar- og landgræðsluáætlunar síðastliðið haust, sem ber heitið Land og líf, og með áformum um sameiningu Landgræðslu og Skógræktar sem ég mun mæla fyrir á Alþingi síðdegis í dag, erum við að leggja grunninn að ennþá öflugra starfi í þessum málaflokkum.

Við vitum í grunninn hverjar áskoranirnar eru, en frá upphafi iðnbyltingarinnar höfum við grafið upp fjöll af koli, og nýtt heilu höfin af olíu og gasi. En þó skipta aðrar gróðurhúsalofttegundir, líkt og þær sem eiga uppruna sinn úr meltingarvegi jórturdýra og verða til við notkun á nituráburði, einnig máli. Þannig eru lausnirnar til lengri tíma orkuskipti og bætt nýting aðfanga með því að innleiða hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins.

Við þurfum að varast uppgjöf gagnvart verkefnunum. Orðræða sem byggir á því að það sé núna eða aldrei er varasöm. Ef við gerum það hættum við á að það komi sá tímapunktur að sinnuleysi taki völdin og fólk hugsi í vaxandi mæli: „Þetta er hvort eð er tapað“.

Aðgerðir gegn loftslagsbreytingum eru ekki neyðarráðstafanir sem hægt er að ráðast í, eins og við þurftum að gera í heimsfaraldri kórónaveiru. Ég þekki ágætlega hversu snúið það er að tryggja samstöðu í sameiginlegum verkefnum í lengri tíma þegar stjórnvöld þurfa að grípa til íþyngjandi takmarkana á almenning. Loftslagsbreytingar eru eðlisólíkar því að glíma við veiru. Þær eru kynslóðaverkefni. Þó að við myndum geta veifað töfrasprota og stöðvað allan útblástur á morgun þá myndu höfin halda áfram að súrna og sjávarborð halda áfram að rísa í mörg hundruð ár. Við höfum nefnilega rótað svo kirfilega í vistkerfum heimsins.

Við munum þurfa að aðlaga okkur að þessum breytingum og í því felast tækifæri til að gera betur en nú er. Í síðustu viku var kynnt til sögunnar aðgerðaráætlun til eflingar kornræktar á Íslandi, Bleikir akrar. Sú skýrsla var unnin af sérfræðingum hjá Landbúnaðarháskólanum og forsíðumynd hennar var tekin hér í Gunnarsholti, af Björgvin bónda í Laxárdal, sem náð hefur undraverðum árangri í ræktun korns. Björgvin heimsótti ég síðastliðið haust og fékk þar góða kynningu á ræktuninni hér í Gunnarsholti, bæði tækifærunum og áskorununum, og sá hversu mikill metnaður er fyrir hendi gagnvart verkefnunum. Þann sóknarhug er einnig að finna í skýrslunni Bleikir akrar. Skýrslan snýst ekki um varnarstöðu. Hún snýst um stórhuga áform um sókn. Hún snýst um að við sem þjóð getum brauðfætt okkur á 21. öldinni. Hún snýst um að skapa skilyrði fyrir því að ný búgrein fái þrifist og fari að vaxa án hjálpardekkja innan tiltekins tíma. Hún snýst um vísindi og þekkingu, um að leggja grunn að alvöru kynbótastarfi á plöntum. Um að raungera þau tækifæri sem eru fyrir hendi.
Þá hafa niðurstöður úr verkefninu Loftslagsvænn landbúnaður skilað miklum árangri. Þar hafa almennir bændur tekið þátt í að finna leiðir til þess að slá tvær flugur í einu höggi, bæta afkomuna en jafnframt ná árangri í loftslagsmálum. Niðurstaðan er sú að bændur hafa nú þegar sýnt fram á að það er hægt að ná miklum árangri.
Áskorunin er að koma þeim aðferðum sem þeir beita í almenna notkun meðal bænda. Ég hef tröllatrú á því að ef bændur nálgast þennan búskap, kolefnisbúskap, af sama metnaði og önnur þau verkefni sem þeir stunda muni þeir ná meiri árangri á næstu árum en við teljum gerlegt.

Slík verkefni, sem bæði draga úr kostnaði við framleiðslu innlendrar búvöru en jafnframt draga úr loftslagssporinu, ættu að vera verkefni sem við leggjum mest kapp á. Þar hafa kúabændur verið í fararbroddi með innleiðingu nýrrar tækni í ræktunarstarfi og núna er umræða um frekari nýjungar í bústjórn, með því að gera bændum kleift að velja kyn kálfa fyrirfram. Þessi verkefni sýna hversu miklu máli það skiptir að bændur sjálfir, í gegnum sín félagasamtök og sín afurðafyrirtæki, séu í sókn.

Góðir fundarmenn
Nýir tímar er yfirskrift þessarar ráðstefnu. Það hafa verið nýir tímar í stjórnsýslu landbúnaðar síðustu misseri, með stofnun nýs ráðuneytis matvæla. Áherslan hefur verið á það að hlutverk okkar í stjórnsýslunni sé að skapa skilyrði fyrir fjölbreytta framleiðslu matvæla. Það eru margvíslegar áskoranir fyrir landbúnað á 21. öld. Sömu viðfangsefnin eru til umræðu hjá landbúnaðarráðherrum annarra landa, en það eru loftslagsmál, líffræðileg fjölbreytni og síðast en ekki síst grundvallarspurningin hver muni framleiða matinn? Nýliðun og afkoma bænda er alltaf til umræðu enda hefur búum fækkað alls staðar um hinn vestræna heim. Búum í ESB fækkaði til að mynda um 3 milljónir síðastliðin tíu ár, eða um fjórðung. Á sama tíma og bændum fækkar eldist bændastéttin og þar sker Ísland sig ekki frá öðrum löndum. Þetta eru þau atriði sem við þurfum að takast á við. Það þarf nýja tíma og nýja hugsun, því að það er ekki ávísun á árangur að takast á við nýja tíma með óbreyttri hugsun.

Ég hlakka til þess að fá að heyra af niðurstöðum ykkar hér í dag frá mínum fulltrúum sem hér eru. Gangi okkur öllum vel.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum