Hoppa yfir valmynd
21. mars 1996 Forsætisráðuneytið

Verklagsreglur um útboð og sölu ríkisfyrirtækja

English

Inngangur

Framkvæmd einkavæðingar tekur til sölu hlutabréfa í eigu ríkisins og útboða í ríkisrekstri.

Í þeim tilgangi að samræma vinnubrögð og tryggja faglegan undirbúning á þessu sviði, samþykkti ríkisstjórn Ísland, þann 9. febrúar 1996, verklagsreglur um framkvæmd einkavæðingar.

Reglurnar tryggja jafnan aðgang, og um leið tækifæri fyrir alla landsmenn, til að eignast hlut í fyrirtækjum og að taka þátt í útboðum á vegum ríkisins á jafnréttisgrundvelli. Jafnframt er þeirri óvissu eytt sem hingað til hefur fylgt mismunandi aðferðum við sölu á eignarhlutum ríkisins í fyrirtækjum og útboðum.

Þetta eru leikreglurnar sem gilda. Enginn getur, í krafti fjármagnseignar eða á annan hátt, tekið þátt í kaupum á ríkishlut í fyrirtækjum eða í útboðum eftir öðrum reglum. Ávinningur af útgáfu þessara verklagsreglna er því ótvíræður.

Reynslan af starfi framkvæmdanefndar um einkavæðingu hefur almennt verið mjög góð og er skemmst að minnast sölu á Lyfjaverslun Íslands hf. Góð þátttaka almennings og starfsmanna Lyfjaverslunarinnar sýnir að þar hafi verið stigið stórt skref og réttmætt í átt til jafnræðis við sölu ríkisfyrirtækja. Þær reglur sem hér er að finna staðfesta þetta.

Framkvæmdanefnd um einkavæðingu.

Verklagsreglur um útboð og sölu ríkisfyrirtækja

1. Yfirstjórn einkavæðingar

Yfirstjórn einkavæðingar er í höndum ríkisstjórnar og fjögurra manna ráðherranefndar á hennar vegum. Í ráðherranefndinni eiga sæti forsætisráðherra, utanríkisráðherra, fjármálaráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Á vegum ráðherranefndar starfar framkvæmdanefnd (framkvæmdanefnd um einkavæðingu) sem annast undirbúning og samræmingu verkefna á sviði einkavæðingar. Skal nefndin hafa yfirumsjón með breytingu ríkisfyrirtækja í hlutafélög, sölu ríkisfyrirtækja, ríkiseigna, sölu eignarhluta ríkisins í öðrum fyrirtækjum svo og útboðum á verkefnum og þjónustu á vegum ríkisins og ríkisstofnana. Í framkvæmdanefndinni sitja fulltrúar framangreindra ráðherra. Þegar til umfjöllunar eru einstök einkavæðingarverkefni kemur fulltrúi viðkomandi ráðuneytis inn í nefndina. Með framkvæmdanefndinni starfa 2-3 starfsmenn fjármálaráðuneytisins.

2. Samræming

Framkvæmdanefnd um einkavæðingu skal sjá til þess að fyllsta samræmis sé gætt við einkavæðingu t. d. við breytingu ríkisfyrirtækis í hlutafélag, hvað varðar réttindamál starfsmanna og við sölu.

3. Úttekt

Áður en viðkomandi ráðuneyti tekur ákvörðun um formbreytingu eða sölu fyrirtækis fer fram ítarleg úttekt á rekstri fyrirtækis og rekstrarumhverfi þess og hvernig einkavæðing hefur áhrif á þessa þætti. Slík úttekt skal vera á vegum einkavæðingarnefndar. Markaðsvirði fyrirtækisins skal metið í úttektinni. Við mat á markaðsvirði skal áætlað framtíðartekjuflæði núvirt. Öðrum aðferðum skal einnig beitt til samanburðar. Úttektin á að tryggja fullnægjandi upplýsingar um stöðu fyrirtækis áður en sala er ákveðin.

4. Auglýsingar

Fyrirtæki, sem til stendur að selja, skulu ávallt auglýst almenningi til kaups, þannig að öllum sem áhuga hafa sé tryggður jafn réttur til að bjóða í þau.

5. Söluaðferð

Viðkomandi ráðuneyti ákveður að fengnum tillögum framkvæmdanefndar um einkavæðingu, hvaða söluaðferð skuli viðhöfð hverju sinni, þ.e. hvort fyrirtæki skuli selt samkvæmt almennu hlutafjárútboði eða hvort leita skuli tilboða í fyrirtækið.

6. Sala

Við sölu á fyrirtæki samkvæmt tilboði skal meta tilboð til staðgreiðsluverðs miðað við ávöxtunarkröfu í síðasta útboði spariskírteina. Þá skal meta sérstaklega þær tryggingar sem tilboðsgjafi leggur fram til tryggingar greiðslu. Taka skal því tilboði sem gefur öruggustu greiðslurnar og hæst staðgreiðsluverðið, sbr. þó 8. tölulið. Hafna skal öllum tilboðum ef þau eru talin ófullnægjandi. Við sölu á fyrirtækjum samkvæmt almennu hlutafjárútboði skal gengi hvers hlutabréfs vera fastákveðið. Ef eftirspurn reynist meiri en framboð skulu hlutabréf seld í þeirri tímaröð sem staðfestar óskir um kaup bárust, sbr. þó 8. tölulið.

7. Verðbréfafyrirtæki

Úttekt á fyrirtækjum, sbr. 3. tölulið um ráðgjöf og umsjón með sölu, sbr. 5. og 6. tölulið, skal unnin af löggiltum verðbréfafyrirtækjum ásamt þeim ráðgjöfum sem þau kalla til. Verðbréfafyrirtæki skulu valin af viðkomandi ráðuneyti að fengnum tillögum framkvæmdanefndar um einkavæðingu að undangengnu útboði, sem nefndin annast, þar sem þjónusta og verð er skilgreint.

8. Takmarkanir á sölu til einstakra aðila

Heimilt er að setja hámark á hlutafjárkaup hvers aðila, eða fjárhagslega tengdra aðila, til að dreifa eignarhaldi að fyrirtækjum sem seld eru samkvæmt almennu hlutafjárútboði. Heimilt er að hafna tilboði frá aðilum ef sala til þeirra er líkleg til að draga úr virkri samkeppni á þeim markaði sem fyrirtækið starfar svo og ef sala með þeim hætti samsæmist ekki settum markmiðum þannig að líklegt sé að atvinnugreinin bíði skaða af. Erlendir aðilar eiga rétt á að kaupa fyrirtæki innan ramma laga um fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi.

9. Sérréttindi ríkisfyrirtækja

Afnema skal öll lögboðin sérréttindi fyrirtækis áður en það er selt. Engir samningar sem kveða á um sérréttindi fyrirtækis til að annast þjónustu við ríkisstofnanir skulu fylgja sölu. Á sama hátt skal afnema allar kvaðir um að fyrirtæki veiti þjónustu á niðurgreiddu verði eða endurgjaldslaust. Samkeppnisráð og Samkeppnisstofnun hefur eftirlit með einkavæddum fyrirtækjum í samræmi við samkeppnislög.

10. Frávik

Viðkomandi ráðuneyti getur að fenginni tillögu framkvæmdanefndar um einkavæðingu samþykkt frávik frá ofangreindum reglum, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Greina skal frá öllum slíkum frávikum í ríkisstjórn áður en þau koma til framkvæmda svo og opinberlega að lokinni þeirri umfjöllun.

11. Upplýsingar

Viðkomandi ráðuneyti skal veita upplýsingar til fjölmiðla og annarra aðila um stöðu einkavæðingarverkefna á þeirra sviði eins skjótt og kostur er. Framkvæmdanefnd um einkavæðingu skal annast almenna kynningu á einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar. Framkvæmdanefnd skal gefa út ársskýrslu um einkavæðingu, þar sem greint er frá fyrirtækjum sem ríkissjóður hefur selt og hvernig staðið var að sölu þeirra. Í skýrslunni skal jafnframt getið áforma um breytingu ríkisfyrirtækja í hlutafélög, sbr. 2. og 3. tölulið.

12. Gildissvið

Reglur þessar koma í stað samnefndra reglna frá 12. október 1993 og taka til allra fyrirtækja sem ríkissjóður selur eða hyggst selja að hluta eða að fullu. Reglurnar taka einnig til eignarhluta í fyrirtækjum sem ríkissjóður selur eða hyggst selja. Viðkomandi ráðuneyti og framkvæmdanefnd um einkavæðingu bera ábyrgð á að farið sé að verklagsreglum þessum.

Í stefnuyfirlýsingu ríkissjórnar Sjálfstæðisflokks of Framsóknarflokks segir m.a:

Að vinna að nýskipan í ríkisrekstri, t.d. með auknum útboðum, sameiningu stofnana, þjónustusamningum, breyttu launakerfi og aukinni ábyrgð stjórnenda. Stefnt verður að meiri hagkvæmni við opinberar framkvæmdir. Unnið verður að því að gera ríkisrekstur einfaldari en um leið skilvirkari. Aðstöðumunur verður jafnaður þar sem ríkið stundar atvinnurekstur í samkeppni við einkaaðila. Arðsemiskröfur verða gerðar til fyrirtækja ríkisins.

Að leggja fram áætlun um verkefni á sviði einkavæðingar sem unnið verður að á kjörtímabilinu. Áhersla verður lögð á að breyta rekstrarformi ríkisviðskiptabanka og fjárfestingarlánasjóða. Það á einnig við um fyrirtæki og stofnanir í eigu ríkisins sem eru í samkeppni við einkaaðila. Unnið verður að sölu ríkisfyrirtækja á kjörtímabilinu í samræmi við ákvarðanir Alþingis.

Framkvæmdanefnd um einkavæðingu
Maí 1996


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum