Hoppa yfir valmynd
1. október 1996 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið frá 1996

Forsíða útgáfunnar

AÐFARAORÐ

Sú hraða þróun, sem nú á sér stað í samskiptatækni og upplýsingamiðlun, mun hafa víðtæk áhrif á mannlegt samfélag. Sjóndeildarhringur einstaklinga og athafnasvið víkka; markaðir og viðfangsefni fyrirtækja þenjast út; í samskiptum þjóða í millum verða til ný svið viðskipta, samstarfs og menningartengsla. Að nokkru leyti er þessi þróun að breyta atvinnulífi heimsins. Sú áhersla, sem lögð hefur verið á vinnuafl, hráefni, fjármagn og orku, hefur nú vikið fyrir vægi upplýsinga og þekkingar. Hagvöxtur og arðsemi atvinnulífs byggir nú æ meir á aðgangi að upplýsingum og hæfileikum til að nýta þær. Það er brýnt að Íslendingar taki virkan þátt í þessari þróun.

Ríkisstjórn Íslands hefur því mótað stefnu stjórnvalda í málefnum upplýsingasamfélagsins. Með slíkri stefnumótun er leitast við að tryggja öllum landsmönnum fullan og jafnan aðgang að þeim nýjungum og þeim valkostum sem til boða munu standa.

Einkum þarf að leggja rækt við tvenns konar eiginleika sem standa djúpt í íslensku þjóðareðli. Annars vegar er þjóðin atorkusöm og hún er einnig nýjungagjörn. Á sama hátt og Íslendingar könnuðu víðáttumikil lönd og hafsvæði á miðöldum í krafti þeirrar sannfæringar að "sá einn veit er víða ratar", eru Íslendingar nútímans áfjáðir í að kanna og nema nýja heima upplýsingasamfélagsins. Þessi vilji er orkulind sem brýnt er að virkja.

Á hinn bóginn hafa Íslendingar einlæga sannfæringu fyrir menningarlegri sérstöðu sinni. Með þeim bærist talsverður þrái og sterk sjálfstæðiskennd, sem eru okkur kjölfesta á hverfulum tímum. Það er betra að standa í báða fætur í þeim sívaxandi straumi upplýsinga, sem að okkur berst, en að berast með flaumnum. Við verðum að hafa forsendur og styrk til að velja og hafna. Möguleika upplýsingatækninnar verðum við að nýta þjóðinni til góðs, bæði einstaklingum og heild. Þær breytingar sem í hönd fara verða því að styrkja íslenska menningu og trú þjóðarinnar á eigin sérstöðu og hlutverk. Svo vill til að íslenskur menningararfur er að langmestu leyti fólginn í upplýsingum. Upplýsinga- og fjarskiptatæknin lýkur því ekki einungis upp nýjum möguleikum er varða framtíðarþróun íslensks samfélags, heldur mun þessi tækni valda straumhvörfum í kynningu og skilningi á þeim verðmætum sem þjóðin hefur skapað á liðnum öldum.

Það er von mín að sú stefna í málefnum upplýsingasamfélagsins sem hér fer á eftir marki tímamót í þessari þróun.

Davíð Oddsson
forsætisráðherra

Í DAGRENNING NÝRRA TÍMA

eftir Finn Ingólfsson iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Stórstígar framfarir í upplýsinga- og fjarskiptatækni, óhindrað flæði upplýsinga og greiður aðgangur að helstu þekkingarbrunnum heimsins munu á komandi árum gjörbreyta atvinnuháttum okkar og samskiptum manna á milli. Þessar breytingar munu verða víðtækari og ganga hraðar en flestar fyrri samfélagsbreytingar. Þær verða ekki bundnar við atvinnu- og viðskiptalíf heldur snerta alla þætti samfélagsins. Á móti þeim verður ekki barist en með því að virkja afl þeirra má bæta lífskjör og efla menningu okkar. Þessi nýja samfélagsmynd er nefnd "upplýsingasamfélagið".

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. apríl 1995 er lagður grunnur að stefnumótun í málefnum upplýsingasamfélagsins. Þar er gefið fyrirheit um mótun heildarstefnu um hagnýtingu upplýsingatækni í þágu efnahagslegra framfara og uppbyggingar í atvinnulífinu, vísindarannsókna, lista og annarra menningarmála. Aðgangur fólks að opinberum upplýsingum verði tryggður, dregið verði úr skrifræði í samskiptum borgaranna við stjórnvöld og óþörf laga- og reglugerðarákvæði afnumin. Samhliða þessu verði þjónusta ríkisins sniðin að nútímatækni, t.d. með nettengingu þjónustustofnana og pappírslausum viðskiptum.

Í þessu felst sá ásetningur ríkisstjórnarinnar að ný upplýsinga- og fjarskiptatækni verði sem best nýtt til að tryggja vaxandi hagsæld í landinu svo unnt verði að halda uppi velferðarkerfi og menningarstigi eins og best gerist.

Á grundvelli þessarar yfirlýsingar fól ríkisstjórnin mér í október 1995 að skipa nefnd til að gera tillögur um stefnumótun í málefnum upplýsingasamfélagsins. Í nefndinni sátu tuttugu menn sem tilnefndir fulltrúar ráðuneyta, atvinnulífs og hagsmunaaðila. Formaður hennar var Tómas Ingi Olrich alþingismaður en aðrir nefndarmenn voru:

  • Benedikt Davíðsson forseti Alþýðusambands Íslands,
  • Berglind Ásgeirsdóttir ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneyti,
  • Davíð Á. Gunnarsson ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneyti,
  • Friðrik Sigurðsson formaður Staðlaráðs Íslands,
  • Guðríður Sigurðardóttir ráðuneytisstjóri menntamálaráðuneyti,
  • Haukur Oddsson formaður Skýrslutæknifélags Íslands,
  • Helgi Ágústsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneyti,
  • Jafet S. Ólafsson forstjóri Íslenska útvarpsfélagsins,
  • Jón Birgir Jónsson ráðuneytisstjóri samgönguráðuneyti,
  • Jón Þór Þórhallsson forstjóri Skýrr, varaformaður,
  • Jónas Kristjánsson ritstjóri DV,
  • Magnús Pétursson ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneyti,
  • Ólafur Tómasson póst- og símamálastjóri,
  • Sigmundur Guðbjarnason formaður Rannsóknarráðs Íslands,
  • Sveinn Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins,
  • Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Verslunarráðs,
  • Þorkell Helgason ráðuneytisstjóri iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti,
  • Þórarinn V. Þórarinsson framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands,
  • Ögmundur Jónasson formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja.

Með nefndinni störfuðu:

  • Guðbjörg Sigurðardóttir tölvunarfræðingur, formaður verkefnisstjórnar,
  • Sveinn Þorgrímsson deildarstjóri iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, ritari nefndarinnar.

Á vegum nefndarinnar var stofnað til níu starfshópa um helstu málaflokka upplýsingasamfélagsins. Málaflokkar þessir voru: Lýðræði, lög og siðareglur; launafólk og neytendur; atvinnu- og viðskiptalíf; opinber stjórnsýsla; fjarskipti og margmiðlun; menntun, vísindi og menning; heilbrigðisþjónusta; félagsmálaþjónusta og samgöngumál og ferðaþjónusta. Sérstakri sjö manna verkefnisstjórn var falið að stýra vinnu starfshópanna, samræma tillögur þeirra og ritstýra greinargerð er nefnist Íslenska upplýsingasamfélagið, álitsgerð starfshópa.

Í verkefnisstjórn voru:

  • Guðbjörg Sigurðardóttir tölvunarfræðingur, formaður,
  • Aðalsteinn Magnússon framkvæmdastjóri,
  • Jafet S. Ólafsson forstjóri,
  • Jón Þór Þórhallsson forstjóri,
  • Sveinn Hannesson framkvæmdastjóri,
  • Sveinn Þorgrímsson deildarstjóri,
  • Þorkell Sigurlaugsson framkvæmdastjóri.

Rit þetta, Framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið, er afrakstur af starfi nefndarinnar og byggist á álitsgerð starfshópanna. Líta má svo á að álitsgerðin sé til frekari skýringar á þeim meginatriðum sem hér eru sett fram. Beinir þátttakendur í stefnumótunarvinnunni voru um 130 en nokkuð fleiri komu óformlega að henni. Nærri lætur að hér sé að finna samræmt álit um 200 manna sem tengjast flestum greinum þjóðfélagsins. Þeim færi ég sérstakar þakkir fyrir vel unnin störf.

Í ljósi þess að vaxtarmöguleikar hefðbundinna atvinnuvega þjóðarinnar eru takmarkaðir er mikilvægt að tæki upplýsingasamfélagsins verði nýtt eins og kostur er til að skapa þeim ný sóknarfæri. Mikilvægur þáttur í þeirri sókn er virk íslensk þátttaka í alþjóða viðskiptum. Íslenskt atvinnu- og viðskiptalíf er vissulega alþjóðlegt og mun ný tækni og útbreiðsla nýrrar verkkunnáttu enn hraða þróun í þá átt. Nýsköpun í íslensku atvinnulífi verður að taka mið af þessu og atvinnuþróun að verða á þann veg að útflutningur standi að mestu undir bættri afkomu.

Sérstaða Íslands er að upplýsinga- og fjarskiptatæknin mun nýtast okkur hlutfallslega betur en stærri þjóðum þar sem opinn aðgangur að upplýsingum og frjáls viðskipti um hraðvirka upplýsingabraut auka samkeppnishæfni smærri fyrirtækja gagnvart þeim stærri og gera að engu þá fjarlægð við viðskiptaþjóðirnar sem ætíð hefur háð eðlilegri framþróun og samkeppnisstöðu atvinnulífs hér á landi.

Breyttir viðskipta- og atvinnuhættir ásamt örri tækniþróun munu óhjákvæmilega í auknum mæli hafa áhrif á líf okkar og afkomu. Við þessum breyttu aðstæðum þarf að bregðast og gefa fólki á vinnumarkaði tækifæri til að afla sér nýrrar þekkingar til að nýta sér nýja tækni og tileinka sér nýja verkkunnáttu. Kröfur um menntun aukast stöðugt. Æ meiri þekkingar er þörf til að verða gjaldgengur á vinnumarkaði en störfum fyrir ófaglærða fækkar. Hlutverk menntunar í hinni nýju samfélagsgerð verður því aldrei ofmetið. Til þess má ekki koma að fólk á vinnumarkaði, sem vill leita sér frekari menntunar, hafi ekki þá lágmarksmenntun sem nauðsynleg er til að viðbótarmenntun komi að gagni í störfum sem krefjast stöðugt meiri tækniþekkingar. Því verður að leggja sífellt meiri áherslu á almenna grunnþekkingu og símenntun enda er menntun undirstaða þeirrar þekkingar sem farsæl vegferð byggist á.

Því er ekki að neita að á sama tíma og margir horfa sókndjarfir fram á veg til upplýsingasamfélagsins hefur fyrirsjáanleg þróun valdið ótta ýmissa við að störfum muni fækka og lífsskilyrði versna. Enda þótt engin rök bendi til að svo verði og að reynslan sýni í raun hið gagnstæða er ástæðulaust að líta fram hjá þessu. Þannig má í hinni nýju samfélagsmynd sjá vissa ógnun jafnt sem tækifæri til sóknar. Víst er að málefni upplýsingasamfélagsins eru margbrotin og snúast ekki eingöngu um hin efnahagslegu gildi. Ekki er síður mikilvægt að við berum gæfu til að nýta tæknina til eflingar lýðræðis, aukins félagslegs jafnréttis og til eflingar sérstæðrar menningar okkar og tungu. Slíkt mun ekki gerast af sjálfu sér. Upplýsingabrautirnar verða yfirfullar af erlendu efni af margvíslegri og misjafnri gerð. Þar getum við orðið undir ef við höldum ekki vöku okkar. Í ljósi þessa er mikilvægt að vel verði hugað að menningarlegri og félagslegri hlið þeirra breytinga sem upplýsingasamfélagið hefur í för með sér. Tryggja verður virka þátttöku allra í nýrri samfélagsgerð svo ekki myndist þar tveir hópar, þeir sem tileinka sér nýja þekkingu og hinir sem eftir sitja.

Sú stefnumótun sem hér lítur dagsins ljós markar visst upphaf að skipulagðri för okkar á vit upplýsingasamfélagsins. Stefnumótun er í eðli sínu lifandi og síbreytilegt verkefni sem þarfnast stöðugrar endurskoðunar. Áherslur munu fljótt breytast enda ógjörningur að sjá fyrir endann á þeirri þróun sem fram undan er. Þar þarf stöðugt að taka mið af örri framþróun tækninnar og breytilegum þörfum þjóðfélagsins.

Það er trú mín að hér hafi verið stigin heillarík skref í þeirri vegferð sem fyrir okkur liggur. Árangur þeirrar ferðar mun þó ekki einvörðungu ráðast af góðum ásetningi stjórnvalda. Almenn samstaða þarf að verða um hana enda ljóst að meginþungi þeirra breytinga sem vænta má verður knúinn áfram af krafti og fyrirhyggju einstaklinga og fyrirtækja. Ávinningur samfélagsins mun því ekki hvað síst markast af virkri og farsælli þátttöku þeirra.

Finnur Ingólfsson

1. INNGANGUR

Ísland siglir nú hraðbyri inn í öld upplýsingasamfélagsins. Stjórnvöld gera sér grein fyrir að tímabært er að móta framtíðarsýn um þá siglingu. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. apríl 1995 voru í fyrsta sinn á Íslandi sett fram markmið, á sviði opinberrar stjórnmálaumræðu, um nýtingu upplýsingatækni til að bæta stjórnsýslu og örva atvinnulíf. Síðan hefur ýmiss konar stefnumótunarvinna verið unnin í stjórnkerfinu og er rit þetta árangur af þeirri vinnu; en í henni birtist framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið.

Lykilorð ritsins eru tvö: vegsögn og varðstaða. Vegsögn vísar til þess hlutverks stjórnvalda að vísa upplýsingatækninni veg og greiða fyrir framgangi hennar á sem flestum sviðum, til hagsbóta fyrir landsmenn. Varðstaða vísar til þess að stjórnvöld þurfa einnig að standa vörð um þau menningarlegu og siðferðilegu verðmæti, svo sem sjálfskennd íslensku þjóðarinnar og vernd viðkvæmra persónuupplýsinga, sem sumir óttast að sópast geti burt í flaumi breytinganna. Þótt við fyrstu sýn mætti virðast að þessi tvö lykilorð væru andstæð hverfast þau þó í raun um sömu þungamiðju. Sú þungamiðja varðar það yfirmarkmið eftirfarandi framtíðarsýnar að Íslendingar verði í fararbroddi þjóða heims við nýtingu upplýsingatækni í þágu bætts mannlífs og aukinnar hagsældar.

Í kjölfar þessa yfirmarkmiðs verða rakin ýmis meginmarkmið er leiðir af því. Þá er sjónsviðið þrengt enn með því að huga að undirmarkmiðum á ýmsum sviðum mannlífs í landinu, menningar, stjórnsýslu og atvinnuvega. Athyglinni er beint að vegsagnarhlutverki stjórnvalda og stungið upp á nokkrum færum leiðum að viðkomandi áfangastöðum. Síðan er á sama hátt fjallað um vegsagnar- og varðstöðuhlutverk stjórnvalda á sviði löggjafar og siðferðis: markmið og leiðir. Að lokum eru lagðar fram tillögur um farveg fyrir framkvæmd, endurskoðun, samræmingu og fjármögnun.

Áður en að þessu kemur er þó rétt að huga frekar að upplýsingatækninni sjálfri, sögulegum og röklegum forsendum hennar og þeim jarðvegi sem hún sprettur upp úr hér á landi.

2. UPPLÝSINGASAMFÉLAGIÐ OG ÍSLAND

Breytingar á högum manna koma í bylgjum. Tvær þær stærstu voru akuryrkjubyltingin og iðnbyltingin. Þriðja bylgjan, sem nú rís, sækir mátt sinn í upplýsingar. Upptök hennar eru tækniframfarir á tveim sviðum samtímis: fjarskipta- og tölvusviðinu. Á síðarnefnda sviðinu hafa orðið til auðveldar aðferðir við að nálgast upplýsingar á margvíslegan hátt í máli og myndum; og fjarskiptakerfi heimsins eru orðin það öflug að hvarvetna er nú unnt að tengjast þeim og nálgast óþrjótandi upplýsingar um allt milli himins og jarðar.

Hin nýja upplýsingatækni hefur nú þegar haft gagnger áhrif á líf og störf almennings hér á landi; og höfum við þó enn aðeins séð upphafið á þeirri þróun. Jafnt atvinnulíf sem tómstundaiðja tekur stakkaskiptum. Minna má á tölvuvæðingu fiskiskipaflotans, hvernig nýting upplýsingatækni hefur þegar gjörbylt aðferðum við veiðar, vinnslu og viðskipti með sjávarafla. Svo að annað dæmi sé tekið gerir tæknin okkur nú kleift að fylgjast með, við tölvuskjá, danssýningum, leikritum og óperusýningum, hlusta á tónverk frá öllum heimshornum og sjá listsýningar hvort sem þær eru haldnar á Suðureyri eða í Seattle. Þess verður ekki langt að bíða að hægt verði að nálgast kvikmyndir og sjónvarpsefni með sama hætti og gerast, með ýmsu móti, beinn þátttakandi í atburðarásinni. Heimaverslun við tölvuskjá mun væntanlega spara mörgum biðraðir í stórmörkuðum, og þannig mætti lengi telja.

Upplýsingasviðið er frábrugðið öllum öðrum sviðum viðskiptalífsins að því leyti að hráefni þess eyðist ekki við notkun. Oft verður hið gagnstæða uppi á teningnum: upplýsingar verða meiri að vöxtum því oftar og betur sem þær eru nýttar. Annar grundvallarmunur á upplýsingastarfsemi og annarri starfsemi er að hin fyrri er einatt óháð tíma og rúmi. Hver og einn á að geta nálgast þær upplýsingar sem hann þarfnast hvenær og hvaðan sem er. Af framansögðu sést að stærð skiptir minna máli en áður og staðsetning nánast engu. Fámenni og fjarlægðir teljast þannig vart lengur markverðar hindranir. Því ætti upplýsingatæknin að draga úr áhrifum dreifðrar búsetu og landfræðilegrar einangrunar Íslands.

Óhætt mun að fullyrða að á Íslandi, ekki síður og kannski enn fremur en hjá öðrum þjóðum, geti upplýsingatæknin orðið lykill að umbreytingunni í þekkingarþjóðfélag: þjóðfélag þar sem þekking verður ein mikilvægasta auðlindin og miðlun hennar og vinnsla ein veigamesta starfsgreinin. Með hjálp upplýsingatækninnar gefst einnig kostur á að bæta nýtingu og auka verðmæti annarra auðlinda þjóðarinnar. Því ætti tækni þessi, ef rétt er að málum staðið, að gagnast til að auka framleiðni og hagvöxt, ásamt því að bæta samkeppnishæfni Íslands og lífskjör allra landsmanna á næstu áratugum. Með þá sýn í huga höldum við á vit nýrrar aldar.

Ágreiningslaust er að upplýsingatæknin hefur ekki, fremur en flest önnur tækni, sjálfgildi, þ.e. sjálfstæðan tilverurétt. Kostur hennar er notagildið: að greiða og stytta leiðina að hverju marki. Keppikeflið er ekki að gefa sig á vald tækninni heldur að ná valdi á henni; ekki að verða að gjalti frammi fyrir nýjungunum heldur að snúa þeim sér í hag. Meiri ágreiningur er hins vegar uppi um það að hve miklu leyti unnt er að stýra vexti og viðgangi upplýsingatækninnar. Það kveður stundum við að "fúsa forlögin leiði, nauðuga neyði". Talsmenn þess sjónarmiðs líta svo á að upplýsingasamfélagið þróist eftir náttúrulegu ferli sem engin stjórnvöld fái hamið. Aðrir telja að stjórnvöld geti - og þeim beri - að hafa taumhald á þróuninni og knýja hana til samræmis við þá stefnu sem þau fylgja hverju sinni.

Ríkisstjórnin álítur hvort tveggja ofangreindra sjónarmiða ganga of langt. Upplýsingaflæðið er vissulega alþjóðlegt í eðli sínu og verður ekki hamið af valdi neins ríkis. Það merkir hins vegar ekki að útilokað sé að ljá þróuninni heillavænlega stefnu, fremur en að sú staðreynd að tré vex og dafnar eftir innri lögmálum leiðir af sér að ekki megi að nokkru leyti greiða fyrir vexti og stýra lögun þess með utanaðkomandi aðgerðum. Í kínverskri þjóðsögu segir af bónda nokkrum er reyndi að flýta fyrir vexti græðlinga sinna með því að toga þá ögn upp á við. Við það misstu þeir hins vegar rótfestuna, visnuðu og dóu. Íslensk stjórnvöld mega hvorki hefta vöxt upplýsingatækninnar né fara offari í ræktun hennar eins og bóndinn. Þau eiga að undirbúa jarðveginn fyrir hana, ljá henni áburð og vökvun, en jafnframt að snyrta græðlingana til þar sem þörf er á. Niðurstaðan hér er því í fullu samræmi við þau lykilorð í stefnu stjórnvalda sem reifuð voru í inngangi: vegsögn og varðstaða.

Allt farsælt mannlíf ber í sér tilraun til samræmis og sátta við umhverfi sitt og aðstæður. Þróun upplýsingasamfélagsins á Íslandi hlýtur óhjákvæmilega að taka mið af þeim jarðvegi sem því er hér búinn. Bent hefur verið á sterkar hliðar okkar: hátt menntunarstig, útbreiðslu tölva og tölvulæsis, þróað stjórnkerfi og fjarskiptanet, sem og smæð samfélagsins sem geri okkur kleift að taka ákvarðanir og framkvæma hluti á tiltölulega skömmum tíma. Í þessu sambandi má einnig minna á þau einkenni eða "þversagnir" Íslendingseðlisins sem ýmsir höfundar hafa reynt að fanga: þjóðrækni og alþjóðarækni, strandaglópsku og útþrá. Sagt hefur verið að í okkur blandist norræn kergja og keltnesk dulúð, minnimáttarkennd og mikilmennska. En eins og heimspekingurinn Sigurður Nordal ítrekaði sífellt eru óregla og þversagnir ekki annað en orkulindir svo fremi að okkur auðnist "að lifa óreglulega, en vera jafnframt sterkari en óreglan."

Ein höfuðorkulind Íslendinga er sá kraftur og atorka sem býr með þjóðinni og sprettur fram af þeim þversögnum sem fyrr eru nefndar. Meðal birtingarmynda þessarar atorku er nýjungagirnin sem í öfgamynd sinni getur verið löstur en hér ber að líta á sem kost. Í för okkar á vit upplýsingasamfélagsins höfum við þegar, sem heimanfylgju, það forskot að vera móttækileg fyrir nýjungum. Því má ætla að það markmið að Íslendingar verði í fararbroddi þjóða heims á sviði hinnar nýju tækni sé fyllilega raunhæft.

3. MEGINMARKMIÐ

Yfirmarkmiðið, er kynnt var í inngangi sem þungamiðja framtíðarsýnarinnar, hljóðar svo:

Íslendingar verði í fararbroddi þjóða heims við nýtingu upplýsingatækni í þágu bætts mannlífs og aukinnar hagsældar.

Til að fylgja fram þessu yfirmarkmiði skulu hér sett fram fimm meginmarkmið sem grunnur að framtíðarsýn:

  1. Landsmenn hafi greiðan aðgang að upplýsingasamfélaginu. Kostir þess verði nýttir til þess að efla lýðræði og auka lífsgæði, til hagsbóta fyrir almenning og íslenskt atvinnulíf. Upplýsingatækni verði beitt á öllum sviðum, hvort sem er við nýsköpun, heilbrigðismál, vísindi, listir og menningu eða á öðrum sviðum daglegs lífs
  2. Tryggt verði fullt jafnræði milli opinbers reksturs og einkareksturs á sviði upplýsingatækni og upplýsingaiðnaðar. Stjórnvöld auðveldi, með hjálp upplýsingatækninnar, aðgang að opinberum upplýsingum og þjónustu, til að jafna stöðu einstaklinga og fyrirtækja óháð búsetu eða efnahag.
  3. Upplýsinga- og fjarskiptatækni verði virkjuð til að bæta samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs, auka framleiðni, örva atvinnu og fjölga möguleikum til útflutnings á íslensku hugviti.
  4. Menntakerfið lagi sig að breyttri þjóðfélagsmynd og miði almenna menntun og símenntun við kosti upplýsingasamfélagsins um leið og það stendur vörð um tungu okkar og menningu.
  5. Löggjöf, reglur og vinnubrögð verði endurskoðuð með tilliti til upplýsingatækni til að örva tæknilegar framfarir og til að vernda réttindi einstaklinga og fyrirtækja.

Ríkisvaldið hefur mörgum skyldum að gegna á upplýsingaöld, jafnt heima sem erlendis. Að auki er það langstærsti notandi upplýsingaþjónustu hér á landi og hefur mikil bein áhrif á markaði. Á alþjóðlegum vettvangi sinnir ríkisvaldið m.a. því hlutverki að hafa forystu í kynningu á landi og þjóð og að gæta hagsmuna landsmanna, svo sem við alþjóðlega samningagerð og stöðlun. Stjórnvöld geta því með ýmsum hætti haft bein áhrif á framgang þeirra markmiða sem að ofan greinir og borið ábyrgð á framkvæmd þeirra. Ekki er síður mikilvægt að stjórnvöld geta með ýmsum óbeinum hætti, svo sem með fordæmi, hvatningu og ráðgjöf, greitt götu þess að aðrir aðilar í samfélaginu stefni í sömu átt. Hér, sem aldrei fyrr, er þörf samstillts átaks svo að för okkar á vit upplýsingasamfélagsins verði áfallalaus og heilladrjúg. Þekkt er úr stefnumótunarfræðum að auðveldara er að tala um tólf tinda en klífa einn. Því ríður á að almenn markmið séu annars vegar greind í sundur og hins vegar gerð verkhæf. Drög að slíkri útfærslu er að finna í fjórða, fimmta og sjötta kafla þessarar skýrslu.

4. VEGSÖGN Á NOKKRUM ÞJÓÐLÍFSSVIÐUM

  • Efnisyfirlit
  • Almenningur, lýðræði og jafnrétti
  • Atvinnulíf
  • Menntun, rannsóknir, menning
  • Heilbrigðismál
  • Fjarskipti
  • Fjölmiðlar
  • Samgöngu- og ferðamál

Almenningur, lýðræði og jafnrétti

Jafnrétti borgaranna verði eflt með fulltingi upplýsingatækninnar. Svigrúm almennings til að hafa áhrif á lagasetningu og þjóðfélagsskipan, innan þess ramma sem lýðræðisskipanin setur, verði aukið eftir því sem auðið er.

Þegar rætt er um að upplýsingasamfélagið eigi að efla lýðræði, sbr. fyrsta meginmarkmiðið í þriðja kafla skýrslunnar hér að framan, þá er það helst fólgið í að gera almenningi auðveldara en nú er að fylgjast með starfsemi opinberra aðila, ná í þær upplýsingar sem sjálfsagt er að opnar séu landsmönnum og geta þannig tekið sjálfstæða afstöðu til stefnumála, löggjafar og reglna í þjóðfélaginu. Þar með er þó ekki sagt að "allir" geti sjálfkrafa nýtt sér þá möguleika sem boðið er upp á þrátt fyrir að menntun og þjálfun standi þeim formlega til boða. Því er mikilvægt að þeim sem standa höllum fæti af einhverjum ástæðum sé lagt lið svo að þeir geti, eftir mætti, staðið jafnfætis öðrum. Kostir upplýsingatækninnar mega ekki verða innlyksa í litlum hópi heldur þurfa þeir að seytla jafnt í gegnum samfélagið allt.

Leiðir m.a.:
Upplýsingar verði gerðar fólki aðgengilegar, án tillits til efnahags eða búsetu, og því tryggðir möguleikar til að menntast alla ævi og læra ný störf eftir þörfum.
Sérstaklega sé hugað að nýtingu upplýsingatækninnar við miðlun opinberra upplýsinga. Með auknum aðgangi landsmanna að nettengdum tölvum opnast nýir möguleikar til þess að bæta þjónustu, óháð búsetu eða afgreiðslutíma einstakra stofnana. Gera þarf öll upplýsingakerfi ríkisfyrirtækja þannig úr garði að hægt verði að sækja þangað upplýsingar um lög, reglur, réttindi, skyldur o.þ.h. um tölvunet og jafnframt verði hægt að reka erindi sín, fylgjast með framgangi mikilvægra mála og fá alla þá þjónustu sem mögulegt er að veita með þessum hætti.

Bættur verði aðgangur landsmanna að upplýsingum um samfélagsþjónustu ríkis og sveitarfélaga og samskipti þeirra á milli. Notendabúnaður tengdur upplýsinganeti verði aðgengilegur í opinberum stofnunum.

Upplýsingatækni verði beitt í þágu fatlaðra til að þeir geti orðið sem virkastir þátttakendur í samfélaginu, í starfi og leik.

Upplýsingatæknin verði nýtt í baráttunni við atvinnuleysi og til að draga úr óæskilegum áhrifum búsetu á atvinnumöguleika, t.d. með því að koma á fót vinnumiðlun fyrir allt landið þar sem skráð verði laus störf og upplýsingar um einstaklinga í atvinnuleit á samræmdum gagnagrunni.

Bókasöfn þróist í alhliða upplýsingamiðstöðvar sem tryggi öllum viðskiptavinum sínum greiðan aðgang að upplýsingum á tölvutæku formi, m.a. með tengslum við innlendar og alþjóðlegar fræðslumiðstöðvar og upplýsingaveitur. Jafnframt fái viðskiptavinirnir vegsögn um nýjustu tækni við leit og notkun upplýsinga. Áhersla verði lögð á að bóka- og tímaritaskrár bókasafna landsins verði öllum aðgengilegar í rafrænu formi.

Kannaðir verði kostir og gallar þess að nýta upplýsingatækni við viðhorfskannanir, kosningar og talningu, í anda þess sem nefnt hefur verið "beint lýðræði".

Lögð verði áhersla á friðhelgi einkalífs og verndun upplýsinga um einstaklinga.

Atvinnulíf

Upplýsingatæknin verði virkjuð til þess að bæta samkeppnisstöðu íslenskra atvinnuvega, fjölga atvinnukostum og auka framleiðni, fjölbreytni starfa og nýsköpun. Íslenskt atvinnulíf verði þannig í fremstu röð við hagnýtingu upplýsingatækni og samkeppnishæft í alþjóðlegu umhverfi.

Upplýsingatæknin gjörbreytir atvinnuháttum á fjölmörgum sviðum. Auk margvíslegra áhrifa á heimamarkaði geta ný tækifæri skapast til útflutnings á upplýsingakerfum og þjónustu. Þar má nefna verkefni á sviði sjávarútvegs, orkumála, heilbrigðismála, fræðslu og skemmtunar. Atvinnulífið verður að geta nýtt sér þau sóknarfæri á sviði upplýsingatækni sem gefast með samningnum um hið evrópska efnahagssvæði og öðrum alþjóðlegum samningum. Þekkingin sem fylgir erlendum tengslum er lykill að farsælu gengi Íslands á næsta áratug.

Leiðir m.a.:

Stuðla þarf að uppbyggingu öflugs upplýsingaiðnaðar, m.a. með það að markmiði að útflutningur á íslensku hugviti verði arðbær atvinnugrein. Efla þarf frumherjaverkefni sem eiga rætur í íslensku hugviti.

Eðlileg og sanngjörn samkeppni fái að ríkja á sviði upplýsingaþjónustu sem leiða mun til lægra verðs og betri þjónustu.

Upplýsingatækninni verði beitt í allri atvinnustarfsemi hins opinbera í þeim tilgangi að bæta þjónustu, auka skilvirkni og lækka kostnað.
Stjórnvöld greiði fyrir aðlögun fyrirtækja og stofnana að upplýsingatækninni með stuðningi við aukið rannsóknar- og þróunarstarf á því sviði.

Stjórnarráð, stofnanir og fyrirtæki ríkisins skulu ávallt nýta markaðslausnir þar sem þær bjóðast og þær eiga við. Tryggt verði að tölvusamskipti fari eftir alþjóðlegum stöðlum og að ný kerfi uppfylli kröfur um samskiptahæfni. Lögð verði áhersla á útboð á starfsemi og verkefnum tengdum upplýsingatækni. Slík útboð verði markvisst nýtt til atvinnu- og nýsköpunar.

Taka þarf upp samvinnu milli aðila vinnumarkaðarins og þeirra sem vinna að rannsóknum á vinnumarkaðinum eða halda utan um tölfræði um hann, svo sem kjararannsóknarnefnda, vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytis og Hagstofu, þannig að upplýsingaöflun og úrvinnsla gagna verði auðveldari og markvissar verði hægt að miðla þeim til aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda.

Fyrirtæki og stjórnvöld taki upp pappírslaus samskipti samkvæmt alþjóðastöðlum og tileinki sér nýjungar jafnharðan og þær eru staðlaðar og samhæfðar.
Bæði starfsfólk og fyrirtæki verði búin undir þær breytingar sem eiga sér stað þegar störf hverfa og ný verða til. Með skipulegri sí- og endurmenntun verði fólki auðveldað að takast á við ný störf og verkefni þegar störf breytast eða hverfa. Áhersla verði lögð á fræðslu og endurmenntun þeirra sem misst hafa atvinnuna svo að þeir geti búið sig undir ný störf.

Tryggja skal starfsfólki greiðan aðgang að upplýsingum um stöðu og stefnu fyrirtækja eða stofnana sem það vinnur hjá.

Menntun, rannsóknir, menning

Menntakerfið lagi sig að breyttri þjóðfélagsmynd og búi nemendur undir störf sem krefjast þess að stöðugt sé aflað nýrrar þekkingar. Jafnframt verði nýttir kostir upplýsingatækninnar til að efla og viðhalda tungu og menningu. Rannsóknar- og þróunarstarf á sviði upplýsingatækni og upplýsingaiðnaðar verði styrkt um leið og tæknin sjálf verði virkjuð til að örva rannsóknir og þróun á öðrum sviðum.

Menntastofnanir hafa það veigamikla hlutverk að búa nemendur undir líf og starf í þjóðfélagi framtíðar enda er menntun sá grundvöllur sem þróun og framfarir hvíla á. Í upplýsingasamfélagi verður menntun ekki háð búsetu eða tíma á sama hátt og áður. Með því að nýta kosti tækninnar er unnt að tryggja aðgang allra landsmanna að upplýsingum og þekkingu. Eitt af hlutverkum mennta- og menningarstofnana er að vinna að því að svo geti orðið.

Menntun mun taka miklum stakkaskiptum á næstu árum og margir þættir breytast samtímis. Sérfræðimenntun úreldist fyrr og menntunarkröfur aukast. Menntun verður í minna mæli en nú er bundin ákveðnu æviskeiði. Símenntun öðlast sama sess og hefðbundið skólanám. Myndlestur eða þekking á þeirri "málfræði myndmálsins", sem býr að baki miðlun upplýsinga með myndum, þarf því að verða hluti af skólastarfinu.

Upplýsingatæknin skapar að auki nýjar víddir í íslensku menningarlífi og fjölgar þeim leiðum sem listum er miðlað eftir. Hana má nýta til að stórefla kynningu á menningarstarfi og listsköpun og til að auðvelda fólki að komast í snertingu við þau verðmæti sem menningarlífið ljær okkur.

Leiðir m.a.:

Allir landsmenn fái aðgang að grunnmenntun og framhaldsmenntun jafnt og símenntun og þjálfun í að beita upplýsingatækni sér til gagns í lífi og starfi.
Við endurskoðun námskrár á öllum skólastigum verði lögð áhersla á að allar námsgreinar þróist og taki breytingum í samræmi við þá möguleika sem upplýsingatæknin veitir. Mikilvægur þáttur í því er góð móðurmáls- og tungumálakunnátta. Í alþjóðlegu samhengi er haldgóð þekking á enskri tungu sérstaklega mikilvæg.

Áhersla verði lögð á að í skólum landsins sé fullnægjandi tölvubúnaður og nauðsynleg stoðþjónusta til að nemendur og starfsmenn geti nýtt sér möguleika upplýsingatækni í námi, kennslu, rannsóknum, stjórnun og samskiptum innan lands og utan. Sérstaklega verði hugað að möguleikum fatlaðra til að nýta sér tölvutækni til þátttöku í venjulegu skólastarfi.

Starfsemi menntanets þarf að vera öflug. Þar verði meðal annars upplýsingar um íslenskar menntastofnanir, gagnabankar um kennslu og kennsluverkefni, fjarnám, símenntun og annað það er tengist menntun hér á landi. Aðgangur að Interneti og öðrum sambærilegum netum, sem koma að gagni í skólastarfi, verði fyrir hendi í öllum menntastofnunum landsins.

Áhersla verði lögð á símenntun og sjálfsnám sem geri öllum kleift og eðlilegt að endurnýja og aðlaga þekkingu sína nýjum aðstæðum, flytja sig milli starfa eða skapa ný störf. Útvega þarf aðstöðu, upplýsingar og námsefni fyrir þá sem símennta sig með sjálfsnámi; og gagnabankar verði settir upp með þarfir fjarkennslu og rafrænna samskipta í huga.

Kennaramenntastofnanir fyrir öll skólastig skipuleggi og haldi fjölþætt og vönduð grunn- og endurmenntunarnámskeið fyrir kennara, skólastjórnendur og annað starfsfólk í nýtingu upplýsingatækni í mismunandi námsgreinum.

Hægt verði að stunda fjölbreytt sérnám á sviði upplýsingatækni á framhaldsskóla- og háskólastigi. Skólar á háskólastigi verði hvattir til að halda áfram uppbyggingu á slíku sérnámi.

Mikilvægt er að styðja og styrkja rannsóknir á notkun upplýsingatækni í skólastarfi og áhrifum hennar á menntun. Gerðar verði markvissar tilraunir með notkun upplýsingatækni á öllum skólastigum.

Rannsókna- og þróunarstarf á sviði upplýsingatækni og upplýsingamála verði eflt.

Vísindasamfélagið, það er samfélag þeirra sem stunda vísindastörf, nýti upplýsingatækni með sem skilvirkustum hætti til að treysta starfsemi sína.
Standa ber vörð um íslenska tungu enda verði henni beitt í grunnþáttum upplýsingatækni og tölvutæk gögn, hvers kyns fróðleikur og menningarefni verði á íslensku, svo sem kostur er.

Upplýsingatækni verði nýtt til varðveislu menningarverðmæta, svo og til fræðslu og kynningar á íslenskri menningu, starfi listamanna og verkum þeirra hér á landi sem erlendis.

Heilbrigðismál

Gæði og hagkvæmni heilbrigðisþjónustunnar verði aukin með markvissri nýtingu upplýsingatækni. Almenningur eigi greiðan aðgang að þjónustu og upplýsingum um heilbrigðismál, með fulltingi slíkrar tækni, til þess að einstaklingar geti frekar axlað ábyrgð á eigin heilsu, valið milli meðferðarkosta og aukið möguleika sína til sjálfshjálpar.

Vilji hefur verið til að draga úr kostnaði við heilbrigðisþjónustuna og áhersla verið lögð á hagræðingu og betri nýtingu starfsfólks og tækja. Ef bæta á heilbrigðisþjónustuna á sama tíma og kostnaði er haldið í skefjum verður að leita nýrra leiða, þar á meðal leiða sem stuðla að aukinni og hraðvirkari miðlun upplýsinga í heilbrigðiskerfinu. Skynsamleg notkun upplýsingatækni getur jafnað aðgang landsmanna að heilbrigðisþjónustu, aukið möguleika sjúklinga til sjálfshjálpar og dregið úr þörf fyrir ýmsa tímafreka vinnu.

Leiðir m.a.:

Komið verði á fót gagnabanka um heilbrigðismál þar sem efni og efnistök eru miðuð við þarfir almennings. Þar geti einstaklingar nálgast áreiðanlegar upplýsingar um heilbrigða lifnaðarhætti, forvarnir, möguleika til sjálfshjálpar og önnur heilsufarsmál. Á sama hátt verði greiður aðgangur að upplýsingum um heilbrigðisþjónustuna, heilbrigðisstofnanir og sjúklingafélög.

Komið verði upp upplýsingakerfum sem auðvelda almenningi að reka ýmis erindi og sækja þjónustu til heilbrigðiskerfisins, óháð búsetu.
Átak verði gert í tölvuvæðingu heilbrigðiskerfisins með því að byggð verði upp samhæfð og samræmd upplýsingakerfi fyrir stofnanir heilbrigðisþjónustunnar, þannig að þær geti unnið saman sem ein heild. Upplýsingakerfin verði sveigjanleg og lagi sig að margbreytilegu skipulagi heilbrigðisþjónustunnar.
Notuð verði nútíma tölvu- og fjarskiptatækni til að veita sérfræðiráðgjöf milli fjarlægra staða og koma á aukinni samvinnu milli sjúkrastofnana.

Fjarskipti

Tryggja þarf fullnægjandi fjarskipti innanlands og við útlönd á samkeppnishæfu verði er geti leitt til öflugrar framþróunar og þjónustu sem er í fararbroddi á alþjóðavísu.

Í upplýsingasamfélagi eru fjarskiptakerfi vegakerfi upplýsinganna. Skilyrði þess að hægt sé að nýta upplýsingatækni til hagsbóta fyrir atvinnulíf og almenning í landinu er greiður aðgangur að öflugu gagnaflutningskerfi innanlands og til útlanda. Flutningskerfið þarf að ráða við sívaxandi umferð sem er texti, tal, mynd og einnig hreyfimyndir sem krefjast mikillar flutningsgetu. Álagið á flutningskerfið eykst með auknu framboði á þjónustu eftir þessum leiðum og tækninýjungum sem auðvelda notandanum að nýta sér það sem í boði er.

Leiðir m.a.:

Komið verði á frelsi í fjarskiptum, aðgangur að opinberum dreifikerfum opnaður og sköpuð skilyrði fyrir aukna samkeppni. Jafnframt verði hugað að þeim þjónustuskyldum sem slíku frelsi eigi að fylgja.

Stefnt verði að því að efla samkeppnisstöðu Íslands með því að tryggja aðgang fyrirtækja og almennings að fullkomnustu fjarskiptakerfum heimsins á samkeppnishæfu verði. Flutningsgeta og flutningsöryggi innanlands og til útlanda sé jafnan fullnægjandi og geri ráð fyrir ört vaxandi notkun.

Uppbyggingu breiðbandsnets verði hraðað og unnið skipulega að því að koma á bandbreiðu flutningskerfi um allt land.

Fjölmiðlar

Íslenskir fjölmiðlar verði meðal framvarða íslenskrar menningar og tungu.

Fjölmiðlun hefur aukist gífurlega hin síðari ár og þá sérstaklega hjá ljósvakamiðlum, útvarpi og sjónvarpi. Þessa aukningu má einkum rekja til afnáms einkaleyfis Ríkisútvarpsins fyrir áratug og nýrra kosta við móttöku efnis frá gervihnöttum.

Fjölmiðlar munu gegna æ stærra hlutverki við að tryggja almenningi aðgang að fjölbreyttum upplýsingum og greiða flæði þeirra eftir margvíslegum leiðum. Sýnt þykir að mörk fjölmiðla, símkerfa og tölvutækni verði óljós og tækifæri eflist til gagnvirkrar miðlunar. Þar mun almenningi gefast kostur á að hafa áhrif á hvaða þjónusta er veitt og hvaða upplýsingum er miðlað. Getur því einstaklingurinn sniðið notkunina að eigin þörfum. Fjölmiðlun mun þannig að vissu leyti þróast til einstaklingsmiðlunar. Jafnframt geta einstaklingar, félagasamtök eða fyrirtæki, sem tengjast upplýsinganetum, orðið þátttakendur í nýrri tegund fjölmiðlunar sem er óháð hinum hefðbundnu fjölmiðlum. Við það gjörbreytist aðstaða einstaklinga og fyrirtækja til að koma á framfæri hugmyndum, stofna til menningartengsla og bjóða vöru og þjónustu.

Íslenskir fjölmiðlar keppa ekki einungis innbyrðis heldur búa þeir við síaukna samkeppni erlendra fjölmiðla, sérstaklega í sjónvarpi. Vaxandi hlutur íslenskra ljósvakamiðla í uppeldis- og menntamálum beinir athygli að aðstöðu þeirra til að standa sig í harðri samkeppni, á þeim forsendum sem markast af sérstöðu Íslendinga, tungu okkar og menningu. Evrópskri dagskrárgerð hefur vaxið fiskur um hrygg en hefur þó naumast roð við bandarískum stórfyrirtækjum á þessu sviði. Mikil áhersla er nú lögð á að efla kvikmyndagerð og dagskrárgerð fyrir sjónvarp sem hluta af menningu hverrar þjóðar, m.a. með samvinnu ljósvakamiðla í viðkomandi löndum. Nauðsynlegt er að íslenskir ljósvakamiðlar fylgi því fordæmi, til að tryggja gæði og fjölbreytni. Enn fremur er brýnt að stjórnvöld leiti leiða til að virkja og styðja ljósvakamiðla og sjálfstæða dagskrárgerð til að framleiða úrvalsefni.

Leiðir m.a.:

Íslenskum fjölmiðlum verði skapað starfsumhverfi er geri þeim kleift að taka virkan þátt í samkeppni á alþjóðavettvangi.

Tryggð verði frjáls samkeppni á sviði fjölmiðlunar.

Hlutverk Ríkisútvarpsins verði endurmetið, vegna tilkomu annarra ljósvakamiðla, m.a. með tilliti til mikilvægis þess í eflingu íslenskrar menningar og gerð íslensks dagskrárefnis.

Stuðlað verði að samstarfi íslenskra ljósvakamiðla og þeir, ásamt sjálfstæðum framleiðendum, hvattir til að framleiða íslenskt dagskrárefni.

Fjölmiðlar verði hvattir til að veita öllum landsmönnum aðgang að gögnum sínum, dagskrárefni og fréttatengdu efni í gegnum tölvur, gegn eðlilegri þóknun.

Samgöngu- og ferðamál

Öryggi í samgöngum fyrir landsmenn og ferðamenn verði tryggt sem best með nýtingu upplýsingatækninnar. Enn fremur verði hún notuð til miðlunar og dreifingar upplýsinga til ferðamanna, innlendra og erlendra. Kostir upplýsingatækninnar verði almennt notaðir til að gera sambúðina við landið og náttúru þess öruggari.

Skipuleg söfnun og miðlun upplýsinga fyrir vegfarendur, sjófarendur og stjórnendur loftfara mun hafa veruleg áhrif á öryggi og hagkvæmni í samgöngum á Íslandi. Unnt verður að nálgast upplýsingar um samgönguleiðir á sjó og landi í einkatölvu, hvar sem er á landinu og raunar hvar sem er í heiminum. Með slíkri upplýsingamiðlun má spara tíma og fyrirhöfn og koma í veg fyrir ferðir við tvísýnar aðstæður. Einn helsti ávinningurinn af notkun upplýsingatækni í samgöngum felst þannig í auknu öryggi. Þar má einnig nefna sem dæmi áform um sjálfvirka tilkynningarskyldu fyrir sjófarendur þar sem samnýttir verða möguleikar í fjarskiptum og tölvutækni.

Fjarskipta- og upplýsingatækni mun stuðla að enn betri tengslum íslenskra fyrirtækja við umheiminn og auðvelda viðskipti og flutninga á vörum og þjónustu. Tæknin mun á þann hátt færa Ísland nær umheiminum og erlendum mörkuðum og bæta samkeppnishæfni þjóðarinnar.

Með aukinni notkun upplýsinga- og fjarskiptatækni verða samskipti milli aðila í ferðaþjónustu og við ferðamenn auðveldari og nýir möguleikar opnast í markaðssetningu Íslands sem ferðamannalands. Ferðamenn munu geta aflað sér fjölbreyttra og áreiðanlegra upplýsinga á þægilegan og ódýran máta. Þetta þýðir að milljónir manna sem tengdir eru við Internetið geta nálgast upplýsingar um ferðamannalandið Ísland og þá þjónustu sem þar býðst frá tölvu á heimili sínu eða vinnustað. Þess vegna er þýðingarmikið að vel takist til og viðmót verði sem best, því að lengi býr að fyrstu kynnum. Upplýsingatæknin gefur því íslenskri ferðaþjónustu ný sóknarfæri þar sem hún getur nálgast stærri hóp væntanlegra kaupenda á fjölbreyttari og ódýrari hátt en áður. Búist er við að þróunin verði sú að ferðamaður tengist fullkomnum bókunar- og sölukerfum frá eigin heimilistölvu og geti sjálfur skipulagt og bókað ferðalög sín gegn vægu gjaldi.

Leiðir m.a.:

Ríki og sveitarfélög komi upp samræmdu upplýsingakerfi um samgöngu- og umhverfismál, m.a. með gerð stafrænna korta af landinu og miðunum.
Settur verði upp upplýsingabanki fyrir ferðaþjónustu þar sem fyrirtæki í ferðaþjónustu og almenningur geta á auðveldan hátt nálgast fjölbreytilegar hagnýtar upplýsingar um ferðaþjónustu á Íslandi, lög og reglugerðir. Í upplýsingabankanum þarf að vera greið leið að upplýsingum um veður, færð, siglingaleiðir og þess háttar, ásamt ýmsum öðrum hagnýtum upplýsingum. Áhersla verði lögð á að veita vandaðar upplýsingar sem stuðla að auknu öryggi ferðamanna jafnframt því sem viðskipti verði auðvelduð.

5. VEGSÖGN OG VARÐSTAÐA Á SVIÐI LAGA OG SIÐFERÐIS

Upplýsingatæknin breytir litlu sem engu um þær grundvallarreglur á sviði laga og siðferðis sem vænta má að flestir Íslendingar aðhyllist, s.s um vernd mannréttinda og einkalífs. Ný tækni og aukið flóð upplýsinga vekur hins vegar spurningar um hvernig tryggja megi þessi atriði í framkvæmd.

Löggjöf

Endurskoða þarf löggjöf til að tryggja að hún taki í senn mið af þróun upplýsingatækninnar og setji nauðsynlegar skorður við notkun hennar. Standa þarf vörð um gildi eins og friðhelgi einkalífs og öryggi, en gæta þess þó að ganga ekki of langt í hömlun og ofverndun. Segja má að í þessu felist tvenns konar markmið, annars vegar um afnám óþarfa hindrana og hins vegar um vernd einkalífsins.

Aðlaga þarf löggjöfina breyttu umhverfi og nema brott allar óþarfa hindranir fyrir þróun og notkun upplýsingatækninnar svo að hana megi nýta sem best til farsælla mannlífs.

Leiðir m.a.:

Rutt verði skipulega burt öllum óþarfa lagahindrunum fyrir nýtingu upplýsingatækninnar.

Brugðist verði með lagasetningu við ýmsum álitaefnum sem upplýsingatæknin vekur, t.d. hvernig eigi að tryggja höfundarréttindi þegar afrit þekkjast ekki lengur frá frumriti, hvernig tolla eigi og skattleggja rafrænar upplýsingar, hver sé lagalegur grundvöllur fyrirtækja sem reka viðskipti um allan heim úr tölvu, e.t.v. ekki innan lögsögu neins ríkis, og hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að rafrænt skjal teljist löglegt í viðskiptum.

Meiðyrða- og hegningarlög verði endurskoðuð og lög sett um tjáningar- og prentfrelsi sem taki mið af nýrri tækni í fjölmiðlun. Þá kalla tölvusamskipti á endurskoðun löggjafar um fjarskipti.

Ljóst er að nýta má upplýsingatækni til að styðja heilbrigðisþjónustuna við að bæta heilsufar þegnanna, eins og vikið var að hér að framan. Við mótun reglna um notkun upplýsingatækni á þessu sviði þarf að huga sérstaklega að trúnaði og öryggi í allri meðferð og vinnslu upplýsinga. Flokka þarf gögn og skilgreina trúnaðarmörk þeirra, afmarka nákvæmlega hvaða upplýsingar megi færa á tölvutækt form og á net, hverjir megi flytja hvað inn á netið og hverjir hafi að því aðgang. Setja þarf sérstakar reglur um aðgang heilbrigðisstétta að persónuupplýsingum og hvernig megi með þær vinna.

Hagkvæmni rafrænna kennikorta verði könnuð og jafnframt lagalegir þættir vegna upptöku þeirra. Slík kort gætu leyst af hólmi hefðbundin persónuskilríki svo sem vegabréf og ökuskírteini. Slík kort gætu m.a. gegnt því hlutverki að tryggja jafnan aðgang að upplýsingum, bæði hjá hinu opinbera og í einkageiranum.

Stórir gagnabankar þar sem tengdar hafa verið saman ýmsar eignaskrár, fasteignaskrár, ökutækjaskrá o.s.frv. kalla á fjölþætta endurskoðun laga. Með tilliti til verndar einkalífs má binda miðlun upplýsinga úr slíkum gagnabanka ýmsum skilyrðum.

Eðlilegt er að löggjafinn taki afstöðu til þess hvort greiða eigi fyrir afnot af opinberum gögnum eða ekki, eftir eðli þeirra og tilgangi notkunar þeirra.

Aðlaga skal persónuverndarlöggjöf breyttu umhverfi og tryggja eftir því sem kostur er friðhelgi einkalífs og öryggi gagna.

Leiðir m.a.:

Á sama tíma og meiri upplýsingar eru geymdar á tölvutæku formi verður ódýrara að vinna úr þeim og auðveldara að misnota persónuupplýsingar. Þörf er fyrir úrræði sem tryggja persónuvernd, svo sem vernd gegn því að persónuupplýsingar séu skráðar án samþykkis viðkomandi og þeim miðlað áfram.

Setja verður þröngan ramma um meðferð upplýsinga um einkamálefni einstaklinga, s.s. um litarhátt, kynþátt, stjórnmálaskoðanir, kynlíf, heilsuhagi, fjárhag, félagslega stöðu o.þ.h., en þó sjá fyrir eðlilegri og hagkvæmri vinnslu slíkra upplýsinga til hagsbóta fyrir einstaklinginn og samfélagið í heild. Skoða þarf, bæði út frá lögfræðilegum og siðfræðilegum sjónarhóli, að hvaða marki nota megi persónuupplýsingar, s.s. lífsýni, í öðrum tilgangi en var með söfnun þeirra í upphafi.

Jafnframt verði þess gætt að persónuverndarlöggjöf verði ekki of þröng. Hún verður að taka mið af tækni og möguleikum til vinnslu, miðlunar og flutnings persónuupplýsinga, sem ekki geta talist viðkvæmar, og skapa svigrúm fyrir eðlilega notkun þeirra. Gera þarf mögulegt að vinna með og fá slíkar upplýsingar án mikillar skriffinnsku.

Skoða þarf tilskipun Evrópusambandsins um vernd og flutning persónuupplýsinga, en markmið hennar er tvíþætt, þ.e. stefnt er að tryggri vernd einkalífsins og samtímis reynt að tryggja að sú vernd hindri ekki frjálst streymi persónuupplýsinganna milli aðildarríkja. Í tilskipuninni er reynt að ná báðum þessum markmiðum, sem eru í eðli sínu ósamrýmanleg, á þann hátt að mæla fyrir um mjög strangan staðal er varðar lagalegar og skipulagslegar kröfur til allrar meðferðar persónuupplýsinga og gera staðalinn bindandi fyrir öll aðildarríki.

Persónuverndarlöggjöf taki mið af mögulegri notkun rafrænna kennikorta. Ljóst er að slík kort geta skilað aukinni persónuvernd og öryggi í samskiptum og viðskiptum, þar sem þau geta bæði verið persónulegur lykill viðkomandi einstaklings að gögnum sem hann varða, og tryggt að slík gögn verði ólæsileg fyrir annan en réttan viðtakanda. Á móti kemur að margs er að gæta, sbr. að slík kort geta geymt ævisögu einstaklinga og þar með opnað leið til að afhjúpa hann gersamlega.

Siðferði

Undir siðferði falla dómar um rétt og rangt, mannlegar dygðir og lesti, og reglur um rétta og ranga breytni. Meginmarkmið siðferðisins er að samstilla hagsmuni ólíkra einstaklinga og hópa í heimi takmarkaðra gæða þannig að stuðla megi að heill og hamingju sem flestra. Skilin milli laga og siðferðis annars vegar og siðferðis og velsæmis hins vegar eru oft óglögg. Oft er þó litið svo á að siðferðið sé ávallt í einhverjum skilningi algilt, þ.e. gildi um alla menn, óháð tíma og stað, andstætt lögunum sem séu mannasetningar, afstæð við tíma og stað þó að þau séu byggð á siðferðilegum grunni. Siðferðilega dóma þarf að rökstyðja með skírskotun til hagsmuna sem rista dýpra en tilfinningaástæður eða einstaklingsbundinn smekkur, sem aftur greinir siðferðið frá velsæmismálum. Það eitt að nekt eða óviðurkvæmilegt málfar í sjónvarpi særi sómakennd einstaklings er til dæmis velsæmismál; sé því hins vegar haldið fram að þetta efni skaði beinlínis hagsmuni einhverra áhorfenda, t.d. barna, er orðið um siðferðilegt álitamál að ræða.

Upplýsingatæknin breytir í sjálfu sér engu um höfuðgildi siðferðisins, gildi sem velta á eðli manns og samfélags. Hún skapar hins vegar, eins og margs kyns önnur ný tækni í aldanna rás, áður óþekkta möguleika sem meta þarf út frá siðferðilegu sjónarhorni. Við slíkar nýjar aðstæður er oft stuðst við hina þekktu frelsisreglu Johns Stuarts Mills, sem stundum er orðuð þannig að frelsi manns skuli ná að nefi náungans, þ.e. að öll breytni manns skuli teljast siðferðilega réttmæt nema hún skaði beinlínis hagsmuni annars aðila. Það að breytnin spilli eingöngu manninum sjálfum, eða særi aðeins velsæmiskennd hins aðilans, er þannig ekki talin nægileg forsenda siðferðilegrar fordæmingar. Skynsamlegt er að hafa þessa reglu að leiðarljósi þegar hugað er að siðareglum vegna upplýsingatækninnar.

Stuðlað verði að því að nýting upplýsingatækninnar á Íslandi samræmist í hvívetna höfuðgildum mannlegs siðferðis og skaði ekki hagsmuni einstaklinga eða hópa.

Leiðir m.a.:

Stuðla ber að útbreiðslu hugbúnaðar og annarra varnarvopna sem fólk getur notað til að takmarka öflun og móttöku efnis á tölvutæku formi sem bersýnilega grefur undan almannaheill (barnaklám, kynþátta-, hryðjuverka- og ofbeldisáróður o.s.frv.) jafnframt því sem Ísland taki virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi á því sviði.

Stofnuð verði siðanefnd um upplýsingatækni á Íslandi sem taki fyrir, að eigin frumkvæði eða annarra, siðferðileg álitamál er ekki falla undir gildandi lög og reglugerðir. Nefndin hvetji starfsstéttir og stofnanir, er nýta upplýsingatækni, til að setja sér skýrar siða- og notkunarreglur, og aðstoði þessa aðila við gerð þeirra.

6. FRAMKVÆMD

Ríkisstjórnin lítur á stefnumörkun í málefnum upplýsingasamfélagsins sem varanlegt þróunarverkefni en ekki sem átaksverkefni með skilgreint upphaf og endi. Vegna þeirra öru breytinga, sem verða á samfélaginu og á sviði upplýsinga- og fjarskiptatækni, þarf stefna stjórnvalda í málaflokknum að vera í stöðugri endurskoðun.

Nauðsynlegt er að stjórnvöld hafi yfirsýn yfir þróun málaflokksins í heild til að stuðla að framkvæmd stefnunnar, tryggja almenna þátttöku hins opinbera í nýtingu upplýsingatækninnar og ýta undir samræmingu og hagkvæmni í nýtingu þeirra miklu fjármuna sem nú þegar er varið til upplýsingamála.

Upplýsingatæknin breytir samskiptaháttum almennings og hins opinbera og styttir boðleiðir. Miklu skiptir við framkvæmd stefnunnar að almenningur geti tekið beinan þátt í stefnumótunarvinnunni, komið á framfæri óskum um bætta þjónustu stjórnvalda og nýtingu upplýsingatækninnar þjóðfélaginu í heild til framdráttar. Upplýsingatæknin býður upp á þessi beinu tengsl.

Framkvæmd stefnunnar hvílir á nokkrum mikilvægum forsendum sem líta ber á sem forgangsverkefni meðal þeirra fjölmörgu markmiða sem hér eru sett fram.

Til þess að tryggja framangreind atriði við framkvæmd stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum upplýsingasamfélagsins verða gerðar eftirfarandi ráðstafanir:

  1. Forsætisráðuneyti fer með yfirstjórn þeirra þátta sem lúta að heildarsýn yfir framkvæmd stefnunnar. Ráðuneytið ber formlega ábyrgð á samræmingu milli ráðuneyta, mati á árangri og heildarendurskoðun stefnunnar, og kemur að forgangsröðun verkefna á sviði upplýsingatækni við fjárlagagerð.
  2. Því víðtæka samráði innan ríkisgeirans, við fulltrúa atvinnurekenda, launþega og fleiri, sem liggur til grundvallar stefnumörkun ríkisstjórnarinnar, verður haldið áfram og því komið í fastan farveg. Vísir að slíkum farvegi er nú þegar til innan nokkurra ráðuneyta. Þar sem slíku er ekki til að dreifa munu ráðuneytin móta varanlegan farveg fyrir gerð framkvæmdaáætlana og hafa faglegt eftirlit með framkvæmd, t.d. með því að koma upp virkum vinnuhópum um upplýsingasamfélagið.
  3. Í tengslum við ráðuneytin og faghópa þeirra verður komið upp tölvuþingum, t.d. sem umræðuhópum á Interneti, þar sem myndaður verður farvegur fyrir bein skoðanaskipti og upplýsingamiðlun til landsmanna og stjórnvalda, og almenningi gefst tækifæri til að koma á framfæri tillögum um bætta þjónustu sem teknar verða til formlegrar skoðunar og úrvinnslu.
  4. Ríkisstjórnin mun koma á sérstökum fjárlagaliðum innan ráðuneyta sem ætlaðir eru til verkefna á sviði upplýsingatækni. Við úthlutun fjárins skal veita forgang þeim verkefnum sem:

    - falla að stefnu stjórnvalda í upplýsingamálum;
    - stuðla að aukinni hagræðingu í ríkisrekstri, bættri þjónustu við almenning eða fyrirtæki;
    - nýtast fleiri en einni stofnun, fyrirtæki eða heilli starfsgrein;
    - eru boðin út.
  5. 5. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að sjóðir atvinnulífsins og rannsóknasjóðir veiti auknu fé til verkefna á sviði upplýsingatækni, hugbúnaðargerðar, gagnavinnslu og upplýsingaþjónustu.
  6. 6. Skilgreind eru eftirfarandi forgangsverkefni, sem er mikilvægur þáttur í að stefna stjórnvalda í málefnum upplýsingasamfélagsins nái fram að ganga:

    - taka á sviði menntamála sem stuðlar að almennu tölvulæsi þjóðarinnar, raunsærri úrvinnslu upplýsinga og mati á gagnsemi þeirra. Átakið verði stutt með aukinni áherslu á móðurmáls- og tungumálakennslu.
    - Flutningsgeta og flutningsöryggi tölvutækra upplýsinga innanlands og til útlanda verði fullnægjandi og anni ört vaxandi notkun. Kostnaður almennings og fyrirtækja af gagnaflutningi verði í lágmarki.
    - Útboðsstefnu ríkisins verði framfylgt við kaup hugbúnaðar fyrir ríkisstofnanir og ráðuneyti. Áhersla verði lögð á að auka þannig þátttöku hugbúnaðarframleiðenda í þróunarverkefnum á vegum ríkisstofnana og nýta betur það fé sem þær verja til hugbúnaðar.

Ráðstafanir þær sem hér hafa verið tilgreindar geta, að dómi ríkisstjórnarinnar, markað mikilvæg spor á langri leið inn í það samfélag upplýsinga og þekkingar sem skyggnt hefur verið í framtíðarsýn þessari.

ORÐSKÝRINGAR

Orð Skýring
bandbreiður Sem notar eða er á breiðu tíðnisviði.
bandbreidd Mismunur á hæstu og lægstu tíðni tiltekins tíðnisviðs.
bandbreitt flutningskerfi Flutningskerfi sem notar breitt tíðnisvið.
bandbreitt samband Samband á breiðu tíðnisviði.
breiðbandsnet Bandbreitt net.
einstaklingsmiðlun Það þegar hver notandi getur stuðst við þar til gerðan tölvubúnað og valið sér dagskrárefni eða fengið t.d. fréttir eftir eigin óskum og hentugleikum.
endurmenntun Viðhald og endurbót menntunar.
fjarkennsla Kennsla sem getur farið fram án þess að kennari og nemandi hittist, t.d. þannig að gögn (texti, hljóðefni, myndefni) berist með pósti, síma, bréfasíma, tölvuneti, útvarpi, sjón-varpi o.s.frv
fjarnám Nám sem getur farið fram án þess að kennari og nemandi hittist, sbr. fjarkennsla.
fjarskiptakerfi Samkiptakerfi sem byggt er á fjarskiptum.
fjarskiptanet Samskiptanet sem byggt er á fjarskiptum.
fjarskiptatækni Tækni sem er notuð við fjarskipti.
fjarskipti Það að senda út eða taka við hvers konar merkjum í samskiptakerfi (t.d. með útvarpsbylgjum).
fjarvinnsla Gagnavinnsla þar sem sumar ílags- og frálagsaðgerðir fara fram í tækjum sem eru tengd tölvukerfi með gagnafjarskiptum.
frumgerð Fyrsta útgáfa kerfis sem önnur starfhæf kerfi eru gerð eftir.
frumherjaverkefni Verkefni þar sem byggt er á nýjum uppfinningum eða nýjum hugmyndum á einhverju sviði.
gagnabanki Samsafn gagna sem lúta að tilteknu viðfangsefni, skipulagt þannig að notendur þess hafi greiðan aðgang að því. Sbr. upplýsingabanki.
gagnaflutningskerfi Tölvu- og fjarskiptabúnaður sem flytur gögn milli tölva.
gagnagrunnur Gagnasafn
gagnasafn Skipulegt samsafn gagna um tiltekið efni sem eru geymd í tölvu.
gagnasamskipti Flutningur gagna milli tölva samkvæmt reglum og samkomu-lagi notenda tölvanna.
gagnaveita Sjá upplýsingaveita.
gagnvirk miðlun Það þegar skiptist á innsláttur notanda átölvu,sem er tengd upplýsingamiðli, og viðbrögð miðilsins.
gögn Framsetning staðreynda, hugtaka eða skipana sem hentar til samskipta, túlkunar eða úrvinnslu, með eða án aðstoðar tölvu. (Orðin gögn og upplýsingar eru samheiti, þ.e. merkja hið sama, í öllu almennu máli. Heitið gögn er þó frekar notað um frumupplýsingar en heitið upplýsingar ef unnið hefur verið úr þeim að einhverju leyti. Sem íðorð hafa heitin gögn og upplýsingar ekki sömu merkingu.)
háhraðafjarskipti Fjarskipti sem styðjast við tækni sem leiðir til óvenjumikils hraða.
heimasíða Aðalskjalið sem tilheyrir tilteknum einstaklingi eða stofnun á veraldarvefnum og veffang einstaklingsins eða stofnunarinn-ar vísar á. Til dæmis hefur Stjórnarráð Íslands heimasíðu á veffanginu http://www.stjr.is/. Venjulega er hægt að nálgast aðrar vefsíður út frá heimasíðu.
Hugverk Verk þar sem vinna höfundarins með huganum er megin-uppistaðan.
Internet Rökrænt net sem nær um allan heim og tengist ótal minni netum. Internetið notar samskiptareglurnar TCP/IP og með hjálp þeirra er hægt að koma á samskiptum milli allra tölva sem tengjast Internetinu.
Jaðarbúnaður Búnaður í gagnavinnslukerfi sem sér um samskipti við um-heiminn, geymd gagna eða önnur verk.
Landfræðilegar upplýsingar Upplýsingar sem hægt er að tengja við staðsetningu á jörðu, einkum upplýsingar um náttúrufar og menningarlega eða lýðfræðilega þætti.
lífsýni Vefsýni, þ.e. sýni af líkamsvef, þ. á m. blóðsýni.
ljósleiðari Örmjór, sveigjanlegur glerþráður, notaður til þess að flytja upplýsingar með ljósfræðilegum aðferðum.
margmiðlun Það að nota tölvu til að miðla upplýsingum með texta, hljóði, kyrrmyndum, hreyfimyndum o.s.frv.
margmiðlunarbúnaður Sá tölvubúnaður sem þarf til að vinna við og nýta margmiðlunarefni.
margmiðlunardiskur Geisladiskur eða seguldiskur með margmiðlunarefni.
margmiðlunarefni Upplýsingar sem miðlað er með margmiðlun.
menntanet Upplýsinganet sem einkum þjónar ýmsum menntastofnunum.
myndráðstefna Símaráðstefna þar sem sendar eru kyrrmyndir eða hreyfimyndir af þátttakendum auk tals, texta og teikninga.
net Sjá tölvunet.
nettenging Tenging tölvu eða útstöðvar við tölvunet.
notendakerfi Hugbúnaðarkerfi, ætlað til að leysa tiltekið tölvuviðfangs-efni.
notendaumhverfi Samsafn vélbúnaðar- og hugbúnaðartóla sem tölvunotandi hefur aðgang að.
notendaviðmót Sá hluti tölvukerfis sem snýr að almennum notanda.
opið kerfi Kerfi, búið eiginleikum sem fylgja tilteknum stöðlum. Þess vegna er auðvelt að tengja það öðrum kerfum sem fylgja sömu stöðlum.
pappírslaus samskipti Rafræn samskipti, einkum með viðskiptagögn milli fyrirtækja og stofnana. (Stundum kallað SMT-samskipti, þar sem SMT stendur fyrir ,,skjalaskipti milli tölva", eða EDI-samskipti, þar sem EDI stendur fyrir e. ,,electronic data interchange".)
rafrænt kennikort Kort með persónubundnum upplýsingum sem búnaður, sem styðst við rafeindatækni, getur skynjað.
rafræn samskipti Einkum tölvusamskipti en hugtakið felur einnig í sér aðra samskiptatækni þar sem rafeindatækni kemur við sögu (t.d. símasamband og útvarpssendingar).
Rafrænn Sem varðar notkun rafeindatækni.
rafrænt skjal Skjal á rafrænu formi.
Samskiptakerfi Kerfi tækja og hugbúnaðar sem nota má til samskipta.
Samskiptanet Net tækja og hugbúnaðar sem nota má til samskipta. Netið getur tengst öðrum netum eða kerfum.
Símenntun Menntun allt lífið, þ.e. þegar fólk er sífellt að bæta kunnáttu sína og þekkingu.
Sjálfsnám Nám sem einstaklingur skipuleggur og stundar á eigin spýtur.
stafræn gögn Gögn á stafrænu formi, sett fram með tölustöfum og e.t.v. einnig sérstöfum og bilstaf.
stafræn samskipti Samskipti þar sem gögn eru send á stafrænu formi.
stafrænt form Form þar sem gögn, svo sem lesmál, hljóð og myndir, eru sett fram með tölustöfum, formi sem tölvur geta meðhöndlað.
Svæðisheiti Hluti staðgreinis á Interneti sem er sameiginlegur mörgum netþjónum. Til dæmis hafa tölvur í neti Háskóla Íslands svæðisheitið hi.is sem kemur t.d. fyrir aftast í tölvupóstföngum starfsmanna háskólans.
Tölvulæsi Það að hafa einhverja hugmynd um hvernig tölvur vinna, hafa vald á nokkrum orðaforða um gagnavinnslu og geta not-að tölvur sér til gagns. Tölvulæsi þarf ekki að fela í sér kunn-áttu í forritun eða þekkingu á innviðum tölvunnar.
Tölvunet Net tölva sem eru tengdar saman til gagnafjarskipta.
Tölvubúnaður Allur sá búnaður sem þarf til að reka tölvukerfi. Tölvubúnaði er oft skipt gróflega í vélbúnað og hugbúnað en einnig má telja til hans skjalbúnað, þ.e.a.s. leiðbeiningar og önnur skjöl þar sem vélbúnaðinum og hugbúnaðinum er lýst.
Tölvupóstfang Staðgreinir á tölvuneti sem vísar á ótvíræðan hátt á tölvu-pósthólf tiltekins tölvunotanda.
Tölvupóstkerfi Tölvuvætt upplýsingakerfi þar sem notendur geta skipst á skilaboðum á skipulegan hátt.
Tölvupóstur 1. Gagnasendingar milli útstöðva eða tölva sem tengdar eru tölvuneti.

2. Tölvupóstkerfi.

Tölvupóstveita Póststöð fyrir tölvupóst.
Tölvusamskipti Hvers konar samskipti með aðstoð tölva.
Tölvutæk gögn Gögn skráð á tölvutækan miðil.
Tölvutækni Það að beita tölvum við gagnavinnslu.
tölvutækt form Eitthvert það form sem tæki, sem notað er til að setja gögn í tölvu, getur lesið eða skynjað. (Í raun er þetta því víðara hug-tak en svo að það nái aðeins til gagna á tölvudiskum eða disklingum. Undir hugtakið getur líka fallið t.d. prentað mál sem hægt er að skanna með ljósstafalesara, göt á gataspjaldi sem spjaldalesari skynjar og blýantsstrik á strimli fyrir þar til gerða skynjara.)
upplýsingabanki Samsafn upplýsinga sem lúta að tilteknu viðfangsefni, skipulagt þannig að notendur þess hafi greiðan aðgang að því. Sbr. gagnabanki.
Upplýsingaiðnaður Öll sú starfsemi sem tengist vinnslu og meðhöndlun upplýsinga til útbreiðslu eða sölu. Sameiginlegt heiti um hugbúnaðargerð, gagnavinnslu og upplýsingaþjónustu.
Upplýsingahraðbraut Afkastamikið tölvusamskiptanet sem hægt er að nota til að flytja miklar upplýsingar á skömmum tíma, texta og önnur gögn, kyrrmyndir, hreyfimyndir og hljóð; gert til að þjóna mörgum notendum samtímis.
Upplýsingakerfi Kerfi þar sem skipulega er hægt að safna saman upplýsingum, geyma þær, vinna úr þeim og leita þeirra.
Upplýsinganet Tölvunet þar sem leita má skipulega að upplýsingum.
Upplýsingar Sú merking sem venjulega er lögð í gögn. Upplýsingar eru m.ö.o. nánast ,,það sem ráðið verður af gögnum". (Orðin gögn og upplýsingar eru samheiti, þ.e. merkja hið sama, í öllu almennu máli. Heitið gögn er þó frekar notað um frumupplýsingar en heitið upplýsingar ef unnið hefur verið úr þeim að einhverju leyti. Sem íðorð hafa heitin gögn og upplýsingar ekki sömu merkingu.)
upplýsingasamfélag Samfélag þar sem þjónusta, samskipti og upplýsingar eru ráðandi þættir.
Upplýsingatækni Það að beita viðeigandi tækni við upplýsingavinnslu. Með tækni er átt við tölvutækni, fjarskiptatækni og rafeindatækni.
Upplýsingaveita Skipulögð þjónusta sem veitir upplýsingum til notenda, m.a. tölvunotenda.
Upplýsingaþjónusta Þjónusta sem lýtur að því að leita skipulega að upplýsingum og miðla þeim.
Viðmót Sjá notendaviðmót.
Vísindasamfélag Umhverfi og samskipti þeirra sem vinna að vísindastörfum.
Þekkingarþjóðfélag Þjóðfélag þar sem þekking, miðlun hennar og úrvinnsla er ein mikilvægasta auðlindin.


Útgefandi: Rikisstjórn Íslands

Texti: Kristján Kristjánsson dósent, Háskólanum á Akureyri og verkefnisstjórn nefndar um stefnumótun fyrir ríkisstjórn Íslands um íslenska upplýsingasamfélagið.

Ritstjórn veraldarvefsútgáfu: Jóhann Gunnarsson deildarstjóri, Hagsýslu ríkisins.

Útgáfa á prenti: Umsjón með hönnun og prentvinnslu: Auglýsingastofan Hvíta húsið.

Hönnun og umbrot: Rita.

Prentun og bókband: Svansprent.

Upplag:
1. útgáfa, október 1996: 2.000 eintök.
2. útgáfa, janúar 1997: 2.000 eintök.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum