Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 1997 Utanríkisráðuneytið

AÞS: Skýrsla 1997: IX Mið-Austurlönd

Yfirlitsskýrsla um utanríkismál 1977
Staða Íslands, breytingar og horfur í alþjóðlegu umhverfi

IX - Mið-Austurlönd

Snemma í vor er leið tók fyrir allar samningaviðræður og samvinnu milli Ísraels- og Palestínumanna. Í marslok sl. stöðvaðist algjörlega friðarferlið, sem upphófst með Oslóar-samkomulaginu haustið 1993, þegar Ísraelsmenn hófu byggingar-framkvæmdir við nýtt íbúðahverfi fyrir gyðinga í Austur-Jerúsalem (Har Homa/Jabal Abu Ghneim). Hefur æ síðan sigið mikið á ógæfuhliðina með hverjum mánuðinum, endurtekin sprengjutilræði Palestínumanna í Jerúsalem og refsiaðgerðir Ísraelsstjórnar á Vesturbakkanum og landamærum Gazastrandarinnar, sem og eldflaugaárásir Hizbullah á Norður-Ísrael og gagnárásir Ísraelshers á Suður-Líbanon.

Meiriháttar tilraun Bandaríkjastjórnar til að koma málsaðilum, Yasser Arafat og Benjamin Netanyahu, aftur á sporið og endurvekja friðarferlið frá Osló með fyrstu heimsókn Madelaine Albright sem utanríkisráðherra á svæðið í septembermánuði virðist ekki hafa borið neinn árangur, hvorki gagnvart Ísraelsstjórn né Palestínu-mönnum. Þó er nú veik von til að á næstunni hefjist á nýjan leik í Washington samningaviðræður á grundvelli Oslóar-samkomulagsins fyrir atbeina Bandaríkjanna.

Mikill árangur af heimsókn utanríkisráðherrans til Mið-Austurlanda er heldur ekki sýnilegur í víðara umfangi, hvað varðar friðarsamninga við nágranna Ísraels í norðri, Sýrland og Líbanon, þar gengur hvorki né rekur.

Íranir koma hér líka við sögu, enda sakaðir um að fá vopnin, eldflaugarnar, í hendur Hizbullah í Líbanon, sem og öðrum hryðjuverkasamtökum víðs vegar í heiminum. Nýr forseti og ráðuneyti hans tóku við embættum í ágústlok og er Mohammad Khatami sagður vera hófsamari en forveri hans. Standa því vonir til, að breytingar verði á stjórnarstefnunni til batnaðar og samskipti við önnur lönd geti aftur komist í eðlilegt horf, einkum þá stjórnmálasambandið við Evrópuríkin.

Viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna bæði á Írak og Líbýu er enn í fullu gildi og virðist hvorugur leiðtoginn gera nokkuð raunhæft til að losna undan banninu, heldur þvert á móti. Gjöreyðingarvopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna eiga t.d. sífellt í erfið-leikum í samskiptum sínum við landsstjórnina í Írak.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum