Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 1998 Dómsmálaráðuneytið

Skýrsla nefndar um stjórnsýslu bifreiðamála

Skýrsla
1. október 1998

Til : Dómsmálaráðherra
Frá: Stefáni Eiríkssyni, Hauki Ingibergssyni og Ágústi Þór Jónssyni
Efni: Skýrsla nefndar um stjórnsýslu bifreiðamála


Efnisyfirlit

1. Inngangur

2. Núverandi fyrirkomulag

2.1 Stjórnsýsla bifreiðamála

    2.1.1 Dómsmálaráðuneytið
    2.1.2 Skráningarstofan hf.
    2.1.3 Skoðunarstofur
    2.1.4 Lögreglan
    2.1.5 Umferðarráð
    2.1.6 Aðrir
2.2 Umferðaröryggismál
2.3 Tölvumál
    2.3.1 Lögreglu- og sýslumannsembætti
    2.3.2 Dómsmálaráðuneytið
    2.3.3 Skráningarstofan hf.
    2.3.4 Umferðarráð
    2.3.5 Ríkislögreglustjóri
    2.3.6 Aðrar undirstofnanir dómsmálaráðuneytisins
    2.3.7 Schengen-samstarf

3. Tillögur

3.1 Samantekt
3.2 Útfærsla

    3.2.1 Tæknideild
    3.2.2 Skráningardeild
    3.2.3 Tölvudeild
    3.2.4 Ökuprófadeild
    3.2.5 Fræðslu- og upplýsingadeild
    3.2.6 Þróunarverkefni
    3.2.7 Gæðastjóri
    3.2.8 Samráðsvettvangur
    3.2.9 Forstjóri og almenn skrifstofa
    3.2.10 Starfsmannamál
    3.2.11 Fjármál
    3.2.12 Húsnæðismál

4. Framkvæmd tillagna


1. Inngangur

Í júní 1998 setti dómsmálaráðherra á fót nefnd til að fjalla um fyrirkomulag á stjórnsýslu bifreiðamála.

Hlutverk nefndarinnar var þríþætt:

1. að gera tillögur um hvernig heppilegast væri að fella sem stærstan hluta af stjórnsýslu málefna er varða bifreiðir, þ. á m. hvað varðar gerðarviðurkenningu, búnað, skráningu og viðskipti undir eina stofnun ásamt ýmsum verkefnum sem varða bíltækni, bifreiðar og umferð.
2. að gera tillögur um hvernig flytja megi þá starfsemi sem sinnt er hjá Skráningarstofu hf. til slíkrar stofnunar og hvort/hvernig heppilegt sé að ljúka starfsemi fyrirtækisins eftir að það er ríkiseign.
3. að taka til skoðunar hvort og þá að hvaða marki fella eigi undir slíka stofnun umsýslu með tölvukerfum, einkum eftirlit og vistun gagna með miðlægum hætti, sem í notkun eru hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess.

Í nefndina voru skipaðir, Stefán Eiríksson, deildarstjóri í dómsmálaráðuneytinu, formaður, Haukur Ingibergsson, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu og Ágúst Þór Jónsson verkfræðingur. Starfsmaður nefndarinnar var Stefán Stefánsson, verkfræðingur.

Nefndin og starfsmaður hennar hafa nú yfirfarið mikið af gögnum um málið m.a. gögn sem nefndin fékk send frá Umferðarráði, Skráningarstofunni hf. og dómsmálaráðuneytinu. Jafnframt hefur verið rætt við Þorstein Geirsson, Ólaf W. Stefánsson, Guðna Karlsson, Sigrúnu Jóhannesdóttur, Hákon Sigurhansson og Eggert Þorgrímsson starfsmenn dómsmálaráðuneytisins, Óla H. Þórðarson, Holger Torp (yfirmann ökuprófa), Kjartan Þórðarson og Örn Þorvarðarson (slysaskráningarmann) hjá Umferðarráði, Karl Ragnars og Högna Eyjólfsson hjá Skráningarstofunni hf., Harald Johannessen, Árna Albertsson, Kristján Kristjánsson og fleiri starfsmenn Ríkislögreglustjóra, Óskar Eyjólfsson og Jón Hjalta Ásmundsson hjá Frumherja hf., Gunnar Svavarsson hjá Aðalskoðun hf. auk þess sem rætt var við sérfræðinga í tölvurekstri og öryggismálum tölvukerfa.

Í þessari skýrslu nefndarinnar er farið yfir núverandi fyrirkomulag þeirra verkefna sem nefndinni var falið að skoða, lagðar fram tillögur að nýrri skipan mála og sett fram framkvæmdaætlun sem byggir á að helstu tillögur nefndarinnar verði komnar til framkvæmda á næstu 2 árum.

2. Núverandi fyrirkomulag

Í vinnu sinni ákvað nefndin að skoða núverandi fyrirkomulag út frá þremur megin verkefnaþáttum, stjórnsýslu bifreiðamála, umferðaröryggismálum og tölvumálum, fremur en nálgast fyrirkomulagið út frá þeim stofnunum og aðilum öðrum sem sinna verkefnum á þessu sviði í dag.

2.1 Stjórnsýsla bifreiðamála

Dómsmálaráðuneytið er æðsta stjórnvald bifreiðamála en auk þess sinna Umferðarráð, Skráningarstofan hf., skoðunarstofur og lögreglan stjórnsýsluverkefnum á þessu sviði undir yfirstjórn ráðuneytisins. Ef litið er á stjórnsýslu umferðarmála í heild bætast við verkefni tengd vegum og öðrum umferðarmannvirkjum sem falla undir samgönguráðuneytið og er flestum sinnt af Vegagerðinni. Snertifletir eru milli verkefna þessara tveggja ráðuneyta og hefur náðst ágætt samstarf um þau. Þessu til viðbótar má nefna að viðskiptaráðuneytið fer með mál er varða kaup og sölu bíla en nefndin tók þau mál ekki til sérstakrar skoðunar.

Í 34. gr. umferðarlaga segir:

      "Dómsmálaráðherra getur sett reglur um akstursíþróttir á sérstökum afmörkuðum svæðum utan vega. ... Eigi má efna til aksturskeppni, nema með leyfi lögreglustjóra. Eigi má án samþykkis vegamálastjóra heimila keppni á þjóðvegi og án samþykkis sveitastjórnar utan vega..."

Ofangreindur lagatexti er dæmi um hve margir tengjast umferð og framkvæmd umferðarlaga og undirstrikar að framkvæmd laga um umferð mun alltaf byggja á góðu samstarfi fjölmargra aðila sem málinu tengjast. Í köflum 2.1.1 til 2.1.6 verður farið yfir stjórnsýsluhlutverk þeirra aðila sem koma að stjórnsýslu bifreiðamála.

2.1.1 Dómsmálaráðuneytið

Auk almennrar yfirstjórnar stofnana og verkefna er endurskoðun laga og reglugerða stærsta verkefni dómsmálaráðuneytisins á sviði bifreiðamála. Umferðarlögin nr. 50/1987 með síðari breytingum mynda grundvöll málaflokksins og skv. heimildum í þeim hafa verið settar fjölmargar reglugerðir sem þarfnast stöðugrar endurskoðunar við m.a. vegna breytinga í tækni. Reglugerðunum fylgir einnig vinna af ráðuneytisins hálfu vegna túlkana, undanþágubeiðna og úrskurða varðandi framkvæmd einstakra reglugerðaákvæða.

Einn starfsmaður ráðuneytisins sinnir einvörðungu bifreiðamálum auk þess sem keypt hefur verið aðstoð utan frá við reglugerðasmíð. Skráningarstofan hf. hefur lesið yfir drög að reglugerðum fyrir ráðuneytið en annars ekki komið að vinnslu reglugerða. Skráningarstofan hf. hefur aftur á móti tekið að sér fyrir hönd ráðuneytisins að fylgjast með þróun bifreiðamála innan Evrópusambandsins auk þess að sjá alfarið um gerð skoðunarhandbókar.

2.1.2 Skráningarstofan hf.

Skráningarstofan hf. hóf starfsemi 4. febrúar 1997. Aðdragandi þess var að Bifreiðaskoðun Íslands hf. var lögð niður og starfsemi þess fyrirtækis skipt í tvö sjálfstæð hlutafélög þar sem annað (þ.e. Skráningarstofan hf.) skyldi sjá um skráningar ökutækja en hitt (þ.e. Bifreiðaskoðun hf., nú Frumherji hf.) skyldi annast skoðanir ökutækja í samkeppni við önnur skoðunarfyrirtæki. Skömmu eftir stofnun hinna nýju hlutafélaga seldi ríkið sinn hluta í skoðunarfyrirtækinu en ákvað að halda eign sinni í skráningarfyrirtækinu. Nú er ríkið að ganga frá kaupum á hlutum annarra í Skráningarstofunni hf. sem eftir það verður í hreinni ríkiseign.

Skráningarstofan hf. starfar samkvæmt auglýsingu nr. 77/1997 um skráningu ökutækja, reglugerð nr. 79/1997 um starfshætti skráningarstofu ökutækja og auglýsingu um gjaldskrá nr. 84/1997. Hlutverk Skráningarstofunnar hf. er m.a.:
      - að annast skráningu ökutækja; hún metur skráningargögn, hvort þau uppfylla kröfur um form og efni og getur óskað eftir ítarlegri upplýsingum þegar þess er þörf,
      - að annast útgáfu skráningarskírteina og dreifingu skráningarmerkja,
      - að annast uppfærslu, viðhald og rekstur ökutækjaskrár,
      - að veita upplýsingar og vera dómsmálaráðuneytinu til ráðuneytis í tæknilegum málefnum er varða ökutæki, gerð þeirra og búnað,
      - að annast skráningu á aðilum sem hafa hlutverki og skyldum að gegna við skráningu ökutækja eða skoðun, svo sem innflytjendum ökutækja, faggiltum skoðunarstofum, B-faggiltum endurskoðunarverkstæðum og löggiltum bifreiðasölum.
      - að sjá um gerð eyðublaða vegna skráningar ökutækja, svo og samskiptaforrita,
      - að hafa eftirlit með útgáfu og notkun skoðunarmiða,
      - að efla almennt umferðaröryggi.

Stjórnsýsla á vegum Skráningarstofunnar hf. er fyrst og fremst í tengslum við umsýslu bifreiðaskrárinnar. Skráningarstofan gegnir stjórnsýsluhlutverki við hverja einstaka færslu nýskráninga og breyttra skráninga (þ.m.t. skráningu eigendaskipta) í ökutækjaskrá. Skráningarstofan er einnig Vechile Type Approval Authority á Íslandi. Skiptar skoðanir hafa verið um hvort réttlætanlegt sé að fela fyrrgreinda stjórnsýslu hlutafélagi og eru ekki dæmi um slíkt fyrirkomulag í öðrum löndum.

Hjá Skráningarstofunni starfa 25 starfsmenn sem skiptast eftirfarandi niður á verkefni:
        Verkefni
        Fjöldi starfsmanna
        Skráningar
        11
        Símsvörun – upplýsingar
        2
        Ritarar
        2
        Bókhald
        1
        Tölvurekstur
        3
        Tæknideild
        3
        Stjórnendur
        3
        Samtals
        25

Skráningarstofan hf. hefur tekjur skv. gjaldskrá fyrir skráningu ökutækja nr. 84/1997. Tekjur Skráningarstofunnar skv. ársreikningi 1997 voru 276 m.kr. þar af 247 m.kr. vegna skráninga. Aðrar tekjur eru m.a. tilkomnar vegna sölu upplýsinga úr bifreiðaskrá. Af tekjunum runnu 44 m.kr. beint til Litla Hrauns vegna númerakaupa. Hagnaður ársins nam 27 m.kr. eftir skatta.

2.1.3 Skoðunarstofur

Faggiltar skoðunarstofur sinna reglubundnum skoðunum ökutækja skv. lögum, reglugerðum og skoðunarhandbók. Að skoðun lokinni gefur skoðunarstofa út skoðunarvottorð sem felur í sér stjórnsýsluhlutverk af þeirra hálfu.

2.1.4 Lögreglan

Lögreglan sinnir fjölmörgum stjórnsýsluverkefnum í tengslum við bifreiðir og umferð og er lögreglan einn helsti framkvæmdaraðili Umferðarlaga. Meðal verkefna lögreglu skv. lögunum má nefna:

· stjórn umferðar
· eftirlit með umferð
· veiting leyfa til aksturskeppni
· útgáfa ökuskírteina
· skráning ökuskírteina og ökuferils
· afturköllun ökuréttinda
· svipting ökuréttinda
· eftirlit með ástandi ökutækja og hleðslu þeirra
· afklippingar skráningarmerkja óskoðaðra ökutækja eða ökutækja sem eru til hættu fyrir umferðaröryggi
· veiting leyfa til að selja á leigu í atvinnuskyni skráningarskyld ökutæki án ökumanns
· veiting leyfa til reksturs búfjár á vegi í þéttbýli
· álagning og innheimta gjalda vegna brota á umferðarlögum

2.1.5 Umferðarráð

Umferðarráð sinnir stjórnsýsluverkefnum í tengslum við ökupróf og eftirlit með ökukennurum og ökuskólum. Í drögum að nýrri reglugerð um ökukennara, ökuskóla og ökukennslu er Umferðarráði falin aukin eftirlitsverkefni á þessu sviði.

Hjá ökunámsdeild Umferðarráðs starfa 9 fastráðnir starfsmenn að fyrrgreindum verkefnum auk 3ja verkefnaráðinna prófdómarar á landsbyggðinni.

Í fjárlögum 1998 eru tekjur Umferðarráðs vegna prófagjalda bifreiðastjóra áætlaðar 34,6 m.kr. sem nær ekki að fullu að standa undir kostnaði við ökunámsdeild stofnunarinnar.

Hlutverki Umferðarráðs og öðrum verkefnum þess en hér eru nefnd verður gerð nánari skil í umfjöllun um umferðaröryggismál í kafla 2.2.

2.1.6 Aðrir

Vegagerðin sinnir ákveðnum stjórnsýsluverkefnum er tengjast bifreiðum og umferð í samstarfi við dómsmálaráðuneytið, m.a. setur dómsmálaráðuneytið reglur um ásþunga en Vegagerðin hefur með höndum eftirlitið á vegum úti. Á sama hátt setur dómsmálaráðuneytið reglur um flutninga með bifreiðum þar sem Vinnueftirlit ríkisins kemur að eftirliti með framkvæmd.

2.2 Umferðaröryggismál

Fjölmargir ólíkir aðilar koma að umferðaröryggismálum, bæði opinberir aðilar sem og félög, samtök og fyrirtæki. Umferðarráði er í umferðarlögum falið samræmingar-hlutverk í umferðaröryggismálum og er því ætlað að tengja saman þá aðila er að málinu koma og virkja krafta þeirra.

Samkvæmt 112. gr. umferðarlaganna er hlutverk Umferðarráðs:

a. að beita sér fyrir bættum umferðarháttum,
b. að beita sér fyrir því að haldið sé uppi umferðarfræðslu,
c. að vera fræðsluyfirvöldum, umferðarnefndum sveitarfélaga og samtökum, er vinna að bættri umferðarmenningu, til hjálpar og ráðuneytis, eftir því sem óskað er og aðstæður leyfa.
d. að standa fyrir útgáfu fræðslurita og bæklinga um umferðarmál og hafa milligöngu um útvegun kennslutækja og annarra gagna til nota við fræðslustarfsemi,
e. að hafa milligöngu um umferðarfræðslu í ríkisútvarpi (hljóðvarpi og sjónvarpi) og öðrum fjölmiðlum,
f. að sjá um, að á hverjum tíma sé til vitneskja um fjölda, tegund og orsakir umferðarslysa í landinu með samræmdri slysaskráningu lögreglu, slysadeilda, sjúkrahúsa og tryggingafélaga sem nái yfir landið allt.
g. að beita sér fyrir könnunum á umferðarháttum og öðru, er umferð varðar,
h. að vera stjórnvöldum og öðrum til ráðuneytis um umferðarmál,
i. að fylgjast með þróun umferðarmála erlendis og hagnýta reynslu og þekkingu annarra þjóða á því sviði,
j. að leitast við að sameina sem flesta aðila til samstilltra og samræmdra átaka í umferðarslysavörnum og bættri umferðarmenningu,
k. að hafa með höndum umsjón með ökunámi, eftirlit með ökukennslu og að annast ökupróf og
l. að annast önnur verkefni samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra.

Til að vinna að þessum verkefnum hefur Umferðarráð framkvæmdastjóra og starfslið sem þróast hefur upp í að verða stofnunin Umferðarráð. Það getur valdið nokkrum ruglingi að bæði er starfandi stofnun og nefnd hagsmunaðila sem bera sama nafnið.

Hjá stofnuninni starfa 15 fastráðnir starfsmenn auk verkefnaráðinna starfsmanna. Í kafla 2.1 er farið yfir stjórnsýsluverkefni Umferðarráðs í tengslum við ökunám (sbr. lið k. í upptalningu hlutverka) þeim verkefnum sinna 9 fastráðnir starfsmenn. Yfirstjórn stofnunarinnar og almennum umferðaröryggismálum sinna 6 fastráðnir starfsmenn.

Í nefndinni Umferðarráði sitja fulltrúar 20 hagsmunaaðila auk tveggja fulltrúa sem dómsmálaráðherra skipar án tilnefningar. Dómsmálaráðherra skipar 5 manna stjórn Umferðarráðs. Skal stjórnin skipuð formanni ráðsins og varaformanni og auk þess þrem ráðsmönnum sem ráðherra skipar til eins árs í senn. Í 114. gr. umferðarlaganna segir um hlutverk stjórnarinnar:
      "Stjórnin hefur með höndum yfirstjórn á starfsemi Umferðarráðs, boðar fundi í ráðinu, undirbýr dagskrá funda þess og leggur fyrir það skýrslu um starfsemi ráðsins."

Vegna þess að ráðið og stofnunin bera sama nafn er ekki ljóst af fyrrgreindum lagatexta hvort stjórninni er ætlað að starfa sem stjórn stofnunarinnar auk þess að stjórna starfi nefndarinnar. Reyndin hefur verið sú að nefndin hefur starfað líkt og stjórn ríkisstofnunar.

Samkvæmt umferðarlögum er dómsmálaráðherra heimilt að skipa sérstaka rannsóknarnefnd umferðarslysa. Tvívegis hefur slík nefnd verið skipuð en í hvorugt skiptið komist verulegur skriður á störf nefndanna.

Til að sinna starfi sínu hefur Umferðarráð markaða tekjustofna. Í 115. gr. umferðarlaganna segir:
      "Leggja skal á sérstakt umferðaröryggisgjald er renni til Umferðarráðs, að fjárhæð 200 kr., og greiðist það við almenna skoðun ökutækis, skráningu ökutækis og skráningu eigendaskipta að ökutæki."

Í fjárlögum 1998 er gert ráð fyrir að umferðaröryggisgjaldið skili Umferðarráði 35,6 m.kr..

Í 64. gr. a í umferðarlögum segir:
      "Dómsmálaráðherra getur sett reglur um heimild eiganda ökutækis til að velja tiltekna bókstafi og tölustafi á skráningarmerki ökutækisins (einkamerki).
      Fyrir rétt til einkamerkis skal greiða 25.000 kr., auk gjalds fyrir skráningu og skráningarmerki. Fyrir skráningu á flutningi einkamerkis af einu ökutæki á annað í samræmi við reglur sem settar eru skv. 1. mgr. skal greiða sama gjald og fyrir skráningu eigendaskipta á ökutæki. Gjaldið renni til Umferðarráðs."
Hér er um óvissan tekjustofn að ræða en áætlað er að hann skili 5-7 m.kr. á árinu 1998. Stjórn Umferðarráðs tók þá ákvörðun að setja þessa fjármuni ekki í almennan rekstur Umferðarráðs heldur leggja þá til hliðar og kalla Umferðaröryggissjóð. Peningunum hefur m.a. verið varið til tækjakaupa fyrir lögreglu.

Auk fyrrgreindra tekna hefur Umferðarráð fengið greiðslur frá sveitarfélögum fyrir hvern íbúa sem tekið hefur þátt í umferðarskólanum Ungir vegfarendur sem er bréfaskóli fyrir börn á aldrinum 3ja til 7 ára. Árgjald sveitarfélags er kr. 337 fyrir hvern nemenda. Einnig fær Umferðarráð tekjur af sölu fræðsluefnis. Alls eru þjónustutekjur Umferðráðs áætlaðar 11,8 m.kr. á árinu 1998.

Ekki er gert ráð fyrir að tekjur Umferðarráðs nægi til að standa undir rekstri þess að fullu og fær Umferðarráð því 11,4 m.kr. ríkisframlag til viðbótar á árinu 1998.

Þann 28. febrúar 1996 var samþykkt á Alþingi þingsályktun um stefnumótun er varðar aukið umferðaröryggi og framkvæmdaáætlun. Til að vinna að framgangi áætlunarinnar skipaði dómsmálaráðherra framkvæmdanefnd sem í eiga sæti Þórhallur Ólafsson, formaður Umferðarráðs sem einnig er formaður nefndarinnar, Georg Kr. Lárusson, sýslumaður, nú settur lögreglustjóri í Reykjavík og Rögnvaldur Jónsson framkvæmdastjóri hjá Vegagerðinni. Unnið skal skv. umferðaröryggisáætluninni fram til ársins 2001. Engir sérstakir fjármunir eru merktir umferðaröryggisáætluninni og hefur daglegur rekstur í tengslum við hana verið greiddur af Umferðarráði.

2.3 Tölvumál

2.3.1 Lögreglu- og sýslumannsembætti

Á síðustu árum hefur verið unnið að því á vegum dómsmálaráðuneytisins að endurnýja tölvukerfi lögreglu- og sýslumannsembætta. Við endurnýjunina hefur þeirri stefnu verið fylgt að reka tölvukerfin miðlægt fyrir öll embættin í stað þess að reka þau sjálfstætt fyrir hvert embætti eins og áður tíðkaðist.

Rekstur miðlægu kerfanna hefur verið í höndum fyrirtækisins Tölvumynda hf. en tölvubúnaðurinn staðsettur í fremur þröngri aðstöðu hjá Lögreglustjóranum í Reykjavík að Hverfisgötu. Miðlægi tölvureksturinn hefur gengið undir nafninu Tölvumiðstöð dómsmálaráðuneytisins. Starfsmaður Tölvumynda er í Tölvumiðstöðinni 8 tíma á dag. Hann sér til þess að tölvukerfin haldist gangandi ásamt því að svara fyrirspurnum notenda tölvukerfanna.

Öll lögreglu- og sýslumannsembætti tengjast Tölvumiðstöðinni auk nokkurra annarra stofnana dómsmálaráðuneytisins. Heildarfjöldi notenda er um 650. Hjá Tölvumiðstöðinni er samankomið mikið safn persónulegra upplýsinga s.s. í málaskrá lögreglunnar og ökuferilsskrá sem gerir miklar kröfur til öryggismála.

Á vegum Tölvumynda sinnir 1,5 starfsmaður Tölvumiðstöðinni og gerir dómsmálaráðuneytið ráð fyrir að greiða 8,5 m.kr. fyrir þá þjónustu fyrirtækisins á næsta ári. Heildar rekstrarkostnaður Tölvumiðstöðvarinnar er áætlaður 20,6 m.kr. og eru kaup á Þjóðskrá og Hlutafélagaskrá af Hagstofu Íslands fyrir 5,6 m.kr. hluti af þeirri upphæð. Þessu til viðbótar bætist síðan gagnalínukostnaður upp á 18 m.kr. vegna gagnasamskipta milli Tölvumiðstöðvarinnar og embættanna.

2.3.2 Dómsmálaráðuneytið

Hjá dómsmálaráðuneytinu starfa nú tveir verkfræðingar að tölvumálum undirstofnana ráðuneytisins. Helstu verkefni þeirra eru:

· Umsjón með hugbúnaðargerð fyrir lögreglu og sýslumenn.
· Ráðgjöf við embætti í ýmsu sem tengist rekstri upplýsingakerfa.
· Umsjón með endurnýjun á tölvubúnaði embætta (val á búnaði, innkaup á búnaði og þjónustu og verkefnisstjórn).
· Umsjón með rekstri tölvumiðstöðvar dómsmálaráðuneytisins.
· Umsjón með innkaupum á sameiginlegum þáttum eins og hugbúnaði, póstþjónustu, aðgangi að gagnagrunnum og fleira.
· Stefnumörkun og áætlanagerð vegna uppbyggingar upplýsingakerfa lögreglu og sýslumanna (vél- og hugbúnaður).
· Umsjón með uppbyggingu og samskiptum við rekstraraðila víðnets.
· Undirbúningur að uppbyggingu upplýsingakerfis fyrir Schengensamkomulagið eða Schengen Information Systems (SIS).

Umsjón með hugbúnaðargerð fyrir lögreglu og sýslumenn hefur verið tímafrekasta verkefnið og sem dæmi um umfang þess má nefna að tillögur næsta árs gera ráð fyrir að í það verði varið 18,5 m.kr. á næsta ári.

Fyrir utan að sjá um rekstur Tölvumiðstöðvar dómsmálaráðuneytisins hafa Tölvumyndir hf. séð um alla hugbúnaðargerð vegna miðlægra kerfa lögreglu og sýslumanna. Samið hefur verið um hugbúnaðargerðina án útboðs og þá ákvörðun má fyrst og fremst rekja til þeirrar sterku stöðu sem Tölvumyndir hafa vegna þekkingar þeirra á umhverfi og rekstri kerfanna. Tölvumyndir hafa m.a. forritað svokallað aðgangskerfi sem stjórnar aðgangi að öllum öðrum tölvukerfum Tölvumiðstöðvarinnar.

Auk hugbúnaðargerðarinnar hafa tölvumenn dómsmálaráðuneytisins mikið komið að endurnýjun vélbúnaðar hjá lögreglu- og sýslumannsembættum. Um marga notendur er að ræða og tillögur næsta árs gera ráð fyrir endurnýjun vélbúnaðar fyrir um 45 m.kr..

2.3.3 Skráningarstofan hf.

Við stofnun Bifreiðaskoðunar Íslands hf. og niðurlagningu Bifreiðaeftirlits ríkisins var hannað nýtt tölvukerfi fyrir hið nýja fyrirtæki og var bifreiðaskrá hluti af því kerfi. Með tilkomu samkeppni í skoðun bifreiða var Bifreiðaskoðun Íslands skipt upp og skilið á milli skoðunar bifreiða og skráningar í bifreiðaskrá. Ógerlegt var þó að skipta upp tölvukerfinu og hafa Frumherji hf. (skoðunarfyrirtækið) og Skráningarstofan hf. (skráningarfyrirtækið) samnýtt tölvukerfið.

Þegar sú ákvörðun var tekin að Skráningarstofan hf. flytti í nýtt húsnæði var ráðist í þá vinnu að útbúa nýtt tölvukerfi fyrir bifreiðaskrána. Stendur sú vinna nú yfir og stefnt á að henni ljúki um næstu áramót. Nýja tölvukerfið felur ekki í sér miklar breytingar á innihaldi bifreiðaskrárinnar en mun hinsvegar bjóða upp aukna skráningarmöguleika utanaðkomandi aðila inn í skrána. Í eldra tölvukerfinu gátu einungis starfsmenn Skráningarstofunnar og starfsmenn Frumherja hf. skráð inn upplýsingar en með nýju kerfi er fyrirhugað að skoðunarstofur, lögregla, pósthús, tryggingafélög, bílaumboð, bílasalar og hugsanlega fleiri geti fengið skráningaraðgang þó að ekki sé búið að útfæra hversu víðtækur hann skuli vera og hversu umfangsmikið eftirlit skuli haft með skráningum utanaðkomandi aðila.

Í tölvudeild Skráningarstofunnar hf. starfa 3 menntaðir tölvumenn og sjá þeir um rekstur tölvukerfisins og umsjón hugbúnaðargerðar. Rekstur tölvudeildarinnar hefur verið fjármagnaður með skráningargjöldum sem fjallað er um í kafla 2.1.3. Tölvudeildin hefur auk umsýslu bifreiðaskrár verið með ráðgjöf við erlend ríki varðandi uppbyggingu bifreiðaskráa landanna og einnig hefur tölvudeildin haft frumkvæði að því að Íslendingar tækju að sér skráningu á gerðarviðkenningum fyrir önnur Norðurlönd.

2.3.4 Umferðarráð

Umferðarráð hefur ekki með höndum umfangsmikinn tölvurekstur, þó eru hjá stofnuninni varðveittar tvær mikilvægar skrár, ökuprófaskrá og slysaskrá. Hvorug skránna hefur tengingar yfir í aðrar skrár sem gerir það m.a. að verkum að ekki næst allur sá vinnusparnaður sem tölvuskráningu getur fylgt.

Ekki er mikil tölvuþekking innan Umferðarráðs og aðstoð í tölvumálum því verið aðkeypt. Einn starfsmaður Umferðaráðs gegndi veigamiklu hlutverki við uppbyggingu nýrrar ökuskírteinaskrár og í framhaldi af því hefur hann aðstoðað notendur kerfisins við daglega notkun þess.

2.3.5 Ríkislögreglustjóri

Frá því að embætti Ríkislögreglustjóra var komið á fót hefur það í auknum mæli tekið yfir faglega yfirumsjón með uppbyggingu tölvukerfa lögreglu af starfsmönnum dómsmálaráðuneytisins. Hjá Ríkislögreglustjóra er einn lögreglumaður í fullu starfi að tölvumálum og fer stór hluti tíma hans í að aðstoða lögreglumenn um land allt við daglega notkun lögreglukerfanna.

Mikilvægi upplýsingakerfa fyrir störf lögreglu fer stöðugt vaxandi og bíða ýmis verkefni úrlausnar á þessu sviði. Halda þarf áfram uppbyggingu miðlægu lögreglukerfanna sem og uppbyggingu kerfa sem að mestu eða öllu leyti yrðu notuð af embætti Ríkislögreglustjóra svo sem í kringum rannsóknir fíkniefnamála og fingrafararannsóknir svo dæmi séu tekin.

2.3.6 Aðrar undirstofnanir dómsmálaráðuneytisins

Þó tími tölvumanna dómsmálaráðuneytisins hafi mikið farið í uppbyggingu tölvukerfa lögreglu og sýslumanna hafa þeir einnig aðstoðað aðrar undirstofnanir ráðuneytisins í tölvumálum og má þar nefna Ríkissaksóknara, Fangelsismálastofnun og héraðsdómsstóla sem dæmi. Ríkissaksóknari, Fangelsismálastofnun og sumir héraðsdómsstólanna hafa tengingu við Tölvumiðstöð dómsmálaráðuneytisins og nýta þjónustu hennar svo sem aðgang að tölvupósti. Aðrar stofnanir s.s. Landhelgisgæslan og Almannavarnir hafa sótt aðstoð í tölvumálum annað en til ráðuneytisins og Tölvumiðstöðvarinnar og sama á við um Tölvunefnd.

Dómstólar hafa hingað til notað dreifð upplýsingakerfi án samtenginga en munu líklega sjá sér hag í að skipta yfir í miðlægt kerfi á næstu árum. Fangelsismálastofnun hefur sjálf haldið gagnagrunn yfir fanga, sá grunnur er rekstrarlega ótengdur öðrum upplýsingakerfum dómsmálaráðuneytisins.

2.3.7 Schengen-samstarf

Fyrir dyrum stendur þátttaka Íslands í Schengen-samstarfi Evrópuþjóða. Hluti af undirbúningi þátttökunnar er uppbygging tölvukerfis hér á landi sem sér um samskipti Íslands við móðurtölvu Schengen sem staðsett er í Frakklandi.

Norðurlöndin hafa unnið sameiginlega að útboði þess hluta hug- og vélbúnaðar sem öll löndin þarfnast vegna verkefnisins. Útboðsferlinu er að ljúka og í ágúst á næsta ári stendur til að hefja prófanir á samskiptum tölvukerfa Norðurlandanna við móðurtölvuna. Til að prófanir geti hafist hér á landi í ágúst þarf snemma á næsta ári að vera tilbúin aðstaða fyrir þann tölvubúnað sem hér verður staðsettur.

Þátttaka í Schengen-samstarfinu mun óhjákvæmilega hafa í för með sér allnokkurn tölvukostnað. Fyrir utan þann tölvubúnað sem kaupa þarf í upphafi og kostnað við prófanir hans fylgir drjúgur rekstrarkostnaður bæði vegna þess örugga umhverfis sem kerfið krefst og sólarhringsvaktar tölvumanna sem nauðsynleg er til að tryggja stöðuga tengingu íslenska tölvukerfisins við móðurtölvuna.

3. Tillögur

3.1 Samantekt

Í starfi sínu hefur nefndin haft að höfuðmarkmiði að leysa þrjú verkefni:

1. Koma heildstæðu skipulagi á stjórnsýslu umferðarmála.
2. Finna viðeigandi framtíðarskipan verkefna Skráningarstofunnar hf. í ljósi þess að hlutafélagið er nú allt í ríkiseigu.
3. Finna hagkvæmt og jafnframt rekstrarlega öruggt umhverfi fyrir tölvukerfi sem eru á ábyrgð dómsmálaráðuneytisins.

Til að leysa fyrrgreind þrjú verkefni leggur nefndin til að komið verði á fót Umferðarstofu, A-hluta ríkisstofnun, sem taki við verkefnum Umferðarráðs, Skráningarstofunnar hf. og Tölvumiðstöðvar dómsmálaráðuneytisins auk fleiri verkefna.

Nefndin leggur til skiptingu Umferðarstofu í fimm starfsdeildir, tæknideild, skráningardeild, tölvudeild, ökuprófadeild og fræðslu- og upplýsingadeild, síðastnefnda deildin njóti ráðgjafar Umferðarráðs. Nefndin gerir einnig tillögu um að auk fyrrgreindra deilda verði innan Umferðarstofu skapaður vettvangur fyrir starfsmenn til að sinna tímabundnum þróunarverkefnum á starfsviðum stofnunarinnar. Þó nefndin leggi hér til ákveðna deildaskiptingu kemur endanleg skipting stofnunarinnar í deildir til með að verða ákvörðunaratriði dómsmálaráðuneytisins og forstjóra Umferðarstofu.

Nefndin telur að með því að sameina á einn stað málefni ökutækja, ökuprófa, umferðarfræðslu og fleiri verkefni tengd ökutækjum og umferð megi tryggja markvissa framkvæmd umferðaröryggismála í samræmi við umferðaröryggisáætlun 1997-2001, almenningi og stjórnvöldum til hagsbóta. Nefndin telur einnig að með sameiningu tölvumála sem falla undir dómsmálaráðuneytið sé lagður grunnur að árangursríkri notkun lögreglu á upplýsingatækni í baráttu gegn glæpum. Með sameiningu tölvumála fæst einnig rekstrarlega hagkvæmt umhverfi m.a. vegna samnýtingar sérhæfðs húsnæðis, tækjabúnaðar og starfskrafta.

3.2 Útfærsla

Lagt er til að sett verði á fót ný A-hluta ríkisstofnun undir dómsmálaráðuneytinu sem sinni umferðar- og tölvumálum. Lagt er til að stofnunin fái heitið Umferðarstofa. Rökin fyrir nafninu er að myndast hefur ákveðin hefð fyrir endingunni stofa í nöfnum ríkisstofnana sem hafa með höndum stjórnsýslu- og eftirlitsverkefni sbr. Fiskistofa, Löggildingarstofa og Barnaverndarstofa.

Tillagan um stofnun Umferðarstofu felur í meginatriðum í sér að hlutafélagið Skráningarstofan hf. verður lagt niður og verkefnum þess ásamt verkefnum Umferðarráðs framvegis sinnt hjá hinni nýju stofnun. Til Umferðarstofu færist einnig rekstur tölvukerfa sem verið hefur hjá Tölvumiðstöð dómsmálaráðuneytisins. Lagt er til að samhliða færslu verkefna til hinnar nýju stofnunar verði verkefni og verkferlar yfirfarnir og lagt mat á hvort framkvæma megi verkefnin á hagkvæmari eða betri hátt hjá hinni nýju stofnun. Nefndin leggur til að nokkur verkefni verði sérstaklega tekin til skoðunar í þessu samhengi og kemur það nánar fram í umfjöllun um verkefni einstakra deilda Umferðarstofu hér síðar í kaflanum.

Nefndin leggur til að:
· Umferðarstofu verði skipt upp í 5 starfsdeildir; tæknideild, skráningardeild, tölvudeild, ökuprófadeild og fræðslu- og upplýsingadeild.
· Innan stofnunarinnar verði vettvangur fyrir starfsmenn til að sinna þróunarverkefnum á verksviði stofnunarinnar.
· Forstjóra til aðstoðar verði almenn skrifstofa og gæðastjóri.
Skipurit stofnunarinnar byggt á þessum tillögum nefndarinnar má sjá á mynd 3.1:

Mynd 3.1 Hugmyndir nefndarinnar um skipurit Umferðarstofu.

Stjórnsýsluverkefni munu flest verða á ábyrgð skráningar- og ökuprófadeildanna en einnig mun tæknideildin koma að stjórnsýslu í minna mæli. Tæknideildin mun annars ásamt ökuprófa- og fræðslu- og upplýsingadeildunum mest sinna ráðgjafar-, þjónustu- og fræðsluverkefnum. Verkefnum stofnunarinnar og einstakra deilda, samkvæmt fyrrgreindum tillögum að deildaskiptingu, verður nánar lýst í köflunum hér á eftir.

3.2.1 Tæknideild

Hjá tæknideild Umferðarstofu kemur til með að vera sinnt verkefnum tæknideildar Skráningarstofunnar hf., verkefnum Umferðarráðs er varða slysaskráningu auk nýrra verkefna, tengd skoðunarstofum, slysarannsóknum og ráðgjöf sem lítið eða ekki hefur verið sinnt fram að þessu. Vegna nýju verkefnanna er þörf á að skipuleggja starf tæknideildarinnar frá grunni og ráða viðbótar starfskraft. Hér á eftir verður farið nánar yfir helstu verkefni deildarinnar.
      Verkefni tæknideildar:
· Bíltæknileg ráðgjöf
· Faglega yfirumsjón bifreiðaskoðana
· Umferðarslysamál
· Annað

· Bíltæknileg ráðgjöf
Gert er ráð fyrir að hjá tæknideild Umferðarstofu verði starfandi sérfræðingar í bíltæknimálum, sérfræðingar af því tagi sem almennt finnast ekki innan ráðuneyta. Vegna sérfræðiþekkingar kemur tæknideildin til með að vera helsti ráðgjafi dómsmálaráðuneytisins í bíltæknimálum þó ráðuneytið geti eins og hingað til einnig leitað ráðgjafar annað.

Mikið er leitað til dómsmálaráðuneytisins með bíltæknilegar fyrirspurnir og ljóst að tilkoma Umferðarstofu mun létta álagi af ráðuneytinu hvað það varðar m.a. vegna þess að ljósara verður en í dag hvert rétt er að leita með slíkar fyrirspurnir.

Auk ráðgjafar við dómsmálaráðuneytið mun tæknideildin sinna ráðgjöf við aðra ríkisaðila, s.s. Vegagerðina, auk ráðgjafar við sveitarfélög, félagasamtök og aðra. Varðandi ráðgjöf við almenning verður að hafa í huga að ráðgjöfin má ekki vera í mótsögn við önnur hlutverk stofnunarinnar s.s. hlutverk hennar sem stjórnvald bifreiðaskráningar. Ráðgjöf til almennings gæti verið í formi upplýsingarita sem tæknideildin gæfi út í samvinnu við fræðslu- og upplýsingadeild t.d. um breytingar á bílum.

Tæknideildin mun að hluta verða stoðdeild við aðrar deildir Umferðarstofu, svo sem við skráningardeildina varðandi skráningu tæknilegra atriða í bifreiðaskrá og við fræðslu- og upplýsingadeildina varðandi samspil bíltæknilegra mála og umferðaröryggis.

· Faglega yfirumsjón bifreiðaskoðana
Umferðarstofa kemur til með að hafa yfirumsjón bifreiðaskoðunar í landinu og því er eðlilegt að það verði Umferðarstofa sem veiti skoðunarstofum og endurskoðunarverkstæðum starfsleyfi og fylgi eftir að ákvæði starfsleyfa séu uppfyllt.

Það mun koma í hlut tæknideildar Umferðarstofu að veita skoðunarstofum og endurskoðunarverkstæðum tæknilegt aðhald og fylgja eftir að tæknileg framkvæmd skoðana sé eins og til er ætlast í samráði við Löggildingarstofu sem annast faggildingar skoðunarstofa. Meðal verkefna á þessu sviði er umsjón með útgáfu skoðunarhandbókar, tölfræðilegur samanburður á skoðunarniðurstöðum og þátttaka í samanburðarskoðunum.

Umferðarstofa mun í framtíðinni hafa það hlutverk að úrskurða í kærumálum er varða einstakar skoðanir bifreiða hjá skoðunarfyrirtækjunum og mun það verkefni verða samstarfsverkefni tæknideildar vegna tæknilegrar framkvæmdar skoðana og skráningadeildar sem ber ábyrgð á skráningum í bifreiðaskrána þ.á m. skráningum á niðurstöðum skoðana.

· Umferðarslysamál
Umferðarráð hefur sinnt skráningu umferðarslysa í allmörg ár en rannsóknum á orsökum slysanna hefur ekki verið sinnt sem skyldi. Rannsóknanefndir sem settar hafa verið á fót í þessum tilgangi hafa ekki náð stöðugleika í starfi sínu. Nefndin leggur til að Umferðarstofu verði falin ábyrgð rannsókna á orsökum umferðarslysa og þau verkefni verði unnin saman með slysaskráningu hjá tæknideild stofnunarinnar. Við framkvæmd verkefnisins mun tæknideildin þurfa að hafa náið samstarf við aðila utan stofnunarinnar svo sem lögreglu, heilbrigðisstofnanir og tryggingafélög. Þess er vænst að slysarannsóknir á stærri umferðaslysum verði unnar af sérfræðingum Umferðastofu og taki til vettvangsrannsókna í samvinnu við lögreglu þegar slys á sér stað.

Sambærilegt fyrirkomulag á rannsóknum slysa má finna hjá Löggildingarstofu þar sem einn starfsmaður hefur það verkefni að skrá öll brunaslys sem verða af völdum rafmagns og fara á vettvang til að greina nákvæmlega hver orsök slysins hafi verið þannig að hugsanlega megi koma í veg fyrir frekari slys af því tagi.

· Annað
Í 68. gr. umferðarlaganna segir:
      "Löggæslumönnum er heimilt hvenær sem er að stöðva ökutæki og skoða ástand þess og hleðslu. Reynist ökutæki ekki vera í lögmæltu ástandi má krefjast þess að það skuli fært til sérstakrar skoðunar.
      Verði starfsmaður verkstæðis þess var, að öryggisbúnaði vélknúins ökutækis, sem þar er til viðgerðar eða breytinga, sé áfátt, skal hann skýra yfirmanni verkstæðisins frá því, en honum ber að gera eiganda ökutækisins viðvart og síðan tilkynna það hlutaðeigandi lögreglu ef eigi verður úr bætt."

Lögregla hefur ekki náð að sinna þessu verkefni sem skyldi vegna þess hve verkefnið gerir miklar kröfur til bíltækniþekkingar. Hér gæti tæknideild Umferðarstofu komið til aðstoðar að svo miklu leyti sem sú aðstoð er ekki í mótsögn við stjórnsýsluverkefni. Hugsanlega mætti einnig bjóða slíka aðstoð við lögreglu út meðal skoðunarfyrirtækja.

3.2.2 Skráningardeild

Verkefni skráningardeildar Umferðarstofu munu að stærstum hluta koma frá rekstrardeild Skráningarstofunnar hf. og er ábyrgð á bifreiðaskrá þar stærsta einstaka verkefnið. Framkvæmd verkefna kemur þó til með að breytast frá því sem nú er m.a. vegna tilkomu nýs tölvukerfis bifreiðaskrár auk þess sem skráningardeildin mun hugsanlega fá til sín ný verkefni. Hér á eftir verður farið nánar yfir helstu verkefni deildarinnar.
      Verkefni skráningardeildar:
· Ábyrgð á bifreiðaskrá
· Útgáfa skráningarskírteina
· Upplýsingamiðlun úr bifreiðaskrá
· Samnorræn gerðaskráning
· Annað

· Ábyrgð á bifreiðaskrá
Skráningar í bifreiðaskrá eru nú nær eingöngu í höndum starfsmanna Skráningarstofunnar hf. Það leiðir til að um nokkra tvískráningu upplýsinga er að ræða auk þess sem þeir sem óska skráningar þurfa oft á tíðum að fara á tvo staði í stað eins til að ljúka skráningunni. Með tilkomu nýs tölvukerfis bifreiðaskrár og stofnun Umferðarstofu gefst gott tækifæri til að endurskoða verkferla varðandi skráningu í bifreiðaskrá.

Í því sambandi leggur nefndin til að skráningarverkefni verði í auknum mæli framkvæmd af öðrum en skráningardeildinni og með því verði tvískráningum hætt og skráningum lokið fljótt og auðveldlega á einum stað, í flestum tilfellum hjá skoðunarfyrirtækjunum en hugsanlega einnig hjá pósthúsum eða öðrum. Með slíku fyrirkomulagi er einnig eytt lagalegri óvissu sem bifreiðaeigendur lenda í vegna tafa við skráningar.

Skráningarstofan hf. greiðir skráningaraðilum þóknanir fyrir vinnu þeirra við skráningu í ökutækjaskrá samkvæmt ákvörðun stjórnar Skráningarstofunnar hf. Samhliða breytingum á umfangi skráninga einstakra aðila þarf að breyta þóknunum þ.a. þær séu í sem mestu samræmi við umfang þeirrar vinnu sem innt er af hendi.

Hvað sem framkvæmd skráningarinnar líður er ljóst að ábyrgð á innihaldi bifreiðaskrár verður í höndum skráningardeildar Umferðarstofu fyrir hönd dómsmálaráðuneytisins. Til að tryggja sem réttasta bifreiðaskrá verður það hlutverk skráningardeildar að útbúa nákvæmar verklagsreglur varðandi skráningar, kynna reglurnar fyrir þeim sem sinna skráningum og sinna eftirliti með að reglunum sé fylgt. Skráningardeildin þarf að sjá til þess að sem mest af skráningarvillum finnist vélrænt um leið og þær verða til og um það þarf að hafa gott samstarf við tölvudeildina. Skráningardeildin þarf einnig að gera stikkprufur á skráningum og fylgja eftir með aðgerðum ef villur finnast.

Í 3. gr. reglugerðar um starfshætti skráningarstofu ökutækja segir m.a.:
      "Skráning í ökutækjaskrá fer fram samkvæmt reglugerð um skráningu ökutækja og reglum um ökutækjaskrá. Skráningarstofu er heimilt að skrá fleiri atriði í ökutækjaskrá en fram koma í reglunum."

Reglur um ökutækjaskrá hafa aldrei verið gefnar út og leggur nefndin til að dómsmálaráðuneytið geri þar bragarbót á. Skýrar reglur um innihald ökutækjaskrár munu í framtíðinni auðvelda færslu skráningarverkefna út til skoðunarstofa og annarra.

Skráningarstofan hf. hefur með höndum dreifingu bílnúmera út til skoðunarfyrirtækja. Nefndin leggur til að framvegis fari númer beint frá framleiðanda til skoðunarstofanna án milligöngu skráningardeildar. Einnig leggur nefndin til að framkvæmd á innlögn númera verði tekin til endurskoðunar með einföldun og hagræðingu í huga.

Skráningardeildin sem ábyrgðar aðili bifreiðaskrá mun fá það hlutverk að úrskurða í kærumálum er varða skráninga í bifreiðaskrá og mun njóta til þess aðstoðar tæknideildar ef málin eru þess eðlis.

· Útgáfa skráningarskírteina
Útgáfa skráningarskírteina hefur verið í höndum Skráningarstofunnar hf. og lagt er til skráningardeild Umferðarstofu taki yfir það hlutverk. Útgáfa skráningarskírteinanna gæti átt samleið með útgáfu ökuskírteina og vegabréfa ef útgáfa þeirra færðist einnig til Umferðarstofu.

· Upplýsingamiðlun úr bifreiðaskrá
Skráningarstofan hf. hefur miðlað upplýsingum úr ökutækjaskrá með margvíslegum hætti og haft af því nokkrar tekjur. Skoðunarstofur hafa einnig sinnt upplýsingagjöf úr bifreiðaskrá í gegnum síma en ekki haft möguleika á að rukka inn fyrir þá þjónustu. Nefndin leggur til að settar verði skýrar vinnureglur varðandi upplýsingamiðlunina og æskilegt væri að skoðunarstofur tækju alfarið yfir upplýsingamiðlun í síma þar sem slíkt verkefni á betur heima hjá þjónustufyrirtæki heldur en stjórnsýsludeild. Miðlun upplýsinga úr bifreiðaskrá þarf að sjálfsögðu að vera samkvæmt fyrirmælum tölvunefndar hver svo sem hefur hana með höndum.

· Samnorræn gerðaskráning
Nú stendur yfir tilraunaverkefni hjá Skráningarstofunni hf. sem byggist á því að skrá á einum stað fyrir Norðurlönd allar útgefnar evrópskar heildargerðarviðurkenningar. Líkur eru á að það sé fjárhagslega hagkvæmt fyrir alla aðila að framhald verði á verkefninu og leggur nefndin til að það verði þá í höndum skráningardeildarinnar.

· Annað
Skráningarstofan er "Vehicle Type Approval Authority" á Íslandi skv. tilskipun 92/53/EEC. Lagt er til að Umferðarstofa taki yfir það hlutverk og því verði sinnt af skráningardeildinni í samstarfi tæknideildina.

Til umræðu hefur verið að endurskoða form og útgáfu vegabréfa hér á landi. Hjá Umferðarstofu kemur til með að vera útgáfa skírteina auk gagnasöfnunar um skírteini og skírteinahafa og er Umferðarstofa því hugsanlegur valkostur þegar að finna þarf vegabréfaútgáfunni stað. Ef af yrði er eðlilegast að skráningardeildin sinni verkefninu.

3.2.3 Tölvudeild

Hjá tölvudeild Umferðastofu verða samankomin verkefni sem nú er sinnt af tölvudeild Skráningarstofunnar hf., tölvumönnum dómsmálaráðuneytisins, starfsmönnum Tölvumiðstöðvar dómsmálaráðuneytisins og Umferðarráði, auk hugsanlega fleiri verkefna.

Sameining tölvumálanna felur í sér marga kosti. Einn af þeim er sú faglega styrking sem felst í að hafa saman kominn hóp velmenntaðra manna á tölvusviðinu sem saman geta rekið og þróað tölvukerfin á markvissari og faglegri hátt en hægt er í aðskildum einingum. Annar kostur er aukið rekstrarlegt öryggi sem felst í stærri einingu. Loks má nefna þann fjárhagslega sparnað sem felst í að reka eina stóra tölvudeild í stað þess að margar ríkisstofnanir reki hver sína tölvudeild.

Hér á eftir verður farið nánar yfir helstu verkefni deildarinnar.
      Verkefni:
· Rekstur tölvukerfa
· Verkefnisstjórn við hugbúnaðargerð
· Tölvuráðgjöf til dómsmálaráðuneytis og undirstofnana
· Annað

· Rekstur tölvukerfa
Hjá tölvudeild Umferðarstofu verður rekstur fjölmargra tölvukerfa sem eiga það sameiginlegt að vera á vegum dómsmálaráðuneytisins eða undirstofnana þess. Hér er um að ræða lögreglukerfi, sýslumannakerfi, bifreiðaskrá, ökuréttindaskrá, slysaskrá og Schengen-kerfi.

Þar verður á einum stað samankomið mikið magn viðkvæmra persónupplýsinga og er öryggi þeirra upplýsinga ein helsta ástæða þess að nefndin leggur til að rekstur tölvukerfanna verði í höndum ríkisstofnunar í stað þess að bjóða hann út meðal einkaaðila.

Með sameiningu á rekstri tölvukerfanna er ekki verið að tala um sameiningu skráa eða aukna samkeyrslu upplýsinga heldur er fyrst og fremst verið að sameina rekstrarumhverfi. Gert er ráð fyrir að hin fjölmörgu tölvukerfi verið rekin mikið aðskilin, m.a. rekin á aðskildum tölvum og í mismunandi gagnagrunnum. Með því móti verður auðveldara að gera breytingar á einstökum kerfum óháð öðrum og einnig verður mögulegt að taka úr sambandi einstök kerfi til viðhalds en hafa önnur gangandi áfram.

Hjá tölvudeild Umferðarstofu verður fyrst og fremst rekstrarleg þekking á þeim tölvukerfum sem þar eru. Faglega þekkingin verður hjá notendum kerfanna s.s. lögreglu og sýslumönnum. Notendur kerfanna munu því hringja í tölvudeild Umferðarstofu til að fá rekstrarlega aðstoð en í leiðbeinendur meðal notenda kerfanna eftir faglegri aðstoð.

Eins og áður var nefnt er öryggi upplýsinga gríðarlega mikilvægt og tölvudeildin þarf að byggja upp öryggiskerfi eins og þau gerast best. Við þá vinnu er ráðlegt að styðjast við alþjóðlega staðla svo sem BS7799 "Code of practice for Informations security management". Staðallinn tekur á öllum helstu þáttum sem huga þarf að svo sem starfsfólki, húsnæði, aðgangsstýringu að gögnum, hugbúnaðargerð, vírusvörnum o.s.frv.

Svokallaður uppitími nýrrar tölvumiðstöðvar er annað atriði sem huga þarf vel að og öll uppbygging tölvuumhverfisins þarf að miðast við að tryggja að sem næst 100% uppitími náist. Umhverfi með háan uppitíma og mikið öryggi er dýrt og er það enn ein ástæða þess að sameining tölvumála er skynsamleg.

· Verkefnisstjórn við hugbúnaðargerð
Tölvumenn dómsmálaráðuneytisins hafa fram að þessu mikið komið að hugbúnaðargerð fyrir lögreglu og sýslumenn. Gert er ráð fyrir að tölvudeild Umferðarstofu komi að hugbúnaðargerðinni í framtíðinni en fyrst og fremst verkefnisstjórn hennar og ráðgjöf, forræði í hugbúnaðargerð færist hins vegar til notenda. Ríkislögreglustjóri hefur í auknum mæli tekið yfir forræði í þróun lögreglukerfanna og nefndin leggur til að komið verði á fót hóp starfsmanna sýslumannsembættanna sem fái það hlutverk að stýra þróun sýslumannakerfanna.

Vinna þarf í að gera tölvukerfi lögreglu og sýslumanna óháð núverandi rekstraraðila kerfanna og tryggja að framvegis verði hægt að bjóða út hugbúnaðargerð á almennum markaði. Almennt er gert ráð fyrir að tölvudeild Umferðarstofu bjóði út sem mest af verkefnum, þ.á m. alla hugbúnaðarvinnu.



· Tölvuráðgjöf til dómsmálaráðuneytis og undirstofnana
Tölvumenn dómsmálaráðuneytisins hafa sinnt ráðgjöf við ráðuneytið og flestar undirstofnanir þess. Gert er ráð fyrir ráðuneytið geti sótt ráðgjöf í tölvumálum til tölvudeildar Umferðarstofu ef þeir óska og undirstofnanir hugsanlega einnig en þá gegn greiðslu.

Tölvudeildin verður eins og áður hefur verið nefnt með ráðgjöf til lögreglu og sýslumanna varðandi frekari þróun hugbúnaðar og einnig er gert ráð fyrir að tölvudeildin ráðleggi sömu aðilum við uppbyggingu vélbúnaðar m.a. með það í huga að tryggja öryggi kerfanna sem best.

· Annað
Þegar búið er að byggja upp fullkomna aðstöðu hjá Umferðarstofu til reksturs tölvukerfa gæti verið hagkvæmt fyrir dómsmálaráðuneytið og jafnvel aðrar ríkisaðila að fela stofnuninni rekstur fleiri tölvuskráa en að framan eru nefndar. Nú stendur yfir gerð nýs þinglýsingakerfis sem notað verður af öllum sýslumannsembættum. Rekstur þess kerfis er dæmi um verkefni sem gæti fallið vel að öðrum rekstri tölvudeildarinnar og þeirri þjónustu sem hún veitir sýslumönnum.

Dómsmálaráðuneytið hefur hýst starfsemi Tölvunefndar og fjármagnað rekstur hennar. Verkefnum nefndarinnar hefur stöðugt fjölgað og mikilvægi hennar aukist. Tölvunefnd hefur ekki haft öruggan aðgang að tölvumenntuðum starfskröftum og hefur það háð henni í starfi. Athugandi væri að Tölvunefnd gerði samning um aðstoð í tölvumálum við tölvudeild Umferðarstofu.

3.2.4 Ökuprófadeild

Starfsemi ökuprófadeildar Umferðarstofu mun fyrst og fremst byggjast á verkefnum ökunámsdeildar Umferðarráðs, en verkefnin gætu tekið breytingum í kjölfar nýrrar reglugerðar er starfið varðar, endurskoðunar verkferla og hugsanlegra nýrra verkefna. Hér á eftir verður farið nánar yfir helstu verkefni deildarinnar.
      Verkefni:
· Framkvæmd ökuprófa
· Eftirlit með ökukennurum og ökuskólum
· Skráning ökuréttinda
· Annað

· Framkvæmd ökuprófa
Ökuprófadeild Umferðarstofu annast skrifleg og verkleg ökupróf til allra réttindaflokka en ákveðnir einkareknir ökuskólar hafa réttindi til að annast skrifleg ökupróf til aukinna ökuréttinda. Nú liggja fyrir drög að nýrri reglugerð um ökukennara, ökuskóla og ökukennslu þar sem m.a. eru gerðar auknar kröfur til ökuskólanna sem tryggja á aukna formfestu í störfum þeirra. Fyrst um sinn verða ökuprófin stærsta verkefni ökuprófadeildarinnar en nefndin leggur til að þegar meiri formfesta verður komin á starfsemi ökuskóla verði skoðaður nánar sá möguleiki að færa prófin frá Umferðarstofu út til ökuskólanna.



· Eftirlit með ökukennurum og ökuskólum
Setning fyrrnefndrar reglugerðar gerir auknar kröfur til ökuprófadeildar hvað varðar eftirlit með ökuskólum og ökunámi almennt og mun hafa í för með sér aukna vinnu. Nefndin telur rétt að Umferðarstofu verði falið að veita ökukennurum og ökuskólum starfsleyfi, hafa eftirlit með starfsemi þeirra og vald til að svipta sömu aðila starfsleyfi ef skilyrði starfsleyfis eru ekki lengur uppfyllt. Gerðum Umferðarstofu gagnvart ökukennurum og ökuskólum verður þar með hægt að áfrýja til ráðuneytisins.

· Skráning ökuréttinda
Í 52. gr. umferðarlaga segir:
      "Dómsmálaráðherra setur reglur um:
      a. ökunám og ökukennslu,
      b. skilyrði fyrir útgáfu ökuskírteinis og endurnýjun, þar á meðal um ökupróf,
      c. efni og form ökuskírteinis, og
      d. gjald fyrir próf og ökuskírteini.
      Lögreglustjórar halda skrár um ökuskírteini og ökuferil samkvæmt reglum, sem dómsmálaráðherra setur."

Líta má á ökunám, ökukennslu, ökupróf, ökuskírteini og ökuferil sem eitt samhangandi ferli. Eins og framkvæmd mála er í dag er slitnar þessi ferill nokkuð vegna verkaskiptingar Umferðarráðs og lögreglu. Umferðarráð hefur ökunám, ökukennslu og ökupróf á sinni könnu en lögreglan ökuskírteini og ökuferil. Umferðarráð heldur skrá um ökupróf sem er algjörlega ótengd skrám um ökuskírteini og ökuferil sem lögreglan heldur.

Nefndin leggur til að verkferlar hjá lögreglu og Umferðarstofu vegna ofangreinds samhangandi ferlis verði yfirfarnir og kannað hvort ekki megi með aukinni notkun upplýsingatækni og hugsanlega sameiningu skráa einfalda framkvæmd mála. Hugsanlega má fela Umferðarstofu að halda eina skrá yfir ökupróf, ökuskírteini og ökuferil þó svo að skráningarvinnan verði áfram að stórum hluta í höndum lögreglu. Hugsanlega má einnig fela ökuskólum hluta skráninga er varða ökunám og ökupróf.

Með samræmingu skráa opnast auknir möguleikar á að skoða samhengið milli ökunáms og ökuprófs annarsvegar og árangurs ökumannsins í akstri hins vegar. Ef farið verður að skoða slíkt má þannig auka aðhald að ökukennurum og ökuskólum.

· Annað
Með aukinni notkun upplýsingatækni má einfalda verulega verkferla við útgáfu ökuskírteina og spara verðandi ökumönnum tíma og fyrirhöfn. Nefndin leggur til að skoðaður verði sá möguleiki að Umferðarstofu verði falið að gefa út ökuskírteini og að öll upplýsingaskipti vegna útgáfu þeirra fari fram á tölvutæku formi. Hjá Umferðarstofu mætti þá samnýta aðstöðu við útgáfu ökuskírteina, skráningarskírteina og hugsanlega vegabréfa samanber tillögur hér framar í skýrslunni.

3.2.5 Fræðslu- og upplýsingadeild

Verkefni fræðslu- og upplýsingadeildar Umferðarstofu munu færast þangað að mestu leyti óbreytt frá Umferðarráði og gert er ráð fyrir að deildin hafi sömu hlutverk og Umferðarráð hefur í dag að undanskildu ökunáminu og skráningu umferðarslysa. Hér á eftir verður farið nánar yfir helstu verkefni deildarinnar.
      Verkefni:
· Upplýsingamiðlun til almennings
· Umferðarfræðsla og gerð fræðsluefnis
· Samskipti við Umferðarráð
· Annað

· Upplýsingamiðlun til almennings
Umferðarráð hefur staðið fyrir fjölbreyttri upplýsingamiðlun til almennings með það að markmiði að bæta umferðarhætti. Lagt er til að fræðslu- og upplýsingadeild Umferðarstofu haldi þessu verkefni áfram svo lengi sem starfið virðist skila tilætluðum árangri.

· Umferðarfræðsla og gerð fræðsluefnis
Hér er um að ræða umferðarfræðslu í skólum, almenna umferðarfræðslu auk Umferðarskólans Ungra Vegfarenda. Umferðarfræðslunni fylgir gerð og útvegun hentugs fræðsluefnis. Ekki eru lagðar til sérstakar breytingar á framkvæmd verkefnanna en gert ráð fyrir að áfram verði haldið að þróa fræðsluna og fræðsluefnið með aukinn árangur að markmiði. Gerð fræðsluefnis vegna ökunáms verði í framtíðinni samstarfsverkefni ökuprófadeildar og fræðslu- og upplýsingadeildar.

· Samskipti við Umferðarráð
Lagt er til að nefndin Umferðarráð starfi áfram með nær óbreyttu sniði sem ráðgefandi nefnd fyrir fræðslu- og upplýsingadeild og samskipti við nefndina verði að mestu leyti í höndum starfsmanna fræðslu- og upplýsingadeildar.

· Annað
Framkvæmd umferðaröryggisáætlunar sem Alþingi samþykkti 28. febrúar 1996 hefur verið í höndum sérstakrar framkvæmdanefndar. Um er að ræða margra ára áætlun og erfitt fyrir framkvæmdanefnd að fylgja verkefninu eftir í svo langan tíma og tryggja stöðugleika í framkvæmdinni. Lagt er til að skoðaður verði sá möguleiki að fela fræðslu- og upplýsingadeild hina daglegu framkvæmd áætlunarinnar.

3.2.6 Þróunarverkefni

Nefndin leggur til að auk fyrrnefndra 5 deilda verði innan Umferðarstofu skapaður vettvangur fyrir starfsmenn til að sinna tímabundnum þróunarverkefnum er tengjast verkefnum stofnunarinnar. Tvö slík þróunarverkefni hafa verið í gangi hjá Skráningarstofunnar hf. en þau eru sameiginleg gerðarskráning fyrir Norðurlönd og sala þekkingar á bifreiðaskráningu til annarra landa svo sem í Afríku og A-Evrópu. Innan Umferðarráðs hefur einnig verið unnið að rannsóknum og þróun aðferða til að auka umferðaröryggi.

Með slíkum þróunarverkefnum má auk beins árangurs af starfi, s.s. í formi fjárhagslegs hagnaðar eða aukins umferðaröryggis, auka fjölbreytni í störfum starfsmanna og gera þá hæfari til að sinna sínum hefðbundnu verkefnum. Miðað verði við að starfsmenn njóti góðs af ef verkefni skila tekjum umfram kostnað. Gengið verði út frá því að þróunarverkefni sem falla ekki undir lögbundin hlutverk Umferðarstofu verði að öllu leyti kostuð af öðrum en stofnuninni.

3.2.7 Gæðastjóri

Í reglugerð um starfshætti skráningarstofu ökutækja nr. 79/1997 segir í 6. gr.:
      "Allt verklag varðandi ökutækjaskrá skal vera samkvæmt kerfisbundinni gæðastjórnun í samræmi við vottað gæðakerfi samkvæmt staðlinum ÍST ISO 9001."

Uppbygging á gæðakerfi Skráningarstofunnar hf. er nú langt komið og er stefnt að vottun fljótlega. Almennt má segja að sífellt fleiri fyrirtæki og stofnanir nýta sér gæðastjórnun til að bæta rekstur sinn og leggur nefndin til að Umferðarstofa bætist í þann hóp og byggi á þeirri vinnu sem unnin hefur verið í gæðamálum hjá Skráningarstofunni hf. Gæðakerfi mun geta gengt lykilhlutverki í að tryggja öruggan rekstur tölvukerfa og réttar skráningar í ökutækjaskrá og ökuréttindaskrá, en gæðakerfi á líka að geta skilað öðrum verkefnum ágóða í formi skipulegri vinnubragða og aukins árangurs.

Lagt er til að frá upphafi verði hjá Umferðarstofu starfandi gæðastjóri sem skipuleggi vinnu við uppbyggingu heilsteypts gæðakerfis fyrir stofnunina.

3.2.8 Samráðsvettvangur

Nefndin leggur til að Umferðarstofa hafi samvinnu við aðrar stofnanir sem tengjast starfsemi hennar. Hér er t.d. átt við embætti ríkislögreglustjóra, lögreglustjóra og sýslumenn, einkum vegna þeirra tölvukerfa sem gert er ráð fyrir að Umferðarstofa annist rekstur á, en einnig í tengslum við önnur verkefni Umferðarstofu.

3.2.9 Forstjóri og almenn skrifstofa

Yfir Umferðarstofu kemur til með að vera skipaður forstjóri með réttindi og skyldur forstöðumanns skv. lögum um réttindi og skyldur starfsmann ríkisins. Forstjóra til aðstoðar verður almenn skrifstofa sem sinnir hefðbundnum verkefnum svo sem fjármálum, símaþjónustu, skjalavörslu, meðhöndlun pósts og öðrum slíkum skrifstofustörfum.

3.2.10 Starfsmannamál

Lagt er til að 15 föstum starfsmönnum Umferðarráðs og 25 starfsmönnum Skráningarstofunnar hf. verði boðin störf hjá Umferðarstofu. Einnig verði 2 tölvumönnum dómsmálaráðuneytisins boðið að starfa hjá stofnuninni. Reiknað er með að áfram verði verktakar í störfum í ökuprófum og útvarpi Umferðarráðs. Hjá flestum starfsmönnum verða einungis minniháttar breytingar á verkefnum og starfsumhverfi og starfshópar munu að miklu leyti haldast óbreyttir með einhverjum undantekningum þó.

Vegna nýrra verkefna í tæknideild gæti strax í upphafi þurft að bæta þar við 2 starfsmönnum. Vegna yfirtöku verkefna frá Tölvumiðstöð dómsmálaráðuneytisins þarf að ráða a.m.k. einn starfsmann til tölvudeildar og það einnig strax í upphafi. Þegar að rekstur Schengen-kerfisins fer að fullu í gang þýðir það sólarhringsvöktun tölvukerfis og ráðningu a.m.k. tveggja starfsmanna í tölvudeild. Ef skráningardeild mun til frambúðar sinna gerðarskráningum fyrir önnur lönd mun það hafa fjölgun starfsmanna í för með sér. Á móti kemur að færsla skráningarverkefna út til skoðunarstofa og annarra mun til lengri tíma litið þýða fækkun starfsmanna í sambærilegum verkefnum hjá skráningardeild og ef ökupróf færast í framtíðinni til ökuskólanna mun það þýða einhverja fækkun starfsmanna í ökuprófadeild.

Miðað við fyrrgreindar forsendur verða fastir starfsmenn Umferðarstofu í upphafi um 45 talsins en erfitt er að spá fyrir um hvaða áhrif breytingar á verkefnum kunna að hafa á þróun starfsmannafjöldans.

Ljóst er að góður árangur Umferðarstofu veltur mikið á stöðugleika í starfsmannahaldi og tryggja þarf starfsmönnum góðan aðbúnað og starfsanda auk sanngjarnra launa þ.a. stofnuninni haldist vel á starfsfólki. Starfsmenn Umferðarstofu verða allir ríkisstarfsmenn og hafa þannig réttindi og skyldur samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

3.2.11 Fjármál

Umferðarstofa kemur til með að hafa ýmsa tekjustofna, bæði í formi markaðra ríkistekna sem og þjónustutekna. Miðað við þá starfsemi sem lýst hefur verið hér að framan eiga að vera góðir möguleikar á að reka Umferðarstofu án beinna ríkisframlaga nema ef vera skyldi sérstaks framlags vegna Schengen-kerfis en greiðsla fyrir reksturs kerfisins gæti einnig komið til Umferðarstofu í formi þjónustugjalds frá Ríkislögreglustjóra. Ljóst er að rekstur kerfisins verður nokkuð kostnaðarsamur m.a. vegna sólarhringsvaktar tölvumanna.

Stærstu tekjustofnar Umferðarstofu eru mörkuðu tekjustofnanir þ.e. skráningargjöld skv. gjaldskrá fyrir skráningu ökutækja nr. 84/1997, umferðaröryggisgjald skv. 115. gr. umferðarlaga, prófagjöld bifreiðastjóra samkvæmt reglugerð um prófagjöld ökumanna, og gjald fyrir einkanúmer skv. gr. 64a í umferðarlögum.

Helstu þjónustutekjur eru að tölvudeildin mun fá þjónustutekjur frá stofnunum vegna reksturs tölvukerfa, skráningardeildin mun fá þjónustutekjur fyrir sölu upplýsinga og tekjur frá Norðurlöndum fyrir veitta þjónustu við gerðarskráningar og fræðslu- og upplýsingadeildin mun fá þjónustutekjur frá sveitarfélögum vegna umferðarfræðslu barna og auk tekna af sölu fræðsluefnis. Einnig munu einhverjar tekjur og styrkir fylgja þróunarverkefnum.

Ef stofnunin kemur til með að taka að sér útgáfu ökuskírteina eða vegabréfa fylgja þeirri útgáfu tekjustofnar sem eðlilegt er að renni til stofnunarinnar. Sama má segja um veitingu starfsleyfa til skoðunarstofa, endurskoðunarverkstæða, ökuskóla og ökukennara, þ.e. að eðlilegt er að greiðslur fyrir starfsleyfin renni til Umferðarstofu til að standa undir vinnu við útgáfu starfsleyfanna og eftirlit með að skilyrði starfsleyfanna séu uppfyllt.

Gert er ráð fyrir að framlög vegna hug- og vélbúnaðarkaupa lögreglu og sýslumanna fari ekki í gegnum Umferðarstofu og að greiðslur fyrir gagnalínur lögreglu og sýslumanna verði á vegum dómsmálaráðuneytisins eins og hingað til.

3.2.12 Húsnæðismál

Skráningarstofan hf. hefur nýlega fest kaup á um 1.400 fermetra húsnæði í Borgartúni 30 undir starfsemi sína og mun greiða fyrir það um 130-140 m.kr. Húsnæðið á að verða tilbúið um næstu áramót. Húsnæðið er rúmgott og m.a. gert ráð fyrir góðu rými fyrir rekstur tölvukerfa. Unnt verður að festa kaup á viðbótarhúsnæði í sama húsi gerist þess þörf.


4. Framkvæmd tillagna

Til að hrinda í framkvæmd þeim tillögum sem hér hafa verið lagðar fram þarf að gera breytingar á Umferðarlögum, m.a. þarf að breyta eða fella úr gildi 65. grein laganna þar sem fjallað er um Skráningarstofuna hf. auk þess sem skjóta þarf lagastoð undir Umferðarstofu og endurskoða XV kafla laganna þar sem fjallað er um Umferðarráð. Ef ákveðið verður að færa verkefni frá dómsmálaráðuneytinu til Umferðarstofu svo sem veitingu starfsleyfa eða ef ákveðið verður að útgáfa ökuskírteina verði á vegum Umferðarstofu í stað lögreglu þarf frekari breytingar á lögunum.

Lagabreytingarnar eru þó ekki umfangsmeiri en svo að lagafrumvarp á geta legið fyrir í upphafi haustþings 1998 og geta orðið að lögum fyrir áramót. Ef lagafrumvarp um málið verði að lögum í desember er hæpið að nægur undirbúningstími gefist þannig að Umferðarstofa geti tekið til starfa um áramót, raunhæfara að miða við 1. apríl í því sambandi. Sameining eða samvinna um verkefni Umferðarstofu, t.d. sameining tölvumála, getur þó mögulega hafist fyrr svo framarlega sem ákvarðanir í húsnæðismálum liggja fyrir, en að húsnæðismálum þarf að huga sem allra fyrst.

Fleira en tímaskortur mælir gegn því að stofnunin hefji störf strax um áramót t.d. það að Skráningarstofan hf. gerir ráð fyrir að flytja í nýtt húsnæði um áramótin og á sama tíma taka í notkun nýtt tölvukerfi bifreiðaskrár. Óvarlegt væri að ráðast í allar þessar breytingar samtímis.

Eitt þeirra verkefna sem sinna þarf áður en að stofnun Umferðarstofu kemur er að semja við rekstraraðila Tölvumiðstöðvar dómsmálaráðuneytisins um lok samstarfsins. Í þeim samningum þarf að tryggja að færsla tölvurekstursins komi sem minnst niður á notendum tölvukerfanna. Gert er ráð fyrir að tölvubúnaður Tölvumiðastöðvarinnar færist til Umferðarstofu.

Strax eftir að lagastoð er fyrir Umferðarstofu er rétt að skipa forstjóra þannig að hann geti sem fyrst komið að undirbúningi rekstrar. Reiknað er með að núverandi starfsmönnum Skráningarstofu og Umferðaráðs, sem þess óska, verði tryggð störf hjá hinni nýju stofnun.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum