Hoppa yfir valmynd
8. mars 1999 Dómsmálaráðuneytið

Skýrsla nefndar um framtíðarskipan happdrættismála á Íslandi

Þann 17. febrúar 1998 skipaði dómsmálaráðherra nefnd til að semja frumdrög að mótun framtíðarstefnu í happdrættismálum. Nefndin hefur lokið störfum og skilað ráðherra skýrslu

Skýrsla nefndar um framtíðarskipan happdrættismála á Íslandi

- Dóms- og kirkjumálaráðuneytið -
febrúar 1999

Efnisyfirlit


1. Inngangur; skipan og hlutverk nefndarinnar

2. Niðurstaða nefndarinnar

3. Samantekt á efni skýrslunnar
4. Gildandi löggjöf um happdrætti
4.1 Íslenskur réttur
      4.1.1 Hugtakið happdrætti
      4.1.2 Söguleg atriði
      4.1.3 Almenn lög um happdrætti
      4.1.4 Happdrætti Háskóla Íslands
          4.1.4.1 Flokkahappdrætti með peningavinningum
          4.1.4.2 Sjóðshappdrætti - Happó
          4.1.4.3 Happaþrenna
          4.1.4.4 Pappírslaust peningahappdrætti - Gullnáman
      4.1.5 Veðmálastarfsemi í sambandi við kappreiðar og kappróður
      4.1.6 Sérstök tegund happdrættis héraðssambanda íþrótta- og
      ungmennafélaga
      4.1.7 Happdrætti í sambandi við skuldabréfalán Flugfélags Íslands
      4.1.8 Happdrætti Sambands íslenskra berklasjúklinga
      4.1.9 Getraunir
      4.1.10 Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna
      4.1.11 Talnagetraunir
      4.1.12 Íslenskir söfnunarkassar
      4.1.13 Almenn happdrætti
      4.1.14 Önnur happdrætti og skyld starfsemi
      4.1.15 Netið
      4.1.16 Skattar
          4.1.16.1 Skattskyldir vinningar
          4.1.16.2 Skattskylda aðila sem starfrækja happdrætti
          og skylda starfsemi
4.1.17 Refsiákvæði almennra hegningarlaga
4.2 Erlendur réttur
      4.2.1 Almennt
      4.2.2 Danmörk
      4.2.3 Noregur
      4.2.4 Svíþjóð
      4.2.5 Finnland
      4.2.6 Álandseyjar
      4.2.7 Önnur lönd í Evrópu
      4.2.8 Bandaríkin
4.3 Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið

5. Tölulegar upplýsingar um íslensk happdrætti

6. Framboð og eftirspurn á happdrættismarkaði
    6.1 Almennt
    6.2 Eftirspurn og áhættuviðhorf
    6.3 Framboð og kostnaður
    6.4 Skipting ábata af happdrætti

7. Eðli happdrættis - siðferðileg viðhorf

8. Hvað betur má fara í íslenskri löggjöf um happdrætti
    8.1 Almennt
    8.2 Flokkahappdrætti
    8.3 Talna- og íþróttagetraunir
    8.4 Happdrættisvélar
    8.5 Almenn happdrætti
    8.6 "Kaupaukahappdrætti"
    8.7 Símatorg, sjónvarpsleikir og aðrir leikir
    8.8 Netið

9. Framtíðarskipan happdrættismála
    9.1 Almennt
    9.2 Ríkisrekin happdrætti
    9.3 Einkarekin happdrætti
    9.4 Ríkis- og einkarekin happdrætti
    9.5 Almenn happdrætti
    9.6 Önnur happdrætti og skyld starfsemi
    9.7 Netið
10. Lokaorð

1. INNGANGUR; SKIPAN OG HLUTVERK NEFNDARINNAR

Þann 17. febrúar 1998 skipaði dómsmálaráðherra nefnd til að semja frumdrög að mótun framtíðarstefnu í happdrættismálum. Í nefndina voru skipuð Árni Magnússon, aðstoðarmaður, tilnefndur af iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Björn Arnar Magnússon, deildarsérfræðingur, tilnefndur af félagsmálaráðherra, Guðmundur K. Magnússon, prófessor, tilnefndur af menntamálaráðherra, Ingibjörg Þorsteinsdóttir, lögfræðingur, tilnefnd af fjármálaráðherra, Þórir Haraldsson, aðstoðarmaður, tilnefndur af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og Fanney Óskarsdóttir, deildarstjóri, tilnefnd af dóms- og kirkjumálaráðherra, sem jafnframt var skipuð formaður nefndarinnar. Jónas Þór Guðmundsson, lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu, var skipaður ritari nefndarinnar.

Nefndin kom fyrst saman til fundar þann 5. mars 1998 og hefur haldið samtals tíu fundi. Nefndin hefur rætt mögulegar leiðir að framtíðarskipan happdrættisstarfsemi í landinu. Við þá vinnu var meðal annars farið rækilega yfir gildandi löggjöf um happdrættisrekstur hér á landi. Ennfremur var litið til þess, hvernig starfrækslu happdrætta er háttað í helstu nágrannalöndum okkar. Þá hafa ársskýrslur hinna lögvernduðu happdrættisfyrirtækja verið skoðaðar og gerður samanburður á tölum, sem þar koma fram. Í sumum tilvikum reyndist slíkur samanburður erfiður vegna þess að byggt er á mismunandi forsendum í ársreikningum einstakra happdrætta.

Ýmsir kostir koma til greina, þegar gera á skipulega grein fyrir gildandi lagareglum um happdrætti og skylda starfsemi og móta hugmyndir að framtíðarskipan þessara mála. Í þessari skýrslu hefur verið leitast við að draga fram aðalatriði gildandi löggjafar og setja fram meginhugmyndir um framtíðarskipan happdrættismála, án þess að útfæra þær í smáatriðum. Ástæða þessa er fyrst og fremst sú, að telja má nauðsynlegt að á vettvangi stjórnmálanna verði tekin afstaða til þess, hvaða hugmyndir skuli liggja til grundvallar löggjöf um happdrætti, áður en hafist er handa um nánari útfærslu. Rétt er að taka fram, að í skýrslunni er ekki fjallað um opinberar fjársafnanir, sbr. lög nr. 5/1977.

2. NIÐURSTAÐA NEFNDARINNAR

Eftir athugun sína hefur nefndin komist að þeirri niðurstöðu, að margt megi betur fara í skipan happdrættisstarfsemi hér á landi. Íslendingar búa við ófullkomna og ósamstæða löggjöf um happdrættismálefni og ákvæði hennar stangast að hluta til á. Nauðsynlegt er að bæta úr, þannig að til verði skýr lagagrundvöllur um þessa umfangsmiklu starfsemi.

Fyrst og fremst telur nefndin þó afar brýnt, að tekin verði afstaða til þess, hvaða meginsjónarmið skuli liggja til grundvallar happdrættisstarfsemi í landinu. Í því sambandi eru í skýrslunni einkum reifaðar þrjár leiðir að skipan happdrættismála, sem til greina gæti komið að fara við heildarendurskipulagningu þessa málaflokks (sjá kafla 9). Í stuttu máli eru leiðirnar þess efnis, að öll happdrætti verði 1) ríkisrekin eða 2) einkarekin eða 3) ýmist ríkis- og einkarekin. Nefndin tekur ekki afstöðu til þess, hver af þessum þremur leiðum sé heppilegust, heldur lítur svo á, að þar sé um að ræða ákvörðun, sem eðlilegast er að tekin verði á vettvangi stjórnmálanna.

Burt séð frá því, hvort einhver framangreindra leiða verður fyrir valinu eða ekki, telur nefndin brýnt að fram fari endurskoðun og setning nýrra laga um happdrættismálefni. Margvíslegar ástæður liggja þar að baki, eins og fram kemur í eftirfarandi almennum ábendingum nefndarinnar um happdrættismálefni:

Annmarkar á núverandi fyrirkomulagi:
· Lög um happdrætti eru komin til ára sinna.
· Löggjöfin er ósamstæð og ákvæði hennar stangast að sumu leyti á.
· Lagaramma vantar um sum happdrætti og margskonar skylda starfsemi.
· Nokkur vafi kann að leika á með hvaða hætti gildandi lagareglum verður beitt um happdrætti á Netinu.
· Eftirliti er almennt ábótavant. Hafa ber í huga að happdrætti er margþætt og viðkvæm starfsemi. Ný tækni hefur rutt sér til rúms varðandi söluaðferðir, útdrátt o.fl. Vafasamt er að dómsmálaráðuneytið sé í stakk búið til að sinna eftirlitinu sem skyldi.
· Heimildir til að kæra úrskurði eftirlitsaðila til æðra stjórnvalds eru mismunandi eftir einstökum happdrættum.
· Sumum happdrættum er ekki gert að skila skýrslum eða reikningum um reksturinn.
· Happdrættin njóta ekki jafnræðis að því er varðar leyfisgjöld og skatta.
      Ágóði af happdrættisstarfsemi:
· Þjóðfélagslegur ábati af happdrættum er meiri en kostnaður.
· Unnt er að ná markmiðum um öflun fjár til almannaheilla án opinbers rekstrar.
· Nýta þarf betur kosti markaðar og samkeppni.
· Ríkisrekstur, þar sem tekjur renna beint í ríkissjóð, getur valdið óvissu og sveiflum í úthlutun fjár.
· Á móti kemur að tekjur einstakra aðila sveiflast á markaðnum með tækni, tísku og samkeppni.
· Tilkoma nýrra aðila getur stækkað heildarmarkaðinn, en rýrir sennilega að einhverju leyti hlut þeirra sem fyrir eru.
· Leyfisveiting og skilyrði hennar er í reynd pólitísk ákvörðun um skiptingu tekna af happdrætti í vinninga, leyfisgjöld og ágóða.
      Endurskoðun löggjafar um happdrætti og skylda starfsemi:
· Endurskoða og samræma þarf lög og reglugerðir um happdrætti og skylda starfsemi. Setja þarf ítarleg heildarlög er taki á sameiginlegum atriðum. Markmið ríkisvaldsins þurfa að vera skýr, þannig að fylgt sé einverri meginlínu.
· Taka þarf afstöðu til þess, hvort og þá að hvaða marki ný heildarlög skuli taka til þeirra happdrætta og skyldrar starfsemi, sem ekki heyrir undir gildandi lög.
· Einstök happdrætti verði nánar útfærð í reglugerðum.
· Hafa ber í huga að ætla má að viðhorf til happdrætta og skyldrar starfsemi hafi breyst síðustu ár.
· Sjálfstæðum aðila, er búi yfir nægri fagþekkingu, verði falin stjórnsýsla happdrættismála og skyldrar starfsemi. Sá aðili hafi jafnframt með höndum virkt eftirlit með happdrættisstarfsemi. Ákvarðanir þessa aðila verði kæranlegar til dómsmálaráðuneytisins.
· Gjöld verði lögð á leyfishafa eftir jafnræðissjónarmiðum. Eftirlit verði kostað af leyfishöfum.
· Aðilum sem starfrækja happdrætti verði gert að skila til eftirlitsaðila ársreikningum í samræmi við lög um ársreikninga.
· Skattlagning á happdrætti er pólitísk ákvörðun, háð því hvaða meginsjónarmið er lagt til grundvallar happdrættisstarfsemi almennt, þ.e. ríkisrekstur, einkarekstur eða bæði ríkis- og einkarekstur. Markmið skattlagningar þurfa að vera skýr og gæta ber jafnræðis bæði gagnvart rekstraraðilum og viðskiptavinum happdrætta.


3. SAMANTEKT Á EFNI SKÝRSLUNNAR

Hugtakið happdrætti er ekki skilgreint í íslenskum lögum. Almennt er hins vegar litið svo á, að happdrætti sé starfsemi þar sem hópur þátttakenda tekur gegn gjaldi þátt í hlutkesti um einn eða fleiri vinninga, þ.e. vinningsvon ræðst af tilviljun. Um happdrættisstarfsemi gilda annars vegar almenn lög og hins vegar gilda sérstök lög um happdrætti nokkurra tiltekinna aðila (kafli 4.1.1).

Í upphafi þessarar aldar var stofnun happdrættis nokkrum sinnum rædd á Alþingi. Árið 1926 voru fyrst sett almenn ákvæði um happdrætti og hlutaveltur hér á landi, með lögum nr. 6/1926. Ákvæði laganna eru að mestu í samræmi við venjur, sem fylgt hafði verið til þess tíma. Tilgangur laganna var annars vegar að lögfesta þessar venjur og hins vegar að leggja bann við því og koma í veg fyrir, að Íslendingar spiluðu í erlendum happdrættum og fjármunir flyttust úr landi. Með lögum um stofnun happdrættis fyrir Ísland, nr. 44/1933, var Háskóla Íslands veitt heimild fyrstum aðila til að reka hér happdrætti með peningavinningum. Tilgangurinn var að afla fjár til húsbygginga fyrir Háskóla Íslands. Lögin voru sniðin eftir lögum um Det kgl. Københavnske Klasselotteri (kafli 4.1.2).

Í lögum um happdrætti (lotterí) og hlutaveltur (tombólur), nr. 6/1926, er að finna almenn ákvæði um happdrætti og hlutaveltur. Samkvæmt þeim er happdrætti, hverrar tegundar sem er, óheimilt án leyfis dómsmálaráðuneytis, og hlutaveltur án leyfis lögreglustjóra. Peningahappdrætti eða önnur þvílík happspil má ekki setja á stofn án lagaheimildar. Bannað er og að versla hér með eða selja hluti fyrir erlend happdrætti, eða hafa hér á hendi nokkur störf, er að því lúta (kafli 4.1.3).

Gildandi lög um happdrætti Háskóla Íslands eru nr. 13/1973, sbr. lög nr. 96/1974, 55/1976, 23/1986 og 77/1994. Sjá og reglugerð nr. 348/1976, sbr. reglugerðir nr. 96/1980, 85/1981, 595/1994, 638/1995, 705/1997 og 688/1998. Með lögunum er happdrætti Háskóla Íslands veitt heimild til að reka svonefnt flokkahappdrætti með peningavinningum. Um er að ræða einkarétt og skal leyfishafi greiða í ríkissjóð 20% af nettóarði í einkaleyfisgjald. Á meðan happdrættið starfar, er bannað að setja á stofn nokkurt annað peningahappdrætti hér á landi, svo og að versla með eða hafa á boðstólum miða erlendra happdrætta, auglýsa þá í innlendum blöðum eða hvetja menn til að kaupa þá. Í lögunum eru ákvæði um iðgjald, miðasölu, vinninga, útdrátt, eftirlit, ráðstöfun ágóða, skatta á vinninga og viðurlög við brotum á lögunum. Nánari ákvæði eru í reglugerð (kafli 4.1.4.1).

Með lögum nr. 23/1986, sem breyta lögum nr. 13/1973, er dómsmálaráðherra heimilað að veita Háskóla Íslands einkaleyfi til rekstrar skyndihappdrættis með peningavinningum, svo og peningahappdrættis sem ekki yrði rekið sem flokkahappdrætti. Með reglugerð nr. 410/1991, sbr. reglugerðir nr. 139/1992 og 193/1992, var happdrætti Háskóla Íslands veitt leyfi til að reka sérstakt happdrætti undir heitunum Sjóðshappdrætti Háskóla Íslands og "Happó". Happdrætti þetta var starfrækt um skeið, en starfsemi þess hefur nú verið hætt (kafli 4.1.4.2).

Á grundvelli síðastnefndrar lagaheimildar hefur happdrætti Háskóla Íslands verið veitt leyfi til að starfrækja skafmiðaleikinn Happaþrennu. Leyfið var veitt með sérstöku bréfi dómsmálaráðuneytisins þann 14. júlí 1986 og hafa breytingar á happdrættinu einnig verið heimilaðar síðar með slíkum bréfum. Litið hefur verið svo á, að um einkaleyfi sé að ræða, þar sem vinningar eru peningar, og greiða beri einkaleyfisgjald í ríkissjóð með sama hætti og af rekstri flokkahappdrættisins. Í leyfisbréfum dómsmálaráðuneytisins hefur verið kveðið á um iðgjald, miðasölu, vinninga og eftirlit. Ákvæði laga nr. 13/1973 gilda um ráðstöfun ágóða, skatta á vinninga og viðurlög við brotum á lögunum (kafli 4.1.4.3).

Á grundvelli sömu lagaheimildar og að ofan getur, sbr. og reglugerð nr. 455/1993, sbr. reglugerð nr. 290/1998, er happdrætti Háskóla Íslands heimilað að reka sérstakt, pappírslaust peningahappdrætti undir heitinu Gullnáman. Samkvæmt heimild í lögum nr. 77/1994, sem breyta lögum nr. 13/1973, eru notaðar sérstakar, samtengdar happdrættisvélar þannig að þátttaka, ákvörðun um vinning og greiðsla á honum fer fram vélrænt og samstundis. Í reglugerð eru ákvæði um staðsetningu, auðkenningu, fjölda og tegundir happdrættisvéla, eftirlit með þeim, notkun mynta og seðla við greiðslu fyrir þátttöku, fjárhæð vinninga og aldur þeirra, sem mega nota vélarnar. Litið hefur verið svo á, að um einkaleyfi sé að ræða, þar sem vinningar eru peningar, og greiða beri einkaleyfisgjald í ríkissjóð með sama hætti og af rekstri flokkahappdrættisins. Sjá hins vegar lög nr. 73/1994, um Íslenska söfnunarkassa. - Ákvæði laga nr. 13/1973 gilda um ráðstöfun ágóða, skatta á vinninga og viðurlög við brotum á lögunum (kafli 4.1.4.4).

Samkvæmt lögum nr. 23/1945 er dómsmálaráðherra heimilt að veita hestamannafélögum leyfi til þess að reka veðmálastarfsemi við kappreiðar og sjómannadagsráðum leyfi til þess að reka veðmálastarfsemi við kappróður með skilyrðum, er ákveðin verði í reglugerð. Þessi starfsemi hefur nánast legið niðri um langa hríð. Í gildi eru þó tvær reglugerðir, annars vegar nr. 317/1995, þar sem Hestamannafélaginu Fáki í Reykjavík er heimilað að reka veðmálastarfsemi í sambandi við kappreiðar, er fram fara á vegum félagsins, og hins vegar nr. 423/1998, þar sem Hestamannafélaginu Sleipni í Árnessýslu er veitt samskonar heimild að breyttu breytanda. Í lögunum eru engin ákvæði um einkarétt til þessarar starfsemi. Þar er heldur ekki kveðið á um veðfjárhæð, miðasölu, vinninga, eftirlit, skatta á vinninga eða viðurlög við brotum á lögunum. Í reglugerðunum er að finna ákvæði um þrjú fyrsttöldu atriðin. Um tvö síðastnefndu atriðin eru engin ákvæði í reglugerð nr. 317/1995. Í reglugerð nr. 423/1998 er ákvæði um síðasttalda atriðið en ekki atriðið sem talið var þar á undan. Bæði í lögunum og reglugerðunum eru hins vegar ákvæði um ráðstöfun ágóða af starfseminni (kafli 4.1.5).

Samkvæmt lögum nr. 15/1952 er dómsmálaráðherra heimilt að leyfa héraðssamböndum íþrótta- og ungmennafélaga, hverju á sínu héraðssvæði, að stofna til og reka um tiltekinn tíma töluspjaldahappdrætti (bingó-happdrætti) í sambandi við skemmtanir, er þau eða sambandsfélög þeirra halda, samkvæmt reglum, er settar yrðu með reglugerð. Sjá um það reglugerð nr. 42/1953. Hvorki í lögunum né reglugerð eru ákvæði um einkarétt. Í reglugerðinni er kveðið á um iðgjald, vinninga og eftirlit. Hvorki í lögunum né í reglugerð er hins vegar að finna ákvæði um útdrátt talna, ráðstöfun ágóða eða skatta á vinninga. Reglurnar, sem settar voru um þessa tegund happdrætta, komu aldrei til framkvæmda, þar sem þær þóttu of þröngar (kafli 4.1.6).

Í Lagasafni 1995 er getið um lög nr. 89/1957, um happdrætti í sambandi við skuldabréfalán Flugfélags Íslands. Lögin eru ekki birt í lagasafninu, heldur vísað til Lagasafns 1965, d. 2377-2378. Til álita kemur, að líta svo á, að lög þessi séu úr gildi fallin vegna notkunarleysis (kafli 4.1.7).

Samkvæmt lögum nr. 18/1959 er Sambandi íslenskra berklasjúklinga heimilt að reka flokkahappdrætti með vörur, sbr. og reglugerð nr. 372/1976, sbr. reglugerðir nr. 20/1980, 86/1981, 330/1992, 406/1996, 587/1997, 708/1997 og 780/1998. Allir vinningar skulu greiðast í vörum og óheimilt er að greiða andvirði þeirra í peningum. Í lögunum eru engin ákvæði um einkarétt eða viðurlög við brotum á lögunum. Í lögunum er kveðið á um iðgjald, vinninga, eftirlit, ráðstöfun ágóða og skatta á vinninga. Um þrjú fyrstnefndu atriðin eru auk þess ákvæði í reglugerð. Í reglugerð eru og ákvæði um miðasölu og útdrátt vinninga, en hins vegar ekki í lögunum (kafli 4.1.8).

Með lögum um getraunir, nr. 59/1972, var ríkisstjórninni heimilað að stofna félag, Íslenskar getraunir, sem afli fjár til stuðnings íþróttaiðkunum á vegum áhugamanna um íþróttir í landinu í félögum innan Ungmennafélags Íslands eða Íþróttasambands Íslands, sbr. og reglugerð nr. 543/1995. Samkvæmt lögum nr. 93/1988, sem breyttu lögum nr. 59/1972, starfrækir félagið íþróttagetraunir, en með íþróttagetraunum er átt við að á þar til gerða miða, getraunaseðla, eru merkt væntanleg úrslit íþróttakappleikja, íþróttamóta. Í fræðiritum hefur jafnan verið litið svo á, að íþróttagetraunir falli utan happdrættishugtaksins. Íslenskar getraunir starfrækja íþróttagetraunir í formi eftirfarandi leikja: 1) Getraunaleiki í samstarfi við AB Tipstjänst í Svíþjóð. 2) Getraunaleikinn Lengjuna. 3) Tímabundna aukagetraunaleiki, eitt sér eða í samráði við erlend getraunafyrirtæki. Sjá hér auglýsingu nr. 583/1998 um getraunaleikinn Eurogoals. 4) "Hópleik" í tengslum við kynningarstarfsemi á vegum félagsins. - Þátttakanda er heimilt að heita á íþróttafélag um leið og hann tekur þátt í getrauninni með því að merkja við þar til gerðan reit á getraunaseðlinum. Öllum öðrum en Íslenskum getraunum er óheimilt að starfrækja getraunir, sem um ræðir í lögunum. Ennfremur er óheimilt, án sérstakrar lagaheimildar, að starfrækja veðmálastarfsemi í sambandi við íþróttakeppni. Í lögunum og reglugerð eru ákvæði um iðgjald, vinninga, eftirlit og ráðstöfun ágóða. Í lögunum er auk þess kveðið á um miðasölu, skatta á vinninga og viðurlög við brotum á lögunum (kafli 4.1.9).

Samkvæmt lögum nr. 16/1973 skal Dvalarheimili aldraðra sjómanna heimilt að stofna flokkahappdrætti með tilteknar vörur, sbr. og lög nr. 53/1976, 24/1987 og 21/1997. Sjá einnig reglugerð nr. 193/1996. Nánar tiltekið eru þessar vörur bifreiðar, bifhjól, bátar, búnaðarvélar, íbúðarhús og einstakar íbúðir, húsbúnaður, hljóðfæri, búpeningur, flugvélar og farmiðar til ferðalaga. Í lögunum eru engin ákvæði um einkarétt eða viðurlög við brotum á lögunum. Í lögunum og reglugerð eru ákvæði um iðgjald, vinninga, útdrátt og eftirlit. Í reglugerðinni er kveðið á um miðasölu. Í lögunum eru auk þess ákvæði um ráðstöfun ágóða og skatta á vinninga (kafli 4.1.10).

Með lögum um talnagetraunir, nr. 26/1986, er dómsmálaráðherra heimilað að veita Íþróttasambandi Íslands, Ungmennafélagi Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands leyfi til þess að starfrækja saman getraunir, í nafni félags sem samtökin stofni. Umrætt félag hefur verið stofnað og fengið nafnið Íslensk getspá, sbr. reglugerð nr. 105/1998, sbr. reglugerð nr. 651/1998. Getraunirnar fara fram með þeim hætti, að á þar til gerða miða er skráð eða valin röð talna og eða bókstafa. Í fræðiritum eru talnagetraunir flokkaðar sem happdrætti. Um er að ræða peningahappdrætti, þar sem vinningar greiðast í peningum. Íslensk getspá starfrækir talnagetraunir undir heitunum "Jóker", "Lottó 5/38" og "Víkingalottó 6/48", síðastnefnda leikinn í samvinnu við félög á hinum Norðurlöndunum. Þátttaka í Jóker er bundin þátttöku í Lottó 5/38. Um skeið starfrækti félagið jafnframt leik undir heitinu "Kínó", sbr. reglugerð nr. 516/1995, sbr. reglugerð nr. 634/1995. Starfrækslu leiksins hefur nú verið hætt, en reglugerðin hefur ekki verið afnumin. Öðrum en Íslenskri getspá er óheimilt að starfrækja getraunir með þeim hætti, sem um ræðir í lögunum. Í lögunum og reglugerð eru ákvæði um iðgjald, vinninga og eftirlit. Í lögunum eru auk þess ákvæði um ráðstöfun ágóða, skatta á vinninga og viðurlög við brotum á lögunum. Í reglugerðinni er kveðið á um miðasölu og útdrátt (kafli 4.1.11).

Samkvæmt lögum um söfnunarkassa, nr. 73/1994, er dómsmálaráðherra heimilt að veita Íslenskum söfnunarkössum (ÍSK), félagi í eigu Rauða kross Íslands, Landsbjargar, Samtaka áhugamanna um áfengis- og vímuefnavandann og Slysavarnafélags Íslands, leyfi til að starfrækja söfnunarkassa með peningavinningum. Í lögunum er tekið fram, að dómsmálaráðherra setji í reglugerð, að fengnum tillögum stjórnar Íslenskra söfnunarkassa, nánari ákvæði um framkvæmd laganna. Sú reglugerð hefur ekki verið sett. Með söfnunarkössum er átt við handvirka og/eða vélræna söfnunarkassa, sem ekki eru samtengdir og í eru sett peningaframlög er jafnframt veita þeim, sem þau leggja fram, möguleika á peningavinningi, allt að ákveðinni fjárhæð, og skal úthlutun vinninga byggjast á tilviljun. Engin ákvæði eru í lögunum um einkarétt Íslenskra söfnunarkassa til að starfrækja söfnunarkassa með peningavinningum. Í lögunum eru ákvæði um eftirlit, lágmarksaldur þátttakenda, ráðstöfun ágóða, skatta á vinninga og viðurlög við brotum á lögunum (kafli 4.1.12).

Samkvæmt lögum nr. 6/1926, um happdrætti (lotterí) og hlutaveltur (tombólur), eru almenn happdrætti háð leyfisveitingu frá dómsmálaráðuneytinu. Um almenn happdrætti eru ekki frekari ákvæði í settum lögum. Stuðst hefur verið við óskráðar reglur við leyfisveitingar, m.a. um ábyrgðaraðila, iðgjald, vinninga og útdrátt. Ekki er gert að skilyrði, að skila skuli inn til ráðuneytisins eintaki af happdrættismiða, eftir að leyfi hefur verið veitt. Á síðasta ári gaf dómsmálaráðuneytið út rúmlega 50 leyfi fyrir happdrættum af ýmsum stærðum. Flest þeirra eru smá í sniðum, þar sem sala happdrættismiða fer nánast einungis fram innan tiltekins svæðis eða fámenns hóps. Sem dæmi má nefna happdrætti innan íþróttafélaga, skóla, kirkjufélaga, líknarsamtaka, menningarsamtaka, stjórnmálasamtaka o.þ.h. Gjald fyrir happdrættisleyfi er í dag kr. 5.000, óháð stærð happdrættis (kafli 4.1.13).

Þrátt fyrir ákvæði almennu happdrættislaganna nr. 6/1926 hafa ýmis happdrætti, einkum happdrætti á innanfélagssamkomum eða í tilteknum þröngum hópi, þar sem sala miða, dráttur og afhending vinninga fer fram á sama stað, verið látin óátalin. Sama á við um bingóhappdrætti á samkomum. Þá hefur færst í aukana að fyrirtæki efni til ýmis konar leikja, sem gefa af sér vinninga, í þeim tilgangi að örva sölu á vöru og þjónustu. Stundum er talað um "kaupaukahappdrætti" í þessu sambandi, en ekki hafa verið tekin af tvímæli um hverjir þessara leikja séu happdrætti og hverjir ekki. Jafnframt hefur fjöldi happdrættisleikja í seinni tíð farið fram í gegnum síma, símatorg eða sjónvarp, án leyfis í neinu formi. Dómsmálaráðuneytið hefur ekki tekið afstöðu til þessara leikja. Ennfremur var um nokkurt árabil staðið fyrir getraunastarfsemi í sambandi við kosningaúrslit (kafli 4.1.14).

Á Netinu er hægt að fá margvíslegar upplýsingar um íslensku happdrættin og nýta sér þjónustu sem þau bjóða upp á. Sjá eftirfarandi slóðir: http://www.hhi.is, http://www.sibs.is, http://www.itn.is/das, http://www.1x2.is og http://www.lotto.is. Íslenskar getraunir starfrækja leikinn Eurogoals á Netinu í samvinnu við erlent getraunafyrirtæki. Leikurinn er eingöngu spilaður á Netinu. - Ætla verður að starfsemi íslenskra happdrætta á Netinu lúti sömu reglum og önnur starfsemi íslenskra happdrætta. Með tilkomu Netsins hafa aukist möguleikar á þátttöku í erlendum happdrættum, sem sett eru á markað í gegnum Netið. Hér á landi eru engar lagareglur til um þátttöku í erlendum happdrættum í gegnum Netið (kafli 4.1.15).

Samkvæmt lögum um tekju- og eignarskatt, nr. 75/1981, ásamt síðari breytingum, teljast vinningar í happdrætti, veðmáli eða keppni til skattskyldra tekna. Frá því eru þrenns konar undantekningar: 1) Verðlitlir vinningar í almennum happdrættum og keppnum eru ekki skattskyldir. - Draga má frá skattskyldum tekjum manna, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, 2) vinninga í happdrætti, veðmáli eða keppni, sem skattfrjálsir eru samkvæmt sérlögum og 3) vinninga í happdrættum, sem fengið hafa leyfi dómsmálaráðuneytisins, enda sé öllum ágóða af happdrættunum varið til menningarmála, mannúðarmála eða kirkjulegrar starfsemi og ríkisskattstjóri hefur staðfest að uppfylli lögákveðin skilyrði. - Vinningar í happdrætti og skyldri starfsemi eru eignarskattskyldir samkvæmt lögum um tekju- og eignarskatt. Sérákvæði er í sérlögum um eignarskatt á vinninga í sumum þeirra happdrætta, sem starfa eftir slíkum lögum, og skulu vinningar í þeim vera undanþegnir hvers konar opinberum gjöldum, öðrum en eignarskatti á því ári, sem þeir falla (kafli 4.1.16.1).

Samkvæmt lögum um tekju- og eignarskatt, nr. 75/1981, eru þeir aðilar, sem starfrækja happdrætti eða skylda starfsemi, undanþegnir tekju- og eignarskatti, ef þeir verja hagnaði sínum einungis til almenningsheilla og hafa það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum (kafli 4.1.16.2).

Í 183. og 184. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. lög nr. 82/1998, er að finna refsiákvæði sem lúta að fjárhættuspilum og veðmálum (kafli 4.1.17).

Í Danmörku eru í gildi lög frá 1869 um bann við happdrættum o.fl. Hugtakið happdrætti er ekki skilgreint í settum lögum. Leyfi þarf til að halda happdrætti, nema um sé að ræða happdrætti verslana/fyrirtækja eða mjög lítil happdrætti. Happdrættin skiptast í regluleg happdrætti og önnur happdrætti, sem aðeins mega starfa í stuttan tíma. Sala erlendra happdrættismiða er bönnuð í landinu. Árið 1990 voru sett lög um happasali (casino). Samkvæmt lögum nr. 637/1993 er Dansk Tipstjenste A/S heimilt að starfrækja spil, happdrætti og veðmál gegn greiðslu gjalds af veltu til ríkisins. Allar aðrar tegundir veðmála, svo og miðlun erlendra veðmála, er bönnuð. Ágóðinn rennur fyrst og fremst til íþrótta- og menningarmála. Ríkið á 80% hlutafjár í félaginu, en það rekur t.d. Lottó. Um veðmál er fjallað í lögum nr. 186/1919 (kafli 4.2.2).

Í Noregi eru í gildi lög frá 1995 um svokölluð einkahappdrætti. Um peningahappdrætti gilda lög frá 1976 og 1992. Undir happdrættislögin heyra ekki ríkisreknu peningahappdrættin og veðmálastarfsemi. Ríkisreknu peningahappdrættin eru Fótboltagetraunir, Oddsen, Lotto, Víkingalottó, Det Norske Pengelotteriet og Flax. Hugtakið happdrætti er skilgreint í lögum. Meginreglan er sú, að leyfi þarf til að halda happdrætti. Lög standa því ekki í vegi að erlend fyrirtæki geti farið inn á happdrættismarkaðinn. Fyrirtækið Norsk Tipping AS, sem er hlutafélag alfarið í eigu ríkisins, sér um öll ríkisreknu happdrættin nema veðmálaspilin og hefur um 45% af markaðnum. Samkvæmt lögum frá 1927 er heimilt að veita samtökum og félögum, sem hafa að tilgangi að styrkja hrossarækt, leyfi til veðmálastarfsemi (kafli 4.2.3).

Í Svíþjóð gilda happdrættislög frá 1994. Lögin gilda um happdrætti fyrir almenning og einnig ýmsa smærri leiki og spil, sem ekki eru opin almenningi. Hugtakið happdrætti er skilgreint í lögunum. Meginreglan er sú, að leyfi þarf til reksturs happdrættis. Leyfi til happdrættis má veita sænskum fyrirtækjum eða félagasamtökum, sem hafa almannahagsmuni að leiðarljósi. Vinningar mega yfirleitt ekki vera peningar. Leyfi þarf fyrir lukkuhjólum og teningaspilum, en þau á ekki að setja upp nema á opinberum skemmtistöðum, í skemmtigörðum, skipum, hótelum, veitingastöðum o.þ.h. Tvö stór ríkisfyrirtæki skipta með sér stærstum hluta happdrættisstarfseminnar (kafli 4.2.4).

Í Finnlandi gilda lög um happdrætti og spil frá 1965. Happdrættismarkaðurinn er aðallega í höndum ríkisrekinna fyrirtækja. Meginreglan er sú, að leyfi þarf til að halda önnur happdrætti en smáhappdrætti. Einungis fyrirtæki eða félagasamtök, sem hafa góðgerðarmálefni að leiðarljósi eða hafa ekki fjárhagslegan tilgang, geta fengið leyfi. Félagið þarf einnig að vera skráð í Finnlandi. Meginreglan er sú, að leyfa einungis vöruhappdrætti. Spilakassar starfa samkvæmt reglugerð frá 1967. Einungis er heimilt að veita fyrirtækjum leyfi til að setja upp vélar. Fyrirtækið RAY hefur fengið einkarétt til þess. Spilavíti eru heimil í Finnlandi og hefur RAY einnig einkarétt á þeirri starfsemi. Leyfi til íþróttagetrauna og lottós með peningavinningum má einungis veita félagasamtökum. Finnska ríkislottóið, Oy Vekkaus Ab, hefur leyfi fyrir þessum leikjum (kafli 4.2.5).

Álandseyjar hafa eigin happdrættislöggjöf. Meginreglan þar er sú, að leyfi þarf frá landsstjórninni til að halda happdrætti. Einnig má veita leyfi til að selja erlenda happdrættismiða á Álandi. Ekki þarf leyfi fyrir smáhappdrættum. Fyrirtækjum, sem eru skráð á Álandi, og sjálfstæðum sjóðum, með góðgerðarmarkmið, má veita leyfi til vöruhappdrættis. Fyrirtækið PAF hefur einkaleyfi á peningahappdrættum (kafli 4.2.6).

Í öðrum löndum Evrópu eru happdrætti almennt bönnuð með lögum. Hið opinbera getur hins vegar veitt undanþágur, með því skilyrði að hagnaður af happdrættinu renni til ríkisins eða góðgerðarmála. Happdrættisrekstur er almennt háður ströngum reglum og eftirliti. Happdrættisrekstur í ríkjum Evrópu er nánast alls staðar með svipuðu sniði. Stærri happdrætti eru oftast nær í höndum ríkisfyrirtækja, sem hafa einkarétt á starfseminni. Flest ríki heimila að veitt séu leyfi fyrir ýmsum tegundum happdrætta, sem ekki eru rekin af ríkinu, svokölluðum einkahappdrættum. Almennt er gert að skilyrði að einkareknu happdrættin séu til styrktar mannúðarmálum. Veðreiðar eru heimilar í mörgum löndum Evrópu og eru þær ýmist ríkis- eða einkareknar. Casino eru og heimil í flestum Evrópuríkjum. Oftast er rekstur þeirra í höndum einkafyrirtækja. Þá eru happdrættisvélar víðast hvar heimilar (kafli 4.2.7).

Fyrstu sex áratugi þessarar aldar voru happdrætti bönnuð í Bandaríkjunum. Hins vegar nutu ýmis fjárhættuspil og veðmálastarfsemi vinsælda meðal stórs hluta þjóðarinnar. Hestaveðreiðar höfðu verið löglegar frá árinu 1927. Alkunna er, að þrátt fyrir almennt bann gegn happdrættum tók fólk þátt í ýmsum ólöglegum happdrættisleikjum. Um 1960 voru sett lög um Bingó og þau skattlögð. Lögleiðing fylkisrekinna happdrætta hófst fyrir alvöru upp úr 1970 og um 1980 fór að bera á rekstri Lottós. Happdrættisstarfsemi í Bandaríkjunum hefur vaxið mjög hratt. Flestar megintegundir happdrætta/fjárhættuspila/veðmálastarfsemi, sem ríkjandi eru í heiminum í dag, hafa nú verið lögleiddar í Bandaríkjunum. Íþróttagetraunir hafa þó ekki náð sömu vinsældum þar og í Evrópu. Happasalir (casino) eru aðeins löglegir í örfáum fylkjum. Rekstur þeirra hefur verið í höndum einkaaðila undir ströngu eftirliti og skattheimtu. Þau taka til sín langmest af fjármunum. Í dag er umfang happdrættisstarfsemi svipað og í öðrum löndum (kafli 4.2.8).

Meginmál EES-samningsins hefur lagagildi hér á landi, samkvæmt 2. gr. laga nr. 2/1993. Reglur um happdrættisstarfsemi hafa ekki verið samræmdar innan EES-ríkjanna og ekki hefur reynt á þær fyrir EFTA-dómstólnum. Í 31. og 36. gr. EES-samningsins, sem eru efnislega samhljóða 52. og 59. gr. Rómarsáttmálans, er fjallað um rétt aðildarríkjanna til að stunda frjálsa atvinnustarfsemi og stofna og reka fyrirtæki/félög, og til að veita þjónustu milli EES-landanna. Samkvæmt 33. gr. er heimilt að setja ákvæði í lög eða stjórnsýslufyrirmæli er takmarka réttinn samkvæmt 31. og 36. gr. samningsins, er grundvallast á sjónarmiðum um allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði. Samkvæmt túlkun Evrópudómstólsins á 56. gr. Rómarsáttmálans mega slíkar reglur ekki ganga lengra en brýn nauðsyn ber til, til þess að vernda þau réttindi er getið er um í 33. gr. Reglurnar mega heldur ekki fela í sér mismunun á grundvelli þjóðernis. Sjá dóm frá 24. mars 1994 (C-275/92), hinn svokallaða Schindler-dóm (kafli 4.3).

Ekki liggja fyrir heildarupplýsingar um hversu miklu fé Íslendingar verja í happdrætti á ári hverju. Ástæða þess er m.a. sú, að ekki hefur verið gerð sú krafa við veitingu leyfa fyrir almennum happdrættum, að skilað sé til opinbers aðila reikningsuppgjöri fyrir happdrættin. Lögvernduðu happdrættin eiga aftur á móti að skila ársskýrslum sínum til opinbers aðila. Hreinar rekstrartekjur þeirra á 12 mánaða tímabili eru kr. 4.919.000.000. Heildarvelta í happdrættisvélum happdrættis Háskóla Íslands og Íslenskra söfnunarkassa er áætluð kr. 11.317.000.000. Heildarvelta hinna lögvernduðu happdrætta er áætluð um kr. 16.236.000.000. Útgreiddir vinningar nema alls kr. 1.839.000.000, en að viðbættri áætlaðri vinningsveltu nema þeir kr. 13.156.000.000. Rekstrargjöld happdrættanna, umboðslaun, annar rekstrarkostnaður ásamt öðrum tekjum og gjöldum nema kr. 1.426.000.000, þannig að tekjur umfram gjöld á 12 mánaða tímabili eru um kr. 1.654.000.000. Ekki er unnt að greina frá ársveltu almennra happdrætta, ágóða af þeim eða útgreiddum vinningum. Heildarverðmæti vinninga í þeim er rúmlega 250.000.000 kr. og útgefinn miðafjöldi um 2 milljónir miða. Verðmæti vinninga í almennum happdrættum má ekki vera lægra en 16,67% af heildarverðmæti útgefinna miða. Sjá myndrænt yfirlit byggt á ársreikningum happdrættanna 1996-1997 (kafli 5).

Hugmyndin um "hinn hagsýna mann" hefur verið notuð til þess að skýra atferli kaupenda og seljenda á markaði við mismunandi forsendur um aðstæður. Þegar verð endurspeglar ekki til fulls notagildi þjóðfélagsins af tiltekinni starfsemi, er líklegt að framboð á henni verði of lítið. Í þessum tilvikum getur hið opinbera skorist í leikinn, t.d. með því að veita viðkomandi aðiljum leyfi til fjáröflunar með happdrætti. Happdrætti einkennast af því að vinningsvon er minni en tapsvon. Því þarf að skýra þátttöku með tilteknu viðhorfi einstaklinga til áhættu, þ.e. áhættufíkn, umhyggju fyrir náunganum eða stuðningi við gott málefni (kafli 6.1).

Settar hafa verið fram kenningar um það, hvernig áhættuviðhorf eru háð tekjum og eignum. Þekktust er sú kenning, að nytjafall einstaklinga sé þannig að þeir séu áhættufælnir við lágar tekjur og litlar eignir, miðlungstekjumenn geti verið áhættusæknir en hátekjumenn og stóreignamenn séu áhættufælnir. Sami maður getur því ýmist keypt tryggingar eða spilað í happdrættum, eftir því hvaða tekjur hann hefur eða hvaða eignir hann á. Hins vegar hefur þetta samband ekki verið staðfest með hagrannsóknum. Rannsóknir hafa leitt í ljós að þær upplýsingar, sem eru fyrir hendi um líkur og röð atburða, hafa áhrif á val manna við skilyrði óvissu. Ágóðavonin er aðalskýringin á þátttöku í happdrætti. Aðstæður á happdrættismarkaði eru einna líkastar því sem gerist um merkjavöru í ófullkominni samkeppni, því að happdrætti eru af ýmsu tagi og seljendur tiltölulega fáir (kafli 6.2).

Kostnaður þess sem rekur happdrætti er þannig, að jaðarkostnaður er sá sami fyrir hvern miða og þar með óháður fjölda miða. Hins vegar er einnig um fastan stofnkostnað að ræða og heildareiningarkostnaður því fallandi. Þess vegna gilda forsendur frjálsrar samkeppni ekki og happdrættismarkaðurinn einkennist af fákeppni (kafli 6.3).

Ábatinn af tilteknu happdrætti skiptist milli neytanda, seljanda og hins opinbera, ef um skattlagningu er að ræða. Ef markmiðið er að haga rekstri happdrættis þannig, að hann samræmist skilyrðum þjóðfélagslegrar kjörstöðu, sem er þegar einingarverð er jafnt jaðarkostnaði, eins og í frjálsri samkeppni, eru þrjár leiðir til úrlausnar: 1) Hið opinbera taki að sér reksturinn og greiði tapið eða umframkostnaðinn af almennu skattfé. 2) Hið opinbera veiti fyrirtækinu styrk til rekstrarins. 3) Markmiðinu um þjóðfélagslega kjörstöðu verði varpað fyrir róða og fyrirtækinu leyft að verðleggja að eigin vild. - Allar þessar lausnir hafa kosti og galla en athyglisvert er, að ná má markmiðinu án þess að ríkisrekstur komi til (kafli 6.4).

Um siðferðilega hlið happdrætta hafa lengi verið skiptar skoðanir. Ágæta innsýn í ólíkar skoðanir má fá frá Alþingi árið 1912 við umræður um frumvarp til laga um stofnun peningalotterís fyrir Ísland (kafli 7).

Frá setningu almennu happdrættislaganna árið 1926 hefur happdrættisrekstur breyst verulega, tækni hefur aukist og ýmsar nýjungar hafa komið fram í dagsljósið. Þá hafa lög um hin svonefndu lögvernduðu happdrætti verið sett á mismunandi tímum. Við setningu þeirra virðist hvorki hafa verið höfð næg hliðsjón af sambærilegum lögum, né heldur litið fram á veg um hugsanlegar nýjungar. Löggjöfin er þar af leiðandi í heild fremur ósamstæð og ákvæði hennar stangast að sumu leyti á. Mörg félagasamtök/stofnanir hafa lýst áhuga á að fá hlutdeild í happdrættismarkaðnum. Ekki hefur gefist kostur á að fjölga þeim aðilum, nema með setningu laga um nýja starfsemi. Einkaréttur á peningahappdrættum setur hins vegar mikil takmörk fyrir stofnun nýrra happdrætta. Eftirliti með happdrættisstarfsemi er ábótavant. Samhliða nýjum reglum um eftirlit er þörf á því, að settar verði skýrar reglur um kærur eftirlitsaðila (kafli 8.1).

Flokkahappdrætti hafa verið á undanhaldi bæði hérlendis sem erlendis. Þeir, sem reka flokkahappdrætti, hafa því sýnt áhuga á nýjum happdrættisleikjum. Happdrætti Háskóla Íslands hefur einkarétt á peningahappdrættum og greiðir gjald til ríkisins fyrir þann einkarétt. Ljóst er hins vegar, að talnagetraunir, svo sem Lottó og Jóker, teljast til peningahappdrættis. Þá gefa happdrættisvélar og söfnunarkassar eingöngu af sér peningavinninga. Spyrja má, hvort eðlilegt sé að happdrætti Háskóla Íslands sé einu happdrætta gert að greiða gjald til ríkisins fyrir einkarétt sem er meira í orði en á borði. Gildandi lög um flokkahappdrættin eru að mörgu leyti ófullnægjandi, enda komin til ára sinna (kafli 8.2).

Bæði talna- og íþróttagetraunir gefa af sér peningavinninga. Starfsemi talnagetrauna heyrir undir hugtakið happdrætti. Íþróttagetraunir teljast strangt til tekið ekki happdrætti. Íslensk getspá og Íslenskar getraunir nota sama sölukerfi á þátttökuseðlum og styrkja að stórum hluta svipuð málefni. Í reglugerð um talnagetraunir er kveðið á um mörg þau atriði, sem æskilegt er að mæla fyrir um í reglum um happdrætti (kafli 8.3).

Þátttaka í leikjum svokallaðra happdrættisvéla er sú tegund happdrætta, sem hvað mestra vinsælda nýtur í dag. Tvö fyrirtæki reka happdrættisvélar hér á landi, happdrætti Háskóla Íslands, er rekur Gullnámuna, og Íslenskir söfnunarkassar, sem er með söfnunarkassa. Happdrættisvélarnar gefa eingöngu peningavinninga. Þar sem happdrætti Háskóla Íslands hefur einkarétt á peningahappdrættum og greiðir sérstakt gjald til ríkisins samkvæmt því, verður að telja að löggjöfin um happdrætti Háskóla Íslands og Íslenska söfnunarkassa stangist á hvað þetta varðar. Lítið sem ekkert opinbert eftirlit hefur verið með starfsemi happdrættisvéla. Bæði þarf að löggilda vélarnar og fylgjast með að þær starfi í samræmi við lög, svo sem hvað snertir vinningshlutfall. Til þess að sinna eftirlitinu þarf sérfróða menn á þessu sviði. Reglugerð um söfnunarkassa hefur ekki verið sett, svo sem lög gera ráð fyrir. Engar reglur eru um hvar heimilt er að setja upp vélar. Lögreglan hefur þó í einhverjum mæli fylgst með hvort farið sé eftir 16 ára aldurstakmarki í söfnunarkassana. Brýnt er, að í lögum verði skýrt kveðið á um reiknings- og skýrsluskil þeirra aðila er reka happdrættisvélar (kafli 8.4).

Ekki er gert að skilyrði í dag, að skila inn til ráðuneytisins eintaki af happdrættismiða í almennu happdrætti, eftir að leyfi hefur verið veitt. Í dómsmálaráðuneytinu hefur þess stundum orðið vart, að miðarnir uppfylla ekki þau skilyrði, sem ráðuneytið hefur sett um gerð þeirra. Engar skýrar lagareglur finnast hér á landi um almenn happdrætti. Brýnt er, að úr því verði bætt. Ýmis smærri happdrætti hafa ekki verið háð leyfisveitingu (kafli 8.5).

Almennt hefur verið talið, að svonefnd kaupaukahappdrætti - þ.e. leikir þar sem þátttaka tengist kaupum á vöru eða þjónustu, án þess að greitt sé sérstaklega fyrir - séu ekki andstæð lögum. Engin lög taka yfir slíka starfsemi. Samkeppnisstofnun hefur litið svo á, að leikir þessir heyri almennt ekki undir samkeppnislögin. Þó verði stofnunin að hafa eftirlit með að leikirnir brjóti ekki í bága við góða viðskiptahætti, samkvæmt ákvæðum 20. gr. samkeppnislaganna. Hins vegar má spyrja, hvort starfsemi teljist vera ólöglegt happdrætti, ef kaup á vöru eða þjónustu er skilyrði fyrir því að þátttakendur fái vinningslíkur. Ef vöruverð er hækkað í tengslum við leik, er augljóslega um greiðslu að ræða. Töluverð aukning hefur orðið á þessum leikjum og ástæða kann að vera til að löggjafinn taki skýra afstöðu til þess, hvort þeir skuli heimilir og ef svo væri, að settar verði skýrar reglur, svo sem um skilyrði fyrir leikjum og eftirlit með útdrætti (kafli 8.6).

Fjöldi happdrættisleikja hefur í seinni tíð farið fram í gegnum síma, símatorg eða sjónvarp, án leyfis í neinu formi. Kosti símtal meira en venjulegt símtal, sem oftast er raunin, vaknar sú spurning, hvort um gjald (framlag) sé að ræða í skilningi happdrættishugtaksins. Ráðist niðurstaða leiksins að öllu leyti eða að hluta af tilviljun er spurning, hvort um happdrætti sé að ræða. Ástæða er til að skoða, hvort ekki beri að setja ákvæði í lög um þessa leiki (kafli 8.7).

Með tilkomu Netsins hafa aukist möguleikar á þátttöku í erlendum happdrættum. Þátttaka fer fram í gegnum reikningsnúmer og leggst vinningur inn á sama númer. Ekkert eftirlit er með þátttöku Íslendinga í erlendum happdrættum gegnum Netið. Ætla verður hins vegar að hlutaðeigandi happdrætti starfi í samræmi við lög í viðkomandi landi. Nokkur vafi kann að leika á, með hvaða hætti gildandi íslenskum lagareglum verður beitt um happdrætti á Netinu (kafli 8.8).

Varðandi framtíðarskipan happdrættismála er gerð grein fyrir þremur mögulegum leiðum er rúmað geta helstu breytingar, sem telja má þörf á í happdrættismálum. Skiptast þær í 1) ríkisrekin happdrætti, 2) einkarekin happdrætti og 3) ríkis- og einkarekin happdrætti. Ekki er gert ráð fyrir veigamiklum breytingum á rekstri almennra happdrætta, hver leiðin, sem kynni að verða farin (kafli 9.1).

Í hugmyndinni um ríkisrekin happdrætti felst, að allur happdrættisrekstur væri í höndum ríkisins. Er þá fyrst og fremst hafður í huga rekstur happdrætta, sem sambærileg eru hinum lögvernduðu happdrættum. Ef happdrættisrekstur er í höndum ríkisins, fær hið opinbera umfangsmikið fjármagn, sem nota má til styrktar mörgum málefnum. Þannig getur hið opinbera alfarið haft stjórn á því, hvert þessir fjármunir renna og tryggt að skipting þeirra sé í samræmi við slík markmið. Hið opinbera hefur þá jafnframt möguleika á að ráðstafa ágóðanum á mismunandi vegu, eftir aðstæðum hverju sinni. Þörf er þó á vandaðri lagasetningu og tryggu eftirliti með ríkisrekinni happdrættisstarfsemi til að koma í veg fyrir, að fjármunirnir renni til annarra málefna en fyrirhugað er. Væri þessi leið farin, þyrfti að setja ítarleg lög þar sem fjallað væri um happdrættisrekstur ríkisins. Heppilegast væri að gera það í einum lagabálki. Síðan væri fjallað nánar um einstakar tegundir happdrætta í reglugerðum (kafli 9.2).

Í hugmyndinni um einkarekin happdrætti felst, að ríkið dragi sig alfarið út af happdrættismarkaðnum og starfsemin verði gefin frjáls innan ákveðins lagaramma. Þeim, sem uppfylla tiltekin lágmarks skilyrði, verði heimilað að starfrækja happdrætti. Sett verði almenn, ítarleg lög, þar sem kveðið verði á um tilteknar meginreglur, er gildi um öll happdrætti. Á grundvelli laganna verði gefnar út reglugerðir um hvert happdrætti fyrir sig. Hér er litið á happdrættisstarfsemi sem hverja aðra þjónustu við neytendur sem lúti almennum samkeppnisreglum. Markaðurinn sjái til þess að þeir, sem í happdrættisrekstri standa, leitist við að bjóða neytendum hagstæðustu kjör með það að markmiði að auka viðskipti sín og afrakstur. Leyfisgjöld og skattar á happdrættissarfsemina standi undir kostnaði við eftirlit, en verði að öðru leyti varið til ákveðinna málaflokka. Hagstæðara sé, bæði fyrir neytendur og ríkissjóð, að starfsemin sé gefin frjáls, heldur en að ríkið hafi hana í sínum höndum. Heppilegra sé að láta markaðinn um að leita nýrrar tækni og betri kjara fyrir neytendur. Ríkið skattleggi síðan starfsemina. Setja þyrfti því jafnframt almenna og ítarlega löggjöf um happdrættismálefni (kafli 9.3).

Í hugmyndinni um blöndu af ríkisreknum og einkareknum happdrættum felst, að heimiluð verði bæði einka- og ríkisrekin happdrætti. Mætti þá hugsa sér að minnsta kosti tvo möguleika. Annars vegar, að tiltekin fyrirtæki/stofnanir í eigu ríkisins hefðu einkarétt á starfrækslu ákveðinna happdrætta. Öðrum væri frjálst að starfrækja önnur happdrætti. Hins vegar, að fyrirtækjum og/eða stofnunum í eigu ríkisins væri ekki veittur einkaréttur á neinum happdrættum, heldur yrðu þau að keppa við einkarekin happdrættisfyrirtæki. Af þessari hugmynd leiðir, að ríkisvaldinu gefst kostur á að stýra því með nokkuð ákveðnum hætti, hvert ágóði af happdrættisstarfsemi rennur, en jafnframt væru kostir markaðarins nýttir að hluta til, til þess að ýta undir samkeppni og framþróun og ná fram ákveðinni hagkvæmni. Hugmynd þessi er í reynd engin nýlunda, því segja má, að happdrættismarkaðurinn í dag sé einskonar blanda af ríkis- og einkareknum happdrættum. Líklega væri heppilegast að ein lög væru sett um happdrættisrekstur ríkisins og önnur um einkarekin happdrætti (kafli 9.4).

Tillögur um æskilegar breytingar á reglum um almenn happdrætti geta átt við, hver svo sem þeirra þriggja leiða til úrbóta á skipan happdrættismála, sem raktar hafa verið að framan, kynni að verða fyrir valinu. Lagt er til, að í happdrættislög - hvort heldur almenn happdrættislög eða sérstök lög um efnið - verði settar ítarlegar reglur um almenn happdrætti (kafli 9.5).

Við skilgreiningu á hugtakinu happdrætti í nýrri, almennri löggjöf um það efni, þyrfti að taka afstöðu til annarra happdrætta og skyldrar starfsemi, í þeim skilningi, að skilgreina þyrfti, hvort leikir þessir teldust happdrætti og þá við hvaða aðstæður og að hvaða skilyrðum fullnægðum. Hér er átt við svonefnd kaupaukahappdrætti og ýmsa happdrættisleiki aðra, sem farið hafa fram í gegnum síma, símatorg eða sjónvarp, án leyfis í neinu formi (kafli 9.6).

Með tilkomu Netsins hafa aukist möguleikar á þátttöku í ýmsum leikjum og spilum, sem sett eru á markað í gegnum Netið. Að því er löggjöf varðar vakna margvísleg vandamál, t.d. vegna þess, að ekki er víst að unnt verði að staðsetja skipuleggjendur happdrættis í löndum þeim, sem leikirnir fara fram í. Þá verður erfitt að ákveða, hvaða reglur um skipulag og eftirlit eigi við um leikina. Við bætist, að eftirlit er örðugleikum háð. Við setningu happdrættislöggjafar verður að hafa í huga þessa öru tækniþróun. Netið er enn sem komið er óráðinn miðill að því er happdrætti varðar (kafli 9.7).

4. GILDANDI LÖGGJÖF UM HAPPDRÆTTI

4.1 Íslenskur réttur

4.1.1 Hugtakið happdrætti

Hugtakið happdrætti er ekki skilgreint í íslenskum lögum. Almennt er hins vegar litið svo á, að happdrætti sé starfsemi þar sem hópur þátttakenda tekur gegn gjaldi þátt í hlutkesti um einn eða fleiri vinninga, þ.e. vinningsvon ræðst af tilviljun. Utan happdrættishugtaksins falla þá þau tilvik, annars vegar þegar þátttaka er ekki bundin við greiðslu gjalds, og hins vegar þegar þátttaka gerir í reynd kröfur um ákveðna færni, þannig að vinningsvon ræðst ekki eingöngu af tilviljun.

Vafi kann að leika á, hvort og þá hvaða skilsmunur sé á happdrætti annars vegar og fjárhættuspili eða veðmáli hins vegar. Í 183. og 184. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. lög nr. 82/1998, 92. og 93. gr., er lögð refsing við því að stunda fjáhættuspil og veðmál í atvinnuskyni og koma öðrum til þátttöku í þeim, svo og að hafa beinar eða óbeinar tekjur af því að láta þau fara fram í húsakynnum sínum. Í athugasemdum með frumvarpi til almennra hegningarlaga er að finna svofellda skilgreiningu á þessum hugtökum (sjá Alþ.tíð. 1939, A-deild, þskj. 43, bls. 385): "Fjárhættuspil er það, þegar peningar eða önnur verðmæti eru lögð undir í spilum, teningskasti, kúlnaspili o.s.frv., þar sem eingöngu eða að mestu er undir tilviljun komið, hver þátttakenda hlýtur ávinning. Við veðmál koma sömu sjónarmið til greina, en þá eru að jafnaði ekki notuð spil eða önnur tæki í sambandi við vinninga."

Hafa ber í huga, að framangreind skilgreining á hugtökunum fjárhættuspil og veðmál er sett fram árið 1939 og hana er að finna í refsilögum. Það kann að skipta máli varðandi þá öru tækniþróun, sem átt hefur sér stað síðan. - Annars er gengið út frá því í skilgreiningunni, að greint sé að mestu á milli svonefndra happaspila eða lukkuspila annars vegar og hæfnisspila hins vegar og eru þá eingöngu spil sem falla í fyrrnefnda flokkinn refsiverð samkvæmt lagaákvæðunum að fullnægðum þeim skilyrðum, sem þar koma fram. Áherslu ber þó að leggja á, að í mörgum spilum reynir á báða þessa meginþætti - heppnina og hæfnina - þótt oftast sé annar hvor þeirra ríkjandi.

Um happdrættisstarfsemi gilda annars vegar almenn lög og hins vegar gilda sérstök lög um happdrætti nokkurra tiltekinna aðila.

4.1.2 Söguleg atriði

Árið 1926 voru fyrst sett almenn ákvæði um happdrætti og hlutaveltur hér á landi, með lögum nr. 6/1926. Í athugasemdum við frumvarp til laganna er greint frá tilefni þeirra og tilgangi. Þar segir orðrétt (Alþ.tíð. 1926, A-deild, þskj. 3, bls. 54-55): "Ákvæði fyrstu málsgr. frv. þessa eru að mestu í samræmi við þær reglur, er venju samkvæmt hefir verið fylgt til þessa, og eru sett til lögfestingar þeirra reglna og enn til þess að tryggja það, að eigi verði happdrætti haldin eða hlutavelta án leyfis, ekki einu sinni innan fjelaga. Síðari málsgreinin er ákvæði um það, sem talið hefir verið sjálfsagt þótt ekki sje í lögum, að til stofnunar þar nefndra happdrætta þurfi lagaheimild. Þykir og rjett að hafa lagaákvæði um þetta. Frumvarpið kemur þó fram sjerstaklega vegna þess, að það hefir komið fyrir að menn hjer hafa verslað með eða selt hluti fyrir erlend happdrætti og önnur þvílík happaspil, og nýlega hefir verið spurst fyrir um það frá útlöndum, hvort slík verslun sje hjer ekki öllum frjáls. Mun hafa gengið til slíkra kaupa stórfje frá landsmönnum, og væri gott ef unt væri að girða fyrir það, að menn þannig kasti fje á glæ. Í þessu skyni er ákvæði 2. gr. sett. En ekki verður girt fyrir það, að menn í útlöndum selji hingað happdrættishluti, en á þann hátt yrði væntanlega ekki eins mikið verslað eins og ef settar yrðu hjer á stofn verslanir með erlenda happdrættishluti."

Fram til ársins 1933 voru ekki starfrækt önnur happdrætti hér á landi en almenn happdrætti. Nokkrum sinnum voru þó flutt á Alþingi frumvörp um stofnun, ýmist happdrættis (peningalotterís) fyrir Ísland eða ríkishappdrættis, nánar tiltekið árin 1905, 1912, 1924, 1925 og 1926. Ekkert þeirra varð að lögum; frumvörpin frá 1905, 1924 og 1925 voru ekki útrædd, en frumvörpin frá 1912 og 1926 voru samþykkt á Alþingi en virðast ekki hafa hlotið staðfestingu (sjá Alþ.tíð. 1905, A-deild, þskj. 214, bls. 537, Alþ.tíð. 1912, A-deild, þskj. 326, bls. 445-446, Alþ.tíð. 1924, A-deild, þskj. 409, bls. 759-761, Alþ.tíð. 1925, A-deild, þskj. 341, bls. 634-645, og Alþ.tíð. 1926, A-deild, þskj. 596, bls. 1024-1026).

Með lögum um stofnun happdrættis fyrir Ísland, nr. 44/1933, var Háskóla Íslands veitt viðvarandi lagaheimild fyrstum aðila til að reka hér happdrætti með peningavinningum. Í athugasemdum við frumvarpið, sem varð að framangreindum lögum, er tekið fram, að tilgangurinn með stofnun happdrættis sé að afla fjár með sérstökum hætti til húsbygginga fyrir Háskóla Íslands, en skólinn hafi búið við allsendis ófullnægjandi húsnæði frá stofnun hans árið 1911. Í frumvarpinu segir, að með þessari aðferð sé leitað í ákveðnu formi frjálsra samskota til þess að hrinda einu af nauðsynjamálum þjóðfélagsins í framkvæmd, nauðsynjamáli, sem að öðrum kosti hlyti að lenda á ríkissjóði (sjá Alþ.tíð. 1933, A-deild, þskj. 158, bls. 448-451). Frumvarpið var í aðalatriðum sniðið eftir frumvarpi til laga um íslenskt ríkishappdrætti, sem lagt var fram á Alþingi árið 1925, en varð ekki útrætt (sjá Alþ.tíð. 1925, A-deild, þskj. 341, bls. 634-645). Það mál hafði verið undirbúið af erlendum sérfræðingum, eins og það er orðað í athugasemdum við frumvarpið, og happdrættið sniðið sérstaklega eftir Det kgl. Københavnske Klasselotteri, sem þá hafði starfað um nálega tveggja alda skeið. Happdrættinu var ætlað að afla fjár í ríkissjóð.

4.1.3 Almenn lög um happdrætti

Í lögum um happdrætti (lotterí) og hlutaveltur (tombólur), nr. 6/1926, er að finna almenn ákvæði um happdrætti og hlutaveltur. Samkvæmt 1. gr. laganna er happdrætti, hverrar tegundar sem er, óheimilt án leyfis dómsmálaráðuneytis, og hlutaveltur án leyfis lögreglustjóra. Síðan segir, að peningahappdrætti eða önnur þvílík happspil megi ekki setja á stofn án lagaheimildar. Í 2. gr. er tekið fram, að bannað sé að versla hér með eða selja hluti fyrir erlend happdrætti, eða hafa hér á hendi nokkur störf, er að því lúta. Í 3. gr., sbr. lög nr. 75/1982, 49. gr., segir að brot gegn lögunum varði sektum og fara skuli með mál samkvæmt þeim að hætti opinberra mála.

4.1.4 Happdrætti Háskóla Íslands

4.1.4.1 Flokkahappdrætti með peningavinningum

Leyfishafi og löggjöf: Með lögum um stofnun happdrættis fyrir Ísland, nr. 44/1933, var Háskóla Íslands veitt heimild til að reka flokkahappdrætti með peningavinningum. Á þeim lögum voru gerðar breytingar með lögum nr. 81/1940, bráðabirgðalögum nr. 2/1941 sem staðfest voru sem lög nr. 48/1941, lögum nr. 6/1943, 125/1943, 97/1945, 93/1951, 68/1953, 14/1955, 26/1957, 36/1959, 74/1960 og 14/1963. - Lögin, ásamt síðari breytingum, voru endurútgefin sem lög nr. 86/1963. Þeim lögum var svo aftur breytt með lögum nr. 25/1969 og 95/1969. - Lögin með áorðnum breytingum voru síðan endurútgefin sem lög nr. 13/1973, um happdrætti Háskóla Íslands, og eru það núgildandi lög um efnið. Þeim lögum hefur síðan verið breytt með lögum nr. 96/1974, 55/1976, 23/1986 og 77/1994. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 13/1973 setur dómsmálaráðherra nánari reglur um starfsemi happdrættisins með reglugerð. Það hefur verið gert með reglugerð nr. 348/1976, sbr. reglugerðir nr. 96/1980, 85/1981, 595/1994, 638/1995, 705/1997 og 688/1998.

Tegund: Í a-lið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 13/1973, sbr. lög nr. 96/1974, 1. gr., er skilgreint um hvers konar starfsemi sé að ræða. Þar segir, að happdrættismiðar skuli hafa "hlutatölu" sem ekki sé hærri en 60.000, er skiptist í 12 flokka á ári hverju, og skuli dráttur fara fram fyrir einn flokk í mánuði hverjum, dráttur 1. flokks í janúar og 12. flokks í desember. Síðan segir, að heimilt sé að gefa út 4 flokka hlutamiða, sem greinist að með bókstöfunum E, F, G og H, en auk þess sé heimilt að gefa út sérstakan flokk, B-flokk, sem hafi fimmfalt gildi á við hvern hinna flokkanna, bæði að því er varði endurnýjunargjald og fjárhæð vinninga. - Af þessu er ljóst, að um svonefnt flokkahappdrætti er að ræða.

Einkaréttur: Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 13/1973 er dómsmálaráðherra heimilt að veita Háskóla Íslands einkaleyfi til rekstrar happdrættis með skilyrðum, sem nánar eru tilgreind í a-e-liðum ákvæðisins. Í e-lið er tekið fram, að leyfishafi skuli greiða í ríkissjóð 20% af nettóarði í einkaleyfisgjald. Jafnframt segir, að einkaleyfi til að reka happdrættið megi veita til 1. janúar 2004, sbr. lög nr. 23/1986, 1. gr. Í 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 348/1976 segir, að einkaleyfisgjaldið skuli renna í byggingarsjóð rannsóknarstarfseminnar, sbr. 60. gr. laga um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, nr. 64/1965. Sú lagagrein fékk nýtt númer (61. gr.) með breytingarlögum nr. 22/1973. Ákvæðið var síðan fellt niður með lögum nr. 61/1994, um rannsóknarráð Íslands. Sjá nú 14. og 15. gr. þeirra laga um bygginga- og tækjasjóð.

Í 2. gr. segir, að á meðan happdrættið starfi, sé bannað að setja á stofn nokkurt annað peningahappdrætti hér á landi, svo og að versla með eða hafa á boðstólum miða erlendra happdrætta, auglýsa þá í innlendum blöðum eða hvetja menn til að kaupa þá. Þó geti dómsmálaráðherra veitt undanþágu að því er kemur til happdrættis, sem stofnað sé til í góðgerðarskyni einungis, og þó með skýrum takmörkunum, t.d. fyrir eitt sveitarfélag, og aldrei nema um ákveðinn tíma, lengst eitt ár.

Iðgjald: Í b-lið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 13/1973 kemur fram, að iðgjald fyrir hvern hlut ákveði dómsmálaráðherra að fengnum tillögum happdrættisráðs og stjórnar happdrættisins. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 348/1976, sbr. reglugerð nr. 688/1998, 1. gr., er verð hlutamiða kr. 800 í hverjum flokki og fyrir ársmiða skal greiða kr. 9.600.

Miðasala: Samkvæmt 3. gr. laga nr. 13/1973 má enginn selja hlutamiða happdrættisins nema löggiltir útsölumenn þess, er fá miðana frá aðalskrifstofu happdrættisins. Dómsmálaráðherra er heimilt að leyfa happdrættinu að taka í sínar hendur útsölu hlutamiða.

Vinningar: Í c-lið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 13/1973 segir, að vinningar skuli eigi vera færri en svo, að að minnsta kosti fjórði hver miði hljóti vinning árlega að meðaltali og vinningsfjárhæð skuli nema a.m.k. 70% af iðgjöldum samantöldum í öllum 12 flokkunum. - Samkvæmt þessu telst happdrættið vera peningahappdrætti. Samkvæmt 14. gr. reglugerðar nr. 348/1976, sbr. reglugerð nr. 688/1998, 2. gr., skiptast vinningar í hverjum flokki í tvo hluta, almennan hluta og sjóðshluta. Stjórn happdrættisins ákveður, að fengnu samþykki happdrættisráðs, vinningatölu og verðmæti vinninga í almenna hluta vinninga hvers flokks. Til almennra vinninga skal verja 7/8 hlutum af heildarfjárhæð vinninga ársins. Vinningaskrá vegna almenna hlutans skal samin fyrirfram fyrir hvert ár. Til vinninga í sjóðshluta skal verja 70% af 1/8 hluta af andvirði hvers selds miða í hverjum. Falli sjóðsvinningur í flokki á óseldan miða, skal hann leggjast við heildarfjárhæð sjóðsvinninga í næsta flokki. Í 12. flokki skal útdrætti sjóðsvinninga haldið áfram með þeim hætti, að einn seldur miði í hverri útgefinni miðaröð happdrættisins hljóti vinning. Fjárhæð sjóðsvinninga í 12. flokki skal ákvörðuð þannig, að sú fjárhæð, sem varið var á árinu til vinninga í sjóðshluta, verði að fullu ráðstafað sem vinningum á selda miða.

Útdráttur: Í 17. gr. reglugerðar nr. 348/1976, sbr. reglugerð nr. 705/1997, 1. gr., er mælt fyrir um tæki við útdrátt vinninga. Þau eru einkum tvenns konar. Annars vegar tölva, ásamt dráttarforriti og öðrum hugbúnaði og átta hólfa stokki til útdráttar á lykiltölum fyrir útdráttarforrit. Hins vegar stokkur með fimm hólfum. Í fyrsta hólfi hans skulu vera kúlur, sem á er skráð ein talnanna frá 0 til 5, en í öðrum hólfum skulu vera kúlur, sem á er skráð ein talnanna frá 0 til 9. Þegar stokkurinn er notaður, skal draga í röð úr hólfunum, þannið að fyrst dragist út aftasta talan. Komi upp sú staða, að talan 0 hafi verið dregin út fjórum sinnum í röð, skal talan 0 í fyrsta hólfi jafngilda tölunni 6. Samkvæmt 15. gr. reglugerðar nr. 348/1976, sbr. reglugerð nr. 638/1995, 2. gr., er dráttur í hverjum flokki tvískiptur. Í 19. gr. reglugerðar nr. 348/1976, sbr. reglugerð nr. 688/1998, 3. gr., eru ákvæði um hvernig aðferðirnar tvær skulu notaðar í fyrri og síðari hluta útdráttarins í hverjum flokki.

Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laga nr. 13/1973, sbr. lög nr. 77/1994, 1. gr., getur dómsmálaráðherra heimilað að við rekstur flokkahappdrættisins séu notaðar sérstakar happdrættisvélar þannig að þátttaka, ákvörðun um vinning og greiðsla á honum fari fram vélrænt og samstundis og ennfremur að slíkar happdrættisvélar séu samtengdar, einstakar vélar og á milli sölustaða. Nánari ákvæði skal setja í reglugerð. Lágmarksaldur þátttakenda skal vera 16 ár. Þessi heimild hefur ekki verið nýtt af hálfu happdrættis Háskóla Íslands að því er varðar flokkahappdrættið.

Eftirlit: Samkvæmt d-lið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 13/1973, sbr. lög nr. 55/1976, 1. gr., skal útdráttur fara fram í Reykjavík undir eftirliti nefndar, sem dómsmálaráðherra skipar. Nefndin leggur "fullnaðarúrskurð" á allan ágreining um lögmæti eða gildi dráttar. Kostnað af starfi nefndarinnar ber happdrættið. Samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 348/1976, sbr. reglugerð nr. 96/1980, 1. gr., nefnist nefnd þessi happdrættisráð. Í 8. gr. reglugerðar nr. 348/1976 er mælt fyrir um það, að stjórn happdrættisins skuli, þegar ársreikningar séu tilbúnir og endurskoðaðir, senda happdrættisráði þá til athugunar og skuli jafnframt gefa skýrslu um starfsemi happdrættisins á síðastliðnu happdrættisári.

Ágóði: Í e-lið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 13/1973 segir, að ágóðanum skuli varið til að reisa byggingar á vegum Háskóla Íslands. Heimilt sé einnig að verja honum til greiðslu kostnaðar af viðhaldi háskólabygginganna, til fegrunar á háskólalóðinni, til þess að koma á fót og efla rannsóknarstofur við deildir háskólans, svo og til að greiða andvirði rannsóknar- og kennslutækja.

Skattar á vinninga: Í 4. gr. laga nr. 13/1973 segir, að vinningar í happdrættinu séu undanþegnir hvers konar opinberum gjöldum, öðrum en eignarskatti á því ári sem þeir falla.

Viðurlög við brotum á lögunum: Samkvæmt 6. gr. laga nr. 13/1973, sbr. lög nr. 82/1998, 163. gr., varða brot gegn lögunum sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

4.1.4.2 Sjóðshappdrætti - Happó

Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 13/1973, um happdrætti Háskóla Íslands, sbr. lög nr. 23/1986, 1. gr., er dómsmálaráðherra heimilað að veita Háskóla Íslands einkaleyfi til rekstrar skyndihappdrættis með peningavinningum, svo og peningahappdrættis sem ekki yrði rekið sem flokkahappdrætti. Með reglugerð nr. 410/1991, sbr. reglugerðir nr. 139/1992 og 193/1992, var happdrætti Háskóla Íslands veitt leyfi til að reka sérstakt happdrætti undir heitunum Sjóðshappdrætti Háskóla Íslands og "Happó". Happdrætti þetta var starfrækt um skeið, en starfsemi þess hefur nú verið hætt. Um fyrirkomulag happdrættisins, sjá tilgreindar reglugerðir.

4.1.4.3 Happaþrenna

Leyfishafi og löggjöf: Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 13/1973, sbr. lög nr. 23/1986, 1. gr., er dómsmálaráðherra heimilað að veita Háskóla Íslands einkaleyfi til rekstrar skyndihappdrættis með peningavinningum, svo og peningahappdrættis sem ekki yrði rekið sem flokkahappdrætti. Á þessum grundvelli hefur happdrætti Háskóla Íslands verið veitt leyfi til að starfrækja skafmiðaleikinn happaþrennu. Leyfið var veitt með sérstöku bréfi dómsmálaráðuneytisins þann 14. júlí 1986 og hafa breytingar á happdrættinu einnig verið heimilaðar síðar með slíkum bréfum.

Tegund: Í happaþrennu eru gefnir út flokkar skafmiða og er hver þeirra sjálfstæður. Fjöldi útgefinna miða er breytilegur eftir flokkum. Sem dæmi má taka, að í 54. flokki, sem gefinn var út í apríl 1998, er hann 500.000 stk. Miðarnir eru breytilegir að formi milli flokka að því er varðar uppbyggingu happdrættisins. Sem dæmi má aftur nefna 54. flokk. Á hverjum skafmiða í þeim flokki eru sex reitir, hver með ákveðinni fjárhæð í. Yfir reitunum er þunn, ógagnsæ himna. Til þess að hljóta vinning þarf sama fjárhæð að koma fyrir í þremur reitum af sex, sem þátttakandi skefur af, og er sú fjárhæð vinningsfjárhæðin.

Einkaréttur: Litið hefur verið svo á, að um einkaleyfi sé að ræða, þar sem vinningar eru peningar, og greiða beri einkaleyfisgjald í ríkissjóð með sama hætti og af rekstri flokkahappdrættisins.

Iðgjald: Verð skafmiða er breytilegt eftir flokkum. Sem dæmi má enn nefna 54. flokk, þar sem verðið er kr. 50.

Miðasala: Miðar eru seldir hjá umboðsmönnum happdrættis Háskóla Íslands og hjá öðrum aðilum, svo sem í verslunum.

Vinningar: Vinningshlutfall í happaþrennu er jafnan 50% í hverjum flokki og dreifing vinninga er jöfn á hverja 100.000 miða. Í gegnum tíðina hefur fjárhæð og fjöldi vinninga verið breytileg eftir flokkum. Sem dæmi má nefna að í áðurnefndum 54. flokki skulu vinningar skiptast á eftirfarandi hátt: Tveir vinningar að fjárhæð kr. 500.000, átta vinningar að fjárhæð kr. 50.000, 40 vinningar að fjárhæð kr. 5.000, 1500 vinningar að fjárhæð kr. 500, 13.500 vinningar að fjárhæð kr. 200, 49.000 vinningar að fjárhæð kr. 100 og 63.000 vinningar að fjárhæð kr. 50. Í 54. flokki er því fjöldi vinninga samtals 127.050 og heildarfjárhæð vinninga kr. 13.100.000.

Eftirlit: Fyrirtækið Opax Lotteries í Leeds á Englandi hefur annast prentun skafmiða í happaþrennu, en fyrirtækið framleiðir miða fyrir mörg happdrætti í Evrópu. Út frá því hefur verið gengið, að notarius publicus í Leeds sé viðstaddur prentun miðanna og gefi vottorð um að rétt sé að staðið.

Ágóði: Í 2. mgr. 1. gr. laga um happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13/1973, sbr. lög nr. 23/1986, 1. gr., segir að ágóða af rekstrinum skuli varið til starfsemi Háskóla Íslands svo sem segi í e-lið 1. mgr. laganna.

Skattar á vinninga: Litið hefur verið svo á, að 4. gr. laga um happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13/1973, taki einnig til þessarar tegundar happdrættis og vinningar séu því undanþegnir hvers konar opinberum gjöldum, öðrum en eignarskatti á því ári sem þeir falla.

Viðurlög við brotum á lögunum: Samkvæmt 6. gr. laga nr. 13/1973, sbr. lög nr. 82/1998, 163. gr., varða brot gegn lögunum sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

4.1.4.4 Pappírslaust peningahappdrætti - Gullnáman

Leyfishafi og löggjöf: Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 13/1973, um happdrætti Háskóla Íslands, sbr. lög nr. 23/1986, 1. gr., er dómsmálaráðherra heimilað að veita Háskóla Íslands einkaleyfi til rekstrar skyndihappdrættis með peningavinningum, svo og peningahappdrættis sem ekki yrði rekið sem flokkahappdrætti. Með reglugerð nr. 455/1993, sbr. reglugerð nr. 290/1998, er happdrætti Háskóla Íslands heimilað að reka sérstakt, pappírslaust peningahappdrætti undir heitinu Gullnáman.

Tegund: Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laga nr. 13/1973, sbr. lög nr. 77/1994, 1. gr., getur dómsmálaráðherra heimilað að við rekstur skyndihappdrættis með peningavinningum eða annars konar peningahappdrættis séu notaðar sérstakar happdrættisvélar þannig að þátttaka, ákvörðun um vinning og greiðsla á honum fari fram vélrænt og samstundis og ennfremur að slíkar happdrættisvélar séu samtengdar, einstakar vélar og á milli sölustaða. Dómsmálaráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um staðsetningu, auðkenningu, fjölda og tegundir happdrættisvéla, eftirlit með þeim, notkun mynta og seðla við greiðslu fyrir þátttöku, fjárhæð vinninga og aldur þeirra, sem mega nota vélarnar (reglugerð nr. 455/1993 tekur á sumum þessara atriða, en ekki hafa verið gerðar breytingar á henni eftir setningu laga nr. 77/1994). Lágmarksaldur þátttakenda skal þó vera 16 ár. Í heiti reglugerðar nr. 455/1993 kemur fram, að um pappírslaust peningahappdrætti sé að ræða og í 2. gr. segir, að rekstur happdrættisins skuli byggður á notkun sjálfvirkra happdrættisvéla. Samkvæmt 3. gr. skulu vélarnar vera tengdar miðlægu tölvukerfi happdrættisins og mynda með þeim hætti eina heild. Vélarnar geta haft aðgang að lukkupottum og átt hlutdeild í þeim. Þær geta hvort heldur sem er myndað kerfi á takmörkuðu svæði eða verið hluti af kerfi á landsvísu. Í 1. mgr. 4. gr. segir, að stjórn happdrættisins ákveði hvar happdrættisvélum verði komið fyrir.

Einkaréttur: Litið hefur verið svo á, að um einkaleyfi sé að ræða, þar sem vinningar eru peningar, og greiða beri einkaleyfisgjald í ríkissjóð með sama hætti og af rekstri flokkahappdrættisins. Sjá hins vegar lög nr. 73/1994, um Íslenska söfnunarkassa.

Iðgjald: Samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 455/1993, sbr. reglugerð nr. 290/1998, 1. gr., felst þátttaka í happdrættinu í því að greiða kr. 50, kr. 100, kr. 150, kr. 200 eða kr. 250 í hvern leik í happdrættisvél.

Útdráttur: Í b-lið 8. gr. reglugerðar nr. 455/1993 er tekið fram, að hugbúnaður tölvukerfis happdrættisins skuli tryggja að innan mjög þröngra marka sé það tilviljun sem ráði því, hvernig vinningar falla og að ekki sé unnt að hafa nein áhrif á það, hver hlýtur vinning eða hvenær vinningar falla.

Vinningar: Í 7. gr. reglugerðar nr. 455/1993 segir, að á hverri happdrættisvél skuli vera prentuð vinningaskrá sem með greinilegum hætti sýni, hverjir vinningar séu. Vinningar eru tvenns konar, fastar fjárhæðir og lukkupottar. Vinningar, sem eru fastar fjárhæðir, skulu tilgreindir með samstæðum merkja, tölustafa og spila. Lukkupottarnir eru tveir, Gullpottur og Silfurpottur. Fjárhæð þeirra, hvors um sig, skal háð þátttöku í happdrættinu og fara stöðugt hækkandi þar til einhver þátttakenda vinnur þá fjárhæð, sem hverju sinni hefur safnast þar fyrir. Þegar fjárhæð Gullpotts hefur unnist og potturinn tæmst, skal þegar í stað setja kr. 2.000.000 í hann á ný vegna frekari þátttöku. Með sama hætti skal setja kr. 50.000 í Silfurpott, eftir að hann hefur tæmst. Í 1. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 455/1993 er mælt fyrir um það, að vinningshafar skulu að jafnaði fá vinninga sína borgaða úr happdrættisvélinni á sjálfvirkan hátt. Þegar ekki eru nægilega margir peningar í vélinni til að borga út vinning, skal vinningshafi snúa sér til umsjónarmanns vélarinnar sem bæta skal peningum í hana. Umsjónarmaður skal vera staðsettur á hverjum þeim stað þar sem happdrættisvélar eru í notkun, sbr. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 455/1993.

Samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 455/1993 skal útreiknað vinningshlutfall happdrættisvélanna vera að lágmarki 89%.

Eftirlit: Í 8. gr. reglugerðar nr. 455/1993 kemur fram, að hugbúnaður tölvukerfis happdrættisins skuli tryggja 1) að útborgað vinningshlutfall nemi til jafnaðar a.m.k. 89%, 2) að tilviljun ráði hvernig og hvenær vinningar falla og að engin áhrif sé hægt að hafa þar á, 3) að nákvæmlega sé skráð í tíma með óbreytanlegum hætti fyrir hve háa fjárhæð hefur verið spilað í hverri einstakri happdrættisvél og hversu mikið vélin hefur borgað út í vinningum, 4) að nákvæmlega sé skráð í tíma hvenær einstakar happdrættisvélar hafa verið opnaðar og þeim lokað, 5) að í tölvumiðstöð séu stöðugt gefnar upplýsingar í prentuðu formi um stöðu heildarkerfisins og þá sérstaklega ef vart verður við einhverja óreglu í kerfinu og 6) að hvenær sem er sé unnt að fá útprentun á þeim upplýsingum, sem geymdar eru í tölvukerfinu.

Í 9. gr. reglugerðar nr. 455/1993 segir, að til að tryggja að kröfum, sem greinir í 8. gr., sé fullnægt, skuli liggja fyrir vottorð um að tölvukerfið, þ.m.t. hugbúnaður, fullnægi þeim kröfum. Vottorð þessa efnis skulu gefin út af rannsóknastofnun, sem hlotið hefur alþjóðlega viðurkenningu á hæfni til að framkvæma úttekt á slíkum kerfum. Happdrættisráð skal fá sérfróða menn til að fylgjast með úttekt kerfisins og staðfesta heimild til notkunar þess.

Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 455/1993 skal happdrættisvélum aðeins komið fyrir á stöðum þar sem unnt er að koma við fullnægjandi eftirliti með aldri þátttakenda.

Ágóði: Í 2. mgr. 1. gr. laga um happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13/1973, sbr. lög nr. 23/1986, 1. gr., segir að ágóða af rekstrinum skuli varið til starfsemi Háskóla Íslands svo sem segi í e-lið 1. mgr. 1. gr. laganna.

Skattar á vinninga: Litið hefur verið svo á, að 4. gr. laga um happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13/1973, taki einnig til þessarar tegundar happdrættis og vinningar séu því undanþegnir hvers konar opinberum gjöldum, öðrum en eignarskatti á því ári sem þeir falla.

Viðurlög við brotum á lögunum: Samkvæmt 6. gr. laga nr. 13/1973, sbr. lög nr. 82/1998, 163. gr., varða brot gegn lögunum sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

4.1.5 Veðmálastarfsemi í sambandi við kappreiðar og kappróður

Leyfishafi og löggjöf: Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 23/1945 er dómsmálaráðherra heimilt að veita hestamannafélögum leyfi til þess að reka veðmálastarfsemi við kappreiðar og sjómannadagsráðum leyfi til þess að reka veðmálastarfsemi við kappróður með skilyrðum, er ákveðin verði í reglugerð. Þessi starfsemi hefur nánast legið niðri um langa hríð. Í gildi eru þó tvær reglugerðir, sem að þessu lúta. Með reglugerð nr. 317/1995 var Hestamannafélaginu Fáki í Reykjavík heimilað að reka veðmálastarfsemi í sambandi við kappreiðar, er fram fara á vegum félagsins. Reglugerðin var gefin út 2. júní 1995 og gildir til fimm ára, sbr. 12. gr. hennar. Með reglugerð nr. 423/1998 var Hestamannafélaginu Sleipni í Árnessýslu veitt samskonar heimild. Sú reglugerð var gefin út 6. júlí 1998 og gildir til eins árs, sbr. 13. gr. hennar.

Tegund: Eins og fram kemur í 1. mgr. 1. gr. laganna er um að ræða veðmálastarfsemi fyrir hestamannafélög við kappreiðar og fyrir sjómannadagsráð við kappróður. Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 317/1995 og 2. gr. reglugerðar nr. 423/1998 fer veðmálastarfsemi Fáks og Sleipnis þannig fram, að veðjað er um hver hestur verði hlutskarpastur í hverjum flokki, svo og í úrslitahlaupum.

Einkaréttur: Í lögunum eru engin ákvæði um að hestamannafélög eða sjómannadagsráð hafi einkarétt til veðmálastarfsemi. Ekkert slíkt ákvæði er og í reglugerðum nr. 317/1995 og 423/1998 til handa hestamannafélögunum Fáki og Sleipni.

Iðgjald: Í lögunum eru engin ákvæði um iðgjald. Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 317/1995 og 3. gr. reglugerðar nr. 423/1998 má veðfjárupphæðin í veðmálastarfsemi Fáks og Sleipnis nema allt að kr. 5.000.

Miðasala: Í lögunum eru engin ákvæði um miðasölu. Um veðmálastarfsemi Fáks segir í 3. gr. reglugerðar nr. 317/1995, að veðfjárupphæðin skuli greiðast hestamannafélaginu (veðmálastofnuninni) gegn afhendingu veðmiða. Að því er varðar veðmálastarfsemi Sleipnis er samskonar ákvæði í 3. gr. reglugerðar nr. 423/1998.

Vinningar: Í lögunum eru engin ákvæði um vinninga. Samkvæmt a-lið 4. gr. reglugerðar nr. 317/1995 skal 60% af veðfjárupphæð hvers hlaups í veðmálastarfsemi Fáks skipt hlutfallslega á þá upphæð, sem veðjað hefur verið um á þann hest, sem vinnur. Í 5. gr. reglugerðarinnar er tekið fram, að að loknu hverju hlaupi skuli veðmálin reiknuð út, útkoman auglýst og vinningar greiddir út þegar í stað gegn framvísun veðmiða. Í 8. gr. reglugerðarinnar segir, að vinningar greiðist í heilum tugum króna, þannig að vinningur hækki eða lækki í heilan tug samkvæmt almennum reglum. Ekki er ábyrgst að innskot fáist að fullu aftur. - Í a-lið 4. gr., 5. gr. og 8. gr. reglugerðar nr. 423/1998 eru samhljóða ákvæði um veðmálastarfsemi Sleipnis, þó þannig, að ekki er tekið fram, að ekki sé ábyrgst að innskot fáist að fullu aftur.
Í 11. gr. reglugerðar nr. 317/1995 og 11. gr. reglugerðar nr. 423/1998 er tekið fram að þeir, sem veðji, séu í einu og öllu háðir kappreiðareglum félaganna og úrskurði dómnefndar. Þannig missi t.d. hestur rétt til verðlauna, ef knapi hans er dæmdur úr leik o.s.frv.

Eftirlit: Í lögunum eru engin ákvæði um eftirlit með veðmálastarfseminni. Engin ákvæði er heldur að finna um eftirlit með veðmálastarfsemi Fáks í reglugerð nr. 317/1995. Í 12. gr. reglugerðar nr. 423/1998 um veðmálastarfsemi Sleipnis er hins vegar tekið fram, að halda skuli nákvæma skrá yfir veðmálastarfsemina, svo sem inngreiddar og útgreiddar veðfjárhæðir og ráðstöfun tekna, og afhenda hana dómsmálaráðuneytinu innan sex mánaða frá því að veðmálastarfsemi lýkur. Í 11. gr. fyrrnefndu reglugerðarinnar er þó tekið fram, að óheimilt sé að leyfa unglingum innan 16 ára að veðja. Í síðarnefndu reglugerðinni er samskonar ákvæði, þó þannig, að aldursmarkið er 18 ár.

Ágóði: Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laganna skal áskilja í reglugerðinni, að 10% af hagnaði hestamannafélaganna af starfsemi þessari skuli varið til reiðvega og 75% af hagnaði, er verður af kappróðri sjómannadagsráðanna, er fari fram á sjómannadaginn, renni í sjóminjasafn.

Í b-lið 4. gr. reglugerðar nr. 317/1995 segir um veðmálastarfsemi Fáks, að 40% af veðfjárupphæðum hvers hlaups skuli varið til reksturs kappreiðanna, til viðhalds og umbóta á skeiðvelli félagsins og til reiðvega Reykvíkinga. Tillagið til reiðvega megi aldrei vera minna en 10% af hagnaði félagsins af veðmálastarfseminni. - Sambærilegt ákvæði er að finna í b-lið 4. gr. reglugerðar nr. 423/1998 að því er varðar veðmálastarfsemi Sleipnis, en þar er þó talað um reiðvegi í Árnessýslu.

Skattar á vinninga: Í lögunum eru engin ákvæði um skatt á vinninga.

Viðurlög við brotum á lögunum: Engin ákvæði eru í lögunum um viðurlög við brotum gegn þeim.

4.1.6 Sérstök tegund happdrættis héraðssambanda íþrótta- og ungmennafélaga

Leyfishafi og löggjöf: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 15/1952 er dómsmálaráðherra heimilt að leyfa héraðssamböndum íþrótta- og ungmennafélaga, hverju á sínu héraðssvæði, að stofna til og reka um tiltekinn tíma töluspjaldahappdrætti (bingó-happdrætti) í sambandi við skemmtanir, er þau eða sambandsfélög þeirra halda, samkvæmt reglum, er settar yrðu með reglugerð. Sjá um það reglugerð nr. 42/1953. Samkvæmt 3. gr. hennar skal leyfi eigi veitt til lengri tíma en eins árs í senn. Í 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar er tekið fram, að ekki megi halda fleiri en eitt happdrætti á hverri skemmtun, nema þátttökugjald samtals nemi eigi hærri upphæð en 10 krónum. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. má eigi halda töluspjaldahappdrætti á fleiri en þremur skemmtunum í viku hverri á hverju héraðssvæði. Reglurnar, sem settar voru um þessa tegund happdrætta, komu aldrei til framkvæmda, þar sem þær þóttu of þröngar.

Veitt hafa verið leyfi til að halda einstök töluspjaldahappdrætti á grundvelli almennu happdrættislaganna nr. 6/1926 (sjá kafla 4.1.13). Í sumum tilvikum hefur ekki verið krafist leyfis (sjá kafla 4.1.14).

Tegund: Eins og fram kemur í 1. gr. laganna er um að ræða töluspjaldahappdrætti eða bingó.

Einkaréttur: Í lögunum eru engin ákvæði um einkarétt til handa einstökum héraðssamböndum.

Iðgjald: Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 42/1953 má þátttökugjald í hverju happdrætti eigi nema hærri upphæð en 10 krónum fyrir hvern þátttakanda.

Vinningar: Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar skal verðmæti vinninga eigi nema minna en 25% af söluverði happdrættisspjalda í hverju happdrætti.

Útdráttur: Hvorki í lögunum né í reglugerð nr. 42/1953 er að finna ákvæði um útdrátt talna í töluspjaldahappdrættunum eða um frekari framkvæmd að þessu leyti.

Eftirlit: Í 3. gr. reglugerðar nr. 42/1953 segir, að leyfishafi skuli að leyfistíma liðnum senda dómsmálaráðuneytinu skýrslu um starfsemina á liðnu leyfistímabili. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. skal stjórnarmaður eða starfsmaður héraðssambands annast um framkvæmd töluspjaldahappdrættis ásamt stjórnendum þess félags, er heldur skemmtun hverju sinni. Fulltrúi héraðssambands skal gera skýrslu um þátttakendafjölda og þátttökugjöld og verðmæti vinninga í hverju happdrætti. Fulltrúi þess félags, er heldur skemmtun, og þátttakandi, er hlýtur vinning, skulu rita nöfn sín á skýrsluna. Skulu þessi skilríki geymd uns árleg skýrsla hefur verið gefin og má þá krefjast endurskoðunar þeirra, ef þörf þykir.

Ágóði: Hvorki í lögunum né reglugerð nr. 42/1953 er að finna fyrirmæli um ráðstöfun á ágóða af happdrættinu.

Skattar á vinninga: Í lögunum eru engin ákvæði um skatt á vinninga.

Viðurlög við brotum á lögunum: Engin ákvæði eru í lögunum um viðurlög við brotum gegn þeim. Í 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 42/1953 segir, að leyfi samkvæmt reglugerðinni megi afturkalla þegar í stað, ef brugðið sé út af fyrirmælum hennar.

4.1.7 Happdrætti í sambandi við skuldabréfalán Flugfélags Íslands

Í Lagasafni 1995 er getið um lög nr. 89/1957, um happdrætti í sambandi við skuldabréfalán Flugfélags Íslands. Lögin eru ekki birt í lagasafninu, heldur vísað til Lagasafns 1965, d. 2377-2378.

Samkvæmt 1. gr. laganna er Flugfélagi Íslands heimilt að hafa happdrætti í sambandi við útgáfu sérskuldabréfa vegna útboðs skuldabréfaláns, þannig að sérskuldabréfin séu samtímis tölusett sem happdrættismiðar. Í 2. gr. segir, að vinningar í happdrættinu verði flugfarseðlar eða afsláttur af farseðlum með flugvélum félagsins og verði dregið um þá árlega í 6 ár í aprílmánuði, í fyrsta sinn í apríl 1958. Verðmæti vinninga í hverjum drætti verði gkr. 300.000. Réttur til vinninga falli á öll skuldabréf lánsins. Dráttur fari fram hjá borgarfógetanum í Reykjavík.

Lög nr. 89/1957 virðast aldrei hafa komið til framkvæmda. Til álita kemur, að líta svo á, að þau séu úr gildi fallin vegna notkunarleysis.

4.1.8 Happdrætti Sambands íslenskra berklasjúklinga

Leyfishafi og löggjöf: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 18/1959 er Sambandi íslenskra berklasjúklinga heimilt að reka vöruhappdrætti með skilyrðum, sem talin eru upp í a-d-lið laganna. Lögum nr. 18/1959 hefur verið breytt með lögum nr. 52/1976, 115/1984 og 24/1989. - Í 3. gr. laga nr. 18/1959, sbr. lög nr. 24/1989, 1. gr., kemur fram, að heimildin gildi til ársloka 1999. Í 4. gr. segir, að ráðherra setji með reglugerð nánari ákvæði um starfsemi happdrættisins, að fengnum tillögum frá stjórn Sambands íslenskra berklasjúklinga. Sjá um það reglugerð nr. 372/1976, sbr. reglugerðir nr. 20/1980, 86/1981, 330/1992, 406/1996, 587/1997, 708/1997 og 780/1998.

Tegund: Í 1. gr. laganna kemur fram, að um sé að ræða vöruhappdrætti. Í 18. gr. reglugerðar nr. 372/1976 er og tekið fram, að allir vinningar greiðist í vörum og að óheimilt sé að greiða andvirði þeirra í peningum. Í a-lið 1. gr. laganna, sbr. lög nr. 115/1984, 1. gr., segir síðan að hlutatalan megi ekki fara fram úr 75.000. Draga skuli í 12 flokkum á ári hverju og skuli dráttur fara fram fyrir einn flokk í mánuði hverjum. Samkvæmt 9. gr. reglugerðar nr. 372/1976, sbr. reglugerð nr. 587/1997, 1. gr., skal dregið um vinninga í 1. flokki 14. janúar ár hvert, en í öðrum flokkum 5. hvers mánaðar. Í b-lið 1. gr. laganna segir, að hlutina megi selja í heilu og hálfu lagi. - Ljóst er því, að um er að ræða svonefnt flokkahappdrætti.

Einkaréttur: Í lögunum eru engin ákvæði um að Samband íslenskra berklasjúklinga hafi einkarétt til vöruhappdrættis.

Iðgjald: Samkvæmt b-lið 1. gr. laganna ákveður dómsmálaráðherra iðgjöld fyrir hvern hlut, að fengnum tillögum frá stjórn Sambands íslenskra berklasjúklinga, sbr. lög nr. 52/1976, 1. gr. Í 7. gr. reglugerðar nr. 372/1976, sbr. reglugerð nr. 406/1996, 1. gr., segir að verð ársmiða sé kr. 8.400, en endurnýjunarverð í hverjum flokki kr. 700. Vilji menn kaupa hlutamiða eftir að drættir eru byrjaðir á árinu, skal greiða fyrir hann, auk verðs hans í flokki þeim, sem næst á að draga í, samanlagt verð hlutarins í öllum þeim flokkum, sem dregið hefur verið í á árinu.

Miðasala: Í lögunum eru engin ákvæði um miðasölu. Samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 372/1976 eru hlutamiðar seldir á skrifstofu Sambands íslenskra berklasjúklinga í Reykjavík og hjá umboðsmönnum happdrættisins víðs vegar um landið.

Vinningar: Samkvæmt c-lið 1. gr. laganna skulu vinningar vera að verðmæti samtals að minnsta kosti 50% af iðgjöldunum samantöldum í öllum tólf flokkunum. Í 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 372/1976, sbr. reglugerð nr. 330/1992, 1. gr., er tekið fram að vinningar skuli ekki vera færri en svo, að að minnsta kosti fjórði hver miði hljóti vinning árlega að meðaltali. Tekið er fram í 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar, að stjórn happdrættisins ákveði, að fengnu samþykki happdrættisráðs, vinningatölu og verðmæti vinninga í hverjum flokki. Vinningaskrá skal samin fyrirfram fyrir ár hvert. Í 3. mgr. 6. gr., sbr. reglugerð nr. 330/1992, 2. gr., segir að stjórn happdrættisins sé heimilt að kveða svo á í vinningaskrá, að falli fyrsti vinningur í flokki á óseldan miða, leggist hann við fyrsta vinning í næsta flokki og þannig áfram uns fyrsti vinningur í flokki fellur á seldan miða. Gildir slíkur flutningur fyrsta vinnings einnig í 12. flokki, þannig að hann flyst til 1. flokks á næsta happdrættisári. Í 18. gr. reglugerðar nr. 372/1976 er og tekið fram um vinninga að allir greiðist þeir í vörum.

Útdráttur: Í lögunum eru engin ákvæði um útdrátt vinninga. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 372/1976, sbr. reglugerð nr. 86/1981, 1. gr., skal útdráttur vinninga fara fram opinberlega í Reykjavík þar sem happdrættisráð samþykkir. Í 11. gr. segir, að við útdrátt vinninga skuli notuð tölva, ásamt dráttarforriti og öðrum hugbúnaði og stokki til útdráttar á lykiltölu fyrir útdráttarforrit. Stokkurinn skal vera reglulegur tvítugflötungur, en á hvern flöt hans skal skráð ein talnanna frá 0 til 9, þannig að sérhver tala sé á tveimur flötum. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 372/1976 skal útdráttarforritið þannig gert, að fyrst sé dreginn út hæsti (hæstu) vinningur, síðan næsthæsti (næsthæstu) o.s.frv. Heimilt er, samkvæmt 2. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar, sbr. reglugerð nr. 708/1997, b-lið 1. gr., að ákveða að við útdrátt vinninga í hverjum flokki skuli draga sérstaklega út tiltekinn fjölda vinninga, sem dregnir skulu eingöngu úr seldum miðum. Í ákvæði til bráðabirgða við reglugerðina, sbr. reglugerð nr. 780/1998, 1. gr., segir að ákveða megi að í 10. flokki 1999 skuli að loknum útdrætti samkvæmt a-f-liðum 1. mgr. 13. gr. draga sérstaklega út tiltekinn fjölda vinninga, þannig að valdar séu tveggja stafa tölur, sem vísa til síðustu tveggja tölustafa í hverju miðanúmeri og er það númer vinningsnúmer. Valið fer fram með notkun átta hólfa stokks.

Eftirlit: Samkvæmt d-lið 1. gr. laganna, sbr. lög nr. 52/1976, 1. gr., skal dráttur fara fram í Reykjavík undir eftirliti nefndar, sem dómsmálaráðherra skipar (happdrættisráð). Nefndin leggur "fullnaðarúrskurð" á allan ágreining um lögmæti eða gildi dráttar, bæði meðan dráttur fer fram og eftir að honum er lokið. Kostnað af starfi nefndarinnar ber happdrættið. Í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 372/1976, sbr. reglugerð nr. 20/1980, 1. gr., segir að dómsmálaráðherra skipi þriggja manna happdrættisráð til þriggja ára í senn og ákveði formann þess. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar skal happdrættisráð hafa aðgang að bókum og skjölum happdrættisins og skal því veitt sú vitneskja um starfsemina, sem það óskar. Það skal tafarlaust tilkynna dómsmálaráðuneytinu, ef það telur happdrættið ekki starfa að lögum. Í 2. mgr. 12. gr. er tekið fram, að útdráttarforritið og annar hugbúnaður skuli varðveittur milli drátta með öruggum hætti og undir innsigli happdrættisráðs. Í 3. gr. segir, að dómsmálaráðuneytið skipi tvo endurskoðendur reikninga happdrættisins og að þóknun til þeirra greiðist af fé happdrættisins.

Ágóði: Í 3. gr. laganna segir, að ágóða af happdrættinu skuli varið til að greiða stofnkostnað við byggingarframkvæmdir vinnuheimilisins að Reykjalundi, til byggingar og rekstrar vinnustofu fyrir öryrkja og til annarrar félagsmálastarfsemi Sambands íslenskra berklasjúklinga, sem viðurkennd er af ríkisstjórninni.

Skattar á vinninga: Samkvæmt 2. gr. laganna skulu vinningar vera undanþegnir hvers konar opinberum gjöldum, öðrum en eignarskatti á því ári, sem þeir falla til útborgunar.

Viðurlög við brotum á lögunum: Engin ákvæði eru í lögunum um viðurlög við brotum gegn þeim.

4.1.9 Getraunir

Leyfishafi og löggjöf: Með lögum um getraunir, nr. 59/1972, var ríkisstjórninni heimilað að stofna félag, Íslenskar getraunir, sem afli fjár til stuðnings íþróttaiðkunum á vegum áhugamanna um íþróttir í landinu í félögum innan Ungmennafélags Íslands eða Íþróttasambands Íslands, sbr. 1. gr. Breytingar hafa verið gerðar á lögum nr. 59/1972 með lögum nr. 75/1982 og 93/1988. Dómsmálaráðuneytið setur reglugerð um starfrækslu getrauna, að fengnum tillögum stjórnar Íslenskra getrauna, sbr. 5. gr. laganna. Sjá um það reglugerð nr. 543/1995. - Lög nr. 59/1972 leystu af hólmi lög um tekjuöflun íþróttasjóðs, nr. 84/1940, sbr. lög nr. 69/1952, en samkvæmt þeim var ríkisstjórninni heimilt að veita íþróttanefnd leyfi til að reka veðmálastarfsemi í sambandi við íþróttakappleiki til ágóða fyrir íþróttasjóð.

Tegund: Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 59/1972, sbr. lög nr. 93/1988, 1. gr., starfrækir félagið íþróttagetraunir, en með íþróttagetraunum er átt við að á þar til gerða miða, getraunaseðla, sem félagið eitt hefur rétt til að gefa út, eru merkt væntanleg úrslit íþróttakappleikja, íþróttamóta. Í 1. mgr. 2. gr. var upphaflega tekið fram, að félaginu væri einnig heimilt að starfrækja getraunir, þar sem á þar til gerða miða væri "skráð niðurröðun ákveðins fjölda talna (talnagetraunir)." Heimildin til starfrækslu talnagetrauna var aldrei nýtt af hálfu Íslenskra getrauna og var felld niður og fengin Íslenskri getspá, þegar hún var stofnuð, sbr. lög nr. 26/1986 og 93/1988. Í fræðiritum hefur jafnan verið litið svo á, að íþróttagetraunir falli utan happdrættishugtaksins.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 543/1995 starfrækja Íslenskar getraunir íþróttagetraunir í formi eftirfarandi leikja: 1) Getraunaleiki í samstarfi við AB Tipstjänst í Svíþjóð (nú Svenska Spel). 2) Getraunaleikinn Lengjuna. 3) Tímabundna aukagetraunaleiki, eitt sér eða í samráði við erlend getraunafyrirtæki. 4) "Hópleik" í tengslum við kynningarstarfsemi á vegum félagsins.

Um getraunaleiki í samstarfi við AB Tipstjänst í Svíþjóð segir í 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 543/1995, að á hverju leikspjaldi skuli gert ráð fyrir 13 tölusettum kappleikjum, sem geta skuli um úrslit á. Á spjaldinu skulu einnig vera fjórir dálkar, merktir með bókstöfunum A, B, C og D, hver um sig þrískiptur, þannig að fyrir hvern kappleik séu gefnir þrír möguleikar á úrslitum, sem hér segir: (1) sigur þess liðs sem fyrr er nefnt (heimasigur), (X) jafntefli og (2) sigur þess liðs, sem síðar er nefnt (útisigur). Í hverjum leik telst fyrrnefnda liðið heimalið.

Samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 543/1995 skulu kappleikir að jafnaði fara fram einu sinni í viku, eftir nánari ákvörðun Íslenskra getrauna og AB Tipstjänst í Svíþjóð. Getraunavika telst frá mánudagsmorgni þar til fyrsti leikur á getraunaseðlinum hefst. Sé ekki um annað getið nær getraunaumferð yfir tímann frá því fyrsti leikur á getraunaseðlinum hefst, þar til síðasta leik á seðlinum er lokið. Leyfilegir leikdagar í umferð eru gefnir upp á blaði, sem Íslenskar getraunir gefa út í hverri getraunaviku. Ákvörðun um kappleiki hverrar umferðar skal liggja fyrir a.m.k. einni viku áður en umferðin hefst.

Samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 543/1995 felst leikurinn í því, að þátttakandi getur sér til um úrslit kappleikja umferðarinnar með því að setja merki í a.m.k. einn dálk á leikspjaldinu, þannig að strikað er lárétt með blýanti eða dökkum penna í einn reit af þremur fyrir sérhvern kappleik umferðarinnar í viðkomandi dálki. Mynda því 13 merki í einum dálki eina röð. Einnig getur þátttakandi látið tölvukerfið velja fyrir sig tákn. Loks getur þátttakandi óskað munnlega eftir tölvuvali eða að söluaðili skrái valið fyrir sig, sbr. 8. gr. Í 8. gr. kemur jafnframt fram, að söluaðili skuli renna leikspjaldi í sölukassa, sem tengdur sé í beinlínutengt tölvukerfi, og afhenda þátttakanda að því búnu kvittun ásamt leikspjaldi gegn greiðslu. Í 10. gr. reglugerðarinnar segir, að leikspjald gildi aldrei sem kvittun, en þátttakandi geti notað það aftur og/eða látið það gilda í 2, 5 eða 10 vikur að eigin vali, ef hann óskar eftir óbreyttum táknum á raðir sínar, með því að strika lóðrétt yfir viðkomandi reit á leikspjaldi um fjölda leikvikna. Jafnframt segir í 13. gr., að heimilt sé að skila röðum, sem þátttakandi hefur útbúið með aðstoð einmenningstölvu, á skrifstofu Íslenskra getrauna á sérstöku tölvutæku formi. Loks er tekið fram í 14. gr., að allri sölu í getraunaleiknum skuli hætt minnst fimm mínútum áður en fyrsti leikur umferðar hefst.

Samkvæmt 16. gr. reglugerðarinnar eru á leikspjaldinu möguleikar á þrenns konar kerfum: 1) Ef þátttakandi ætlar að nota heilt margföldunarkerfi, þá merkir hann við reit á seðlinum, sem merktur er "opinn seðill". Síðan ræður hann hversu mörg viðbótartákn eru sett við hvern kappleik. Raðafjöldi kerfisins fæst með því að margfalda saman táknafjöldann og þá leiki, sem bera fleiri en eitt merki. Ekki er heimilt að nota heil margföldunarkerfi til að taka þátt í fleiri en 10.368 röðum á leikspjaldi. 2) Sparnaðarkerfi eru minnkuð margföldunarkerfi. Á leikspjaldinu eru sparnaðarkerfi merkt "S-kerfi". Við notkun sparnaðarkerfis skal setja aukamerki í samræmi við leiðbeiningar, sem Íslenskar getraunir gefa út. Ávallt skal þá nota dálk A. Íslenskum getraunum er ekki heimilt að gefa út sparnaðarkerfi þar sem raðafjöldinn jafngildir fleiri en 177.147 röðum í heilu margföldunarkerfi. 3) Útgangsraðakerfi eru þannig byggð upp að á alla kappleiki, sem eru þrítryggðir, eru sett aukamerki (Ú-merki). Síðan eru notaðar töflur, sem Íslenskar getraunir gefa út, til að ákveða, hvernig táknin skiptast niður. Ávallt skal nota dálk A þegar merkt er í Ú-kerfi, en Ú-merkin sjálf færast í dálk B. Íslenskum getraunum er ekki heimilt að gefa út útgangsraðakerfi þar sem raðafjöldinn jafngildir fleiri en 177.147 röðum í heilu margföldunarkerfi.

Samkvæmt 17. gr. reglugerðarinnar er þátttakanda heimilt að heita á íþróttafélag um leið og hann tekur þátt í getrauninni með því að merkja við þar til gerðan reit á getraunaseðlinum. Stjórn Íslenskra getrauna úthlutar íþróttafélögum númerum og skal úthlutun bundin aðild að Íþróttasambandi Íslands og Ungmennafélagi Íslands.

Í 23. gr. reglugerðar nr. 543/1995 segir, að Lengjan sé getraunaleikur sem taki til úrslita í íþróttakappleikjum. Getraunastarfsemin skiptist í umferðir. Í hverri umferð séu mest 60 íþróttakappleikir. Upphaf umferðar sé morgunn þess dags, sem fyrst er tilgreindur í leikskrá, og lok umferðar er miðnætti þess dags, sem seinast er þar tilgreindur, oftast frá þriðjudagsmorgni til næsta mánudagskvölds. Samkvæmt 24. gr. eru tilgreindir í leikskrá, útgefinni af Íslenskum getraunum, íþróttakappleikir umferðarinnar og hvenær sölu lýkur fyrir hvern og einn þeirra. Í 25. gr. er tekið fram, að þátttakandi geti valið þrjá, fjóra, fimm eða sex leiki úr leikskránni og giskað á hvort þeim ljúki með sigri fyrrnefnda liðsins, jafntefli eða sigri síðarnefnda liðsins. Samkvæmt 26. gr. eru númer 60 íþróttaleikja á getraunaseðli, sem gefinn er út sérstaklega fyrir Lengjuna, og getraunatáknin 1, X og 2 fyrir hvern og einn þeirra. Einungis er heimilt að merkja við eitt getraunatákn fyrir hvern leik. Í 29. gr. segir, að þegar þátttakandi hefur lokið við útfyllingu seðils, skuli hann afhentur söluaðila sem renni honum í sölukassa, sem sé beinlínutengdur við aðaltölvu Íslenskrar getspár. Sölukassinn skrifar síðan út þátttökukvittun þar sem ágiskun þátttakanda kemur fram, upphæð þátttöku og heildarstuðull.

Í 33. gr. reglugerðarinnar kemur fram, að félagið (Íslenskar getraunir) hafi heimild til þess að veita öðru liði/einstaklingi forgjöf, þannig að getraunaúrslit leiksins ráðast með forgjöfinni.

Samkvæmt 28. gr. reglugerðarinnar hefur félagið rétt til þess að setja ákveðnar öryggisreglur, svo sem um hámarksvinning, hámarksþátttöku á hvern leik eða samsetningu leikja og endurtekna þátttöku stórtækra aðila. Þær reglur geta breyst fyrirvaralaust.

Samkvæmt 1. og 3. mgr. 36. gr. reglugerðar nr. 543/1995 er Íslenskum getraunum heimilt að starfrækja tímabundinn aukaleik, eitt sér eða í samvinnu við erlend getraunafyrirtæki. Stjórn Íslenskra getrauna skal þá ákvarða fjölda kappleikja, sem þátttakendur geta sér til um úrslit í. Félagið skal tilkynna dómsmálaráðuneytinu um slíka aukaleiki og verð raðar, og skal auglýsa um þetta í blaði, sem félagið gefur út og segir til um kappleiki umferðarinnar. - Íslenskar getraunir starfrækja einn slíkan aukaleik undir heitinu Eurogoals, sbr. auglýsingu nr. 583/1998. Íslenskar getraunir starfrækja Eurogoals í samvinnu við Dansk Tipstjeneste í Danmörku og Aktiebolaget Svenska Spel í Svíþjóð, sbr. gr. 1.1 í auglýsingunni.

Samkvæmt auglýsingu nr. 583/1998, gr. 1.1, 2.1, 2.6, 3.2 og 4.4, er getraunin Eurogoals eingöngu spiluð á Netinu. Þátttaka er greidd með greiðslukorti og vinningar eru eingöngu færðir á sama greiðslukort og greiddi fyrir þátttöku. Í leiknum er giskað á úrslit ákveðinna leikja, sem félögin velja á ákveðnu tímabili (getraunaumferð). Nánar tiltekið á þátttakandinn að giska á, hvort liðin í sex leikjum geri hvert um sig ekkert mark (0), eitt mark (1), tvö mörk (2) eða fleiri en tvö mörk (M) á þeim leiktíma, sem ágiskunin tekur til. Þátttaka í getrauninni getur annaðhvort verið í formi einfaldra raða eða kerfa. Hver ágiskun í kerfi er sjálfstæð eining (röð). Ágiskun telst vera rétt því aðeins, að rétt sé giskað á markafjölda beggja liða í leiknum.

Aðeins er hægt að skrá sig til þátttöku þegar móðurtölvan er opin. Allar þátttökukvittanir eru geymdar miðlægt í móðurtölvunni. Á þátttökukvittuninni er öryggisnúmer, sem er sérstakt fyrir hverja kvittun. Raðir eru aðeins gildar í því formi og í því umfangi sem skráð er í móðurtölvu, sbr. gr. 3.6-3.8 í auglýsingunni.

Ef annað er ekki tekið fram, verður Eurogoals getraunin haldin vikulega frá september og fram í fjórðu viku í apríl (getraunatímabilið). Leikdagar eru venjulega miðvikudagar og fimmtudagar. Leik í Eurogoals verður að vera lokið á ákveðnum tíma til að úrslitin gildi í getrauninni. Sé annað ekki tekið fram, er getraunaumferðin frá klukkan 18 CET (mið-Evróputími) fyrsta leyfilega leikdag og til klukkan 24 CET síðasta leyfilega leikdag. Við leikjalistann á leikskrá, sem félagið gefur út vikulega, er tekið fram, hvaða dagar eru leyfilegir leikdagar, sbr. gr. 2.3 og 2.4 í auglýsingunni.

Í 37. gr. reglugerðar nr. 543/1995 segir, að Íslenskum getraunum sé heimilt að starfrækja "hópleik" jafnhliða hefðbundinni starfsemi sinni í tengslum við kynningarstarfsemi á vegum félagsins. Stjórn félagsins skal setja reglur um starfrækslu hópleiksins. Þátttaka í hópleiknum veitir ekki rétt til peningaverðlauna.

Einkaréttur: Í 10. gr. laganna segir, að öllum öðrum en Íslenskum getraunum skuli óheimilt að starfrækja getraunir, sem um ræði í 2. gr. laganna. Ennfremur sé óheimilt, án sérstakrar lagaheimildar, að starfrækja veðmálastarfsemi í sambandi við íþróttakeppni.

Iðgjald: Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laganna skal verð eininga (raða) eða miða ákveðið í reglugerð, að fengnum tillögum frá stjórn Íslenskra getrauna. Um getraunaleiki í samstarfi við AB Tipstjänst segir í 15. gr. reglugerðar nr. 543/1995, að verð hverrar getraunaraðar skuli vera kr. 10. Um getraunaleikinn Lengjuna segir í 2. mgr. 26. gr. reglugerðarinnar, að þátttakandi ákveði hvaða verð hann greiði fyrir þátttöku, en lágmarksupphæð sé kr. 100 og hámarksupphæð kr. 12.000. Upphæðir skulu hlaupa á jöfnum 100 krónum. Á getraunaseðlinum skulu vera dálkar þar sem merkja skal þá upphæð, sem þátttakandi velur.

Notfæri félagið sér heimild 36. gr. reglugerðarinnar til að starfrækja tímabundinn aukaleik, skal verð raðar ekki vera hærra en kr. 20, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt auglýsingu nr. 583/1998, gr. 3.1, er verð getraunaraðar í Eurogoals kr. 10.

Miðasala: Samkvæmt 7. gr. laganna ákveður stjórn Íslenskra getrauna hverjum veitist söluumboð og kveður á um sölulaun. Ungmenna- og íþróttafélög eða samtök þeirra skulu ganga fyrir um veitingu söluumboða innan íþróttahéraðs síns. Greiða skal stjórn héraðssambands 3% af heildarsölu í viðkomandi íþróttahéraði.

Íþrótta- og ungmennafélög sem hafa umboð frá Íslenskum getraunum geta selt Eurogoals til þátttakenda með sérstöku söluforriti á Internetinu, sbr. auglýsingu nr. 583/1998, gr. 3.3. Greiðsla fer þá fram með greiðslukorti þátttakenda eða greiðslukorti umboðsaðila. Þátttakendur og umboð geta prentað út kvittun úr móðurtölvunni.

Vinningar: Í 3. gr. laganna segir, að a.m.k. 40% af heildarsöluverði raða eða miða skuli varið til vinninga.

Um getraunaleiki í samstarfi við AB Tipstjänst í Svíðþjóð segir í a- og b-liðum 19. gr. reglugerðar nr. 543/1995, að 40% af árssölu hérlendis skuli varið til vinninga. Heildarupphæð vinninga skiptist í fjóra vinningsflokka, þannig að 27% fara í fyrsta flokk, 17% í annan flokk, 18% í þriðja flokk og 38% í fjórða flokk. Vinningar í fyrsta flokki falla á þær raðir sem eru með 13 rétta, í öðrum flokki á þær raðir sem eru með 12 rétta, í þriðja flokki á þær raðir sem eru með 11 rétta og í fjórða flokki á þær sem eru með 10 rétta. Bætist við nýir vinningsflokkar, skulu þeir vera í réttri röð fyrir raðir með 9 rétta, 8 rétta o.s.frv. Vinningsupphæð fyrir röð í hverjum flokki fæst með því að leggja saman vinningsraðir á Íslandi og í Svíþjóð í hverjum vinningsflokki og deila þeim síðan í heildarvinningsupphæð flokksins. Þó gildir hámarksupphæð vinnings á röð og að vinningsflokkur getur fallið niður samkvæmt reglum í c-j-liðum 19. gr. Sé ekki hægt að skipta allri vinningsupphæðinni samkvæmt áðurgreindum reglum, skal færa afgang vinningsupphæðar yfir til næstu getraunaumferðar og bætist hann þá við fyrsta vinningsflokk.

Í 20. gr. reglugerðarinnar er tekið fram, að áður en vinningur er greiddur út sé vinningsupphæðin fyrir hverja vinningsröð lækkuð í næstu jöfnu krónu í Svíþjóð. Á Íslandi er upphæðin fyrir hverja vinningsröð lækkuð um 1% og í næsta jafna tug. Mismunur, sem þannig myndast, leggst í svokallaðan aurapott í Svíþjóð og sprengipott á Íslandi. Þennan pott geta félögin ákveðið að nota til að hækka vinningsupphæðir eða veita annars konar verðlaun við sérstök tilefni, eftir samkomulagi félaganna.

Samkvæmt 15. gr. reglugerðarinnar skulu Íslenskar getraunir og AB Tipstjänst greiða sænskar kr. 0,46 í sameiginlegan getraunapott fyrir hverja selda röð. Í 21. gr. segir síðan, að samanlagður fjöldi seldra raða á Íslandi og í Svíþjóð, margfaldaður með sænskum kr. 0,46, myndi heildarvinningspottinn, sem síðan deilist í fjóra flokka samkvæmt b-lið 19. gr.

Um getraunaleikinn Lengjuna segir í 27. gr. reglugerðar nr. 543/1995, að félagið ákveði fyrirfram ákveðna vinningsstuðla fyrir mismunandi úrslit, þó alltaf þannig að 1 tákni sigur fyrrgreinda liðsins/einstaklingsins (heimasigur), X tákni jafntefli og 2 tákni sigur þess liðs/einstaklings, sem seinna er tilgreindur (útisigur). Vinningsstuðlarnir eru birtir í leikskrá. Heildarstuðull er margfeldi vinningsstuðlanna að baki þeim úrslitum, sem þátttakandinn hefur giskað á. Bæði vinningsstuðull og heildarstuðull er heil tala með tveimur aukastöfum. Meginreglan er sú, að félagið hefur alltaf rétt til þess að breyta vinningsstuðlum fyrirvaralaust. Samkvæmt 33. gr. skal vinningsstuðull ákveðinn með tilliti til forgjafar, ef hún hefur verið veitt. Í 1. og 2. mgr. 34. gr. segir, að vinningur skuli aðeins greiddur ef allir leikir ágiskunar eru réttir. Vinningsupphæð er upphæð þátttöku margfölduð með heildarstuðli þátttakanda samkvæmt 27. gr.

Notfæri félagið sér heimild 36. gr. reglugerðarinnar til að starfrækja tímabundinn aukaleik, skal stjórn félagsins ákveða skiptingu vinninga og fjölda vinningsflokka, en þó þannig, að a.m.k. 40% heildarsölu skuli varið til vinninga, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Auglýsa skal vinningshlutfall, fjölda vinningsflokka og skiptingu milli vinningsflokka í blaði, sem félagið gefur út og segir til um kappleiki umferðarinnar.

Í auglýsingu nr. 583/1998, gr. 1.2, segir, að hæsti vinningur Eurogoals sé sameiginlegur hjá félögunum. Af hverri seldri röð fer jafn há upphæð í fyrsta vinningsflokk, sama hvert félaganna tekur við henni. Allir þeir, sem fá fyrsta vinning, fá jafn stóran hluta af vinningsupphæðinni.

Samkvæmt auglýsingu nr. 583/1998, gr. 5.1-5.8 og 5.11, eru þrír vinningsflokkar í Eurogoals. Í fyrsta vinningsflokknum eru raðir með sex leiki rétt ágiskaða, í öðrum raðir með fimm leiki rétta og í þeim þriðja raðir með fjóra leiki rétta. Fyrsti vinningsflokkurinn er sameiginlegur fyrir aðildarfélögin. Af hverri seldri röð, óháð því hjá hverju aðildarfélaganna hún er seld, fara 0,03 ECU í fyrsta vinningsflokk. Aðrir vinningsflokkar eru bundnir við einstök lönd. Þegar búið er að leggja í fyrsta vinningsflokkinn skiptist upphæðin, sem eftir er, á milli innlendu vinningsflokkana, þannig að 70% fara í annan vinningsflokk og 30% í þriðja vinningsflokk. Við gengisútreikninga skal nota gengisskráningu daginn eftir getraunaumferðina. Vinningur fyrir röð í fyrsta vinningsflokki er sama sem vinningsupphæðin deilt með fjölda allra réttra raða hjá öllum aðildarfélögunum. Vinningur fyrir röð í innlendu vinningsflokkunum er sama sem vinningsupphæðin deilt með fjölda réttra raða í viðkomandi vinningsflokki. Um innlendu vinningsflokkana gildir, að vinningur á röð í lægri vinningsflokki má ekki vera hærri en vinningur á röð í hærri vinningsflokki. Umframupphæðin skiptist jafnt á milli raðanna í viðkomandi vinningsflokkum.

Í auglýsingu nr. 583/1998, gr. 5.12-5.16, er tekið fram, að ef engin röð er með alla rétta hjá aðildarfélögunum, fellur vinningur niður og vinningsupphæðin bætist við fyrsta vinningsflokk í næstu umferð á eftir á getraunatímabilinu. Ef engin röð er með alla rétta hjá aðildarfélögunum í síðustu umferð getraunatímabilsins, er hluta félagsins í sameiginlega vinningsflokknum skipt jafnt á milli innlendu vinningsflokkanna. Ef engin vinningsröð finnst hérlendis í öðrum vinningsflokk, þá flyst vinningsupphæðin á annan vinningsflokk næstu umferðar. Í seinustu umferð getraunatímabilsins hliðrast vinningsflokkar niður á við, þ.e. ef engin röð kemur fram með 5 rétta, þá flyst annar vinningsflokkur á 4 rétta, þriðji vinningsflokkur flyst á 3 rétta o.s.frv. Áður en vinningur er útborgaður, er vinningsupphæðin jöfnuð í næsta heila tug krónutölu niður á við. Félagið sér um að birta endanlegar vinningsupphæðir á Internetinu.

Vinningar eru annaðhvort færðir á greiðslukortið, sem greiddi fyrir þátttökuna, eða þátttakandi gefur upp númer á bankareikningi og eru þá vinningar færðir inn á viðkomandi bankareikning, sbr. auglýsingu nr. 583/1998, gr. 3.2 og 3.3.


Eftirlit: Í 4. gr. laganna segir, að menntamálaráðuneytið fari með málefni Íslenskra getrauna, sbr. þó 5. gr. Samkvæmt 5. gr. hefur dómsmálaráðuneytið eftirlit með starfrækslu getrauna, en kostnaður við eftirlitið greiðist af Íslenskum getraunum, samkvæmt ákvörðun ráðuneytisins. Í 3. mgr. 6. gr. laganna kemur fram, að reikningar Íslenskra getrauna skulu endurskoðaðir af ríkisendurskoðun og að ársreikning, ásamt ársskýrslu, skuli senda dómsmálaráðuneytinu og menntamálaráðuneytinu.

Samkvæmt 43. gr. reglugerðar nr. 543/1995 skipar dómsmálaráðuneytið eftirlitsmann með getraunaleikjum Íslenskra getrauna til þriggja ára í senn og skal hann gæta hagsmuna þátttakenda.

Um getraunaleiki í samstarfi við AB Tipstjänst í Svíþjóð er tekið fram í 21. og 22. gr. reglugerðar nr. 543/1995, að ríkistilnefndir eftirlitsmenn, annars vegar á Íslandi og hins vegar í Svíþjóð, skulu undirrita skjal um heildarsölu raða og senda á milli félaganna. Þeir skulu reikna út vinningsupphæðir og vera viðstaddir þegar innsláttur vinningsraðar í tölvukerfið fer fram.

Um Eurogoals er sérstaklega tekið fram í auglýsingu nr. 583/1998, gr. 5.9 og 5.10, að endanlegar vinningsupphæðir séu að jafnaði staðfestar af eftirlitsmanni dómsmálaráðuneytis í síðasta lagi daginn eftir getraunaumferðina. Vinningsupphæðin í fyrsta vinningsflokki sé staðfest af aðildarfélögunum sameiginlega. Félagið staðfesti vinningsupphæðir innlendu vinningsflokkanna.


Í 42. gr. reglugerðar nr. 543/1995 segir, að hægt sé að kæra framkvæmd íþróttagetrauna Íslenskra getrauna til aðalskrifstofu félagsins fyrir kl. 17 á mánudegi að fjórum vikum liðnum frá lokum getraunaumferðar. Eftirlitsmaður dómsmálaráðuneytisins úrskurðar um kærur innan 15 daga frá því kærufrestur rann út.

Í auglýsingu nr. 583/1998, gr. 6.5, segir um getraunina Eurogoals, að rísi ágreiningur um túlkun á reglum auglýsingarinnar, skuli miða við samning um Eurogoals milli aðildarfélaganna og reglugerð fyrir Íslenskar getraunir, nr. 543/1995.

Ágóði: Í 9. gr. laganna er tekið fram, að þegar vinningar, sölulaun og kostnaður hafa verið greidd skal ágóði skiptast þannig: Íþróttasjóður ríkisins 10%, Ungmennafélag Íslands 20% og Íþróttasamband Íslands 70%. Í 8. gr. laganna segir, að til kostnaðar við íþróttagetraunir teljist greiðsla til Knattspyrnusambands Íslands, að lágmarki kr. 250.000, en kr. 15.000 af hverri milljón heildartekna yfir kr. 20.000.000 allt að því, að greiðslan nemur kr. 475.000 á ári, og eftir að þeirri fjárhæð er náð, greiðist til Knattspyrnusambands Íslands kr. 7.500 af hverri milljón. Einnig telst til kostnaðar 0,5% greiðsla af heildarsölu í varasjóð, sem Íslenskar getraunir eiga og nota til þess að mæta áföllum, sem félagið kann að verða fyrir.

Um getraunaleiki í samstarfi við AB Tipstjänst í Svíþjóð segir í 2. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 543/1995, að fjöldi áheita á félag skuli vera vísbending til Íþróttasambands Íslands og Ungmennafélags Íslands um ráðstöfun á hagnaðarhluta þeirra af getraunastarfseminni.

Skattar á vinninga: Í 2. mgr. 3. gr. laganna segir, að vinningar getrauna séu undanþegnir hvers konar opinberum gjöldum, öðrum en eignarskatti, á því ári, sem þeir falla.

Viðurlög við brotum á lögunum: Samkvæmt 10. gr. laga nr. 59/1972, sbr. lög nr. 75/1982, 50. gr., varða brot á ákvæðum laganna sektum, sem greiðist í íþróttasjóð. Í 11. gr. laganna er tekið fram, að mál út af brotum á lögunum fari að hætti opinberra mála.

4.1.10 Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna

Leyfishafi og löggjöf: Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 16/1973 skal Dvalarheimili aldraðra sjómanna heimilt að stofna happdrætti. Lögum nr. 16/1973 hefur verið breytt með lögum nr. 53/1976, 24/1987 og 21/1997. Í 1. mgr. 3. gr. laganna, sbr. lög nr. 21/1997, 1. gr., er tekið fram, að heimildin gildi til ársloka 2007. Í 5. gr., sbr. lög nr. 24/1987, 2. gr., segir, að ráðherra setji með reglugerð nánari ákvæði um starfsemi happdrættisins, þar á meðal um endurskoðun ársreikninga happdrættisins. Sjá um það reglugerð nr. 193/1996.

Tegund: Í 1. mgr. 1. gr. laganna kemur fram, að heimildin taki til þess að stofna happdrætti um bifreiðar, bifhjól, báta, búnaðarvélar, íbúðarhús og einstakar íbúðir, húsbúnað, hljóðfæri, búpening, flugvélar og farmiða til ferðalaga. Hér er því um að ræða svonefnt vöruhappdrætti.

Í 5. gr. reglugerðar nr. 193/1996 segir, að happdrættið gefi árlega út 80.000 hlutamiða. Af hverjum hlutamiða séu gefnar út tvær flokkaraðir, sem greinist að með bókstöfunum A og B. Draga skuli úr öllum útgefnum númerum í báðum flokkaröðunum. Hver hlutamiði beri áprentað númer frá 1 - 80.000, flokksnúmer frá 1 - 12, verð miðans, síðasta söludag, dráttardaga og innlausnarfrest vinninga. Draga skuli fjórum sinnum í mánuði í hverjum flokki, þannig að útdrættir verði samtals 48 á happdrættisárinu. - Samkvæmt þessu er happdrættið flokkahappdrætti.

Einkaréttur: Í lögunum eru engin ákvæði um að Dvalarheimili aldraðra sjómanna hafi einkarétt til vöruhappdrættis.

Iðgjald: Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal verð happdrættismiða ákveðið af ráðherra, að fengnum tillögum frá stjórn Dvalarheimilis aldraðra sjómanna. Í 7. gr. reglugerðar nr. 193/1996 segir, að verð hlutamiða í hvorri flokkaröð skuli vera kr. 8.400, ef keyptur sé miði sem gildi í öllum 12 flokkum happdrættisársins, sem sé frá 1. maí til 30. apríl ár hvert. Verð miða fyrir hvern flokk sé kr. 700. Sé óskað eftir að kaupa hlutamiða eftir að dregið hefur verið í fyrsta flokki happdrættisins eða síðar, skuli greiða fyrir hann, auk andvirðis þess flokks sem næst á að draga í, samanlagt verð hlutamiðans í öllum þeim flokkum, sem dregið hafi verið í á árinu.

Miðasala: Í lögunum eru engin ákvæði um miðasölu. Samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 193/1996 eru hlutamiðar seldir í aðalumboði happdrættisins í Reykjavík og hjá umboðsmönnum happdrættisins víðs vegar um landið. Endurnýjun hlutamiða hefst 20. hvers mánaðar og varir til kvölds síðasta endurnýjunardags, sem skráður er á hvern miða.

Vinningar: Eins og að framan greinir er tekið fram í 1. mgr. 1. gr. laganna, sbr. og 18. gr. reglugerðar nr. 193/1996, að vinningar greiðist í bifreiðum, bifhjólum, bátum, búnaðarvélum, íbúðarhúsum og einstökum íbúðum, húsbúnaði, hljóðfærum, búpeningi, flugvélum og farmiðum til ferðalaga. Í 19. gr. reglugerðarinnar segir, að vinninga afhendi aðeins viðurkenndir umboðsmenn happdrættisins. Vinning megi ekki afhenda nema gegn stimpluðum og árituðum miða af umboðsmanni.

Samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 193/1996 skal heildarverðmæti vinninga miðað við smásöluverð nema a.m.k. 40% af heildarsöluverði miða í öllum 12 flokkunum. Stjórn happdrættisins ákveður vinningaskrá fyrirfram fyrir happdrættisárið að fengnu samþykki happdrættisráðs. Verðmæti vinninga að meðaltali í hverjum flokki skal vera svipað. Fjöldi vinninga í flokkaröðinni skal vera tilgreindur í vinningaskrá svo og verðmæti þeirra.

Útdráttur: Í 2. gr. laganna, sbr. lög nr. 53/1976, 1. gr., segir að dregið skuli mánaðarlega. Í lögunum eru ekki frekari ákvæði um útdrátt vinninga. Í 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 193/1996 segir hins vegar, eins og fyrr var nefnt, að dregið skuli fjórum sinnum í mánuði í hverjum flokki, þannig að útdrættir verði samtals 48 á happdrættisárinu. Framkvæmdin hefur verið í samræmi við reglugerðina að þessu leyti. Samkvæmt 9. gr. reglugerðarinnar er meginreglan sú, að dregið skal um vinninga á þeim fimmtudögum, sem koma upp eftir þriðja virkan dag mánaðarins. Í 1. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um það, að útdráttur vinninga skuli fara fram opinberlega í Reykjavík þar sem happdrættisráð samþykki. Í 11. gr. segir, að við útdrátt vinninga skuli notuð tölva, ásamt dráttarforriti og öðrum hugbúnaði og stokki til útdráttar á lykiltölu fyrir útdráttarforrit. Stokkurinn skal vera með 8 hólfum og í hverju hólfi reglulegur tvítugflötungur, en á hvern flöt hans skal skráð ein talnanna frá 0 til 9, þannig að sérhver tala sé á tveimur flötum. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 372/1976 skal útdráttarforritið þannig gert, að fyrst sé dreginn út hæsti (hæstu) vinningur, síðan næsthæsti (næsthæstu) o.s.frv.

Eftirlit: Samkvæmt 2. gr. laganna, sbr. lög nr. 53/1976, 1. gr., skal dráttur fara fram í Reykjavík undir eftirliti nefndar, sem dómsmálaráðherra skipar (happdrættisráð). Nefndin leggur "fullnaðarúrskurð" á allan ágreining um lögmæti eða gildi dráttar, bæði meðan dráttur fer fram og eftir að honum er lokið. Kostnað af starfi nefndarinnar ber happdrættið. Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 193/1996 skipar dómsmálaráðherra þriggja manna happdrættisráð til þriggja ára í senn og tvo til vara og ákveður formann þess. Dómsmálaráðuneytið ákveður þóknun happdrættisráðsmanna, er greiðist af fé happdrættisins. Happdrættisráð skal hafa aðgang að bókum og skjölum happdrættisins, og skal því veitt sú vitneskja um starfsemina sem það óskar. Ráðið skal tafarlaust tilkynna dómsmálaráðuneytinu, ef það telur ákvæði laga um happdrættið eða reglugerða settra samkvæmt þeim brotin. Í 2. mgr. 12. gr. er tekið fram, að útdráttarforritið og annar hugbúnaður skuli varðveittur milli drátta með öruggum hætti og undir innsigli happdrættisráðs. Í 3. gr. reglugerðarinnar segir, að reikningsár happdrættisins sé frá 1. maí til 30. apríl og að dómsmálaráðuneytið skipi tvo endurskoðendur reikninganna. Þóknun til þeirra greiðist af fé happdrættisins.

Ágóði: Í 2. mgr. 3. gr. laganna, sbr. lög nr. 24/1987, 1. gr., segir að ágóði happdrættisins skuli renna til byggingarframkvæmda fyrir aldraða á vegum Sjómannadagssamtakanna í Reykjavík og Hafnarfirði. Heimilt sé stjórn samtakanna, sem sér um stjórn og daglegan rekstur happdrættisins, að veita styrk eða lán til annarra bygginga um land allt í þágu aldraðra, svo sem verndaðra þjónustuíbúða, umönnunar- og hjúkrunarheimila og þjónustumiðstöðva fyrir aldraða.

Skattar á vinninga: Samkvæmt 4. gr. laganna skulu vinningar í happdrættinu undanþegnir hvers konar opinberum gjöldum öðrum en eignarskatti, á því ári, sem þeir falla.

Viðurlög við brotum á lögunum: Engin ákvæði eru í lögunum um viðurlög við brotum gegn þeim.

4.1.11 Talnagetraunir

Leyfishafi og löggjöf: Með lögum um talnagetraunir, nr. 26/1986, er dómsmálaráðherra heimilað að veita Íþróttasambandi Íslands, Ungmennafélagi Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands leyfi til þess að starfrækja saman getraunir, í nafni félags sem samtökin stofni, sbr. 1. mgr. 1. gr. Umrætt félag hefur verið stofnað og fengið nafnið Íslensk getspá. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna gildir heimild dómsmálaráðherra til ársloka 2005. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. skulu aðilar gera með sér samkomulag, sem dómsmálaráðherra staðfestir, um rekstur félagsins, þar á meðal um ábyrgð á rekstri þess. Í 6. gr. segir, að dómsmálaráðherra setji nánari reglur um getraunastarfsemina, að fengnum tillögum stjórnar félagsins. Það hefur verið gert með reglugerð nr. 105/1998, sbr. reglugerð nr. 651/1998.

Tegund: Í 1. mgr. 1. gr. laganna segir, að getraunirnar fari fram með þeim hætti að á þar til gerða miða sé skráð eða valin röð talna og eða bókstafa. Í 2. mgr. 7. gr. er svohljóðandi ákvæði: "Heimild Íslenskra getrauna til að starfrækja talnagetraunir samkvæmt 1. málsgr. 2. gr., sbr. 10. gr. laga um getraunir nr. 59 29. maí 1972, fellur niður á meðan heimild samkvæmt lögum þessum er í gildi." Sjá og 1. gr. laga nr. 93/1988, sem breytti 1. mgr. 2. gr. laga um getraunir, nr. 59/1972. Í fræðiritum eru talnagetraunir flokkaðar sem happdrætti, enda ráðist vinningar af tilviljun.

Samkvæmt reglugerð nr. 105/1998, gr. 2.1, starfrækir Íslensk getspá talnagetraunir undir heitunum "Lottó 5/38", "Víkingalottó 6/48" og "Jóker". Víkingalottó starfrækir félagið í samvinnu við talnagetraunafyrirtækin AB Svenska Spel, Svíþjóð, Norsk Tipping A/S, Noregi, OY Veikkaus ab, Finnlandi, og Dansk Tipstjeneste AS, Danmörku. Í gr. 3.2 segir, að leikir í talnagetraununum fari að jafnaði fram einu sinni í viku samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar Íslenskrar getspár. Um skeið starfrækti Íslensk getspá jafnframt leik í talnagetraunum undir heitinu "Kínó", sbr. reglugerð nr. 516/1995, sbr. reglugerð nr. 634/1995. Starfrækslu leiksins hefur nú verið hætt, en reglugerðin hefur ekki verið afnumin.

Samkvæmt gr. 3.1, 3.3 og 3.4 gefur Íslensk getspá út leikspjöld til þátttöku í Lottó 5/38. Á hverju leikspjaldi eru 10 leikir (raðir), sem merktir eru með bókstöfunum A, B, C, D, E, F, G, H, I og J, og er hver leikur með tölunum 1-38. Hver þátttakandi getur tekið þátt í einum til tíu leikjum á hverju leikspjaldi. Leikurinn felst í því, að þátttakandi strikar lóðrétt í reiti fimm mismunandi talna í hverjum leik (röð) og skal byrja á leik A. Í stað þess að fylla út þátttökuspjald getur þátttakandi gefið munnleg fyrirmæli um val sitt á tölum eða óskað eftir því, að sölukassi velji tölurnar af handahófi.

Þátttaka í Víkingalottó 6/48 fer fram með sama hætti og í Lottó 5/38 að því breyttu, að þátttakandi merkir við sex tölur af 48, sem valdar eru í hverjum leik.

Þátttaka í Jóker er bundin þátttöku í Lottó 5/38. Á leikspjöldum fyrir Lottó 5/38 er sérstakur reitur, sem þeir merkja í, er greiða vilja fyrir Jóker. Rita skal þær fimm tölur, sem valdar eru úr tölunum 0-9, í þar til gerða reiti á leikspjaldinu. Jafnframt er unnt að gefa munnleg fyrirmæli um þátttöku í leiknum.

Samkvæmt gr. 4.1 og 4.2 er heimilt að gera sérstök leikspjöld fyrir þá, sem óska þess að nota kerfi við talnagetraunir. Í Lottó 5/38 skulu leikspjöld þessi vera fyrir 6, 7, 8, 9 eða 10 talnamöguleika og samsvara tölur þessar 6, 21, 56, 126 eða 252 mismunandi fimm stafa töluröðum (leikjum) þeirra talna, sem valdar eru. Kerfisleikspjald skal þátttakandi fylla út á þann veg að hann strikar lóðrétt í reiti þeirra talna, er hann velur úr tölunum 1-38 og staðfestir fjölda þeirra (6, 7, 8, 9 eða 10) með því að merkja aftan við viðkomandi tölur á leikspjaldinu.

Í Víkingalottói skulu leikspjöld þessi vera fyrir 7, 8, 9 eða 10 talnamöguleika og samsvara tölur þessar 7, 28, 84 eða 210 mismunandi 6 stafa talnaröðum þeirra talna, sem valdar eru. Kerfisleikspjald skal þátttakandi fylla út á þann veg að hann strikar lóðrétt í reiti þeirra talna, er hann velur úr tölunum 1-48 og staðfestir fjölda þeirra (7, 8, 9 eða 10) með því að merkja aftan við viðkomandi tölur á spjaldinu.

Samkvæmt gr. 3.4 er leikspjaldið að loknu vali á tölum í Lottó 5/38 og Víkingalottó 6/48 afhent söluaðila sem rennir því í sölukassa, sem tengdur er tölvukerfi Íslenskrar getspár og skráir sjálfvirkt valdar tölur. Jókertölur, sem valdar eru á leikspjaldinu, skráir söluaðili þó inn í tölvukerfið. Samkvæmt gr. 3.5 skal söluaðili síðan afhenda þátttakanda kvittun ásamt leikspjaldi gegn greiðslu. Stjórn Íslenskrar getspár er heimilt að ákveða að þátttakanda, sem keypt hefur kvittun sem á eru 10 raðir eða fleiri, sé látin í té án greiðslu, sem kaupauki, þátttökukvittun sem á er ein röð.

Í gr. 3.6 er tekið fram, að leikspjald fyrir Lottó 5/38, Jóker og Víkingalottó gildi aldrei sem kvittun, en þátttakandi geti notað það aftur eða látið það gilda í 2, 5 eða 10 leikvikur, að eigin vali, ef hann óskar eftir óbreyttu talnavali, með því að strika lóðrétt yfir viðkomandi reit á leikspjaldi um fjölda vikna.

Einkaréttur: Í 7. gr. laganna segir, að óheimilt sé öðrum en framangreindu félagi Íþróttasambands Íslands, Ungmennafélags Íslands og Öryrkjabandalags Íslands að starfrækja getraunir með þeim hætti, sem um ræði í 1. gr.

Iðgjald: Í 3. gr. laganna er tekið fram, að dómsmálaráðherra ákveði gjald fyrir þátttöku í getraununum (miðaverð), að fengnum tillögum frá stjórn félagsins. Samkvæmt reglugerð nr. 105/1998, gr. 3.9, skal verð fyrir hvern leik (röð) í Lottó 5/38 vera kr. 50, Jóker kr. 80 og í Víkingalottó kr. 25.

Miðasala: Í lögunum eru engin ákvæði um miðasölu. Í reglugerð nr. 105/1998, gr. 3.9, segir, að aðeins sé unnt að gerast þátttakandi hjá söluaðilum Íslenskrar getspár.

Vinningar: Samkvæmt 4. gr. laganna ákveður dómsmálaráðherra, að fengnum tillögum frá stjórn félagsins, fjárhæð vinninga, annað hvort sem hlutfall af heildarsöluverði miða hverju sinni, er varið skal til vinninga, eða fjárhæð einstakra vinninga. Um er því að ræða peningahappdrætti, þar sem vinningar greiðast í peningum.

Samkvæmt reglugerð nr. 105/1998, gr. 5.5, skal verja til vinninga 40% af heildarsöluverði þátttökukvittana hverrar leikviku, þar með talið andvirði þátttökukvittana sem látnar eru þátttakendum í té sem kaupauki án endurgjalds. Vinningsfjárhæðin skiptist þannig:

Í Lottó 5/38 skulu 46% skiptast jafnt á milli þeirra sem hafa allar 5 aðaltölur réttar, 8% jafnt á milli þeirra sem hafa 4 aðaltölur réttar og auk þess rétta aukatölu (bónustölu), 13,8% jafnt á milli þeirra sem hafa 4 aðaltölur réttar og 32,2% jafnt á milli þeirra, sem hafa 3 aðaltölur réttar. Komi í ljós við útdrátt að enginn þátttakandi hafi vinningstölur réttar, skal vinningsfjárhæð viðkomandi flokks yfirfærast til næstu leikviku samkvæmt reglum í gr. 5.7.

Í Jóker greiðast fyrir 5 tölur réttar kr. 1.000.000, fyrir 4 síðustu tölur réttar kr. 100.000, fyrir 3 síðustu tölur réttar kr. 10.000 og fyrir 2 síðustu tölur réttar kr. 1.000.

Í Víkingalottó er fyrsti vinningur sameiginlegur hjá þátttökuaðilum. Hvert talnagetraunafyrirtæki greiðir 0,035 ECU (European Currency Unit) af andvirði hvers selds leiks til þessa vinnings. Verðmæti hans í íslenskum krónum ákvarðast af kaupgengi ECU á útdráttardegi og skiptist jafnt á milli þeirra, sem hafa allar 6 tölurnar réttar. Til annarra vinninga renna 40% af heildarsölu hverrar leikviku hér á landi að frádreginni greiðslu Íslenskrar getspár til fyrsta vinnings og skiptast í vinningsflokka í eftirgreindum hlutföllum: 28% skiptast jafnt á milli þeirra sem hafa 5 aðaltölur réttar og auk þess rétta eina af tveimur aukatölum (bónustölum), 22% skiptast jafnt á milli þeirra sem hafa 5 aðaltölur réttar, 35% skiptast jafnt á milli þeirra sem hafa 4 aðaltölur réttar, 15% skiptast jafnt á milli þeirra sem hafa 3 aðaltölur réttar og auk þess rétta eina af tveimur aukatölum (bónustölum). Komi í ljós við útdrátt að enginn þátttakandi hafi vinningstölur réttar, skal vinningsfjárhæð viðkomandi flokks yfirfærast til næstu leikviku samkvæmt reglum í gr. 5.7.

Samkvæmt gr. 5.6 hljóta þátttakendur eingöngu vinning í samræmi við hæsta fjölda talna í hverri röð. Vinningar í Lottó 5/38 og Víkingalottó 6/48 skulu færðir niður í næsta heilan tug króna. Mismunur, sem myndast með því, skal yfirfærður til 1. vinnings einu sinni til tvisvar á ári, eftir nánari ákvörðun stjórnar. Stjórn Íslenskrar getspár er heimilt að leggja viðbótarfé frá fyrirtækinu til vinninga í báðum leikjunum í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar og við sérstök tækifæri, þar sem lagt er fram fé frá fyrirtækinu til vinninga. Stjórnin skal leita samþykkis dómsmálaráðuneytisins fyrir slíkum framlögum og fyrirkomulagi útdráttar.

Útdráttur: Samkvæmt reglugerð nr. 105/1998, gr. 5.1-5.6, sbr. reglugerð nr. 651/1998, 1. gr., fer útdráttur vinninga í Lottó 5/38 fram opinberlega á laugardegi. Nánar tiltekið fer hann þannig fram, að í þar til gerðum stokki eru valdar fimm vinningstölur, aðaltölur, af tölunum 1-38. Því næst er valin aukatala, svonefnd bónustala, af þeim tölum sem þá eru eftir. Þeir sem hafa þátttökukvittun með tölum þeim, sem valdar hafa verið, annað hvort allar eða hluta þeirra í sama leik, án tillits til röðunar þeirra, fá vinning.

Útdráttur í Víkingalottó 6/48 fer fram á hverjum miðvikudegi í heimalandi einhvers samstarfsaðila. Útdrátturinn fer fram með sama hætti og í Lottó 5/38, að breyttu breytanda og þó þannig, að valdar eru tvær aukatölur, bónustölur.

Útdráttur vinninga í Jóker fer fram samtímis útdrætti í Lottó 5/38. Útdrátturinn fer þannig fram að fimm stokkar, hver með töluna 0-9, eru settir í gang og stöðvast þegar hver þeirra hefur valið eina tölu. Tölurnar, í þeirri röð sem þær birtast, mynda Jókertölur vikunnar. Vinningar ráðast af því hve margar útdregnar tölur þátttakandi fær miðað við rétta röð útdreginna talna.

Eftirlit: Dómsmálaráðherra hefur eftirlit með starfsemi félagsins, sbr. 6. gr. laganna. Samkvæmt reglugerð nr. 105/1998, gr. 10.1-10.4, skipar dómsmálaráðuneytið eftirlitsmenn til þriggja ára í senn til að annast eftirlitið. Til þess að úrskurða kærur samkvæmt gr. 9.1 skipar dómsmálaráðuneytið til þriggja ára í senn mann, sem fullnægir skilyrðum til að vera dómari, og einnig varamann, sem fullnægir sömu skilyrðum. Eftirlit með tölvukerfi Íslenskrar getspár skal vera í höndum endurskoðunarskrifstofu, sem ráðuneytið samþykkir. Kostnað við almennt eftirlit með getraunastarfseminni, eftirlit með útdrætti vinninga og meðferð kæra greiðist af Íslenskri getspá samkvæmt úrskurði dómsmálaráðuneytisins.

Í gr. 9.1. segir, að rísi ágreiningur varðandi framkvæmd talnagetrauna, skuli viðkomandi þátttakandi senda skriflega kæru, sem skal hafa borist aðalskrifstofu Íslenskrar getspár fyrir kl. 16 á tuttugasta og fyrsta degi frá og með útdráttardegi að telja. Úrskurðaraðili, skipaður af dómsmálaráðuneytinu, úrskurðar um kæruna innan 15 daga frá því að kærufrestur rann út. Kærur vegna fyrsta vinnings í Víkingalottói sem nema 200.000 ECU eða meiru skulu þó úrskurðaðar af aðalstjórn Víkingalottós samkvæmt lið 3.4 í starfsreglum fyrir Víkingalottó.

Ágóði: Í 5. gr. laganna segir, að ágóða af getraunastarfseminni skuli varið til eflingar íþróttum á vegum áhugamanna um íþróttir í landinu í félögum innan Íþróttasambands Íslands og Ungmennafélags Íslands og til að greiða stofnkostnað við íbúðarhúsnæði fyrir öryrkja á vegum Öryrkjabandalags Íslands eða til að standa undir annarri starfsemi bandalagsins í þágu öryrkja. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laganna skulu aðilar gera með sér samkomulag, sem dómsmálaráðherra staðfestir, um skiptingu ágóða.

Skattar á vinninga: Í 2. mgr. 4. gr. laganna segir, að vinningar getrauna séu undanþegnir hvers konar opinberum gjöldum, öðrum en eignarskatti, á því ári sem þeir falla.

Viðurlög við brotum á lögunum: Samkvæmt 8. gr. laganna varða brot á þeim sektum.

4.1.12 Íslenskir söfnunarkassar

Leyfishafi og löggjöf: Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um söfnunarkassa, nr. 73/1994, er dómsmálaráðherra heimilt að veita Íslenskum söfnunarkössum (ÍSK), félagi í eigu Rauða kross Íslands, Landsbjargar, Samtaka áhugamanna um áfengis- og vímuefnavandann og Slysavarnafélags Íslands, leyfi til að starfrækja söfnunarkassa með peningavinningum. Samtökin, sem standa að félaginu, skulu gera með sér samstarfssamning um rekstur söfnunarkassanna sem dómsmálaráðherra staðfestir. Í 4. gr. er tekið fram, að dómsmálaráðherra setji í reglugerð, að fengnum tillögum stjórnar Íslenskra söfnunarkassa, nánari ákvæði um framkvæmd laganna. Sú reglugerð hefur ekki verið sett. - Upphaflega veitti dómsmálaráðuneytið, með bréfi á árinu 1972, Rauða krossi Íslands leyfi til starfrækslu söfnunarkassa. Síðar var leyfið, til viðbótar þeim skilyrðum sem fram komu í leyfisbréfum, einnig veitt með tilvísun til laga um opinberar fjársafnanir, nr. 5/1977.

Tegund: Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 73/1994 segir, að með söfnunarkössum sé átt við handvirka og/eða vélræna söfnunarkassa, sem ekki séu samtengdir og í séu sett peningaframlög er jafnframt veiti þeim, sem þau leggja fram, möguleika á peningavinningi, allt að ákveðinni fjárhæð, og skuli úthlutun vinninga byggjast á tilviljun. Söfnunarkassarnir skulu vera merktir Íslenskum söfnunarkössum. Samkvæmt 4. gr. setur dómsmálaráðherra í reglugerð, að fengnum tillögum stjórnar Íslenskra söfnunarkassa, nánari ákvæði um staðsetningu, auðkenningu, fjölda og tegundir söfnunarkassa og aldur þeirra, sem nota mega kassana til að leggja fram framlög, en hann skal þó eigi vera lægri en 16 ár.

Einkaréttur: Engin ákvæði eru í lögunum um einkarétt Íslenskra söfnunarkassa til að starfrækja söfnunarkassa með peningavinningum.

Iðgjald: Samkvæmt 4. gr. laganna setur dómsmálaráðherra í reglugerð, að fengnum tillögum stjórnar Íslenskra söfnunarkassa, nánari ákvæði, þar á meðal um notkun mynta og seðla við greiðslu framlaga.

Vinningar: Samkvæmt 4. gr. laganna setur dómsmálaráðherra í reglugerð, að fengnum tillögum stjórnar Íslenskra söfnunarkassa, nánari ákvæði, þar á meðal um fjárhæð vinninga.

Eftirlit: Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laganna skulu reikningar fyrir innkomið söfnunarfé í söfnunarkössum og rekstur þeirra endurskoðaðir af tveimur löggiltum endurskoðendum og skal annar tilnefndur sameiginlega af þeim félagasamtökum, sem standa að rekstri söfnunarkassanna og hinn af dómsmálaráðherra. Að lokinni endurskoðun skal eintak af ársreikningi afhent dómsmálaráðherra. Í 4. gr. er tekið fram, að ráðherra geti sett í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd laganna, þar á meðal um greiðslu kostnaðar vegna eftirlits og endurskoðunar.

Ágóði: Í 1. mgr. 1. gr. laganna segir, að samtökin, sem standa að félaginu, skuli gera með sér samstarfssamning, sem dómsmálaráðherra staðfestir, um rekstur söfnunarkassanna, þar með talið um skiptingu tekna af söfnunarfénu. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. skal tekjum af söfnunarkössum varið til starfsemi þeirra samtaka, sem rétt hafa til reksturs þeirra.

Skattar á vinninga: Í 3. gr. laganna er tekið fram, að vinningar úr söfnunarkössum séu undanþegnir hvers konar opinberum gjöldum, öðrum en eignarskatti, á því ári sem þeir falla.

Viðurlög við brotum á lögunum: Samkvæmt 5. gr. laganna varða brot gegn þeim sektum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Þá segir, að heimilt sé með dómi að gera upptæk tæki og fjármuni, sem notaðir hafa verið við brot á lögunum.

4.1.13 Almenn happdrætti

Eins og fram kemur í kafla 4.1.3, segir í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 6/1926, um happdrætti (lotterí) og hlutaveltur (tombólur), að almenn happdrætti, eða svonefnd skyndihappdrætti, séu háð leyfisveitingu frá dómsmálaráðuneytinu. Um skyndihappdrætti eru ekki frekari ákvæði í settum lögum. Stuðst hefur verið við óskráðar reglur við leyfisveitingar.

Árið 1997 gaf dómsmálaráðuneytið út rúmlega 50 leyfi fyrir happdrættum af ýmsum stærðum. Flest þeirra eru smá í sniðum, þar sem sala happdrættismiða fer nánast einungis fram innan tiltekins svæðis eða fámenns hóps. Sem dæmi má nefna happdrætti ýmissa deilda innan íþróttafélaga, sem oft er ætlað að styrkja ferðalög tiltekinna flokka, happdrætti skóla, kirkjufélaga, líknarsamtaka, menningarsamtaka, stjórnmálasamtaka o.þ.h. Stærri skyndihappdrætti, sem haldin eru á landsvísu, eru mun fátíðari, en umfang þeirra er hins vegar margfalt meira en staðbundnu happdrættanna. Krabbameinsfélag Íslands, Slysavarnafélag Íslands og svipuð félög hafa fengið leyfi fyrir þessum happdrættum, þar sem gefnir eru út happdrættismiðar á íbúa í hverju húsi í landinu eða jafnvel á alla fullorðna einstaklinga í landinu. Gjald fyrir happdrættisleyfi er í dag kr. 5.000, óháð stærð happdrættisins.

Eins og áður segir, er í dag fylgt tilteknum óskráðum reglum um þessi happdrætti. Það, sem koma þarf fram í happdrættisumsókn, er m.a.: 1) Upplýsingar um hver heldur happdrættið og ábyrgðaraðila þess. 2) Fjöldi útgefinna miða. 3) Miðaverð. 4) Vinningar, röð þeirra og verðmæti, ásamt heildarverðmæti. 5) Hvenær dregið verður í happdrættinu. 6) Upplýsingar um símanúmer sem unnt er að hringja í til að vitja um vinninga. 7) Byggt hefur verið á því sem skilyrði, að verðmæti vinninga sé að lágmarki 16,67% af heildarverðmæti útgefinna miða. 8) Skilyrði er að útdráttur fari fram í viðurvist sýslumanns. Hvorki er gert að skilyrði, að skila skuli inn til ráðuneytisins eintaki af happdrættismiða, eftir að leyfi hefur verið veitt, né reikningsskilum.

Eins og tekið er fram í kafla 4.1.6, hafa verið veitt leyfi til að halda einstök töluspjaldahappdrætti (bingó) á grundvelli almennu happdrættislaganna nr. 6/1926. Í sumum tilvikum hefur ekki verið krafist leyfis (sjá kafla 4.1.14). Undanfarin ár hefur dómsmálaráðuneytið veitt leyfi fyrir á bilinu fimm til tíu bingóum árlega.

4.1.14 Önnur happdrætti og skyld starfsemi

Þrátt fyrir ákvæði almennu happdrættislaganna nr. 6/1926 hafa ýmis happdrætti, einkum happdrætti á innanfélagssamkomum eða í tilteknum þröngum hópi, þar sem sala miða, dráttur og afhending vinninga fer fram á sama stað, verið látin óátalin. Sama á við um sum bingóhappdrætti á samkomum.

Í framhaldi af þessu skal getið um bingóstarfsemi, annars vegar sjálfseignarstofnunarinnar Veltubæjar í Vinabæ í Skipholti og hins vegar knattspyrnudeildar íþróttafélagsins Þróttar í Reykjavík í Glæsibæ.

Sjálfseignarstofnunin Veltubær er stofnuð af Stórstúku Íslands og er ætlað að efla starfsemi Góðtemplarareglunnar á Íslandi. Veltubær starfar á grundvelli skipulagsskrár, sem dómsmálaráðuneytið staðfesti 23. janúar 1990 (nr. 49/1990 í B-deild Stjórnartíðinda). Í 2. gr. hennar kemur fram, að stofnunin skuli annast fjáröflun í víðtækasta skilningi til stuðnings heilbrigðri bindindisstarfsemi og í því skyni sé henni heimilt að starfrækja fjáröflun með happdrætti og bingóspili. - Svo virðist sem aðeins einu sinni hafi verið gefið út formlegt leyfi fyrir starfsemi Veltubæjar í Vinabæ. Það leyfisbréf gaf dómsmálaráðuneytið út þann 7. maí 1991 og gilti það til 31. desember sama ár. Ekki hefur verið sótt um leyfi frá þeim tíma. Tekið er skýrt fram í leyfisbréfinu, að óheimilt sé að hafa peninga eða peningaígildi sem vinninga. Áður starfrækti Stórstúka Íslands um árabil bingó í Tónabæ og þá jafnan á grundvelli útgefinna leyfa. - Samkvæmt upplýsingum dómsmálaráðuneytisins starfrækir Veltubær bingó þrisvar sinnum í viku. Bingóið er spilað á blöðum og kostar hvert blað 60-120 kr. Vinningar eru vöruúttektir. Hæsti vinningur á kvöldi er úttekt að verðmæti 100.000 kr. og lægsti vinningur úttekt að verðmæti 700 kr. Á hverju bingókvöldi eru dregnir út vinningar að verðmæti um 500.000 kr. Vinningshlutfall er 70-80%. Vinningar munu í reynd vera innleystir í lok hvers bingókvölds og virðast vöruúttektirnar, sem eiga að vera hjá tilteknum fyrirtækjum, vera til málamynda. Ekki hefur fengist uppgefið, hverjar árstekjur Veltubæjar eru af starfrækslu bingósins.

Knattspyrnufélaginu Þrótti í Reykjavík, knattspyrnudeild, var fyrst veitt leyfi til að halda bingó í veitingahúsinu Glæsibæ með bréfi dómsmálaráðuneytisins, dags. 29. september 1988, en þá hafði bingóið í reynd verið starfrækt um tveggja ára skeið. Hagnaði af rekstrinum mun hafa verið ætlað að renna til félags- og æskulýðsstarfsemi í Voga- og Heimahverfi í Reykjavík. Bingóið var starfrækt um nokkurra ára skeið á grundvelli útgefinna leyfisbréfa, en ekki hefur verið sótt um endurnýjun leyfis síðan leyfi, sem útgefið var 7. maí 1991 og gilti til 31. desember sama ár, rann út. Tekið er skýrt fram í leyfisbréfum, að óheimilt sé að hafa peninga eða peningaígildi sem vinninga. - Samkvæmt upplýsingum dómsmálaráðuneytisins er bingóið starfrækt einu sinni í viku. Bingóið er spilað á blöðum og kostar hvert blað kr. 50, en kr. 120 þegar spilað er um hæsta vinninginn. Spilaðar eru tíu umferðir, níu með vinninga frá kr. 700-10.000 og ein með 100.000 kr. vinning. Alls er á kvöldi spilað um vinninga að fjárhæð um 300.000 kr. Vinningshlutfall er 85-90%. Hagnaður af starfrækslu bingósins mun vera u.þ.b. kr. 1.700.000 á ári.

Almennt hefur færst í aukana að fyrirtæki efni til ýmis konar leikja, sem gefa af sér vinninga, í þeim tilgangi að örva sölu á vöru og þjónustu. Stundum er talað um "kaupaukahappdrætti" í þessu sambandi, en ekki hafa verið tekin af tvímæli um hverjir þessara leikja séu happdrætti og hverjir ekki. Samkvæmt eldri samkeppnislögum nr. 56/1978 voru verðlaunasamkeppnir bannaðar, en bannákvæðið var fellt niður með núgildandi lögum nr. 8/1993. Frá þeim tíma hefur veruleg aukning orðið á þessum leikjum. Samkeppnisstofnun hefur litið svo á, að leikir þessir eða samkeppnir heyri almennt ekki undir samkeppnislögin. Þó verði stofnunin að hafa eftirlit með því að leikirnir brjóti ekki í bága við góða viðskiptahætti, samkvæmt ákvæðum 20. gr. samkeppnislaganna. Dómsmálaráðuneytið hefur litið svo á, að leikir þessir heyri ekki undir happdrættislögin.

Fjöldi happdrættisleikja hefur í seinni tíð farið fram í gegnum síma, símatorg eða sjónvarp, án leyfis í neinu formi. Oftast ráðast vinningslíkur þessara leikja eingöngu af kunnáttu, eða að hluta til af kunnáttu og að hluta af hraða og/eða tilviljun. Kosti símtal meira en venjulegt símtal vaknar sú spurning, hvort um gjald (framlag) sé að ræða í skilningi happdrættishugtaksins. Dómsmálaráðuneytið hefur ekki tekið afstöðu til þessara leikja.

Ýmsir aðrir leikir, ólíkir að uppbyggingu og framkvæmd, hafa tíðkast. Í sumum tilvikum er álitamál, hvort í reynd verði að líta á "framlag", sem þátttakanda er frjálst að leggja fram um leið og hann tekur þátt í leiknum, sem greiðslu fyrir þátttöku. Verði niðurstaðan sú að framlagðið sé greiðsla fyrir þátttöku, líkjast leikir þessir, sem oft felast í því að þátttakandi á að geta sér til um eitthvað, ýmist íþróttagetraun eða talnagetraun, allt eftir því hvort hæfni og þekking þátttakandans getur haft áhrif á möguleika hans á vinningi.


Um nokkurt árabil var staðið fyrir getraunastarfsemi í sambandi við kosningaúrslit. Sú starfsemi var látin óátalin lengi vel, en fyrir allnokkrum árum var farið að efast um lögmæti slíkrar starfsemi og aðilum gerð grein fyrir því, þegar efni hefur staðið til þess. Vinningar voru peningagreiðslur.

4.1.15 Netið

Íslensku happdrættin bjóða margvíslega þjónustu í gegnum Netið. Þar er og hægt að fá ýmsar upplýsingar um íslensku happdrættin. Mismunandi er þó hversu ítarlegar upplýsingar er að finna á heimasíðum einstakra happdrætta.

Á heimasíðu happdrættis Háskóla Íslands (slóðin http://www.hhi.is) er hægt að fá upplýsingar um vinningsnúmer.

Happdrætti Sambands íslenskra berklasjúklinga og happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna veita á heimasíðum sínum (slóðirnar http://www.sibs.is og http://www.itn.is/das) almennar upplýsingar um happdrættin, upplýsingar um vinninga, vinningsnúmer og umboðsmenn. Þá er hægt að kaupa miða í gegnum Netið.

Upplýsingar á heimasíðu Íslenskra getrauna eru margvíslegar (slóðin http://www.1x2.is). Þar er hægt að fá almennar upplýsingar um Íslenskar getraunir og þær getraunir, sem félagið starfrækir, og upplýsingar um úrslit í íþróttakappleikjum. Jafnframt er unnt að taka þátt í einstökum íslenskum getraunum í gegnum Netið og tengjast fjölmörgum erlendum upplýsingasíðum um getraunir. Loks starfrækja Íslenskar getraunir leikinn Eurogoals á Netinu, en samkvæmt 1. og 3. mgr. 36. gr. reglugerðar nr. 543/1995 er Íslenskum getraunum heimilt að starfrækja tímabundinn aukaleik, eitt sér eða í samvinnu við erlent getraunafyrirtæki. Stjórn Íslenskra getrauna skal þá ákvarða fjölda kappleikja, sem þátttakendur geta sér til um úrslit í. Félagið skal tilkynna dómsmálaráðuneytinu um slíka aukaleiki og verð raðar, og skal auglýsa um þetta í blaði, sem félagið gefur út og segir til um kappleiki umferðarinnar. Leikurinn er eingöngu spilaður á Netinu og vísast nánar um lýsingu á honum til kafla 4.1.8.

Á heimasíðu Íslenskrar getspár (slóðin http://www.lotto.is) er hægt að fá almennar upplýsingar um talnagetraunir, upplýsingar um vinningstölur og hvernig á að taka þátt.

Ætla verður að starfsemi íslenskra happdrætta á Netinu lúti sömu reglum og önnur happdrættisstarfsemi á Íslandi.

Með tilkomu Netsins hafa aukist möguleikar á þátttöku í ýmsum erlendum leikjum og spilum, sem sett eru á markað í gegnum Netið. Auðvelt er að nálgast slíka leiki á hefðbundnum leitarvefjum með því að slá inn viðeigandi leitarorð, t.d. orðið "lotteri". Þátttaka fer jafnan fram í gegnum reikningsnúmer og leggst vinningur inn á sama númer. Hér á landi eru engar lagareglur til um þátttöku í erlendum happdrættum í gegnum Netið.

4.1.16 Skattar

4.1.16.1 Skattskyldir vinningar

Um tekjuskatt á vinninga er meginreglan sú, samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekju- og eignarskatt, nr. 75/1981, að vinningar í happdrætti, veðmáli eða keppni teljast til skattskyldra tekna. Frá þessu eru þrenns konar undantekningar:

1) Samkvæmt framangreindu lagaákvæði eru undanskildir verðlitlir vinningar í almennum happdrættum og keppnum, sbr. og lög nr. 147/1994, 1. gr.

2) Samkvæmt 3. tölul. A-liðar 30. gr. laga um tekju- og eignarskatt, nr. 75/1981, sbr. lög nr. 154/1998, 5. gr., má draga frá skattskyldum tekjum manna, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, vinninga í happdrætti, veðmáli eða keppni, sem skattfrjálsir eru samkvæmt sérlögum. Á þeim grundvelli njóta skattfrelsis vinningar í eftirfarandi happdrættum: Happdrætti Háskóla Íslands, sbr. 4. gr. laga nr. 13/1973, vöruhappdrætti fyrir Samband íslenskra berklasjúklinga, sbr. 2. gr. laga nr. 18/1959, getraunum, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 59/1972, happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna, sbr. 4. gr. laga nr. 16/1973, talnagetraunum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 26/1986, og söfnunarkössum, sbr. 3. gr. laga nr. 73/1994.

3) Samkvæmt 3. tölul. A-liðar 30. gr. laga um tekju- og eignarskatt, nr. 75/1981, sbr. lög nr. 154/1998, 5. gr., má draga frá skattskyldum tekjum manna, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, vinninga í happdrætti sem fengið hefur leyfi dómsmálaráðuneytisins, enda sé öllum ágóða af happdrættinu varið til menningarmála, mannúðarmála eða kirkjulegrar starfsemi og ríkisskattstjóri hefur staðfest að uppfylli skilyrði þessa töluliðar. Á árinu 1997 höfðu eftirtalin happdrætti heimild til greiðslu skattfrjálsra vinninga á grundvelli sambærilegrar heimildar (sjá 120. gr. laga um tekju- og eignarskatt, nr. 75/1981, sbr. lög nr. 147/1994, 15. gr., um þágildandi heimild fjármálaráðherra til að ákveða í eitt ár í senn að vinninga í tilteknum happdrættum mætti draga frá skattskyldum tekjum, sbr. 3. tölul. A-liðar 30. gr. laganna): Happdrætti Bandalags íslenskra skáta, happdrætti Blindrafélagsins, happdrætti Félags heyrnalausra, happdrætti Gigtarfélagsins, happdrætti Handknattleikssambandsins, happdrætti Hjartaverndar, happdrætti samtaka og húsnæðisfélags SEM, happdrætti Íþróttafélagsins Aspar, happdrætti Krabbameinsfélagsins, happdrætti Lionsklúbbsins Óðins, happdrætti Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra, happdrætti Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, happdrætti Styrktarfélags vangefinna og happdrætti Þroskahjálpar.

Vinningar í happdrætti og skyldri starfsemi eru eignarskattskyldir samkvæmt 73. gr. laga um tekju- og eignarskatt, nr. 75/1981, þar sem segir, að til skattskyldra eigna teljist allar fasteignir, lausafé og hvers konar önnur verðmæt eignarréttindi, hvort sem eignirnar gefi af sér arð eða ekki.

Sérákvæði er í sérlögum um eignarskatt á vinninga í sumum þeirra happdrætta, sem starfa eftir slíkum lögum. Samkvæmt ákvæðunum skulu vinningar í viðkomandi happdrætti vera undanþegnir hvers konar opinberum gjöldum, öðrum en eignarskatti á því ári, sem þeir falla, sbr. 4. gr. laga um happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13/1973, 2. gr. laga um vöruhappdrætti fyrir Samband íslenskra berklasjúklinga, nr. 18/1959, 2. mgr. 3. gr. laga um getraunir, nr. 59/1972, 4. gr. laga um happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna, nr. 16/1973, 2. mgr. 4. gr. laga um talnagetraunir, nr. 26/1986, og 3. gr. laga um söfnunarkassa, nr. 73/1994.

4.1.16.2 Skattskylda aðila sem starfrækja happdrætti og skylda starfsemi

Samkvæmt 5. tölul. 4. gr. laga um tekju- og eignarskatt, nr. 75/1981, eru þeir aðilar, sem starfrækja happdrætti eða skylda starfsemi hér á landi, undanþegnir bæði tekju- og eignarskatti, ef þeir verja hagnaði sínum einungis til almenningsheilla og hafa það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum.

4.1.17 Refsiákvæði almennra hegningarlaga

Í 183. og 184. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. lög nr. 82/1998, 92. og 93. gr., er að finna refsiákvæði sem lúta að fjárhættuspilum og veðmálum.

Í 183. gr. segir, að sá, sem geri sér fjárhættuspil eða veðmál að atvinnu eða komi öðrum til þátttöku í þeim, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári, ef sakir eru miklar. Ákveða skuli með dómi, hvort vinningi af fjárhættuspili eða veðmáli skuli skilað aftur eða hvort hann skuli gerður upptækur.

Í 184. gr. er tekið fram, að hver, sem afli sér tekna beint eða óbeint með því að láta fjárhættuspil eða veðmál fara fram í húsnæði, er hann hefur umráð yfir, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.

Að því er varðar skilning á 183. gr. skal vakin athygli á þessum orðum í athugasemdum með frumvarpi til almennra hegningarlaga (sjá Alþ.tíð. 1939, A-deild, þskj. 43, bls. 385): "Fjárhættuspil og veðmál eru því aðeins refsiverð eftir þessari grein, að maður geri sér atvinnu að því að taka þátt í þeim sjálfur eða að því að koma öðrum til þátttöku í þeim. Hins vegar er það refsilaust að taka þátt í fjárhættuspili, ef það er ekki í atvinnuskyni gert. Ekki er það refsiskilyrði, að sökunautur hafi gert sér þetta að aðalatvinnu."

Um skýringu á hugtökunum "fjárhættuspil" og "veðmál" í ofangreindum lagaákvæðum vísast til kafla 4.1.1.


4.2 Erlendur réttur

4.2.1 Almennt

Happdrættisrekstur í hinum vestræna heimi er víðast hvar háður ströngum ákvæðum um einkarétt. Á markaðnum ríkir almennt fákeppni milli örfárra ríkisrekinna fyrirtækja, sem skila gríðarlegum fjármunum í ríkissjóð viðkomandi landa. Skattlagning í einhverju formi er ríkjandi, en skattar eru ýmist lagðir á veltu fyrirtækjanna eða vinninga. Algengt er að ágóðinn renni til tiltekinna góðgerðarmála, en í mörgum tilvikum rennur allur ágóðinn í ríkissjóð.

Í þessum kafla verður gerð grein fyrir happdrættisrekstri í nokkrum nágrannalöndum okkar.

4.2.2 Danmörk

Í Danmörku eru í gildi lög frá 6. mars 1869 um bann við happdrættum o.fl. Hugtakið happdrætti er ekki skilgreint í lögum, en það hefur verið túlkað á þá leið að það taki einungis til leikja, þar sem þátttakendur leggja fram gjald fyrir þátttöku. Fyrir utan happdrættishugtakið falla þau tilvik þegar þátttaka er ekki háð framlagi og þegar ákveðnir hæfileikar auka vinningslíkur, þannig að þær ráðast ekki einvörðungu af tilviljun. Samkvæmt lögunum þarf leyfi til að halda happdrætti, nema um sé að ræða happdrætti verslana/fyrirtækja eða mjög lítil happdrætti. Lögreglustjóri eða dómsmálaráðuneyti veita leyfi eftir atvikum. Happdrættin skiptast í regluleg happdrætti og önnur happdrætti, sem aðeins mega starfa í stuttan tíma. Sem dæmi um regluleg happdrætti má nefna Landsbrugslotteriet og Varelotteriet. Langstærst er þó Klasselotteriet, sem rekið er af ríkinu, og starfar samkvæmt sérstökum lögum. Samkvæmt þeim lögum er sala erlendra happdrættismiða bönnuð í landinu. Klasselotteriet er flokkahappdrætti og er það m.a. fyrirmynd happdrættis Háskóla Íslands. Happdrættið hefur starfað allt frá árinu 1869, en peningahappdrætti hefur verið rekið af danska ríkinu frá 1754. Skattamálaráðuneytið hefur eftirlit með happdrættinu og rennur hagnaður af því í ríkissjóð. Vinningar eru skattfrjálsir.

Smærri happdrætti eru starfrækt með ýmsu sniði, svo sem í formi tombólu, töluspjaldahappdrættis (bingó) o.s.frv. Lögreglustjórar veita almennt leyfi fyrir þessum happdrættum, en ákvarðanir þeirra eru kæranlegar til dómsmálaráðuneytisins. Heimilt er að veita leyfi til happdrættis í góðgerðarskyni eða til almannahagsmuna. Fyrirtæki/félagasamtök verða að vera skráð í Danmörku til þess að geta fengið leyfi og tilgangur þess/þeirra má ekki vera eingöngu eða að meginstefnu til að halda happdrætti. Leyfi eru almennt veitt til tiltekins tíma í senn, hámark til tveggja mánaða. Gerð er sú krafa, að lágmark 35% af veltu happdrættisins renni til þess málefnis, sem happdrættið stendur fyrir. Í vissum tilvikum er möguleiki á heimild til að hafa peningavinninga. Ef heildarverðmæti útgefinna miða er DKK 20.000 eða meira, skal dráttur fara fram hjá notarius publicus. Innan sex mánaða frá drætti ber að skila uppgjöri til lögreglustjóra, ásamt upplýsingum um hvernig hagnaði happdrættisins er varið. Ekki er unnt að fá leyfi fyrir nýju happdrætti hafi reikningsskil ekki borist. Lítil félög þurfa ekki leyfi til að efna til happdrættis, ef aðeins félagar og menn þeim tengdir taka þátt í því. Einnig er gert að skilyrði, að verðmæti hvers vinnings fari ekki yfir 5.000 DKK og að heildarverðmæti vinninga sé ekki hærra en 100.000 DKK. Félög geta ennfremur haldið án leyfis eitt lítið opinbert happdrætti árlega til styrktar góðgerðarmálum eða í almannaþágu. Þetta er þó háð nokkrum skilyrðum. Til dæmis er skylt að tilkynna lögreglu um happdrættið með a.m.k. 14 daga fyrirvara.

Lagt er sérstakt gjald á vinninga í happdrættum frá 15 - 17,5%. Það á þó ekki við um vinninga að upphæð DKK 200 og lægri.

Í kjölfar dóms Hæstaréttar Danmerkur frá árinu 1954 (um Tivoli Karolinelund) hefur almennt verið talið að verðlaunasamkeppnir, eða svokölluð kaupaukahappdrætti, séu heimil samkvæmt dönskum happdrættislögum frá 1869. Dönsku samkeppnislögin nr. 428/1994, 9. gr., setja þó skorður við kaupaukahappdrættum. Ákvæðið bannar ekki kaupaukahappdrætti, en spornað er við því að markaðssetning sé grundvölluð á voninni um vinning. Ákvæðið á aðeins við þegar kaup eru skilyrði fyrir þátttöku, en ekki þegar þátttaka er ókeypis.

Leikjakassar (spilleautomater), þar sem vinningar eru greiddir út, falla utan happdrættishugtaksins, svo framarlega sem verðmæti vinninga er lítið og tilgangur leiksins er fyrst og fremst skemmtun. Reglur um kassana finnast þó víða í löggjöf. Í reglum um opinberar skemmtanir frá 1988 eru sett skilyrði fyrir löggildingu og uppsetningu kassanna. Tvö einkafyrirtæki sjá um tæknilegt eftirlit með þeim, en dómsmálaráðuneytið og Dansk akkreditering (DANAK) geta veitt öðrum leyfi til að sjá um eftirlit. Tilkynna þarf lögreglu um uppsetningu kassa á hótelum eða veitingastöðum. Lögreglan getur bannað uppsetningu, ef líkur eru á að staðsetning kassa spilli almannafriði. Ef setja á upp fleiri en þrjá kassa á sama stað, þarf leyfi frá lögreglu. Viðkomandi sveitarfélag getur sett reglur um gjald fyrir uppsetningu kassa.

Árið 1990 voru sett í Danmörku lög um happasali (casino). Ein af ástæðunum fyrir lögleiðingunni var sögð vera sú, að koma í veg fyrir að Danir færu til annarra landa til að spila í casinoum. Nú eru um 10 casino rekin í Danmörku. Í tengslum við lögin um casino voru settar sérstakar reglur um uppsetningu spilakassa í þeim sölum. Peningavinningar eru heimilaðir í þeim tilvikum. Kassarnir eiga að vera undir árlegu eftirliti, þar sem fylgst skal með því að tiltekin skilyrði um kassana séu uppfyllt.

Samkvæmt lögum nr. 637/1993, um viss spil, happdrætti og veðmál, er skattamálaráðuneytinu heimilt að gefa Dansk Tipstjenste A/S leyfi til að starfrækja spil, happdrætti og veðmál gegn greiðslu 16% gjalds af veltu til ríkisins. Gjaldið vegna veðbanka er þó 30% af tekjum umfram greidda vinninga. Allar aðrar tegundir veðmála, svo og miðlun erlendra veðmála, er bönnuð, og þátttaka í ólöglegu veðmáli er refsiverð. Af innborgunum skulu minnst 45% og mest 60% renna til vinninga í getraunum, happdrættum eða öðrum spilum. Ágóðinn rennur fyrst og fremst til íþróttamála og almennra menningarmála. Dansk Tipstjenste A/S var stofnað árið 1948. Ríkið á 80% hlutafjár í því, danska íþróttasambandið 10% og danska ungmennafélagið 10%. Fram til ársins 1989 var félagið eingöngu með knattspyrnugetraunir, en frá þeim tíma hefur það fengið leyfi fyrir fleiri tegundum happdrætta og leikja og rekur t.d. Lottó í dag. Fyrirtækinu er hins vegar óheimilt að reka flokkahappdrætti eða smærri happdrætti, sem heyra undir hin almennu happdrættislög. Fyrirtækið greiðir 13% í skatt á veltu og vinninga.

Um veðmál er fjallað í lögum nr. 186/1919. Skattamálaráðuneytið getur veitt leyfi til þriggja ára til veðmála í tengslum við kappreiðar, hjólreiðar og kappflug bréfdúfna. Greitt er gjald til ríkisins af samanlögðum framlögum til veðbanka dag hvern. Gjaldið, sem er breytilegt eftir stærð heildarframlaganna, er frá 10 - 25%. Vinningar skulu vera minnst 60% af samanlögðum iðgjöldum. Vinningar eru skattlagðir.

4.2.3 Noregur

Í Noregi eru í gildi happdrættislög frá 24. febrúar 1995 um svokölluð einkahappdrætti. Um peningahappdrætti gilda sérstök lög frá 28. ágúst 1992 og lög frá 4. júní 1976. Þau happdrætti, sem ekki heyra undir happdrættislögin, eru hin ríkisreknu peningahappdrætti og veðmálastarfsemi. Öll önnur happdrættisstarfsemi heyrir undir happdrættislögin. Ríkisreknu peningahappdrættin eru: Knattspyrnugetraunir, Oddsen, Lotto, Víkingalottó, Det Norske Pengelotteriet og Flax. Veðmálastarfsemi heyrir undir lög frá 1. júlí 1927. Samkvæmt reglugerð gildir hluti happdrættislaganna einnig um leikjakassa.

Hugtakið happdrætti er skilgreint í lögum. Samkvæmt þeim þurfa þátttakendur að leggja fram gjald til að starfsemi geti talist happdrætti.

Meginreglan er sú, að leyfi þarf til að halda happdrætti. Leyfi má að meginstefnu til aðeins veita fyrirtækjum eða félagasamtökum, sem hafa mannúðar- eða þjóðfélagsnýtin sjónarmið að markmiði.

Í Noregi eru til ótal tegundir smáhappdrætta. Má í því sambandi nefna ýmis konar happaspil, svo sem lukkuhjól, leikjakassa, bingó o.fl. Lögreglustjóri veitir almennt leyfi fyrir þessum spilum og vélum, en dómsmálaráðuneytið setur ýmsar reglur um þær. Jafnframt verður ráðuneytið að samþykkja vélarnar, sem eru notaðar.

Extra er spil sem líkist bingói og fer fram í sjónvarpi. Fyrirtækið Norsk Tipping AS stjórnar spilinu fyrir ýmis góðgerðarsamtök.

Reglurnar, sem gilda í dag, standa ekki í vegi fyrir því, að erlend fyrirtæki geti farið inn á happdrættismarkaðinn. Það skilyrði er þó sett, að hið erlenda happdrætti starfi í samræmi við norsk happdrættislög. Hingað til hefur dómsmálaráðuneytið hvorki veitt leyfi fyrir happdrættum í gegnum símatorg né Netið.

Svokölluð símahappdrætti hafa færst mjög í aukana í Noregi. Þátttaka fer þannig fram, að hringt er í símanúmer og svarað spurningum. Svörin byggjast venjulega á þekkingu eða hraða, en stundum tilviljun. Norska dómsmálaráðuneytið hefur litið svo á að gjald sé til staðar, ef símtalið kostar meira en venjulegt símtal, óháð því hvert tekjurnar renna. Ráðuneytið hefur bent á, að hér sé um kreditþjónustu að ræða, þar sem reikningur kemur síðar en þátttaka fer fram, en í Noregi hefur almennt verið lagst gegn kreditþjónustu í happdrættum. Telur ráðuneytið þetta atriði nægjanlegt til að neita um leyfi fyrir þessum leikjum. Ráðuneytið mun því hafa ákveðið að leyfa ekki þessa tegund leikja, nema samkeppni sé ríkjandi þáttur í leiknum.

Fyrirtækið Norsk Tipping AS sér um öll ríkisreknu happdrættin nema veðmálaspilin og hefur um 45% af markaðnum. Fyrirtækið er hlutafélag þar sem ríkið á allan hlut og er það undanþegið hlutafélagalögum. Nýir leikir félagsins eru háðir samþykki stjórnvalda. Hagnaður af hinum ólíku spilum, sem Norsk Tipping AS rekur, rennur í einn pott og skiptist eftir lögum um peningaspil, þannig að 1/3 hluti rennur til menningarmála, 1/3 til íþrótta og 1/3 til rannsókna.

Fjármálaráðuneytið veitir leyfir fyrir Det Norske Pengelotteriet og peningaspilinu Flax, sem er skafmiðahappdrætti, og sér um eftirlit með þeim. Menningarmálaráðuneytið sér um önnur ríkispeningahappdrætti, þ.e. Lotto og Víkingalotto og íþróttagetraunirnar Tipping og Oddsen.

Um veðmálastarfsemi gilda lög frá 1. júlí 1927. Heimilt er að veita samtökum og félögum, sem hafa að tilgangi að styrkja hrossarækt, leyfi til starfseminnar. Landbúnaðarráðuneytið hefur yfirstjórn þessara málefna og hefur Norsk Rikstoto verið veitt leyfi til að sjá um starfsemina.

Ríkiseftirlitið var stofnað um leið og Norsk Tipping AS og hefur eftirlit með að starfsemi þess sé í samræmi við lög. Eftirlitið er skipað af menningarmálaráðuneytinu og sitja 10 manns í því. Útgjöld vegna þess eru greidd af Norsk Tipping AS, að undanskildu eftirlitinu með Extra. Eftirlitið fjallar einnig um kærur frá þátttakendum í spilunum.

Einkahappdrættin eru undir eftirliti lögreglu og dómsmálaráðuneytis. Rannsóknarlögreglan og sveitarfélög koma stundum að eftirliti og leyfisveitingu. Unnt er að kæra ákvarðanir lögreglustjóra um happdrætti til dómsmálaráðuneytisins. Allar ákvarðanir dómsmálaráðuneytisins eru síðan kæranlegar til ríkisstjórnarinnar. Hún fjallar einnig um stærri happdrættismálefni og grundvallarbreytingar á happdrættismarkaði, svo sem stofnun nýrra leikja o.fl. Hún veitir ennfremur leyfi til veðmálastarfsemi.

Árið 1992 var settur á laggirnar svokallaður samráðshópur til að tryggja betri samræmingu milli ríkispeningahapprættanna og milli ríkishappdrættanna og einkahapprættanna. Hópurinn er ráðgefandi, en hefur ekki ákvörðunarvald. Hann fjallar um meiriháttar breytingar á happdrættismarkaðnum. Í hópnum sitja fulltrúar frá fjármálaráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti, menningarmálaráðuneyti og dómsmálaráðuneyti.

4.2.4 Svíþjóð

Í Svíþjóð voru samþykkt ný happdrættislög árið 1994. Lögin gilda um happdrætti sem skipulögð eru fyrir almenning og ná einnig til ýmissa smærri leikja og spila, sem ekki eru opin almenningi. Spilakassar, sem ekki gefa vinning, eða einungis vinning í formi þess að spila ókeypis, heyra ekki undir lögin. Nánari reglur um happdrættin, svo sem um umsóknir, vinninga o.fl. er að finna í reglugerð.

Hugtakið happdrætti er skilgreint í lögunum. Er skilgreiningin svipuð og í Noregi, nema að ekki er gert að skilyrði að þátttakendur leggi fram gjald til að starfsemi teljist happdrætti.

Meginreglan í Svíþjóð er sú, að leyfi þarf til reksturs happdrættis, nema í vissum undantekningartilvikum. Viss staðbundin smáhappdrætti má halda án leyfis, en stundum eru þau háð tilkynningarskyldu og nánari skilyrðum um vinningshlutfall o.fl. Leyfi til happdrættis má veita sænskum fyrirtækjum eða félagasamtökum, sem hafa almannahagsmuni að leiðarljósi. Einnig ef þau hafa almannahagsmuni erlendis að leiðarljósi, en þá þurfa þau að tilgreina sérstakar ástæður fyrir happdrættinu.

Leyfi til happdrættis er yfirleitt veitt til tiltekins tíma og á ákveðnu svæði. Svo framarlega sem ekki er ástæða til annars, skal halda happdrætti á því svæði, sem leyfishafi hefur höfuðstöðvar.

Vinningar mega yfirleitt ekki vera peningar eða verðbréf, en þó er heimilt að veita undanþágu frá því, t.d í tengslum við bingó.

Spilakassar með vöruvinninga (varegevinstautomater) eru ekki háðir leyfi, ef þeir eru staðsettir á opinberum skemmtistöðum, veitingastöðum eða hótelum. Sú krafa er þó gerð, að spilakassinn valdi ekki ónæði á viðkomandi svæði.

Um leikjakassa (underholdningsautomater) gilda sérlög frá 1982. Samkvæmt lögunum veita sveitarstjórnir leyfi fyrir uppsetningu kassanna og sjá um eftirlit með þeim. Fyrir setningu laganna voru kassarnir ekki háðir leyfisveitingu og voru því eftirlitslausir. Sveitarstjórn getur sett reglur um kassana, t.d. um aldurstakmark og opnunartíma, og ákveðið gjald fyrir kassana.

Leyfi þarf fyrir lukkuhjólum og teningaspilum, en þau eru einungis lögleg ef þau eru staðsett á opinberum skemmtistöðum, í skemmtigörðum, skipum, hótelum, veitingastöðum o.þ.h.

Í Svíþjóð eru tvö stór ríkisfyrirtæki, sem skipta með sér stærstum hluta happdrættisstarfsemi í landinu. Þau eru Svenska Spel og ATG (AB Trav og Galopp). Líknar- og góðgerðarfélög eru með um 20% af markaðnum.

Í Svíþjóð er starfandi happdrættiseftirlit (Lotteriinspektionen), sem er stjórnsýslustofnun um spil og happdrætti. Stofnunin veitir ráðgjöf og upplýsingar um það helsta, sem er að gerast á happdrættismarkaðnum, lagabreytingar o.fl. Einnig sér hún um eftirlit með öllum happdrættum og spilum í Svíþjóð, þar með talið hinum ríkisreknu spilum. Stofnunin heyrir undir fjármálaráðuneytið og er alfarið rekin af happdrættisgjöldum.

Ríkið veitir leyfi til stóru ríkisreknu fyrirtækjanna, en önnur leyfi veita eftir atvikum sveitarstjórn, lénsstjórn eða happdrættiseftirlitið.

Í Svíþjóð er starfandi stjórnsýsludómstóll í hverju léni. Unnt er að kæra ákvarðanir er varða happdrætti þangað. Áður en dómur gengur, skal leita umsagnar happdrættiseftirlitsins. Einnig er unnt að kæra til Kammerrätten, sem sömuleiðis er stjórnsýsludómstóll.

4.2.5 Finnland

Í Finnlandi gilda lög um happdrætti og spil frá 1. september 1965. Um leikjakassa gilda lög frá 10. febrúar 1995. Happdrættismarkaðurinn er aðallega í höndum ríkisrekinna fyrirtækja.

Meginreglan í Finnlandi er sú, að leyfi þarf til að halda happdrætti. Einungis fyrirtæki eða félagasamtök, sem hafa góðgerðarmálefni að leiðarljósi eða hafa ekki fjárhagslegan tilgang, geta fengið leyfi. Félagið þarf einnig að vera skráð í Finnlandi. Þessi fyrirtæki/félagasamtök þurfa ekki leyfi fyrir smáhappdrættum eða basörum.

Lögreglustjórar eða lénsstjórnir veita eftir atvikum happdrættisleyfi, eftir því hve víðtækt það á að vera. Hafi fyrirtæki fengið happdrættisleyfi er því að auki heimilt að halda, án leyfis, eitt svipað happdrætti, þar sem vinningar eru samtals að hámarki 5.000 FIM.

Meginreglan er sú, að leyfa einungis vöruhappdrætti, en undir vissum kringumstæðum getur verið möguleiki á peningavinningum.

Hámarkstími til sölu miða er fjórir mánuðir og óheimilt er að framlengja frestinn. Krafa er gerð um hvað koma skal fram í umsókn, hvaða skilyrði setja má fyrir leyfi og hvernig útdráttur eigi að fara fram. Heimilt er að innheimta gjald við afhendingu happdrættisumsóknar og fyrir útdrátt.

Spilakassar (slot-maskiner) starfa samkvæmt reglugerð frá 1967. Samkvæmt happdrættislögunum er einungis heimilt að veita fyrirtækjum leyfi til að setja upp vélar. Fyrirtækið RAY hefur fengið einkarétt til þess. RAY ber að tilkynna lögreglustjóra í viðkomandi umdæmi áður en kassi er settur upp. Lögreglustjórinn getur, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi, krafist þess að sótt verði um leyfi áður en vél er sett upp. Vélarnar má einungis setja upp þar sem unnt er að hafa eftirlit með þeim. Börn undir 15 ára aldri mega ekki spila í kössunum nema í fylgd fullorðins ættingja. Innanríkisráðuneytið setur reglur um hámarksframlag í kassana.

Spilavíti (casino) eru heimil í Finnlandi og hefur RAY einnig einkarétt á þeirri starfsemi. Rekstur þeirra er háður leyfi frá ríkisstjórn.

Um 74% af tekjum RAY renna til mismunandi góðgerðarsamtaka og fyrirtækja. Félagasamtök og fyrirtæki geta sótt um styrk til RAY, sem gerir tillögu til félags- og heilbrigðisráðuneytis um skiptingu fjármunanna. Ráðuneytin leggja síðan tillögu fyrir ríkisstjórn, sem hefur endanlegt ákvörðunarvald.

Um leikjakassa gilda lög frá 10. febrúar 1995. Samkvæmt þeim þarf ekki leyfi til að setja upp kassana. RAY hefur einnig farið inn á þennan markað og er ríkjandi á honum. Innanríkisráðuneytið telur þó að 30 - 40 önnur félög séu einnig á markaðnum. Vélarnar þarf að samþykkja og skal gera það á þeim stað, sem vélin er staðsett. Kassana má ekki setja upp þar sem erfitt er að hafa eftirlit með þeim og þar sem þeir geta valdið röskun á almannafriði.

Leyfi til íþróttagetrauna og lottós með peningavinningum, samsvarandi norsku happdrættunum Tipping, Oddsen, Lotto og Flax, má einungis veita félagasamtökum, til hámark 5 ára í senn. Finnska ríkislottóið (Oy Vekkaus Ab) hefur leyfi fyrir þessum leikjum. Tekjur af þeim renna til unglingavinnu, rannsókna, íþrótta og lista. Fyrirtækið verður að setja reglur um happdrættin, sem staðfestar eru af innanríkisráðuneytinu, sem einnig sér um eftirlit með þeim.

Sams konar reglur eru um veðmálastarfsemi. "Suomen Hippos ry" (finnska hestaveðhlaupafyrirtækið) hefur fengið leyfi til starfseminnar. Eftirlitið er hjá lénsstjórninni með aðstoð lögreglu. Lágmark 15% af tekjunum renna til ríkisins/fyrirtækisins og hámark 85% fer í vinninga. Tekjur ríkisins skulu renna til landbúnaðar- og skógræktarmála.

4.2.6 Álandseyjar

Álandseyjar hafa eigin happdrættislöggjöf. Meginreglan þar er sú, að leyfi þarf frá landsstjórninni til að halda happdrætti. Einnig má veita leyfi til að selja erlenda happdrættismiða á Álandi. Heimilt er að setja skilyrði fyrir leyfi. Ekki þarf leyfi fyrir smáhappdrættum, þar sem sala miða, dráttur og afhending vinninga fer fram á sama stað.

Fyrirtækjum, sem eru skráð á Álandi, sjálfstæðum sjóðum o.fl. aðilum, með góðgerðarmarkmið, má veita leyfi til vöruhappdrættis. Fyrirtækið PAF hefur einkaleyfi á peningahappdrættum.

PAF rekur peningakassa, leikjakassa, spilavíti, útvarpsbingó, bingólóttó og veðmálastarfsemi á Álandi, svo og alþjóðlega happdrættisstarfsemi á ferjum.

Landsstjórnin getur sett reglur um hámarksgjald í peningakassa. Ekki er bundið í reglum hve hár vinningur getur orðið. Spilakassarnir mega einungis vera staðsettir þar sem unnt er að hafa eftirlit með þeim og börn undir 15 ára aldri geta eingöngu spilað í fylgd með fullorðnum ættingja. Heimilt er að setja hærra aldurstakmark.

Ágóði PAF rennur í landsjóð. Lögpersónur með heimili á Álandi, sem hafa velferðarmál að tilgangi, geta sótt um styrk af ágóða PAF.

Ákveðin nefnd gerir árlega tillögu til landsstjórnarinnar um skiptingu ágóðans. Síðustu ár hefur 1/3 hluti ágóðans runnið til íþróttamála, 1/3 til félagslegra málefna og 1/3 til menningarmála.

4.2.7 Önnur lönd í Evrópu

Í öðrum löndum Evrópu en Norðurlöndunum eru happdrætti almennt bönnuð með lögum, eins og hér á landi. Hið opinbera, eða löggjafinn, getur hins vegar veitt einstaka undanþágur til eins eða fleiri aðila, til að reka happdrætti, með því skilyrði að hagnaður af happdrættinu renni til ríkisins, góðgerðarmála eða málefna í þágu almennings. Happdrættisstarfsemi er almennt háð ströngum reglum og eftirliti. Happdrættisrekstur í ríkjum Evrópu er nánast alls staðar með svipuðu sniði, þó blæbrigðamunur sé á reglum milli landa.

Stærri happdrætti eru oftast nær í höndum ríkisfyrirtækja, sem hafa einkarétt á starfseminni. Algengast er, að þau reki hin hefðbundnu happdrætti, Lottó, getraunir og skafmiðahappdrætti. Einnig er algengt að knattspyrnugetraunir og Lottó séu rekin af sama fyrirtækinu. Flest ríki heimila að veitt séu leyfi fyrir ýmsum tegundum happdrætta, sem ekki eru rekin af ríkinu eða fyrirtækjum í eigu þess, svokölluðum einkahappdrættum. Almennt er gert að skilyrði að einkareknu happdrættin séu til styrktar mannúðarmálum. Þau eru ýmist staðbundin eða rekin á landsvísu og eru smærri í sniðum en ríkishappdrættin. Í örfáum löndum eru leyfð einkarekin happdrætti sem eru sambærileg ríkisreknum happdrættum, svo sem Þýskalandi, Hollandi og á Spáni. Einstaka ríki banna alveg einkahappdrætti.

Eftir því sem næst verður komist munu nokkur Evrópuríki hafa í hyggju að breyta fyrirkomulagi happdrættisrekstrar og fela reksturinn óháðum fyrirtækjum, sem ekki eru hluti af hinu opinbera.

Veðreiðar eru vinsælar í Evrópu og heimilar í mörgum löndum. Stærstur er markaðurinn í Frakklandi og Bretlandi. Hið opinbera hefur einkarétt á veðreiðum í Frakklandi, en í Bretlandi eru þær einkareknar, m.a. af fjölþjóðafyrirtækjum.

Casino eru heimil í flestum Evrópuríkjum. Þau eru háð leyfi hins opinbera og um þau gilda strangar reglur. Oftast er rekstur þeirra í höndum einkafyrirtækja, en sum lönd eru með ríkiseinkarétt á þeim, t.d. Holland. Þar eru hins vegar rekin fjölda mörg ólögleg casino. Í Belgíu eru casino óheimil, en samt hefur ríkið látinn óátalinn rekstur átta casinostofa, og fjármálaráðuneytið hefur eftirlit með stöðunum á opnunartíma. Flest casino í Evrópu hafa leyfi til að reka happdrættisvélar.

Happdrættisvélar eru tiltölulega nýjar á Evrópumarkaði. Flest ríkin heimila nú rekstur þeirra. Í sumum löndum eru þær einvörðungu leyfðar í casinoum. Mikil ásókn hefur verið í að fá leyfi til rekstrar vélanna. Þær eru taldar laða að þátttakendur, þar sem þær eru oft staðsettar á kaffihúsum, veitingastöðum o.þ.h., þar á meðal þátttakendur, sem ekki hafa spilað áður í happdrættum og unga þátttakendur. Meðal annars með tilliti til ungra þátttakenda hafa sumar þjóðir viljað fara varlega í veitingu leyfa fyrir happdrættisvélum.

Önnur happdrætti eru óverulegur hluti af happdrættismarkaðnum í Evrópu. Algengast þeirra er bingó. Þau eru oft háð samskonar leyfisveitingum og eftirliti og einkahappdrætti.

Þýskaland er með einn stærsta og stöðugasta happdrættismarkaðinn í Evrópu og hefur verið á undan öðrum ríkjum með nýjungar. Eins og í flestum öðrum löndum eru stærstu happdrættin þar ríkisrekin. Ágóði þeirra rennur til velferðarmála. Einkahappdrætti, sambærileg við ríkishappdrættin, eru leyfð þar, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Reglur um gjöld, skatta og úthlutun ágóða eru hinar sömu og um ríkishappdrættin. Þýskaland var með þeim fyrstu að heimila Lottó og hefur starfsemi þess þar verið fyrirmynd að lottóstarfsemi í öðrum löndum Evrópu. Casino eru nokkuð útbreidd og eru þau ýmist einka- eða ríkisrekin. Happdrættisvélar eru algengar þar eins og í flestum öðrum löndum Evrópu og sömuleiðis veðreiðar. Þýsk happdrætti hafa reynt töluvert fyrir sér með markaðssetningu í öðrum löndum. Það hefur gengið ágætlega í þeim löndum, sem ekki hafa haft samskonar innlend happdrætti eða happdrætti með jafnstóra vinninga í boði.

Happdrættisrekstur í Bretlandi hefur haft nokkra sérstöðu. Fram til ársins 1993 voru öll meiriháttar happdrætti bönnuð í landinu og ríkishappdrætti voru ekki leyfð. Einungis smærri, staðbundin einkahappdrætti, háð ströngum skilyrðum, voru heimiluð. Erlend happdrætti hafa því reynt að komast inn á breska markaðinn, einkum þýsk happdrætti. Knattspyrnugetraunir hafa haft nær allan markaðinn í Bretlandi. Breska getraunastarfsemin er rekin af þremur einkafyrirtækjum. Þau hafa þjónað sama hlutverki og happdrættisfyrirtækin í öðrum löndum og gefið af sér umtalsverða fjármuni til ríkisins. Árið 1993 var breska þjóðarlottóið stofnað. Það hefur einkarétt á lottó-starfsemi. Eftir miklar umræður um rekstrarfyrirkomulag var afráðið að þjóðarlottóið skyldi rekið af einkafyrirtæki, en ekki af opinberum aðila. Happdrættið rekur talnagetraunir og hefur náð miklum vinsældum á skömmum tíma. Veðmál eru bönnuð í Bretlandi, nema þau séu sérstaklega leyfð með lögum. Fimm tegundir veðmála hafa verið leyfðar. Veðreiðar eru vinsælar í Bretlandi og eru þær í höndum einkafyrirtækja. Sama má segja um casino og happdrættisvélar.

Lottó og önnur peningahappdrætti í Evrópu hafa yfir 1/3 hluta happdrættismarkaðarins, veðreiðar og íþróttagetraunir (sem eru að mestum hluta knattspyrnugetraunir) hafa yfir 30%, casino um 17% og spilavélar 11%. Afganginn hafa bingó og önnur happdrætti. Hlutfall casinos á markaðnum verður að teljast tiltölulega hátt miðað við hvað reglur um þau eru strangar.

Ólögleg happdrætti tíðkast í Evrópu, en þau eru óveruleg miðað við stærð markaðarins. Helst hefur reynst erfitt að sporna við þeim á Ítalíu.

Tækniframfarir, aukin ferðalög og flutningar fólks milli landa hafa leitt til þess, að miklar breytingar eru að eiga sér stað á happdrættismarkaðnum. Fólk kynnist auðveldlega erlendum happdrættisleikjum og tekur þátt í happdrættum og veðmálum erlendra fyrirtækja. Aukin tækni í fjarskiptum mun ekki síst leiða til enn frekari breytinga í framtíðinni sem kallar á nýjar reglur. Sem dæmi um nýjungar má nefna símaþjónustu stórra fyrirtækja, krítarkortaáskrift og Netið, sem brjóta óðum niður öll landamæri á þessu sviði. Til dæmis versla Frakkar og Skandinavar við bresk veðmálafyrirtæki gegnum faxtæki og franska lottófyrirtækið á viðskiptavini um allan heim í gegnum símakerfi sitt. Þá er orðið mjög algengt, að dregið sé í happdrættum í beinum sjónvarpsútsendingum, sem aðgangur er að erlendis. Einnig eru veðreiðar í Frakklandi markaðssettar í sjónvarpi, en í Bretlandi er bannað að nota sjónvarp í því skyni.

Stóru ríkishappdrættisfyrirtækin eru almennt mótfallin því, að spilað sé í happdrættum milli landa. Samt sem áður tíðkast það í nokkrum mæli og búast má við að það aukist í framtíðinni. Þýsk happdrætti, sem eru með háa vinninga, hafa reynt að ná í viðskiptavini erlendis og eru líkleg til að ná árangri í löndum þar sem ekki eru rekin sambærileg happdrætti eða happdrætti með jafnháum vinningum og þýsku happdrættin bjóða upp á.

4.2.8 Bandaríkin

Happdrættisrekstur í Bandaríkjunum er mun yngri en í Evrópu. Fyrstu sex áratugi þessarar aldar voru happdrætti bönnuð í öllum fylkjum Norður-Ameríku. Hins vegar nutu ýmis fjárhættuspil og veðmálastarfsemi vinsælda meðal stórs hluta þjóðarinnar. Hestaveðreiðar höfðu verið löglegar frá árinu 1927. Alkunna er, að þrátt fyrir almennt bann gegn happdrættum tók fólk þátt í ýmsum ólöglegum happdrættisleikjum. Bingó voru víðast hvar spiluð á vegum kirkjunnar og velgjörðarsamtaka, en það var ekki fyrr en í kringum 1960 að sett voru lög um þau og þau skattlögð.

Lögleiðing fylkisrekinna happdrætta hófst fyrir alvöru í Bandaríkjunum upp úr 1970. Um 1980 fór að bera á rekstri Lottós og jókst velta happdrættanna til muna við það. Í seinni tíð hafa sum fylki tekið upp samvinnu um Lottó-starfsemina til að mynda enn stærri vinningsupphæðir. Happdrættin eru orðin mikilvægur skatttekjupóstur í þeim fylkjum, þar sem þau eru, og munu ríkin vera orðin talsvert háð þeim tekjum.

Happdrættisstarfsemi í Bandaríkjunum hefur vaxið mjög hratt og nú býr 4/5 hluti þjóðarinnar í fylkjum þar sem happdrætti eru ekki aðeins lögleg, heldur í umsjón fylkisstjórnanna. Hvert fylkið af öðru hefur hafið rekstur happdrættis og notfært sér hagnaðinn af starfseminni sem nýja tekjulind. Flestar megintegundir happdrætta, fjárhættuspila og veðmálastarfsemi, sem ríkjandi eru í heiminum í dag, hafa verið lögleiddar í Bandaríkjunum. Þó má nefna, að íþróttagetraunir hafa ekki náð sömu vinsældum þar og í Evrópu, en eru óðum að sækja í sig veðrið.

Casino eru aðeins lögleg í örfáum fylkjum. Rekstur þeirra hefur verið í höndum einkaaðila undir ströngu eftirliti og skattheimtu, líkt og í Evrópu. Þrátt fyrir að casino sé löglegt á fáum stöðum taka þau til sín langmest af fjármunum. Næstmest taka svonefndar "slot machines". Búist er við að Lukkuskjáir (Video Lottery Terminals) muni ná miklum vinsældum í náinni framtíð. Svokallað "Riverboat-Gambling" er nú leyft í nokkrum fylkjum. Þetta eru casino sem starfrækt eru á Mississippi-fljótinu. Í reynd eru öll skipin, sem casinoin eru staðsett á, vélarvana og hreyfast ekki úr stað. Þá má nefna lög frá árinu 1988, sem heimila frumbyggjum Ameríku, ýmsum indíánaættbálkum, að stofna happdrætti ef hliðstætt happdrætti er leyft fyrir í viðkomandi fylki. Tugir casinoa af þessari tegund eru nú starfrækt og velta miklum fjármunum. Þessi casino eru yfirleitt skattfrjáls og hafa töluvert verið gagnrýnd. Talið er, að talsvert af ólöglegum happdrættum, fjárhættuspilum og veðmálum sé starfrækt í Bandaríkjunum, þ. á m. íþróttagetraunir.

Þó að Bandaríkin hafi tiltölulega nýlega lögleitt happdrætti, er umfang þeirra þar svipað og í öðrum löndum, sem leyft hafa happdrætti í ára raðir.

4.3 Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið

Reglur um happdrættisstarfsemi hafa ekki verið samræmdar innan EES-ríkjanna og ekki hefur reynt á þær fyrir EFTA-dómstólnum. Á margan hátt er óljóst, hvaða þýðingu reglur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið hafa fyrir happdrættisstarfsemi. Samkvæmt löggjöf aðildarríkjanna er starfsemi erlendra happdrætta víðast hvar bönnuð í viðkomandi ríki. Svo virðist sem helst komi hér til skoðunar ákvæði 31. og 36. gr. EES-samningsins.

Í 3. kafla í III. hluta EES-samningsins eru ákvæði um þjónustu. Í 31. og 36. gr., sem eru efnislega samhljóða 52. og 59. gr. Rómarsáttmálans, er fjallað um rétt aðildarríkjanna til að stunda frjálsa atvinnustarfsemi og stofna og reka fyrirtæki/félög, og rétt þeirra til að veita þjónustu milli EES-landanna. Samkvæmt 31. gr. eiga ríkisborgarar EB- og EFTA-ríkjanna rétt til að stofna og reka fyrirtæki/félög í öðrum aðildarríkjum og samkvæmt 36. gr. skulu engin höft vera á frelsi þeirra til þess að veita þjónustu á yfirráðasvæði samningsaðila, enda þótt viðkomandi hafi staðfestu í öðru aðildarríki.

Talið hefur verið, að þrátt fyrir ákvæði 36. gr. EES-samningsins hafi aðildarríki rétt til að setja reglur um tiltekna atvinnustarfsemi á yfirráðasvæði ríkisins, þ. á m. að banna hana. Samkvæmt því er einstökum ríkjum t.d. heimilt samkvæmt samningnum, að setja í löggjöf sína reglur um bann gegn happdrættisstarfsemi.

Samkvæmt 33. gr. er heimilt að setja ákvæði í lög eða stjórnsýslufyrirmæli er takmarka réttinn samkvæmt 31. og 36. gr. samningsins, er grundvallast á sjónarmiðum um allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði. Samkvæmt túlkun Evrópudómstólsins á 56. gr. Rómarsáttmálans mega slíkar reglur ekki ganga lengra en brýn nauðsyn ber til, til að vernda þau réttindi er getið er um í 33. gr. Reglurnar mega heldur ekki vera þannig, að þær feli í sér mismunun á grundvelli þjóðernis.

Hafi EES-ríki sett reglur um bann gegn vissum tegundum atvinnustarfsemi, taka þær jafnt til fyrirtækja viðkomandi ríkis og fyrirtækja í öðrum EES-ríkjum. Þessi túlkun á sér m.a. stoð í dómi Evrópudómstólsins frá 24. mars 1994 (C-275/92), hinum svokallaða Schindler-dómi, sem fjallaði um bann í breskum lögum gegn auglýsingu erlendra happdrætta. Bannið var í samræmi við bann í breskum lögum gegn stórum happdrættum á landsvísu. Var því ekki talið, að í löggjöfinni fælist mismunun á grundvelli þjóðernis, þar sem bannið tók jafnt til innlendra sem erlendra aðila. Þau minniháttar góðgerðarhappdrætti sem leyfð voru í Bretlandi þegar atvikið átti sér stað, voru ekki talin sambærileg við þau meiriháttar happdrætti, sem málið snerist um. Dómstóllinn taldi bannið heimilt með stoð í 59. gr. Rómarsáttmálans, sem er efnislega samhljóða 36. gr. EES-samningsins.

Það var álit dómstólsins, að að baki happdrættum væru mjög sérstök sjónarmið, siðferðileg, trúarleg og menningarleg, sem almennt ættu sér stoð í þeirri stefnu að takmarka og jafnvel banna peningaspil. Happdrætti væru þess eðlis, að sjónarmiðin að baki þeim gætu réttlætt að gripið væri inn í með lögum eða stjórnsýslufyrirmælum til að vernda þau. Einnig var bent á, að happdrætti veiti í stórum stíl fjármuni til þjóðfélagsmála, mannúðarmála, umönnunar, íþróttamála og menningar. Aðildarríkin geti ekki einungis ákveðið hvaða takmörkunum happdrætti skuli hlíta, heldur einnig hvort þau skuli bönnuð, svo framarlega sem þessar takmarkanir feli ekki í sér mismunun á grundvelli þjóðernis.

Framangreindur dómur er sá eini, sem nefndin fann um þetta álitaefni. Það kann að vera rétt að hafa ýmsa fyrirvara varðandi dóminn, enda fjallar hann um afmarkað svið þessa máls, þ.e. bann við auglýsingum um happdrætti.

Af túlkun Evrópudómstólsins á reglum Rómarsáttmálans virðist mega ráða, að almennt bann gegn getrauna- eða happdrættisstarfsemi, sem einnig gildir um markaðssetningu eða stofnun erlendrar happdrættisstarfsemi, gangi ekki gegn ákvæðum EES-samningsins um frjálsan rétt til að stunda atvinnustarfsemi og til að veita þjónustu milli aðildarríkjanna.

Loks má nefna, að í 59. gr. EES-samningsins er kveðið á um það, með hvaða skilyrðum ríkisfyrirtæki og fyrirtæki, sem aðildarríki veitir einkarétt, geta starfað innan Evrópska efnahagssvæðisins. Ekki hefur reynt ótvírætt á, hvort og þá með hvaða skilyrðum ákvæði þetta á við um happdrætti og skylda starfsemi (sjá til hliðsjónar ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA nr. 336/94/COL frá 30. desember 1994).


5. TÖLULEGAR UPPLÝSINGAR UM ÍSLENSK HAPPDRÆTTI

Til að kanna umfang happdrættismarkaðar á Íslandi, áhuga landans á happdrættum og hversu mikið ávinnst af happdrættum, er helst að líta til tölulegra upplýsinga um þau happdrætti, sem hér eru rekin. Ekki liggja fyrir heildarupplýsingar um hversu miklu fé Íslendingar verja í happdrætti á ári hverju, né um aðra þætti happdrættismarkaðarins. Ástæða þess er meðal annars sú, að ekki hefur verið gerð sú krafa við veitingu leyfa fyrir almennum happdrættum, að skilað sé til opinbers aðila reikningsuppgjöri fyrir happdrættin. Tölulegar upplýsingar er því helst að fá hjá hinum lögvernduðu happdrættum, sem mynda langstærsta hluta happdrættismarkaðarins, en flest þeirra skila ársskýrslum sínum til opinbers aðila.

Fjárhæðir í eftirfarandi samantekt á tekjum og gjöldum eru fengnar úr ársreikningum hinna lögvernduðu happdrætta. Samantektin er byggð á athugun löggilts endurskoðanda. Í nokkrum tilvikum hafa fjárhæðir verið færðar til innan rekstraryfirlitsins til samræmingar. Samkvæmt samantektinni nema hreinar rekstrartekjur happdrættanna á 12 mánaða tímabili kr. 4.919.000.000. Til að finna heildarveltu í happdrættisvélum happdrættis Háskóla Íslands og Íslenskra söfnunarkassa, er vinningsvelta áætluð 86%, eða kr. 11.317.000.000, sem er sú fjárhæð, sem velt er í gegnum vélarnar í formi vinninga, en kemur ekki fram sem hreinar rekstrartekjur happdrættanna. Áætluð vinningsvelta er í samræmi við þær reglugerðir, sem gilda um rekstur happdrættisvéla. Heildarvelta hinna lögvernduðu happdrætta er áætluð um kr. 16.236.000.000. Útgreiddir vinningar nema alls kr. 1.839.000.000, en að viðbættri áætlaðri vinningsveltu nema þeir kr. 13.156.000.000. Rekstrargjöld happdrættanna, umboðslaun, annar rekstrarkostnaður ásamt öðrum tekjum og gjöldum nema kr. 1.426.000.000, þannig að tekjur happdrættanna umfram gjöld eru um kr. 1.654.000.000. Það eru þær fjárhæðir, sem happdrættin skila á 12 mánaða tímabili.

Tekið skal fram, að samkvæmt fyrirliggjandi ársreikningum nær rekstrartímabil happdrættanna frá 1. maí 1996 til 31. desember 1997. Hvert happdrætti hefur þó 12 mánaða uppgjörstímabil. Happdrættin hafa með öðrum orðum ekki öll sama uppgjörstímabil sem er til baga þegar verið er að taka saman heildaryfirlit yfir þau og/eða bera þau saman. Jafnframt skal bent á, að framsetning fjárhæða í ársreikningunum er mismunandi og skýringar, sem þeim fylgja, misgóðar. Af því leiðir, að ekki er um algerlega samanburðarhæfar tölur að ræða, þegar bornar eru saman tekjur og gjöld úr ársreikningunum.

Við athugun á ársreikningum einstakra happdrætta kemur eftirfarandi í ljós:

Happdrætti Háskóla Íslands
Reikningstímabilið er frá 1. janúar 1997 til 31. desember 1997.
Í ársreikningnum segir þetta: "Tekjur í Gullnámu eru innleystar í reikningsskilum á þann hátt að tekjur af spilavélum, sem skila sér í formi peninga til happdrættisins eru tekjufærðar. Innleystar tekjur nema um 14% af heildarspilun ársins. Aftur á móti eru þeir peningar sem spilað er fyrir í vélunum og eru greiddir út á staðnum, þ.e. úr vélunum sjálfum í formi smærri vinninga, ekki innleystar sem tekjur í bókhaldi happdrættisins né eru vinningar gjaldfærðir." - Í samantektinni er bætt við heildarveltu 86% vinningsveltu samkvæmt framangreindu.

Happdrætti Sambands íslenskra berklasjúklinga
Reikningstímabilið er frá 1. maí 1996 til 30. apríl 1997.
Í ársreikningnum kemur ekkert fram um hvernig tekjur og gjöld eru sett fram.

Íslenskar getraunir
Reikningstímabilið er frá 1. júlí 1996 til 30. júní 1997.
Í ársreikningnum er fært meðal rekstrargjalda "til íþróttahreyfingarinnar" kr. 52.400.000, sem í samantektinni er talinn vera hluti af hagnaði Íslenskra getrauna.
Í rekstrarreikningi er kostnaðarliður "vinningar og gjöld bundin veltu", en ekki liggur fyrir hvað er fært þar undir annað en vinningar. Þetta getur skekkt samanburð við önnur happdrætti.

Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna
Reikningstímabilið er frá 1. maí 1996 til 30. apríl 1997.
Í ársreikningnum kemur ekkert fram um hvernig tekjur og gjöld eru sett fram. Skýringar vantar með ársreikningnum. Meðal tekna eru ósóttir eldri vinningar, kr. 2.500.000, sem eru ekki tekjur ársins og því ekki velta á því ári, sem er til umfjöllunar. Í rekstrarreikningi eru tilteknar fjárhæðir undir óreglulegum liðum; tap vegna Bingó-lottó kr. 300.000 og hagnaður vegna aðalumboðs kr. 2.100.000, sem vantar skilgreiningu á.

Íslensk getspá
Reikningstímabilið er frá 1. júlí 1996 til 30. júní 1997.

Íslenskir söfnunarkassar
Reikningstímabilið er frá 1. janúar 1997 til 31. desember 1997.
Í reikningsskilunum kemur ekki fram hvernig tekjur eru settar fram. Ætla má að tekjur séu tekjufærðar miðað við hvað verður eftir í kössunum. Leikirnir eru með lágmarks vinningshlutfalli, þ.e. frá 82-90%, þannig að brúttóvelta happdrættisins er mun hærri, eða 5,56-10 fallt, eftir því hvaða prósentutala er notuð. Hér er miðað við 86% vinningshlutfall, en í ársreikningnum kemur hlutfallið ekki fram. Meðal rekstrargjalda er greiðsla til happdrættis Háskóla Íslands, kr. 15.000.000, sem í samantektinni er hluti af hagnaði Íslenskra söfnunarkassa, en um er að ræða lokagreiðslu á samningi við happdrætti Háskóla Íslands um skiptingu á tekjum Íslenskra söfnunarkassa. Í rekstrarreikningi eru sundurgreindir þeir liðir, sem hafa áhrif á tekjur til ráðstöfunar, samtals kr. 31.900.000. Þeir liðir hafa ekki áhrif á hagnað ársins, eins og sjá má í greiningu á eigin fé sem hefur lækkað.

Áður en vikið verður að myndrænum samanburði á tekjum og gjöldum úr framangreindum ársreikningum hinna lögvernduðu happdrætta, skal þetta tekið fram: Árlega veitir dómsmálaráðuneytið um 50-75 leyfi fyrir ýmis konar almennum happdrættum. Eins og fyrr greinir er ekki gert að skyldu að skila reikningsuppgjöri þessara happdrætta til opinbers aðila. Þar af leiðandi er ekki unnt að greina frá ársveltu þeirra, ágóða af þeim eða útgreiddum vinningum. Af útgefnum leyfum á árinu 1997 má fá eftirfarandi upplýsingar:

Heildarverðmæti vinninga: rúmlega 250 milljónir króna.
Útgefinn miðafjöldi: um 2 milljónir miða.
Verðmæti vinninga í almennum happdrættum má ekki vera lægra en 16,67% af heildarverðmæti útgefinna miða.

[Í þessu skjali má sjá ýmsar töflur og myndir er hafa að geyma tölulegar upplýsingar um íslensk happdrætti:]




6. FRAMBOÐ OG EFTIRSPURN Á HAPPDRÆTTISMARKAÐI

6.1 Almennt

Almennt er gert ráð fyrir að frjáls viðskipti eigi sér því aðeins stað, að þau séu bæði kaupanda og seljanda í hag. Söluverð vöru og þjónustu endurspeglar hvers virði hún er fyrir kaupandann (þ.e. jaðarnytjar hennar). Hugmyndin um "hinn hagsýna mann" hefur verið notuð til þess að skýra atferli kaupenda og seljenda á markaði við mismunandi forsendur um aðstæður.

Happdrætti eru háð leyfum og iðulega rekin í þágu "góðra" málefna. Þegar um svonefnd jákvæð ytri áhrif er að ræða, þ.e. verð endurspeglar ekki til fulls notagildi þjóðfélagsins af tiltekinni starfsemi, er líklegt að framboð á henni verði of lítið, sbr. menntun, rannsóknir, íþróttir, hjálpar- og líknarstarfsemi o.fl. Talað er um markaðsbrest í þessu sambandi. Í þessum tilvikum getur hið opinbera skorist í leikinn með því að styrkja starfsemina beint með fjárframlögum eða óbeint með því að veita viðkomandi aðiljum leyfi til fjáröflunar með tilteknum hætti, svo sem með happdrætti.

Happdrætti einkennast einnig af því að vinningsvon er minni en tapsvon, samkvæmt meðaltalsútreikningi. Því þarf að skýra þátttöku í happdrætti með viðhorfi einstaklinga til áhættu, umhyggju fyrir náunganum eða góðu málefni. Einnig kynni skýringarinnar að vera að leita í atferli, sem ekki samrýmist forsendunni um hinn hagsýna mann.

6.2 Eftirspurn og áhættuviðhorf

Venjulega er einstaklingur talinn áhættufælinn, ef hann kýs heldur að standa á núlli en eiga á hættu að tapa jafn miklu og hann gæti unnið, hvorttveggja með sömu líkum. Slíkur einstaklingur er tilbúinn að kaupa sér tryggingu fyrir skakkaföllum, svo fremi iðgjaldið er ekki of hátt. Einstaklingur er hlutlaus gagnvart áhættu, ef hann gerir ekki upp á milli fyrrnefndra kosta. Hann er áhættusækinn, ef hann tekur þátt í happpdrætti þar sem vongildi hagnaðar er neikvætt.

Settar hafa verið fram kenningar um það, hvernig áhættuviðhorf eru háð tekjum og eignum. Einna þekktust er sú kenning, að nytjafall einstaklinga sé þannig að þeir séu áhættufælnir við lágar tekjur og litlar eignir, miðlungstekjumenn geti verið áhættusæknir en hátekjumenn og stóreignamenn séu áhættufælnir. M. Fricdman & L.J. Savage: The utility of choices involving risk. The Journal of Political Economy, vol. 56, s. 279-304, 1948. Samkvæmt þessu getur því sami maður ýmist keypt tryggingar eða spilað í happdrættum, eftir því hvaða tekjur hann hefur eða hvaða eignir hann á. Hins vegar hefur þetta samband ekki verið staðfest með hagrannsóknum. Athugun, sem gerð var á því hvort samband væri milli tekna og kaupa á miðum í happdrætti Háskóla Íslands, staðfesti ekki áðurnefnda tilgátu. Athugun Guðmundar Magnússonar árið 1970. Niðurstöður óbirtar. Happdrættiskaupin virtust óháð tekjum. Hins vegar er rétt að hafa þann fyrirvara á, að tekjuupplýsingar voru fengnar í skattskrá, en hún er ef til vill ekki áreiðanlegasta heimildin í þessum efnum.

Nýlegri rannsóknir hafa leitt í ljós að þær upplýsingar, sem eru fyrir hendi um líkur og röð atburða, hafa áhrif á val manna við skilyrði óvissu. Einnig er vel þekkt, að menn eru ekki alltaf sjálfum sér samkvæmir í vali.

Einhverjir kaupa happdrættismiða vegna þess málefnis, sem ágóðinn rennur til, eða vegna spennunnar einnar saman, en ágóðavonin er samt aðalskýringin. "Ég vil hafa hærra spil, hætta því sem ég á til". Einar Benediktsson 1894: Undir stjörnum. - Hér tekið úr: Guðjón Friðriksson: Einar Benediktsson. 1997.

Hvað sem öllum skýringum á þátttöku í happdrættum líður er það staðreynd, að eftirspurn er eftir þeim. Aðstæður á happdrættismarkaði eru einna líkastar því sem gerist um merkjavöru í ófullkominni samkeppni, því að happdrætti eru af ýmsu tagi og seljendur tiltölulega fáir.

6.3 Framboð og kostnaður

Hægt er að hugsa sér leik eða happdrætti, sem er þess eðlis, að framboð yrði lítið sem ekkert. Frægt dæmi um þetta er hin svonefnda St. Pétursborgar þverstæða. Kastað er krónu. Ef krónan kemur upp í fyrsta kasti fær þátttakandi eina krónu, tvær krónur ef hún kemur upp í öðru kasti, fjórar krónur ef hún kemur upp í þriðja, 16 krónur í því fjórða o.s.frv. Vongildi þessa leiks er óendanlegt. Hver væri tilbúinn að bjóða upp á slíkan leik?

Kostnaður þess sem rekur happdrætti er þannig, að jaðarkostnaður (og þar með breytilegur einingarkostnaður) er sá sami fyrir hvern miða og þar með óháður fjölda miða. Hins vegar er einnig um fastan stofnkostnað að ræða og heildareiningarkostnaður því fallandi. Þetta þýðir, að forsendur frjálsrar samkeppni gilda ekki. Í því tilviki yrði einingarverð jafnt jaðarkostnaði en fyrirtækið gengi með tapi og því væri rekstrargrundvöllur brostinn. Þess vegna einkennist happdrættismarkaðurinn af fákeppni þar sem verð er hærra en jaðarkostnaður. Sölutekjur verða að nægja fyrir heildarkostnaði til þess að framboð verði á tilteknu happdrætti.

6.4 Skipting ábata af happdrætti

Ábatinn af tilteknu happdrætti skiptist milli neytanda, seljanda og hins opinbera ef um skattlagningu er að ræða.

Segjum að markmiðið sé að haga rekstri happdrættis þannig, að hann samræmist skilyrðum þjóðfélagslegrar kjörstöðu, sem er þegar einingarverð er jafnt jaðarkostnaði, eins og í frjálsri samkeppni. Sá galli er á því, að þá yrði ekkert framboð, því að fyrirtækið gengi með tapi, sbr. áður. En hvað er til bragðs? Helstu leiðir til úrlausnar er þessar: L. Johansen: Offentlig ökonomikk. Universitetsforlaget 1965.

1) Hið opinbera taki að sér reksturinn og greiði tapið eða umframkostnaðinn af almennu skattfé. Þessi leið er víða farin þar sem hið opinbera sér um rekstur peningahappdrætta, en það verður þá væntanlega að leggja fram meira fé á móti til þeirra málefna, sem ella gætu reitt sig á happdrættistekjur að einhverju marki.

2) Hið opinbera veiti fyrirtækinu styrk til rekstrarins. Líta má á skattleysi eða skattaívilnun sem slíkan styrk.

3) Markmiðinu um þjóðfélagslega kjörstöðu verði varpað fyrir róða og fyrirtækinu leyft að verðleggja að eigin vild.

Allar þessar lausnir hafa kosti og galla en athyglisvert er, að ná má markmiðinu án þess að ríkisrekstur komi til. Fyrsta og önnur leiðin hafa þá galla, að styrkurinn verður að koma af almennri eða sérstakri skattheimtu. Ef það er af tekjuskatti er hætta á, að það hafi neikvæð áhrif á vinnuvilja og þar með framleiðslu. Fyrsta leiðin hefur auk þess þann ókost, að allt hverfur í "hítina" og skattgreiðendur hafa litla yfirsýn yfir hvað er að gerast. Þriðja leiðin þýðir lakari kjör heildarinnar, en þeir eru látnir borga, sem mestan áhuga hafa á kaupunum.

Framboð á nýrri tegund happdrættis eykur hag neytandans en skattlagning rýrir hag hans (nema hann njóti hennar með öðrum hætti). Einnig má sýna fram á, að sérskattur á einu happdrætti en ekki öðru eða skattlagning happdrætta í mismunandi mæli veldur neytandanum svonefndri umframbyrði. H.S. Rosen: Public Finance. Irwin 1995. Hún kemur til vegna þess, að skattlagningin brenglar neysluval og unnt væri að leyfa neytandanum að njóta sömu velferðar með minni skattheimtu.

7. EÐLI HAPPDRÆTTIS - SIÐFERÐILEG VIÐHORF

Lengi hafa verið skiptar skoðanir á eðli happdrætta; hvort þau séu af hinu illa eða ekki - svo og hinum margvíslegu álitamálum, sem þeim tengjast. Ágæta innsýn í ólíkar skoðanir má fá frá Alþingi árið 1912 við umræður um frumvarp til laga um stofnun peningalotterís fyrir Ísland. Hér að neðan eru rakin brot úr þeim umræðum:

Lárus H. Bjarnason, flutningsmaður frumvarpsins við fyrstu umræðu í neðri deild: "[...]. Lotterí er stofnun, sem lysthafendur kaupa hjá vinningsvon. Hve rík sú vinningsvon er, fer eftir nánara fyrirkomulagi lotterísins. Fyrir vonina greiðir lysthafi tiltekið gjald [...] og fær jafnframt kvittun eða heimildarbréf fyrir voninni, og er slíkt bréf venjulega nefnt lotteríseðill. [...]. Lotteríin reynast alstaðar gróðastofnanir. Gróðin fer eftir mismuninum á upphæð vinninganna og upphæð iðgjaldanna. Upphæð vinninganna er auðvitað alt af lægri en upphæð iðgjaldanna. [...]." (Alþ.tíð. 1912, B-deild, bls. 478-9).

Bjarni Jónsson, framsögumaður minnihluta skattamálanefndar við aðra umræðu í neðri deild: "[...]. Uppruni þessara stofnana er sjálfsagt öllum kunnur og er drepið nokkuð á hann í áliti mínu. Það er öllum vitanlegt að mönnum er það í brjóst lagið, að vilja græða sem mest án þess að leggja mikið í hættu. / Eg minnist þess, að eg hefi lesið á yngri árum mínum hjá Tacitusi og Cæsari, að hinir gömlu Þjóðverjar hafi tamið sér að kasta teningum um stórar eignir og fjárupphæðir, stundum jafnvel um sjálfa sig og urðu þeir oft og tíðum með þeim hætti þrælar þeirra, er þeir öttu við. Slík hlutkesti eru hinn mesti háski hverri þjóð, sem temur sér þau. Þess vegna hafa mörg ríki ýmist bannað happdrætti eða tekið þau í eigin hönd, og var það réttilega tekið fram hjá hv. framsögum. meiri hl. (L.H.B.), að skárra sé að ríkin reki sjálf þess háttar einokun heldur en einstaklingarnir. Í flestum ríkjum eru stranglega bönnuð öll fjárhættuspil, og er óeðlilegt, að ríkin sjálf afli sér tekna með því að reka þess háttar fyrirtæki, sem þau banna einstökum mönnum. / Þó ekki sé eins mikil hættan ef ríkin reka þessi happdrætti á eigin hönd, er það þó bygt á sömu grundvallarhugsun. Það sýnir meðal annars, að ríkin hafa vonda samvizku af rekstri happdrættanna, er nú skal greina. [...]. Fyrst skal eg, með leyfi hæstv. forseta, lesa hvað þessi sami maður, dr. Max von Heckel, segir í »Handwörterbuch der Staatswissenschaften« á bls. 525: / »Loks hefir 19. öldin felt fullkominn fordæmingardóm yfir allskonar happdrættum og alment viðurkent að þau verði ekki samrýmd við siðmenningarhlutverk ríkisins«. / Enn fremur skal eg leyfa mér að lesa hvað Falbe Hansen, danskur höfundur, segir um þetta í bók sinni »Finansvidenskab«. Hann skrifar þar á bls. 96: / »Það er alment viðurkent, að happdrætti séu til spillingar svo sem önnur áhættuspil, veiki löngun manna til að vinna sig áfram með sinni eigin vinnu og sífelldum sparnaði, leiði menn til að reiða sig á ósennilega drauma og staðlausar vonir, og menn fullyrða að reynslan hafi sýnt að spilafíknin valdi deyfð og oft glæpum. Flest ríki hafa kannast við þetta í framkvæmdinni, er þau hafa bannað alskonar áhættuspil ... Það er þá hálf undarlegt að jafnframt því sem ríkið bannar öll önnur áhættuspil, reki það sjálft áhættnspilsfyrirtæki [svo] fyrir þegna sína í þeim tilgangi að græða fé á því, og það sýnist ekki fullkomlega sæmileg aðferð til þess að útvega tekjur«. [...]." (Alþ.tíð. 1912, B-deild, bls. 496-8).

Jón Ólafsson, einn af flutningsmönnum frumvarpsins við aðra umræðu í neðri deild: "[...]. Sú tilhneiging er innrætt mannlegri náttúru, að vilja græða fé með hægu móti. Hvort hún er ill eða góð, kemur ekki þessu máli við; við verðum að taka hlutina eins og þeir eru og í sjálfu sér er ekkert rangt í henni. En að hún er rík, má sjá af því, hve snemma hún gerir vart við sig hjá þjóðunum. Hjá Germönum og Rómverjum tíðkuðust fjárhættuspil, og hjá Rómverjum kvað svo mjög að þeim, að hegning var lögð við þeim. / Hv. þm. Dal. (B.J.) gat þess, að í mörgum löndum hafi fjárhættuspil verið bönnuð með lögum; en honum láðist að geta um, hvernig slík lög hafa verkað. Sannleikurinn er, að alstaðar hefir verið farið í kring um þau. / Að þessi ástríða, sem eg nefndi, sé djúp hjá mönnum, sést meðal annars af því, hversu tíðar velgerða-tombólur eru, og hversu vel þær borga sig. Það væri ólíku ómaksminna að senda samskotalista um, en það hefir sjaldan nokkurn árangur. Menn láta fúslega fé sitt af hendi, ef von er um að fá eitthvað í aðra hönd. Þetta bendir á lystina til að græða. [...]. Allar brezkar þjóðir banna lotterí. En þá kemur annað í staðinn, til að fullnægja þessari sömu fýsn, sem er mönnum svo djúp innrætt. Þá eru veðreiða veðmálin í Bretlandi og Bandaríkjunum og yfirleitt öllum enskum löndum vottur þess, hve rík þessi náttúra er hjá mönnum. Sumstaðar í Bandaríkjunum hafa þau verið bönnuð með lögum - svo mjög hefir kveðið að þeim - en þau lög hafa ekki gagnað mikið, því menn hafa farið í kring um þau. Innrætið leynir sér ekki. Þá má nefna kosninga-veðmálin. Það veit enginn nema skaparinn, hve miklar upphæðir skifta höndum í þeim veðmálum! Í Bandaríkjunum og Bretlandi nemur það vafalaust hundruðum milljóna. / Og ekki má gleyma kauphallar-spilunum, þar sem menn oft kaupa og selja meir en til er í heimi af vörunni! Seljandi skuldbindur sig til að selja kaupanda svo og svo mikið af t.d. hveiti fyrir tiltekið verð eftir tiltekinn tíma, t.d. 3 mánuði. Það er ekki endilega ætlast til að nein afhending fari fram. Áhættan er fólgin í því hvernig markaðsverðið verður á ákveðnum afhendingardegi. Sé það hærra en hið tiltekna söluverð, þá borgar seljandi kaupanda mismuninn, en kaupandi seljanda, ef verðið hefir lækkað. Þetta er bara lotterí - ekkert annað en lotterí! Og þetta altíðkast nú í hverju landi í heimi - jafnvel farið að bóla á því hér. / Allt bendir þetta á, að þessi löngun sé svo rík í mannlegri náttúru, að ekki sé auðið að girða fyrir það með lögum, að menn reyni að fullnægja henni. / Þá verður spurningin hvort hollara sé, að menn brjóti lögin og fullnægi þessari löngun í laumi, eða að mönnum sé leyft að gera það með lotteríi, þar sem trygt er um búið, að í öllu sé rétt að farið. Eg tel hið síðara óefað hollara. Ein ástæða þeirra er leyfa vilja lotterí, er, að hollara sé að veita mönnum aðgang að því að leita lukkunnar í stofnun, þar sem ekki er hætta á að menn verði flegnir. Þetta eru ástæðurnar til þess að eg get vel felt mig við að lotterí sé leyft, ef vel er um búið. Þess ber líka að gæta, að æðimargir hérlendir menn kaupa seðla í útlendum lotteríum, og fyrst svo er, þá er sýnilega betra að ágóðinn af því gangi til ríkisins heldur en út um heiminn. [...]." (Alþ.tíð. 1912, B-deild, bls. 509-11).

Bjarni Jónsson svarar við sömu umræðu: "[...]. Þá hugðist hann mundu dauðrota mótbárur mínar með því að segja, að lög sem bönnuðu það, sem hér er verið að ræða um, verkuðu ekki. Mér hefir aldrei dottið í hug, að slík lög yrðu ekki brotin, því að það vill brenna við um flest lög. Eg veit ekki betur en hegningarlögin séu brotin og það oft. Eða má þá ekki setja lög um þjófnað, af því að sumir menn stela? [...]. Alt þetta sýnir og sannar að það hefir verið á rökum bygt, sem eg hefi verið að segja um þetta mál, að það eru illir og ósómasamlegir féglæfrar. (Jón Ólafsson: Þetta er í þeim löndum þar sem lotterí eru bönnuð) Það hefir verið gerð tilraun til að draga úr áhættunni með því, að láta ríkin setja á stofn happdrætti. En merkustu menn sem á síðustu tímum hafa skrifað um það mál, og þar á meðal þeir er eg hefi nefnt hér, dr. Konrad og aðrir, eru eindregið á móti þessari stefnu. Engir mæla henni bót, nema hvað menn reyna að segja, að það sé gagnlegra að ríkin setji skorður við hættunni, með því að gefa mönnum tækifæri til, að reyna áhættuna í lögtryggðum stofnunum. En hvað vinna menn með þessu? Ekki annað en það, að til verða tvær áhættustofnanir, önnur lögleg, hin ólögleg. Menn byrja einmitt á því, að leita hamingjunnar í löggiltu stofnuninni og það er leiðin til þess, að menn fara að leita hennar í þeirri bönnuðu. (Jón Ólafsson: Þvert á móti). Nei, sá sem er orðinn vanur stórum fjárhættuspilum, hverfur ekki til þeirra sem minni eru. [...]." (Alþ.tíð. 1912, B-deild, bls. 513-15).

Valtýr Guðmundsson, einn flutningsmanna frumvarpsins við sömu umræðu: "[...]. Þar sem háttv. frams.m. minni hlutans (B.J.) tók fram, að það væri ósamboðið Íslendingum að setja þetta lotteri á stofn, vil eg benda honum á, að eftir nefndaráliti hans sjálfs eru peningalotterí í þessum ríkjum: Þýzkalandi, Ungverjalandi, Austurríki, Ítalíu, Hollandi, Spáni, Danmörku og Serbíu. Og ef þetta hefir sett svartan blett á allar þessar þjóðir, er ólíklegt að hann sé svo svartur að við getum ekki þolað hann. Við þurfum ekki að setja okkur of hátt. [...]." (Alþ.tíð. 1912, B-deild, bls. 517).

Lárus H. Bjarnason við sömu umræðu: "[...]. Það er ofboð erfitt að rökræða praktisk mál við háttv. þm. Dal. (B.J.) Ekki fyrir það að hann hafi ekki næga skynsemi, heldur af því að hann brúkar svo mikið hjartað en síður höfuðið, og þó er það einmitt höfuðið en ekki hjartað, sem á að ráða sannfæringu manna um praktisk mál. Lotterímálið er ekkert tilfinningamál, það er gersamlega laust við alla tilfinningu. Fyrir mér er það ekkert annað en praktiskt mál, stórt og örugt gróðafyrirtæki fyrir landssjóð. [...]." (Alþ.tíð. 1912. B-deild, bls. 519).

Bjarni Jónsson við sömu umræðu: "[...]. Hann [V.G.] sagði enn, að oss væri ekki vandaðra um að taka upp slíka stofnun en ýmsum löndum, sem eg nefndi í nefndaráliti mínu. En hann hefir ekki gætt þess, að eg tók líka fram, að merkustu menn og vitrustu á þessi efni eru einróma andvígir þessari stefnu. Stofnanir þessar eru víðast afargamlar og ekki unt að kveða þær niður. En hvað sem því líður, geta Íslendingar haft sína skoðun fyrir sig; þeim væri helzt ætlandi að sjá sóma sinn og ættu ekki stöðugt að hanga aftan í öðrum þjóðum. [...]." (Alþ.tíð. 1912, B-deild, bls. 524).

Jón Ólafsson við sömu umræðu: "[...]. Hann [B.J.] sagði, að eg hefði haldið því fram, að þar sem lotterí væru bönnuð með lögum, tíðkuðust þau jafnt eftir sem áður. Þetta er rangt hermt. Eg sagði, að í þeim löndum sem lotterí væru bönnuð, tíðkuðust samt sem áður aðrir féglæfrar, vegna þess hvernig mannlegri náttúru er farið - og hversu ílöngunin í fjárgróða á skömmum tíma og með lítilli fyrirhöfn væri mönnum ríkt í brjóst blásin. En þar sem spilafýsninni er fullnægt á annan hátt, t.d. með því að leyfa lotterí með lögum, þar eru almenn fjárhættuspil og féglæfrar mikið ótíðari - enda gefur það að skilja. / Hv. þm. gaf það og í skyn, að það væri skoðun mín, að ekki ætti að samþykkja nein lög, sem hætt væri við að yrðu brotin. Hann heldur víst að ekki þurfi að segja annað en að eitthvað, sem er fordæmanlegt, sé bannað, og þá sé það þegar í stað upprætt. En þetta voru ekki mín orð. Eg sagði, að þegar brotið væri svo alment, að lögvaldið gæti ekkert við ráðið, yrðu lögin ekki annað en dauður bókstafur, þá væri þýðingarlaust að vera að banna. / Ástríðum mannanna verður aldrei útrýmt með lögum. »Þótt náttúran sé lamin með lurk, leitar hún heim um síðir.« [...]." (Alþ.tíð. 1912, B-deild, bls. 526-7).

Bjarni Jónsson við þriðju umræðu í neðri deild: "[...]. Þar sem hæstvirtur ráðherra [Hannes Hafstein, sem einnig tók til máls í umræðunum] sagði að talaði af tilfinningu í þessu máli [svo] en hann með höfðinu, þá eru það að eins hans orð. Þeir menn sem eg hefi vitnað í, tala ekki um þetta af tilfinningu nema þeirri, sem verður að vera þegar um sóma er að ræða. Og það er svo sem auðvitað að eg tala af sómatilfinningu, þegar eg vil halda uppi vörn fyrir sóma míns lands. Það vill nú svo vel til að sú tilfinning, sem hér þarf að vitna í, sómatilfinningin, er rík hjá íslenzkum mönnum og þeir fyrirlíta alla leppmensku. Þarf ekki að leiða nein rök að þessu. [...]." (Alþ.tíð. 1912, B-deild, bls. 539).

Jósef Björnsson, við aðra umræðu í efri deild: "[...]. Þegar menn kaupa sjer lotteríseðil, er vafalaust lagt út í fjárhættu, og, að stuðlað sje að slíku, eða að það sje leyft, er frá siðferðislegu sjónarmiði rangt. Með þessu vil jeg þó ekki sagt hafa, að rangt sje að samþykkja frumv. það, er hjer liggur fyrir. [...]. Síðan samgöngur vorar við umheiminn urðu meiri, þá má segja, að inn á þjóðina hafi streymt bæði ílt og gott frá öðrum þjóðum. Vjer höfum borizt inn í strauminn og erum staddir í honum. Eitt af því, sem hingað er þannig komið, er fjárhættuspil. Alstaðar um heiminn eru menn fíknir í fjárhættuspil, og í því erum vjer sjálfsagt ekki undantekning; eins og háttv. framsm. gat um; þá munu þeir Íslendingar eigi allfáir, sem spila í útlendum lotteríum. En þar eða þetta eru útlend lotterí, fer fjeð, sem til þess gengur, út úr landinu. Það virðist því ekki nema eðlilegt, að menn vilji, að þjóðin fái eitthvað af þessu fje sínu aftur, og það er tilraun í þá átt, sem hjer er verið að gera. Vjer getum ekki varnað því, að spilað sje í útlendum lotteríum, því jafnvel þótt það væri bannað með lögum, þá væri hætt við, að því yrði ekki hlýtt. Fjárhættu þeirri, er einstakir menn stofna sjer í með þessu, getum vjer því ekki spornað við, nje siðspillingunni, sem því fylgir. En úr því svo er, þá er rjettara að hafa peningahagnaðinn og fá íslenskt lotterí, sem gefur landssjóði tekjur, heldur en að útlendingar dragi allan gróðann til sín. Þess vegna hallast jeg að þessu frumv. og jeg geri það því fremur, þar sem hagur landssjóðs er bágborinn og þingið verður að hafa einhver úrræði til að auka tekjur hans. Og þótt það sje ekki sem allra skemtilegast, að afla landssjóði tekna á þennan hátt, þá verður að taka því, úr því menn þjóðarinnar hætta fje sínu, hvort sem er, í lotteríspil. [...]." (Alþ.tíð. 1912, B-deild, bls. 178-80).

Jens Pálsson, framsögumaður frumvarpsins við aðra umræðu í efri deild: "Háttv. þm. Skagf. leit á hina siðferðislegu hlið málsins og taldi varhugavert og út af fyrir sig siðferðislega rangt, að lögleiða lotterí hjer á landi. Jeg skal engan veginn finna að þessari skoðun hans. [...]. Flestum sæmilega þroskuðum manneskjum er ekki hætt við fjárhættuspilsástríðu, sem auðvitað er siðspillandi, ekki síður en hver önnur spilt ástríða. Annars er hætta þessi relatív, eins og flest alt, ef ekki alt undir sólunni. Hve mikil hættan er fyrir menn, fer eftir því, hve þroskaðir þeir eru, að hve miklu leyti þeir þekkja slíka hluti, hverju þeir hafa vanizt, hvert og að hve miklu leyti þeir hafa kynzt slíku eða því líku og umgengizt það, eða átt við það að etja. [...]." (Alþ.tíð. 1912, B-deild, bls. 181).

Þess má geta, að frumvarpið var samþykkt á Alþingi, en virðist ekki hafa fengið staðfestingu.

8. HVAÐ BETUR MÁ FARA Í ÍSLENSKRI LÖGGJÖF UM
HAPPDRÆTTI

8.1 Almennt

Happdrættisstarfsemi má greina í nokkra flokka, eftir tegundum hennar. Í þessum kafla verður bent á ýmsar úrbætur, sem telja má nauðsynlegt að gera á hverri tegund happdrættis fyrir sig. Hafa ber í huga, að einvörðungu er verið að benda á þau atriði, sem betur mega fara miðað við gildandi löggjöf um happdrætti. Tillögur að framtíðarskipan happdrættismála eru hins vegar settar fram í 9. kafla.

Svo sem fram hefur komið, er íslensk löggjöf um happdrætti orðin nokkuð gömul. Frá setningu almennu happdrættislaganna árið 1926 hefur happdrættisrekstur breyst töluvert. Samdráttur hefur að hluta til orðið á happdrættismarkaðnum, ekki síst hjá flokkahappdrættunum og vöruhappdrætti hafa sömuleiðis misst fylgi. Þá hefur tækni aukist og ýmsar nýjungar hafa komið fram í dagsljósið. Löggjöfin er því að nokkru leyti ófullkomin. Í sumum tilvikum hefur verið komið til móts við nýjar hugmyndir í happdrættismálum með setningu sérlaga um nýjar tegundir happdrættis. Einnig má nefna þá nýbreytni, sem finna má með rekstri Víkingalottósins, þar sem tekist hefur samvinna milli þjóða um rekstur happdrættis. Óljóst er hins vegar, hvaða áhrif nýir miðlar munu hafa á happdrættisstarfsemi í framtíðinni og er þá helst litið til Netsins í dag. Telja má fullvíst, að margar nýjungar eiga eftir að ryðja sér til rúms á þeim vettvangi.

Lög um hin svonefndu lögvernduðu happdrætti hafa verið sett á mismunandi tímum. Við setningu þeirra virðist hvorki hafa verið höfð næg hliðsjón af sambærilegum lögum, né heldur litið fram á veg um hugsanlegar nýjungar. Þessi löggjöf er þar af leiðandi í heild fremur ósamstæð og ákvæði hennar stangast að sumu leyti á. Taka lögin mismikið á þáttum, sem telja má sameiginlega allri happdrættisstarfsemi, svo sem eftirliti, gjaldlagningu, reikningsskilum, viðurlögum við brotum á viðkomandi lögum og fleiri atriðum.

Þörf er á skýrum og heildstæðum lagagrundvelli um happdrætti og skylda starfsemi. Löggjöf um happdrættismálefni þarf almennt að vera mun ítarlegri en gildandi löggjöf og þannig uppbyggð, að hún taki til þeirrar starfsemi, sem fram fer í dag, en sé enn fremur það sveigjanleg að hún nái til hugsanlegra nýjunga, sem vænta má á markaðnum í náinni framtíð. Þó ber að hafa í huga, að ekki er unnt að sjá nákvæmlega fyrir um þróun þessara mála, enda er hún mjög hröð eins og stendur í ljósi þeirra tækninýjunga, sem í boði eru. Nauðsynlegt er að setja mun nákvæmari reglur um ýmis atriði, sem sameiginleg eru allri happdrættisstarfsemi. Má þar nefna reglur um skilyrði fyrir rekstri happdrættis, um skýrslu- og reikningsskil, eftirlit, leyfisgjöld, skattlagningu o.fl.

Svo sem greina má af ársskýrslum hinna lögvernduðu happdrætta, eru samanlagt miklir fjármunir til ráðstöfunar þeirra málefna, sem þau styrkja. Mörg félagasamtök og stofnanir hafa lýst áhuga á að fá hlutdeild í happdrættismarkaðnum. Ýmsir hafa talið, að fleiri aðilar ættu að hafa rétt á hlutdeild í þessum markaði en nú hafa. Eins og löggjöfin er í dag hefur ekki gefist kostur á að fjölga þeim aðilum, nema með setningu laga um nýja starfsemi. Einkaréttur á peningahappdrættum reisir hins vegar miklar skorður við stofnun nýrra happdrætta. Einnig ber að hafa í huga, að happdrættisstarfsemi hefur að hluta til dregist saman. Þau samtök, sem löggjafinn hefur veitt leyfi til happdrættisreksturs, hafa ekki verið tilbúin að taka fleiri félagasamtök til samstarfs og skerða þannig hlutdeild sína í ágóðanum. Félagasamtök, sem ekki njóta arðs af lögverndaðri happdrættisstarfsemi hafa mörg hver nýtt sér þann möguleika, að reka almenn happdrætti. Ekki liggja fyrir upplýsingar um, hvað þau hafa gefið af sér, þar sem engin krafa er gerð í dag um skil á uppgjöri þessara happdrætta. Miðað við þá ásókn, sem er í þátttöku hinna stærri happdrætta má ráða, að þar sé mun meiri ágóðavon.

Með hliðsjón af því, að ágóði hinna lögvernduðu happdrætta rennur í dag einvörðungu til þeirra, sem samkvæmt lögum eiga rétt á hlutdeild í ágóðanum, vakna spurningar um, hvort breyta eigi reglum um skiptingu þeirra fjármuna er ávinnast af happdrættisstarfsemi. Slík breyting verður aðeins gerð með lögum. Að sumu leyti kann að vera óhentugt, að fyrirfram sé ákveðið til hvaða félagasamtaka og stofnana happdrættiságóði skuli renna. Til álita hlýtur og að koma, að gefa fleiri félagasamtökum möguleika á hlutdeild í happdrættiságóða.

Í dag sjá eftirlitsnefndir skipaðar af dómsmálaráðuneytinu um eftirlit með útdrætti í flestum stóru happdrættunum, þ.e. flokkahappdrættunum og getraununum. Eftirlit með söfnunarkössum og happdrættisvélum er hins vegar lítið sem ekkert. Einnig má nefna skort á eftirliti með löggildingu véla og eftirlit með þeim rafknúnu vélum, sem notaðar eru við suma útdrætti. Sum happdrættisfyrirtækin sjá að hluta til sjálf um eftirlitið. Þess háttar fyrirkomulag er engan veginn viðunandi. Auka þarf til muna og samræma eftirlit með flestri happdrættisstarfsemi frá því sem nú er.

Reynslan sýnir, að mun meiri mannafla þarf í eftirlit með happdrættisstarfsemi en er í dag og einnig mannafla með fagþekkingu á vissum sviðum. Vegna skorts á mannafla í dómsmálaráðuneytinu hefur dregist að setja reglur um ýmis atriði og koma í framkvæmd mörgu er tengist happdrættismálefnum. Því er vissulega þörf á breytingum á framkvæmd og fyrirkomulagi eftirlits, þannig að þessi mál komist í viðunandi horf.

Eins og málum er háttað í dag, fer dómsmálaráðuneytið með yfirstjórn happdrættismálefna og eru ákvarðanir þess því ekki kæranlegar til æðra stjórnvalds. Dómsmálaráðuneytið skipar eftirlitsmenn með íþrótta- og talnagetraunum sem úrskurða um framkvæmd getrauna. Heimilt er að kæra úrskurði þeirra til dómsmálaráðuneytisins samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðum ráðuneytisins verður skotið til dómstóla eftir viðurkenndum sjónarmiðum. - Í d-lið 1. gr. laga nr. 18/1959, um vöruhappdrætti fyrir Samband íslenskra berklasjúklinga, sbr. lög nr. 52/1976, 1. gr., d-lið 1. gr. laga nr. 13/1973, um happdrætti Háskóla Íslands, sbr. lög nr. 55/1976, 1. gr., og 2. gr. laga nr. 16/1973, um happdrætti Dvalarheimils aldraðra sjómanna, sbr. lög nr. 53/1976, 1. gr., er hins vegar kveðið á um að nefndir skipaðar af dómsmálaráðherra annist eftirlit með útdrætti viðkomandi happdrættis. Jafnframt er tekið fram í tilvitnuðum ákvæðum, að nefndirnar leggi "fullnaðarúrskurð á allan ágreining um lögmæti eða gildi dráttar, bæði meðan dráttur fer fram og eftir að honum er lokið." Samkvæmt því er ljóst, að úrskurðir nefndanna verða ekki kærðir til dómsmálaráðuneytisins. Þeir verða hins vegar bornir undir dómstóla eftir viðurkenndum sjónarmiðum, sbr. 60. gr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 1. gr., sbr. lög nr. 25/1998, og 1. mgr. 14. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.

Samhliða nýjum reglum um eftirlit er brýn þörf á því, að reglur um kærur ákvarðana eftirlitsaðila verði samræmdar og gerðar skýrari.

8.2 Flokkahappdrætti

Flokkahappdrætti eru með elstu tegundum happdrætta. Eins og fram kemur í kafla 4.1 um íslensku happdrættislöggjöfina, eru þrjú flokkahappdrætti starfandi hér á landi, happdrætti Háskóla Íslands, happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna og happdrætti Sambands íslenskra berklasjúklinga. Í flokkahappdrættum fer útdráttur fram allt að mánuði eftir að miði er keyptur. Þessi tegund happdrætta hefur verið á undanhaldi bæði hérlendis sem erlendis. Ásókn hefur hins vegar aukist í þær tegundir happdrættisleikja þar sem strax eftir að miði er keyptur eða þátttaka fer fram, eða mjög fljótlega, kemur í ljós, hvort vinningur hefur hlotist (t.d. skafmiðahappdrætti og happdrættisvélar). Þeir, sem reka flokkahappdrætti, hafa því sýnt áhuga á nýjum happdrættisleikjum, til að koma til móts við breytta tíma. Einnig má nefna, að mun meiri ásókn er í peningahappdrætti en vöruhappdrætti, en aðeins eitt íslensku flokkahappdrættanna er peningahappdrætti og hefur einkarétt á því. Þess ber þó að geta, að vöruhappdrættin greiða út peninga gegn framvísun kvittunar á kaup tiltekinnar vöru og má því ef til vill segja, að þau séu ekki hrein vöruhappdrætti í skilningi þess orðs.

Eins og áður hefur komið fram, hefur happdrætti Háskóla Íslands einkarétt á peningahappdrættum og greiðir gjald til ríkisins fyrir þann einkarétt. Ljóst er hins vegar, að talnagetraunir, svo sem Lottó og Jóker, teljast til happdrættis, þar sem vinningar ráðast af tilviljun, og vinningar eru peningar. Þá gefa happdrættisvélar og söfnunarkassar eingöngu af sér peningavinninga. Telja verður óeðlilegt, að happdrætti Háskóla Íslands sé einu happdrætta gert að greiða gjald til ríkisins fyrir einkarétt sem er meira í orði en á borði.

Gildandi lög um flokkahappdrættin eru að mörgu leyti ófullnægjandi, enda komin til ára sinna.

8.3 Talna- og íþróttagetraunir

Bæði talna- og íþróttagetraunir gefa af sér peningavinninga. Starfsemi talnagetrauna heyrir undir hugtakið happdrætti, svo sem það hefur verið skilgreint. Eins og áður var nefnt, er því hér um að ræða löggjöf, sem samræmist ekki lögum um happdrætti Háskóla Íslands hvað varðar einkaleyfi þess á peningahappdrættum. Íþróttagetraunir teljast strangt til tekið ekki heyra undir happdrættishugtakið, þar sem vinningar ráðast ekki eingöngu af tilviljun, heldur geta þeir að nokkru ráðist af færni þátttakandans. Starfsemin er þó nátengd happdrættisstarfsemi.

Starfsemi Íslenskrar getspár, sem rekur Lottó, Víkingalottó og Jóker, og starfsemi Íslenskra getrauna er að mörgu leyti nátengd. Fyrirtækin nota sama sölukerfi á þátttökuseðlum og styrkja að stórum hluta svipuð málefni.

Í reglugerð um talnagetraunir er kveðið á um mörg þau atriði, sem æskilegt er að mæla fyrir um í reglum um happdrætti. Stutt er síðan reglugerðin var sett í núverandi mynd.

8.4 Happdrættisvélar

Þátttaka í leikjum svokallaðra happdrættisvéla er sú tegund happdrætta, sem hvað mestra vinsælda nýtur í dag. Tvö fyrirtæki reka happdrættisvélar hér á landi, happdrætti Háskóla Íslands, er rekur Gullnámuna, og Íslenskir söfnunarkassar, sem er fyrirtæki í eigu Rauða kross Íslands, Landsbjargar, Samtaka áhugamanna um áfengis- og vímuefnavandann og Slysavarnafélags Íslands, er starfrækir söfnunarkassa.

Íslenskir söfnunarkassar eru með söfnunarkassa víðs vegar um landið, einkum í söluturnum, á bensínstöðvum og veitingastöðum. Önnur tegund kassa er í sérstökum spilasölum, þar sem eru vínveitingar, og eru svokallaðir "póker-leikir" í þeim kössum. Aldurstakmark í þá kassa er 18 ár, en í hina 16 ár.

Vélar Gullnámunnar eru staðsettar í spilasölum, sem sérstaklega eru settir upp fyrir happdrættisvélarnar, og á veitingahúsum. Flestir salirnir eru í Reykjavík og nágrenni, en þá er einnig að finna á nokkrum stöðum úti á landi. Vélarnar hafa ýmist aðgang að lukkupottum eða ekki. Lukkupottar gefa möguleika á háum vinningum með nokkru millibili, svokölluðum gull- og silfurpottum.

Happdrættisvélarnar gefa eingöngu peningavinninga. Þar sem happdrætti Háskóla Íslands hefur einkarétt á peningahappdrættum og greiðir sérstakt gjald til ríkisins samkvæmt því, verður að telja, að löggjöfin um happdrætti Háskóla Íslands og Íslenska söfnunarkassa samræmist ekki hvað þetta varðar.

Lítið sem ekkert eftirlit hefur verið með starfsemi happdrættisvéla. Það eftirlit, sem fram fer, er nánast eingöngu á vegum fyrirtækjanna sjálfra. Engar sérstakar eftirlitsnefndir hafa verið skipaðar til að fylgjast með starfseminni. Þá má nefna, að enn hefur ekki verið sett reglugerð um söfnunarkassa, svo sem lög um þá starfsemi gera ráð fyrir. Lögreglan hefur þó í einhverjum mæli fylgst með hvort farið sé eftir aldurstakmarki í vélarnar.

Mikilvægt er, að starfsemi happdrættisvéla sé undir virku eftirliti. Bæði þarf að löggilda vélarnar og fylgjast með því að þær starfi í samræmi við lög, svo sem hvað snertir vinningshlutfall. Til þess að sinna eftirlitinu þarf sérfróða menn á þessu sviði. Sums staðar erlendis hefur þessi þjónusta verið keypt frá fyrirtækjum í öðrum löndum, sem hafa sérhæft sig í eftirliti með viðkomandi vélum.

Eftirlit með staðsetningu happdrættisvéla og söfnunarkassa þarf einnig að vera til staðar, svo að ekki sé hætta á truflun á almannafriði. Í dag eru engar reglur um hvar heimilt er að setja upp vélar. Ennfremur þarf að hafa í huga, að vélarnar séu þannig staðsettar innan söluturns eða annars staðar, að starfsfólk geti fylgst með hverjir spila í þeim, svo sem til að fylgjast með hvort aldurstakmark sé virt. Þetta eftirlit er að einhverju leyti til staðar í dag, en þarf að vera mun virkara en nú er.

Afar mikilvægt er, að í lögum verði skýrt kveðið á um reiknings- og skýrsluskil þeirra aðila, er reka happdrættisvélar. Í dag er pottur brotinn í því efni.

8.5 Almenn happdrætti

Engar skýrar lagareglur finnast hér á landi um almenn happdrætti. Það sama á við um töluspjaldahappdrætti eða bingó, að minnsta kosti þau sem starfrækt eru að staðaldri. Brýnt er, að úr því verði bætt.

Ekki er gert að skilyrði í dag, að skila inn til dómsmálaráðuneytisins eintaki af happdrættismiða, eftir að leyfi hefur verið veitt. Í ráðuneytinu hefur þess stundum orðið vart, að miðarnir uppfylla ekki þau skilyrði, sem ráðuneytið hefur sett um gerð þeirra. Því er nauðsynlegt að gera að skyldu, að skila inn happdrættismiða, áður en miðasala hefst.

Eftirlit með almennum happdrættum er í dag lítið sem ekkert, eftir að leyfi hefur verið veitt. Brýnt er að gera skylt, að skila til eftirlitsaðila reikningsuppgjöri og skýrslu um framkvæmd happdrættisins.

Algengt er, að lítil happdrætti fari fram á tilteknum skemmtunum, innan fyrirtækja eða félaga eða í tilteknum þröngum hópi, þar sem sala miða, dráttur og afhending vinninga fer fram á sama stað. Þessi happdrætti hafa ekki verið háð leyfisveitingu hér á landi. Nefndin telur hins vegar að rétt sé að taka fram í löggjöf, að ekki þurfi leyfi fyrir þessum happdrættum.

8.6 "Kaupaukahappdrætti"

Áður er nefnt, að almennt hefur færst í aukana að fyrirtæki efni til ýmis konar leikja, sem gefa af sér vinninga, í þeim tilgangi að örva sölu á vöru og þjónustu. Vafi leikur á, hvort einhverjir þessara leikja heyri undir happdrættislöggjöfina. Samkvæmt eldri samkeppnislögum nr. 56/1978 voru verðlaunasamkeppnir bannaðar, en bannákvæðið var fellt niður með núgildandi lögum nr. 8/1993. Frá þeim tíma hefur veruleg aukning orðið á þessum leikjum. Samkeppnisstofnun hefur litið svo á, að leikir þessir eða samkeppnir heyri almennt ekki undir samkeppnislögin. Þó verði stofnunin að hafa eftirlit með því að leikirnir brjóti ekki í bága við góða viðskiptahætti, samkvæmt ákvæðum 20. gr. samkeppnislaganna. Hingað til hafa þessir leikir ekki verið taldir heyra undir happdrættislögin, en aukning þeirra og fjölbreytni vekur margvíslegar spurningar. Af meðferð Alþingis á frumvarpinu sem varð að lögum um happdrætti (lotterí) og hlutaveltur (tombólur), nr. 6/1926, má sjá, að bætt var við orðið "happdrætti" í 1. gr. frumvarpsins, orðunum "hverrar tegundar sem er", til að koma í veg fyrir "óeðlilega og óviðeigandi verslunaraðferð", eins og segir í áliti allsherjarnefndar (sjá Alþ.tíð. 1926, A-deild, þskj. 21, bls. 177).

Almennt hefur verið talið, að happdrætti eða happdrættisleikir, þar sem þátttaka tengist kaupum á vöru eða þjónustu, án þess að greitt sé sérstaklega fyrir, séu ekki andstæð lögum. Lög taka ekki til slíkrar starfsemi, sbr. þó 20. gr. samkeppnislaganna. Hins vegar má spyrja, hvort starfsemi teljist vera ólöglegt happdrætti, ef kaup á vöru eða þjónustu er skilyrði fyrir því að þátttakendur fái vinningslíkur. Ef vöruverð er hækkað í tengslum við leik, er augljóslega um greiðslu að ræða.

Telja verður, að leikir þessir séu á mörkum þess að teljast vera happdrætti. Aukning þeirra er gífurleg og ekkert eftirlit með því hvernig vinningum er úthlutað, þó að tilviljun eigi að ráða úrslitum þeirra. Verði leikirnir taldir til happdrættis, eru flestir þeirra óheimilir samkvæmt þeim starfsreglum, sem viðhafðar eru í tengslum við happdrættislögin, þar sem happdrættum sem dómsmálaráðuneytið hefur veitt leyfi fyrir, er einungis ætlað að styrkja tiltekin málefni. Töluverð hefð hefur myndast fyrir þessum leikjum og full ástæða kann að vera til að löggjafinn taki skýra afstöðu til þess, hvort þeir skuli heimilir og ef svo er (væri), að settar verði skýrar reglur, svo sem um skilyrði fyrir leikjum og eftirlit með útdrætti.

8.7 Símatorg, sjónvarpsleikir og aðrir leikir

Fjöldi happdrættisleikja hefur í seinni tíð farið fram í gegnum síma, símatorg eða sjónvarp, án leyfis í neinu formi. Oftast ráðast vinningslíkur þessara leikja eingöngu af kunnáttu, eða að hluta til af kunnáttu og að hluta af hraða eða tilviljun. Kosti símtal meira en venjulegt símtal, sem oft er raunin, vaknar sú spurning, hvort um gjald (framlag) sé að ræða í skilningi happdrættishugtaksins. Skiptir þá ekki meginmáli hver þiggur framlagið, sá sem skipuleggur happdrættið eða sá, sem heldur það (veitir vinninga). Rök standa til þess, að gjald sem þetta teljist vera framlag í skilningi happdrættislaganna. Hins vegar ræðst niðurstaða oft af ákveðinni leikni eða kunnáttu og síður af tilviljun. Ráðist niðurstaðan að öllu leyti eða að hluta af tilviljun er spurning, hvort um happdrætti sé að ræða. Hér ber einnig að hafa í huga, að þátttaka í leikjunum greiðist eftir á, þar sem þátttakan er tekin út á reikning. Spurning er, hvort eingöngu eigi að heimila leiki sem þessa í tengslum við samkeppni. Dómsmálaráðuneytið hefur ekki tekið afstöðu til þessara leikja, en ástæða er til að skoða, hvort setja beri ákvæði í lög um þá.

8.8 Netið

Eins og vikið var að í kafla 4.1.15, hafa með tilkomu Netsins aukist möguleikar á þátttöku í ýmsum erlendum leikjum og spilum, sem sett eru á markað í gegnum Netið. Auðvelt er að nálgast slíka leiki á hefðbundnum leitarvefjum með því að slá inn viðeigandi leitarorð, t.d. orðið "lotteri". Þátttaka fer jafnan fram í gegnum reikningsnúmer og leggst vinningur inn á sama númer. Ekkert eftirlit er með þátttöku Íslendinga í erlendum happdrættum gegnum Netið. Ætla verður hins vegar að hlutaðeigandi happdrætti starfi í samræmi við lög í viðkomandi landi. Hér á landi eru engar sérreglur til um þátttöku í happdrættum í gegnum Netið og er Ísland að því leyti á sama báti og mörg önnur lönd. Vafi kann og að leika á, með hvaða hætti gildandi íslenskum lagareglum verður beitt um happdrætti á Netinu. Reyndar má velta því fyrir sér, hvort yfirleitt sé ástæða til að reyna að setja reglur um þessa starfsemi á Netinu fremur en aðra starfsemi þar. Færa má fyrir því rök, að slík reglusetning kynni að draga úr eðlilegri tækni- og framþróun á þessu sviði sem öðrum. Auk þess er tækniþróunin orðin svo ör, að erfitt er að ímynda sér hvernig löggjöf á að fylgja henni svo vel sé. Ekki er ólíklegt að tæknin leiti í farveg fram hjá hamlandi eða úreltri löggjöf, sem sett kynni að vera um þessa starfsemi á Netinu.

9. FRAMTÍÐARSKIPAN HAPPDRÆTTISMÁLA

9.1 Almennt

Að framan hefur verið gerð grein fyrir happdrættisstarfsemi hér á landi, bæði almennri happdrættisstarfsemi og hinni lögvernduðu starfsemi. Ennfremur hefur í grófum dráttum verið litið til happdrættisstarfsemi í nágrannalöndum okkar. Þá hafa verið rakin þau atriði, sem nefndin telur brýnt að tekið verði á í nýrri löggjöf um happdrættismál.

Hér að neðan verður gerð grein fyrir þremur mögulegum leiðum um skipan happdrættismálefna, er rúmað geta helstu breytingar, sem telja má þörf á í happdrættismálum. Skiptast þær í 1) ríkisrekin happdrætti, 2) einkarekin happdrætti og 3) ríkis- og einkarekin happdrætti.

Ekki er gert ráð fyrir veigamiklum breytingum á rekstri almennra happdrætta, hver framangreindra leiða, sem kynni að verða farin. Starfsemi þeirra getur verið með svipuðu móti og nú er. Gerð er grein fyrir tillögum um skipan þeirra mála í kafla 9.5. Tillögur nefndarinnar varðandi kaupaukahappdrætti, símatorg og sjónvarpsleiki og Netið er að finna í köflum 9.6, 9.7, 9.8 og 9.9.

9.2 Ríkisrekin happdrætti

Í þessum kafla eru settar fram hugmyndir um rekstur happdrætta í eigu ríkisins. Þá er fyrst og fremst hafður í huga rekstur happdrætta, sem sambærileg eru hinum lögvernduðu happdrættum.

Víða í nágrannalöndum okkar hefur verið farin sú leið, að hafa happdrættisstarfsemi nánast alfarið í eigu ríkisins. Ástæða þess hefur oft verið nefnd sú, að einstaklingar spili í happdrættum hvort sem það er heimilt eða ekki. Því sé nær að ríkið haldi utan um starfsemina og stjórni því hvert ágóði af happdrættum rennur. Þá hefur verið nefnt, að séu happdrætti ekki heimil í landinu, renni ágóði af þeim til annarra landa. Jafnframt hefur verið sagt, að ef ríkið hafi ekki happdrættisreksturinn með höndum, þyrfti að afla tekna til þeirra málefna, sem annars njóta góðs af happdrættiságóða, með skattahækkunum á þegnana. Loks hefur verið bent á, að happdrættisrekstur gefi af sér mikla fjármuni. Ef hann sé í höndum ríkisins, fái hið opinbera umfangsmikið fjármagn, sem nota má til styrktar mörgum málefnum. Með þessu móti geti hið opinbera alfarið haft stjórn á því, hvert þessir fjármunir renna og tryggt jafna skiptingu þeirra. Þannig hafi hið opinbera jafnframt möguleika á að ráðstafa ágóðanum á mismunandi vegu, eftir aðstæðum hverju sinni.

Hafa verður í huga, að margir spila í happdrættum fyrst og fremst til að styrkja tiltekinn málstað. Sé happdrættisstarfsemi alfarið í höndum ríkisins er því nauðsynlegt, að í það minnsta sé fyrirfram ákveðið til hvers konar málefna happdrættiságóði skuli renna. Það getur jafnframt komið í veg fyrir, að ríkið ráðstafi fjármununum til enn annarra málefna eftir aðstæðum hverju sinni. Þess vegna er þörf á vandaðri lagasetningu og tryggu eftirliti með ríkisrekinni happdrættisstarfsemi.

Með ríkisrekinni happdrættisstarfsemi væri horfið frá þeirri leið, sem nú tíðkast hér á landi, að veita með lögum einstökum fyrirtækjum og stofnunum leyfi til happdrættisstarfsemi, sem þau sjá alfarið um, en þó undir eftirliti dómsmálaráðuneytisins. Hér væri þó ekki um algera nýbreytni að ræða, þar sem angi af ríkisrekinni happdrættisstarfsemi er fyrir hendi í dag með starfsemi Íslenskra getrauna, sem er félag alfarið í eigu ríkisins. Hins vegar er lögbundið til hvaða starfsemi ágóði af getraununum skuli renna. Í dag er því ekki möguleiki á sveigjanleika í skiptingu ágóðans af þeirri starfsemi. Í þessu sambandi ber þó að hafa í huga, að ágóðinn rennur allur til íþróttahreyfingarinnar, er getur skipt honum eftir þeim reglum, sem hún sjálf ákveður.

Margvísleg rök má færa gegn því að ríkið standi í rekstri happdrætta. Fyrst og fremst má þar nefna, að þannig rekstrarfyrirkomulag getur komið í veg fyrir eðlilega þróun og framfarir á happdrættismarkaði, þar sem skortur yrði á eðlilegri samkeppni, sem ríkir á hinum frjálsa markaði. Um þetta má vísa nánar til kafla 9.3 um einkarekin happdrætti.

Væri þessi leið farin, þyrfti að setja ítarleg lög þar sem fjallað væri um happdrættisrekstur ríkisins. Heppilegast væri að gera það í einum lagabálki. Skilgreina þyrfti þær megintegundir happdrætta, sem ríkið kæmi að rekstri á. Síðan væri fjallað nánar um einstakar tegundir happdrætta í reglugerðum.

Nánar tiltekið felst þetta í hugmyndinni:

Happdrættislöggjöf: Í ítarlegri löggjöf um happdrættisrekstur ríkisins væri kveðið á um eftirfarandi atriði: 1) Hvaða starfsemi félli undir lögin. 2) Leyfishafa og rekstrarfyrirkomulag. 3) Leyfisveitingar. 4) Leyfisgjöld. 5) Skipan og starfsháttu eftirlitsaðila. 6) Reiknings- og skýrsluskil. 7) Skatta á happdrættisstarfsemina, eða a.m.k. tilvísanir í ákvæði í skattalögum. 8) Hvort vinningar skuli vera undanþegnir skattskyldu. 9) Kæruleiðir. 10) Viðurlög vegna brota á lögunum. 11) Meginreglur um hverja tegund happdrættis fyrir sig, svo sem um iðgjöld, miðasölu, vinninga, útdrátt þeirra, aldursmörk til að mega taka þátt, staðsetningu o.fl.

Í reglugerð væri síðan að finna nánari reglur um hverja tegund happdrættis fyrir sig.

Hvaða starfsemi félli undir lögin?: Hugtakið happdrætti þyrfti að skilgreina í lögunum. Taka þyrfti afstöðu til þess, hvaða hluti happdrættismarkaðarins væri í höndum ríkisins. Hér kæmu einkum til álita þau happdrætti, sem í dag njóta lögverndar, þ.e. flokkahappdrættin, peningahappdrættin, vöruhappdrættin og talnagetraunir. Auk þess þyrfti að skilgreina, hvort og þá að hvaða leyti veðmálastarfsemi, svo sem getraunastarfsemi, ætti að vera í höndum ríkisins.

Leyfishafi og rekstrarform: Félagi eða stofnun í eigu ríkisins væri fenginn einkaréttur á allri happdrættisstarfsemi í landinu.

Margskonar form kæmi til greina fyrir happdrættisrekstur ríkisins. Annars vegar gæti verið um að ræða hlutafélag eða annars konar félag, sem væri alfarið í eigu ríkisins. Væri stofnað sérstakt félag um reksturinn, gæti það hvort heldur verið eitt eða fleiri félög. Væru félögin fleiri en eitt, mætti sameina sambærilega happdrættisstarfsemi undir rekstur eins félags, þannig að t.d. eitt félag ræki talna- og íþróttagetraunir, annað flokkahappdrætti, þriðja söfnunarkassa og happdrættisvélar o.s.frv. Happdrættisfyrirtækjum myndi fækka með þessu fyrirkomulagi og heildarrekstrarkostnaður væntanlega lækka frá því sem nú er. Hins vegar má hugsa sér, að komið verði á fót sérstakri stofnun, sem falinn verði happdrættisreksturinn. Stofnunin væri alfarið í eigu ríkisins, en hefði sjálfstæða stjórn. Stofnunin hefði með höndum allan happdrættisrekstur á vegum ríkisins.

Sá möguleiki væri fyrir hendi, hvor framangreindra leiða sem farin væri, að reka einstakar tegundir happdrætta áfram undir sama nafni og er í dag, þar sem gera má ráð fyrir að einhverjir spili í happdrættum fyrst og fremst til að styrkja viðkomandi málstað. Vegna þess hversu hröð þróunin er á happdrættismarkaðnum og tækniframfarir örar, yrði slík aðgreining þó ef til vill aðeins raunhæf til skamms tíma. Hitt er það, að þátttakendur í happdrættum þyrftu þá að geta gengið að því vísu, að minnsta kosti í meginatriðum, hvernig og í hvaða hlutföllum ágóða af starfseminni væri varið.

Leyfisveitingar: Leyfisveitingar gætu verið í höndum sjálfstæðrar stofnunar, sem jafnframt annaðist eftirlit með happdrættisstarfseminni almennt. Um hlutverk happdrættisstofnunar, sjá nánar um eftirlit hér að neðan.

Leyfisgjöld: Til greina kemur, að gera ríkisreknu happdrættisfyrirtæki að greiða leyfisgjöld til ríkisins. Leyfisgjöldin væru hugsuð til þess að standa undir rekstri happdrættisstofnunar.

Eftirlit: Nauðsynlegt er, að hafa virkt eftirlit með allri happdrættisstarfsemi, hvort sem hún er í eigu hins opinbera eða annarra. Er þá margs konar eftirlit haft í huga eftir tegund happdrættisstarfsemi, svo sem eftirlit með útdrætti, vélrænt eftirlit, eftirlit með miðum, reikningsuppgjöri, aldurstakmörkunum o.fl. Eftirlitið þarf að vera á hendi hlutlauss aðila og vélrænt eftirlit þarf að vera í höndum aðila, sem til þess hafa næga fagþekkingu.

Víða erlendis hafa verið settar á stofn sérstakar happdrættisstofnanir sem hafa á hendi það eftirlitshlutverk, sem dómsmálaráðuneytið hefur í dag, og hefur slíkum stofnunum stundum verið falið að sjá um eftirlit með allri happdrættisstarfsemi. Að mörgu leyti getur verið hentugt að sjálfstæður aðili fari með þennan málaflokk. Einhver aukakostnaður er því hins vegar samfara, en gjöld og skattar af happdrættisstarfsemi ættu að geta staðið undir þeim rekstri. Stofnunin gæti eftir atvikum falið lögreglustjórum og sérfróðum aðilum hluta eftirlitsins. Einnig má benda á þann möguleika, að bjóða eftirlitið út til einkaaðila, sem hafa næga þekkingu til að bera, er sjái um eftirlit með öllum happdrættunum. Ennfremur getur komið til greina, að kaupa eftirlit með sérstökum vélum og kössum erlendis frá, eins og sums staðar tíðkast.

Stofnunin ráði sér starfsfólk með fagþekkingu til þess að annast daglegan rekstur hennar. Stofnunin hafi eftirlit með allri happdrættisstarfsemi. Til hennar bæri að skila skýrslum um starfsemina. Kveða þyrfti á um að stofnunin hefði nánar skilgreindan rétt til aðgangs að gögnum hjá leyfishöfum.

Auk eftirlits gæti sjálfstæð happdrættisstofnun haft það hlutverk, að veita leyfi fyrir nýjum leikjum, fylgjast með skýrslu- og reikningsskilum og því að skilyrði fyrir rekstrinum séu uppfyllt, veita upplýsingar og leiðbeiningar og úrskurða í ágreiningsmálum.

Skipting ágóða: Með ríkisrekinni happdrættisstarfsemi opnast margir möguleikar á skiptingu ágóða af starfseminni. Nefna má a.m.k. fjórar hugsanlegar leiðir. Í fyrsta lagi, að bundið væri í lögum til hvaða félagasamtaka eða stofnana ágóðinn skuli renna, svo sem nú er gert, og hefði hið opinbera þá ekki frekari afskipti af ráðstöfun fjármunanna. Í öðru lagi, að ágóði af allri ríkisrekinni happdrættisstarfsemi renni í einn pott, sem skiptist í ákveðnum hlutföllum milli tiltekinna málaflokka, svo sem 1/3 til íþróttamála, 1/3 til menntunar- og menningarmála og 1/3 til mannúðarmála. Með því að binda ráðstöfun ágóðans eingöngu við málefni opnast sá möguleiki, að ráðstafa honum til mismunandi félagasamtaka og stofnana eftir atvikum á hverjum tíma, þannig að sömu aðilar sitji ekki alfarið að ágóðanum. Með því móti er unnt að koma til móts við þau sjónarmið, sem uppi eru í dag um skiptingu happdrættiságóða. Í þessu sambandi má hafa í huga, að ekki er fyrirsjáanlegt hverjir geta þurft á stuðningi að halda og því meira svigrúm fyrir hendi, ef skipting ágóðans er opin innan vissra marka. Í þriðja lagi, að happdrættiságóðinn renni í einn pott, en síðan geti félagasamtök og stofnanir sótt um hlutdeild í honum. Nefnd á vegum eins eða fleiri ráðuneyta ákvæði skiptingu ágóðans eða gerði um hana tillögu til ríkisstjórnar. Sums staðar erlendis hefur þessi leið verið farin. Í fjórða lagi, að nefnd á vegum eins eða fleiri ráðuneyta eða ríkisstjórnin ákveði skiptinguna án umsókna.

Reiknings- og skýrsluskil: Reikningsskil hinna ríkisreknu happdrættisfyrirtækja þyrftu að uppfylla ákveðin skilyrði, t.d. laga um bókhald. Skattayfirvöld þyrftu að hafa öruggar og samræmdar upplýsingar um starfsemina og happdrættisstofnun þyrfti að hafa tryggan aðgang að skýrslum og reikningum. Til greina kæmi, að ráða sérstakan endurskoðanda er hafi á sinni hendi endurskoðun hinna ríkisreknu happdrættisfyrirtækja.

Skattar á happdrættisstarfsemi: Ríkisreknu happdrættisfyrirtækin greiði beina skatta af happdrættisrekstrinum, þ.e. tekju- og eignaskatt, og til greina kæmi að leggja veltuskatta á happdrættismiða. Í happdrættislögum verði kveðið á um skattskyldu fyrirtækjanna, eða þar verði a.m.k. tilvísanir í ákvæði í skattalögum.

Skattar á vinninga: Í happdrættislögum verði kveðið á um hvort vinningar væru skattskyldir eða ekki.

Kæruleiðir: Yfirstjórn happdrættismála er í dag hjá dómsmálaráðuneytinu. Ekki er ástæða til að breyta því fyrirkomulagi að meginstefnu. Ákvarðanir sjálfstæðrar happdrættisstofnunar væru kæranlegar til dómsmálaráðuneytisins, sem yfirvalds happdrættismálefna, og þaðan væri unnt að skjóta þeim til dómstóla, eftir venjubundnum leiðum. Verði lögreglustjórar með hluta leyfisveitinga og eftirlits, væri unnt að kæra ákvarðanir þeirra til happdrættisstofnunar, en ekki til dómsmálaráðuneytisins.

Viðurlög vegna brota á lögunum: Einkum sýnast koma til álita sektir, nema þyngri refsing lægi við broti samkvæmt öðrum lögum, og svipting leyfis að auki, þegar um grófari eða endurtekin brot væri að ræða.

Meginreglur um hverja tegund happdrættis: Í happdrættislögum væri kveðið á um meginreglur um hverja tegund happdrættis fyrir sig, svo sem um iðgjöld, miðasölu, vinninga, útdrátt þeirra, aldursmörk til að mega taka þátt, staðsetningu o.fl.

9.3 Einkarekin happdrætti

Hér er hugmyndin sú, að ríkið dragi sig alfarið út af happdrættismarkaðnum og happdrættisstarfsemi verði gefin frjáls innan ákveðins lagaramma. Þeim, sem uppfylla tiltekin lágmarks skilyrði, verði heimilað að starfrækja happdrætti. Sett verði almenn, ítarleg lög um happdrættisstarfsemi, þar sem kveðið verði á um tilteknar meginreglur, er gildi um öll happdrætti. Á grundvelli laganna verði gefnar út reglugerðir um hvert happdrætti fyrir sig.

Í þessari hugmynd felst, að litið er á happdrættisstarfsemi sem hverja aðra þjónustu við neytendur sem lúti almennum samkeppnisreglum. Markaðurinn sjái til þess að þeir, sem í happdrættisrekstri standa, leitist við að bjóða neytendum hagstæðustu kjör með það að markmiði að auka viðskipti sín og afrakstur. Leyfisgjöld og skattar á happdrættisstarfsemina standi undir kostnaði við eftirlit með happdrættum, en verði að öðru leyti varið til ákveðinna málaflokka.

Kostirnir við að öllum sé happdrættisstarfsemi frjáls eru þeir, að það sé hagstæðara, bæði fyrir neytendur og ríkissjóð, heldur en að ríkið sjálft hafi hana á sínum höndum. Heppilegra sé, að láta markaðinn um að leita nýrrar tækni og betri kjara fyrir neytendur. Ríkið skattleggi síðan starfsemina og ráðstafi fjármunum sem þannig fást til þeirra málefna, sem ástæða er talin til að styrkja. Auk þess er engin leið til að sjá fyrir hina öru þróun á Netinu. Líklega munu menn fljótlega standa frammi fyrir því, ef happdrættisstarfsemin er ekki gefin frjáls, að fjöldi aðila hefur farið í kringum gildandi lög á grundvelli nýrrar tækni. Vafalaust munu Íslendingar og í auknum mæli leita í að spila í erlendum happdrættum. Við bætist, að á happdrættismarkaði þar sem ríkið veitir ákveðnum aðilum einkarétt á tilteknum happdrættum, skjóta stöðugt upp kollinum og verða til ný félög og samtök, sem telja sig eiga sama rétt til happdrættiságóðans og aðrir. Löggjöfin - eða regluramminn - sem smíðuð hefur verið utan um happdrættismarkað þar sem einkaréttarfyrirkomulag er ráðandi, getur því verið fljót að úreldast. Loks ber hér að hafa í huga, að hluti neytenda mun þó að öllum líkindum áfram versla við tiltekin happdrætti vegna vilja til að styrkja ákveðinn málstað.

Nánar tiltekið felst þetta í hugmyndinni um einkarekin happdrætti:

Almenn happdrættislöggjöf: Í almennri og ítarlegri löggjöf um happdrætti væri kveðið á um eftirfarandi atriði: 1) Hvaða starfsemi félli undir lögin. 2) Hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til þess að fá leyfi til að reka happdrætti. 3) Leyfisveitingar. 4) Hvort greiða beri leyfisgjöld. 5) Ítarlegar reglur um skipan og starfsháttu eftirlitsaðila. 6) Reiknings- og skýrsluskil. 7) Skatta á happdrættisstarfsemi, eða a.m.k. tilvísanir í ákvæði í skattalögum. 8) Hvort vinningar skuli vera undanþegnir skattskyldu. 9) Kæruleiðir. 10) Viðurlög við brotum á lögunum. 11) Meginreglur um hverja tegund happdrættis fyrir sig, svo sem um iðgjöld, miðasölu, vinninga, útdrátt þeirra, aldursmörk til að mega taka þátt, staðsetningu o.fl.

Í reglugerð væri síðan að finna nánari reglur um hverja tegund happdrættis fyrir sig.

Hvaða starfsemi félli undir lögin: Taka þyrfti afstöðu til þess, hvaða starfsemi félli undir lögin að því er varðar flokkahappdrætti, peningahappdrætti, vöruhappdrætti, talnagetraunir, veðmál, hlutaveltur o.s.frv. - Happdrættishugtakið væri skilgreint, en slíka skilgreiningu er ekki að finna í settum lögum í dag.

Hverjir gætu fengið leyfi?: Allir, hvort heldur einstaklingar eða lögaðilar, sem uppfylla tiltekin lágmarks skilyrði, gætu fengið leyfi til að reka happdrætti. Hugmyndina má þrengja, t.d. þannig að einungis þeir, sem starfa á ákveðnu sviði, eða þeir, sem hafa ákveðin markmið, gætu fengið leyfi, svo sem íþróttafélög, góðgerðarfélög o.s.frv.

Almennu skilyrðin, sem hér kemur til greina að aðilar þurfi að uppfylla til að geta fengið leyfi til að starfrækja happdrætti, gætu fyrst og fremst lotið að ákveðnu skipulagi, stjórn, að gengist væri undir tilteknar eftirlitskvaðir o.fl.

Leyfisveitingar: Leyfisveitingar gætu verið í höndum sjálfstæðrar stofnunar, sem jafnframt annaðist eftirlit með happdrættisstarfseminni almennt. Um hlutverk happdrættisstofnunar, sjá nánar um eftirlit hér að neðan og í kafla 9.2 um ríkisrekin happdrætti.

Leyfisgjöld: Til greina kemur að gera þeim, sem fá leyfi til happdrættisrekstrar, að greiða leyfisgjöld til ríkisins. Leyfisgjöldin væru hugsuð til þess að standa undir rekstri eftirlitsstofnunarinnar. Ef vilji er fyrir hendi, mætti hugsa sér að leyfisgjöld væru jafnframt ætluð til að standa undir kostnaði við önnur nánar skilgreind verkefni.

Eftirlit: Setja þarf ítarlegar reglur um eftirlitsaðila, skipan hans og starfsháttu. Að mörgu leyti gæti verið heppilegt að fela sjálfstæðri stofnun - happdrættisstofnun - eftirlitið. Um slíka eftirlitsstofnun eiga að flestu leyti við sömu athugasemdir og raktar eru í kafla 9.2 um ríkisrekin happdrætti og skal hér vísað til hans.

Reiknings- og skýrsluskil: Reikningsskil aðila þyrftu að uppfylla ákveðin skilyrði, t.d. laga um bókhald. Skattayfirvöld þyrftu að hafa öruggar og samræmdar upplýsingar um starfsemina. Happdrættisstofnun þyrfti að hafa tryggan aðgang að skýrslum og reikningum.

Skattar á happdrættisstarfsemina: Leyfishafar greiði beina skatta af happdrættisrekstrinum, þ.e. tekju- og eignaskatt, og veltuskattar verði lagðir á happdrættismiða. Skattana gæti ríkisvaldið notað til að styrkja þá starfsemi, sem nú hefur leyfi til happdrættis, ef vilji væri fyrir hendi. Ætla má, að ef happdrættisstarfsemi er frjáls en á hana lagðir almennir skattar, leitist happdrættisfyrirtæki við að hámarka hagnað sinn í samkeppni við önnur fyrirtæki. Það verður fyrst og fremst gert með því að ánægðir viðskiptavinir haldi áfram að skipta við viðkomandi fyrirtæki. Ætla má, að viðskiptavinir séu ánægðir þar sem þeir fá góða þjónustu og þeim bjóðast bestu kjör og miklir vinningsmöguleikar. Í almennum lögum um happdrætti verði kveðið á um skattskyldu leyfishafa, eða þar verði a.m.k. tilvísanir í ákvæði í skattalögum.

Skattar á vinninga: Í almennum lögum um happdrætti verði kveðið á um hvort vinningar væru skattskyldir eða ekki.

Kæruleiðir: Yfirstjórn happdrættismála er í dag hjá dómsmálaráðuneytinu. Ekki er ástæða til að breyta því fyrirkomulagi að meginstefnu. Ákvarðanir sjálfstæðrar happdrættisstofnunar væru kæranlegar til dómsmálaráðuneytisins, sem yfirvalds happdrættismálefna, og þaðan væri unnt að skjóta þeim til dómstóla, eftir venjubundnum leiðum. Verði lögreglustjórar með hluta leyfisveitinga og eftirlits, væri unnt að kæra ákvarðanir þeirra til happdrættisstofnunar, en ekki til dómsmálaráðuneytisins.

Viðurlög vegna brota á lögunum: Einkum sýnast koma til álita sektir, nema þyngri refsing lægi við broti samkvæmt öðrum lögum, og svipting leyfis að auki, þegar um grófari eða endurtekin brot væri að ræða.

Meginreglur um hverja tegund happdrættis: Í almenn happdrættislög þyrfti að setja meginreglur um hverja tegund happdrættis fyrir sig, svo sem um iðgjöld, miðasölu, vinninga, útdrátt þeirra, aldursmörk til að mega taka þátt, staðsetningu o.fl.

9.4 Ríkis- og einkarekin happdrætti

Þriðja leiðin, sem til greina kemur að fara, er sú, að heimila bæði einka- og ríkisrekin happdrætti. Mætti þá hugsa sér að minnsta kosti tvo möguleika. Annars vegar, að tiltekin fyrirtæki og/eða stofnanir í eigu ríkisins hefðu einkarétt á starfrækslu ákveðinna happdrætta. Öðrum væri frjálst að starfrækja önnur happdrætti. Hins vegar, að fyrirtækjum og/eða stofnunum í eigu ríkisins væri ekki veittur einkaréttur á neinum happdrættum, heldur yrðu þau að keppa við einkarekin happdrættisfyrirtæki. Í báðum tilvikum má hugsa sér, að ríkisreknu happdrættin gætu boðið út rekstur tiltekinna nánar skilgreindra þátta í starfseminni, þ.e. hvort sem þau hefðu einkarétt á starfrækslu ákveðinna happdrætta eða ekki.

Af þessari hugmynd leiðir, að ríkisvaldinu gefst kostur á að stýra því með nokkuð ákveðnum hætti, hvert ágóði af happdrættisstarfsemi rennur, en jafnframt væru kostir markaðarins nýttir að hluta til, til þess að ýta undir samkeppni og framþróun og ná fram ákveðinni hagkvæmni, sem líklega næst ekki, ef happdrættisrekstur er alfarið í höndum ríkisins.

Hugmynd þessi er í reynd engin nýlunda fyrir happdrættisstarfsemi á Íslandi, því segja má, að happdrættismarkaðurinn í dag sé einskonar blanda af ríkis- og einkareknum happdrættum. Hvað sem því líður er eigi að síður ljóst, að löggjöfin, sem gildir um happdrættisstarfsemi í dag, er úr sér gengin; hún er að sumu leyti ósamstæð og rekst að öðru leyti á. Gagngerrar endurskoðunar er því þörf, enda þótt sú leið væri farin, sem hér er rætt um, að happdrætti séu bæði einkarekin og ríkisrekin.

Líklega væri heppilegast að ein lög væru sett um happdrættisrekstur ríkisins og önnur um einkarekin happdrætti. Í hvorum lögunum um sig þyrfti að kveða á um öll þau sömu atriði og rakin eru í köflunum hér að framan um ríkisrekin og einkarekin happdrætti og skal því vísað til þeirra um nánari útlistun (sjá kafla 9.2 og 9.3).

9.5 Almenn happdrætti

Að neðan er gerð grein fyrir tillögum um æskilegar breytingar á reglum um almenn happdrætti. Þær geta átt við, hver þeirra þriggja leiða til úrbóta á skipan happdrættismála, sem raktar hafa verið að framan, kynni að verða fyrir valinu. Með almennum happdrættum er hér átt við þau happdrætti, sem fjallað er um í kafla 4.1.13, og bingó, sem starfrækt eru að staðaldri, sbr. umfjöllun í kafla 4.1.14.

Nauðsynlegt er, að vel sé haldið utan um rekstur almennra happdrætta og að eftirlit með þeim verði mun meira en er í dag. Settar verði nákvæmar reglur um happdrættisumsóknir, útbúin umsóknareyðublöð og tiltekin helstu skilyrði og þau gögn, er með þurfa að fylgja.

Lagt er til, að í lögum verði mælt fyrir um neðangreind atriði varðandi almenn happdrætti:

Happdrættislöggjöf: Í happdrættislög - hvort heldur almenn happdrættislög eða sérstök lög um efnið - þyrfti að setja ítarlegar reglur um almenn happdrætti, þar sem kveðið væri á um eftirfarandi atriði: 1) Staðlað form umsóknareyðublaða, sem skila þyrfti inn til þess aðila er veitir leyfi. Þar þyrftu a.m.k. að koma fram atriði nr. 2-11 hér á eftir. 2) Um hvers konar happdrætti væri að ræða. 3) Upplýsingar um hver hyggist halda happdrættið og ábyrgðaraðila þess. 4) Fjölda útgefinna miða. 5) Hvar standi til að halda happdrættið. 6) Hvar miðasala fari fram og hvernig. 7) Miðaverð. 8) Vinninga, röð þeirra og verðmæti, ásamt heildarverðmæti og vinningshlutfalli. 9) Hvenær dregið verði í happdrættinu. 10) Hvernig útdráttur fari fram. 11) Upplýsingar um símanúmer og önnur atriði, er máli skipta til að vitja um vinninga. 12) Þá þyrfti í lögunum að kveða á um skyldu leyfishafa til að skila til eftirlitsaðila eintaki af happdrættismiða, eftir að leyfi hefur verið veitt en áður en miðasala hefst. 13) Hver veiti leyfi. 14) Leyfisgjald. 15) Eftirlit. 16) Reiknings- og skýrsluskil. 17) Hvort leggja beri skatta á starfrækslu almennra happdrætta. 18) Hvort vinningar skulu vera skattskyldir. 19) Kæruleiðir. 20) Viðurlög við brotum á lögunum.

Umsóknareyðublöð: Æskilegast er, að prentuð væru stöðluð umsóknareyðublöð, þar sem mælt væri fyrir um þau atriði, sem getið er að framan. Það myndi flýta fyrir afgreiðslu þessara mála og auðvelda samræmingu og eftirlit.

Tegund happdrættis: Taka þyrfti afstöðu til þess, hvaða happdrætti teldust almenn happdrætti, þannig að unnt væri að fá leyfi til reksturs þeirra með þeim hætti, sem hér er gert ráð fyrir. Það gætu t.d. verið öll önnur happdrætti en þau, sem fjallað er um að framan.

Algengt er, að lítil happdrætti fari fram á skemmtunum, innan fyrirtækja eða félaga eða í tilteknum þröngum hópi, þar sem sala miða, útdráttur og afhending vinninga fer fram á sama stað. Þessi happdrætti hafa ekki verið háð leyfisveitingu hér á landi. Lagt er til, að tekið verði fram í löggjöf að ekki þurfi leyfi fyrir þess konar happdrættum.

Leyfishafar: Kveða þyrfti á um, hvaða aðilar gætu fengið leyfi til að reka almenn happdrætti, eða hvaða skilyrði þyrfti að uppfylla í því sambandi. Jafnframt þyrfti að taka afstöðu til þess, hvort gera ætti að skyldu að ákveðnir aðilar gangist í ábyrgð fyrir happdrættið.

Happdrættismiðar, vinningar, útdráttur og staðsetning: Ástæður þess, að mikilvægt er að kveða á um þetta í lögum skýra sig sjálfar. Þó er rétt að nefna, að æskilegt er að gera leyfishöfum að skila til leyfisveitanda eintaki af happdrættismiða, eftir að leyfi hefur verið veitt en áður en miðasala hefst. Ástæðan er sú, að stundum hefur borið á því að happdrættismiðar hafa ekki reynst í samræmi við þau skilyrði, er dómsmálaráðuneytið hefur byggt á. Þá skal þess getið, að það er skilyrði í dag, að verðmæti vinninga sé að lágmarki 16,67% af heildarverðmæti útgefinna miða.

Leyfisveitandi: Yfirstjórn almennra happdrætta verði áfram hjá dómsmálaráðuneytinu, eins og yfirstjórn annarra happdrætta. Leyfisveitingar verði hins vegar hjá sjálfstæðri happdrættisstofnun, sem jafnframt annist eftirlit með þessum happdrættum. Vel kæmi þó til greina, að staðbundin, almenn happdrætti verði háð leyfisveitingu og eftirliti lögreglustjóra í viðkomandi sveitarfélagi.

Stærri almenn happdrætti, sem rekin eru í fleiri en einu sveitarfélagi eða á landsvísu, eða ef vinningshlutfall eða miðafjöldi er óvenju hár, verði þó háð leyfisveitingu og eftirliti happdrættisstofnunar.

Leyfisgjald: Leyfishafi greiði gjald fyrir leyfi til að starfrækja almennt happdrætti. Þetta gjald er í dag kr. 5.000. Til greina kæmi, að gjaldið væri mismunandi eftir stærð og umfangi happdrættisins.

Eftirlit: Eftirlit verði í höndum happdrættisstofnunar. Smærri og staðbundin, almenn happdrætti gætu hins vegar verið háð eftirliti lögreglustjóra í viðkomandi umdæmi.

Reiknings- og skýrsluskil: Reikningsskil aðila þyrftu að uppfylla ákveðin skilyrði. Skattayfirvöld þyrftu að hafa öruggar og samræmdar upplýsingar um starfsemina. Happdrættisstofnun þyrfti að hafa tryggan aðgang að skýrslum og reikningum. Mikilvægt er, að uppgjöri vegna almennra happdrætta sé skilað sem fyrst, t.d. innan sex mánaða frá því að útdráttur fór fram. Lögreglustjórar í viðkomandi umdæmi gætu eftir atvikum haft ákveðið hlutverk í þessu sambandi, þegar um er að ræða smærri og staðbundin happdrætti, sem þeir hafa veitt leyfi fyrir.

Skattar á happdrættisstarfsemina: Í lögum um almenn happdrætti þyrfti að kveða á um hvort leyfishafar skulu greiða beina skatta af happdrættisrekstrinum, þ.e. tekju- og eignaskatt, og hvort leggja beri veltuskatta á happdrættismiða. Í lögunum gæti eftir atvikum verið að finna tilvísanir í ákvæði í skattalögum.

Skattar á vinninga: Í lögum um almenn happdrætti verði kveðið á um hvort vinningar væru skattskyldir eða ekki.

Kæruleiðir: Yfirstjórn happdrættismála er í dag hjá dómsmálaráðuneytinu. Ekki er ástæða til að breyta því fyrirkomulagi að meginstefnu. Ákvarðanir sjálfstæðrar happdrættisstofnunar væru kæranlegar til dómsmálaráðuneytisins, sem yfirvalds happdrættismálefna, og þaðan væri unnt að skjóta þeim til dómstóla, eftir venjubundnum leiðum. Verði lögreglustjórar með hluta leyfisveitinga og eftirlits, væri unnt að kæra ákvarðanir þeirra til happdrættisstofnunar, en ekki til dómsmálaráðuneytisins.

Viðurlög vegna brota á lögunum: Einkum sýnast koma til álita sektir, nema þyngri refsing lægi við broti samkvæmt öðrum lögum, og, eftir atvikum, svipting leyfis, þegar það væri á annað borð raunhæft.

9.6 Önnur happdrætti og skyld starfsemi

Í köflum 4.1.14, 8.6 og 8.7 var fjallað um svonefnd kaupaukahappdrætti og ýmsa happdrættisleiki aðra, sem farið hafa fram í gegnum síma, símatorg eða sjónvarp, án leyfis í neinu formi. Þar var annars vegar þeirri spurningu velt upp, þegar um kaupaukahappdrætti er að ræða, hvort starfsemi teldist vera ólöglegt happdrætti, ef kaup á vöru eða þjónustu er skilyrði fyrir því að þátttakendur fái vinningslíkur og vöruverð er ef til vill líka hækkað í tengslum við leik. Hins vegar var sú spurning orðuð, hvort um gjald (framlag) væri að ræða í skilningi happdrættishugtaksins, þegar leikur fer fram í gegnum síma, símatorg eða sjónvarp, og símtalið kostar meira en venjulegt símtal, eða áskrift eða afnotagjald er hærra en ella væri.

Við skilgreiningu á hugtakinu happdrætti í nýrri, almennri löggjöf um það efni, þyrfti að taka afstöðu til framangreindra leikja í þeim skilningi, að skilgreina þyrfti, hvort leikir þessir teldust happdrætti og þá við hvaða aðstæður og að hvaða skilyrðum fullnægðum. Ef niðurstaðan væri sú, að þeir teldust happdrætti við tilteknar aðstæður að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og að um þá skyldu gilda tilteknar reglur, þyrfti að taka afstöðu til þess, hverjar þær reglur ættu að vera. Þar koma væntanlega til greina reglur um áþekk atriði og fjallað er um í kaflanum að framan um almenn happdrætti (kafli 9.5), t.d. um leyfi, eftirlit, gjöld, skatta, kæruleiðir, viðurlög o.s.frv. Má um útfærslu á þeim atriðum vísa til kafla 9.5 að breyttu breytanda. - Rétt er að taka fram, að þessar athugasemdir geta átt við, hvort sem einhver þeirra þriggja meginleiða, sem fjallað er um í köflum 9.2-9.4, kynni að verða farin eða ekki.

9.7 Netið

Með tilkomu Netsins hafa aukist möguleikar á þátttöku í ýmsum leikjum og spilum, sem sett eru á markað í gegnum Netið. Þátttaka fer fram í gegnum reikningsnúmer og leggst vinningur inn á sama númer. Hugsanlega verður þróunin sú, að happdrættislöggjöf og milliríkjasamningar, svo sem EES-samningurinn, fái minna vægi í framtíðinni í tengslum við Netið, m.a. vegna þess, að ekki verður unnt að staðsetja happdrættisfyrirtæki eða skipuleggjendur happdrættis í löndum þeim, sem leikirnir fara fram í. Sömuleiðis verður erfitt að ákveða, hvaða reglur um skipulag og eftirlit eigi við um leikina. Við bætist, að eftirlitið sem slíkt er örðugleikum háð. Við setningu happdrættislöggjafar verður að hafa í huga þessa öru tækniþróun. Ástæða kann að vera til að leitast við að setja reglur, sem eru þess eðlis, að ekki sé hægt að sniðganga þær með þessum nýju miðlum og hinni nýju tækni, ef nokkur kostur er. Reyndar má spyrja, hvort lagasetning hafi yfirleitt einhverja þýðingu þegar Netið er annars vegar, enda tækniþróun gífurlega hröð og möguleikar nánast óendanlegir.

Í þeim nágrannalöndum okkar, sem sett hafa reglur um happdrætti og spil í gegnum Netið, hefur verið tilhneiging til að hafa þær reglur strangar. Má greina vilja landanna til að halda happdrættum á eigin yfirráðasvæði, þar sem ágóðinn af þeim hafi mikla þýðingu fyrir mannúðarmál, íþróttir, menntun og menningu. Almennt hefur viðhorfið verið það, að samkeppni út fyrir landamæri geti haft afdrifarík áhrif á happdrættismarkað viðkomandi ríkis. Netið er enn sem komið er óráðinn miðill, sem getur sett strik í happdrættismarkaðinn, nema þjóðir finni sér samspil í reglusetningu.

10. LOKAORÐ

Að framan er fjallað um þær lagareglur, sem gilda um íslensk happdrætti og happdrættisstarfsemi á Norðurlöndunum, svo og í öðrum löndum Evrópu og Bandaríkjunum. Þá eru settar fram á myndrænan hátt tölulegar upplýsingar úr ársskýrslum íslenskra happdrætta. Jafnframt er fjallað um framboð og eftirspurn á happdrættismarkaði og gerð grein fyrir mismunandi siðferðilegum viðhorfum til eðlis happdrætta. Ennfremur eru talin upp ýmis atriði, sem betur mega fara í íslenskri löggjöf um happdrætti. Loks er fjallað um framtíðarskipan happdrættismála á Íslandi.
Um niðurstöður og ábendingar nefndarinnar vísast til kafla 2. Samantekt á efni skýrslunnar er að finna í kafla 3.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum