Hoppa yfir valmynd
20. júní 2001 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður, aldurstakmark á dansleikjum

Reykjavík, 19. júní 2001

Ú R S K U R Ð U R

Með bréfi, dags. 12. mars 2001, sem sent var forstöðumönnum félagsheimila í Skagafirði tilkynnti sýslumaðurinn á Sauðárkróki að embættið muni því aðeins gefa út skemmtanaleyfi fyrir dansleiki að aldurstakmark sé 18 ár. Með bréfi sem barst ráðuneytinu þann 18. maí 2001 kærðu þeir Kolbeinn Konráðsson og Sigurjón Ingimarsson f.h. félagsheimilisins Miðgarðs þessa ákvörðun.
Með bréfi, dags. 22. maí 2001 fór ráðuneytið þess á leit við embætti sýslumannsins á Sauðárkróki að hann léti ráðuneytinu í té gögn embættisins um málið ásamt athugasemdum sínum vegna kærunnar. Bréf sýslumanns barst þann 5. júní ásamt gögnum málsins.


I. Ákvörðun sýslumanns og rökstuðningur hennar.
Ákvörðun sýslumanns er á því reist, að fráleitt sé að börn niður í 15 ára aldur fái aðgang að almennum dansleikjum þar sem neysla áfengis er meiri og meðferð áfengis verri, heldur en á þeim stöðum sem hafa leyfi til áfengisveitinga, en þar er aldurstakmark 18 ár. Hann hafi ritað sveitarstjórninni á staðnum og óskað eftir samráði um hvernig sporna ætti við unglingadrykkju á þessum samkomum. Að fengnum svörum sveitarstjórnarinnar hafi það orðið hans niðurstaða að ekki væru aðrar leiðir færar en að taka upp 18 ára aldurstakmark en ekki sé raunhæft að grípa til þess ráðs að loka húsunum á ákveðnu tímamarki og hann sé sammála m.a. kærendum um það að ekki séu líkur til að það skili árangri að koma í veg fyrir að áfengi sé borið inn í húsin.


II. Krafa kærenda og rök.
Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þeir hafna þeim rökstuðningi að meðferð og neysla áfengis sé verri á dansleikjum þeirra en á vínveitingastöðum. Þá telja þeir að ákvörðun sýslumanns sé ekki til þess fallin að stöðva unglingadrykkju, hætt sé við að unglingar hópist saman fyrir utan samkomuhúsin og að erfiðara verði en ella að hafa stjórn á ástandi þeirra. Telja kærendur að nærtækara sé að efla gæslu dyravarða og lögreglu og lýsa sig fúsa til að taka við ábendingum um úrbætur eða annað fyrirkomulag.



III. Niðurstaða ráðuneytisins.
Enda þótt ákvörðun sýslumanns frá 12. mars 2001 birtist í bréfi sem stílað er á forstöðumenn félagsheimila í Skagafirði verður í ljósi aðstæðna að telja að hér sé um að ræða stjórnvaldsákvörðun sem kærendur eigi aðild að. Kæran er nægjanlega snemma fram komin, sbr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992 er börnum, yngri en 16 ára, óheimill aðgangur og dvöl á dansleikjum öðrum en sérstökum unglinga- eða fjölskylduskemmtunum sem haldnar eru af skólum, æskulýðsfélögum eða öðrum þeim sem til þess hafa leyfi. Forstöðumönnum dansleikja er skylt að fylgjast með að ákvæði þetta sé haldið að viðlagðri afturköllun almenns skemmtanaleyfis um lengri eða skemmri tíma. Samkvæmt 2. mgr. er börnum innan 18 ára aldurs óheimill aðgangur og dvöl á stöðum sem hafa leyfi til áfengisveitinga. Í 4. mgr. sömu greinar kemur fram að þegar börnum er bannaður aðgangur að skemmtunum, öðrum en á stöðum sem leyfi hafa til áfengisveitinga, skal miða aldursmörk við fæðingarár en ekki fæðingardag.
Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 587/1987 um löggæslu á skemmtunum og um slit á skemmtunum og öðrum samkvæmum er leyfi lögreglustjóra skilyrði þess að heimilt sé að halda skemmtun sem aðgangur er seldur að. Í reglugerðinni kemur fram að lögreglustjóra sé heimilt að binda skemmtanaleyfi þeim skilyrðum að eigi annist aðrir dyravörslu en þeir sem hann samþykkir og að lögreglumenn verði á skemmtistað, en hlutverk þeirra skal einkum vera að halda uppi röð og reglu við skemmtistað og í næsta nágrenni hans.
Samkvæmt 3. gr. laga um lögreglusamþykktir nr. 36/1988 skal í lögreglusamþykkt, eftir því sem þurfa þykir, kveða á um það sem varðar allsherjarreglu, þ.á.m. opnunar- og lokunartíma veitingastaða; skemmtanahald og hvernig skemmtunum og öðrum samkomum skuli markaður tími. Kærendur reka félagsheimilið Miðgarð í Skagafirði. Gildandi lögreglusamþykkt á þeim stað er nr. 71/1937 en ekki eru í henni ákvæði sem máli skipta fyrir niðurstöðu máls þessa.
Ekki verður talið að sýslumanni sé óheimilt að binda útgáfu skemmtanaleyfa öðrum skilyrðum en þeim sem talin eru í reglugerð nr. 587/1987, enda styðjist slík skilyrði við lögmæt sjónarmið. Ljóst er að það er lögmætt markmið að sporna við áfengisneyslu unglinga. Getur því, að mati ráðuneytisins, komið til greina að binda útgáfu skemmtanaleyfis því skilyrði að aldurstakmark verði t.d. 18 ár ef sýnt er að önnur og vægari úrræði séu ófullnægjandi. Þá er og rétt að benda á að það er í valdi sveitarstjórnar að setja nánari reglur um aldurstakmörk á skemmtunum í lögreglusamþykkt.
Í bréfi kærenda til ráðuneytisins kemur fram að löggæsla hafi verið fyrir utan Miðgarð og að auk þess hafi lögreglumaður verið að störfum innandyra ásamt öflugri gæslu á vegum skemmtanahaldara. Á meðal gagna málsins er bréf þar sem þeirri skoðun sýslumannsembættisins er lýst að starfsfólk Miðgarðs hafi öðrum fremur verið til fyrirmyndar í sínu starfi og að samstarf lögreglu við samkomuhaldara hafi verið mjög gott. Ljóst er að kærendur hafa af því verulega hagsmuni að skemmtanaleyfi þeirra verði ekki bundin umræddu skilyrði. Verður ekki gripið til þessa úrræðis nema það teljist óhjákvæmilegt að virtum öllum atvikum máls. Er rétt að benda á að ekki verður undan því vikist að taka tillit til þeirra aðstæðna og málsatvika sem uppi eru og varða kærendur sérstaklega þegar metið er hvort umrædd ákvörðun standist.
Þeirri fullyrðingu kærenda er ómótmælt að þeir hafi ekki fengið neinar kvartanir yfir því hvernig þeir hafi staðið að samkomuhaldi. Ekki hafa verið lögð fyrir ráðuneytið nein gögn sem sýna fram á að ástand á skemmtunum þeirra sé svo óforsvaranlegt að nauðsynlegt sé að neita að gefa út skemmtanaleyfi með óbreyttum skilmálum. Virðist eðlilegt gagnvart kærendum að veita þeim frest til að koma samkomum sínum í það horf að áfengisneysla unglinga sé þar ekki stórfellt vandamál áður en gengið er svo langt að skilyrða veitingu skemmtanaleyfis með umræddum hætti. Af þessum sökum verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Ákvörðun sýslumannsins á Sauðárkróki, dags. 12. mars 2001, þess efnis að embættið muni því aðeins gefa út skemmtanaleyfi fyrir dansleiki að aldurstakmark sé 18 ár er felld úr gildi.


Í Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu

F. h. r.













































Kolbeinn Konráðsson/
Sigurjón Ingason
Holtskot
561 Varmahlíð


Afrit:
Sýslumaðurinn á Sauðárkóki
Suðurgötu 1

550 Sauðárkrókur



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum