Hoppa yfir valmynd
18. júlí 2006 Dómsmálaráðuneytið

Framtíðarskipulag þyrlubjörgunarþjónustu á Íslandi

Björn Bjarnason. dóms- og kirkjumálaráðherra, hefur kynnt í ríkisstjórn skýrslu með tillögum um framtíðarskipulag þyrlubjörgunarþjónustu á Íslandi. Í skýrslunni er fjallað um það, hvernig þyrlum Landhelgisgæsla Íslands skuli búin til langframa.

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, hefur kynnt í ríkisstjórn skýrslu með tillögum um framtíðarskipulag þyrlubjörgunarþjónustu á Íslandi. Skýrslan var unnin af þeim Stefáni Eiríkssyni þáv. skrifstofustjóra, Leifi Magnússyni verkfræðingi og Georg Kr. Lárussyni forstjóra. Vinna þeirra byggðist á þeirri ákvörðun, sem dóms- og kirkjumálaráðherra kynnti í ríkisstjórn 24. mars 2006, að þyrlusveit Landhelgisgæslu Íslands yrði efld í áföngum, það er fyrst með leigu á þyrlum og nánu samstarfi við nágrannaþjóðir og síðan til langframa með kaupum eða leigu á nýjum þyrlum. Hinn 23. maí 2006 samþykkti ríkisstjórnin að samið yrði um leigu á tveimur þyrlum, annarri af Super Puma gerð og hinni af Dauphin gerð, til viðbótar þeim tveimur þyrlum, sem landhelgisgæslan rekur nú. Hefur verið gengið frá leigusamningum vegna þessara þyrla og taka þeir gildi 1. október 2006. Jafnframt hefur verið gengið frá samningi við fyrirtækið Norsk Helikopter um leigu á fullbúinni Super Puma björgunarþyrlu frá og með 1. maí 2006.

Í skýrslunni, sem dóms- og kirkjumálaráðherra hefur nú kynnt, er eins og áður sagði fjallað um það, hvernig þyrlum Landhelgisgæsla Íslands skuli búin til langframa og er megintillagan að með útboði verði leitað eftir kaupum á þremur nýjum, stórum, langdrægum björgunarþyrlum, en auk þess verði Dauphin-þyrlan áfram í rekstri. Talið er, að miðað við stöðu á alþjóðlegum þyrlumarkaði sé ekki við því að búast, að unnt verði að fá nýjar þyrlur, sem fullnægi þeim kröfum, sem gera verði, fyrr en á árunum 2010 til 2015.

Í niðurlagi skýrslunnar eu tillögur starfshópsins dregnar saman á þennan veg:

  1. Þyrlubjörgunarþjónustu verði sinnt af Landhelgisgæslu Íslands.
  2. Í þyrlusveit landhelgisgæslunnar verði til frambúðar þrjár nýjar, stórar, langdrægar björgunarþyrlur auk núverandi Dauphin þyrlu landhelgisgæslunnar (TF-SIF).
  3. Kaup á þremur þyrlum sem fullnægja ítarlega skilgreindum kröfum verði boðin út í samræmi við lög um opinber innkaup. Super Puma vél landhelgisgæslunnar (TF-LIF) verði seld.
  4. Þar til nýjar þyrlur verða keyptar verði fullnægjandi starfsgeta þyrlubjörgunarsveitarinnar tryggð með leiguþyrlum.
  5. Viðbragðsáætlanir þyrlubjörgunarsveitar verði endurskoðaðar og sveigjanleiki í störfum hennar aukinn.
  6. Ferðir varðskipa með þyrlueldsneyti verði skipulagðar með björgunarverkefni í samvinnu við þyrlur í huga.
  7. Rætt verði við norsk stjórnvöld um samstarf við kaup á nýjum, stórum, sérhönnuðum björgunarþyrlum. Stefnt verði að því að útboðsauglýsing verði birt eins fljótt og kostur er.
  8. Unnið verði að nánu samstarfi þjóða við Norður-Atlantshaf um samvinnu í leit- og björgun á hafinu, þar á meðal með samnýtingu á þyrlukosti.

Stefnt er að því, að ákvörðun um útboð um kaup á nýjum þyrlum verði tekin í september/október 2006.

Reykjavík 18. júlí 2006

Þyrlubjörgunarþjónusta á Íslandi - Tillögur að framtíðarskipulagi PDF-skjal

Helicopter rescue services in Iceland PDF-skjal, Ensk þýðing


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum