Hoppa yfir valmynd
12. október 2006 Matvælaráðuneytið

Skýrsla iðnaðar- og viðskiptaráðherra um Kárahnjúkavirkjun og orkusölu til Fjarðaáls flutt á Alþingi 12. október 2006.

12.10.2006

Hæstvirtur forseti

Í skýrslu þessari verður gerð grein fyrir framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun og stöðu mála þar.

Uppsett afl í Fljótsdalsstöð verður 690 Megavött í sex 115 Megavatta vélasamstæðum, en til samanburðar er uppsett afl í Búrfellsstöð 270 Megavött. Áætluð orkuframleiðsla virkjunarinnar verður um það bil 4.600 Gígavattstundir á ári, sem er um 50% aukning á allri raforkuframleiðslu í landinu miðað við 2005.

Nánast allir vatnsvegir Kárahnjúkavirkjunar eru neðanjarðar. Alls eru um 73 kílómetrar af jarðgöngum og stöðin í Fljótsdal er inni í Valþjófsstaðafjalli. Mestu mannvirki á yfirborði eru stíflur og lón.

Við Kárahnjúka eru þrjár jarðvegsstíflur. Þeirra stærst er Kárahnjúkastífla í Jökulsá á Dal, 198 metra há, klædd vatnsmegin með járnbentri steinsteypuklæðningu. Auk hennar eru tvær stíflur í lægðum hvor sínum megin við ána. Hálslón, sem nú er verið að fylla, hefur 2.100 Gígalítra miðlanlegt rými, sem er 50% meira en í Þórisvatni. Flatarmál lónsins er hins vegar um tveir þriðju af stærð Þórisvatns, 57 ferkílómetrar, en það er sama og flatarmál Blöndulóns.

Nánast öll rafmagnsframleiðsla Kárahnjúkavirkjunar verður seld til Fjarðaáls í Reyðarfirði þar sem framleidd verða árlega 346.000 tonn af áli og álafurðum.

Kárahnjúkavirkjun er mjög vönduð framkvæmd á allan hátt eins og aðrar virkjanir hérlendis. Undirbúningur og framkvæmd hefur byggst á ráðgjöf færustu sérfræðinga í landinu með reynslu frá fyrri virkjunum. Jafnframt hafa verið kallaðir til margir erlendir ráðgjafar vegna stærðar verkefnisins og vegna sérstakra verkþátta svo sem heilboraðra ganga sem er nýjung hérlendis, og vegna Kárahnjúkastíflu sem er stærsta stífla á Íslandi. Landsvirkjun hefur tekið til alvarlegrar skoðunar allar ábendingar sem fram hafa komið á rannsóknar- og framkvæmdatímanum.

Ekkert annað verkefni á vegum Landsvirkjunar hefur sætt jafn miklum rannsóknum og endurskoðun sérfræðinga sem koma að málinu auk aðal ráðgjafahópsins. Þeir eru allir sammála um að staðið hefur verið að framkvæmdinni eins og best verður á kosið á alþjóðlegum mælikvarða og að mannvirkin eru byggð af fullkomnasta öryggi.

Saga rannsókna til undirbúnings Kárahnjúkavirkjunar er nokkurra áratuga löng.

Á árunum 1977 til 1983 var gert fyrsta átakið í rannsóknum á virkjunarsvæði jökulsánna þriggja norðan Vatnajökuls á vegum Orkustofnunar og síðar einnig Rafmagnsveitna ríkisins.

Annað átak í rannsóknum á svæðinu var á vegum Landsvirkjunar á árunum 1988 til 1992.

Þriðja átak undirbúningsrannsókna hófst um 1995 og stóð til 2003, einnig á vegum Landsvirkjunar. Jarðfræðirannsóknir við Kárahnjúka hófust nokkru fyrr eða sumarið 1992. Þessu þriðja rannsóknarátaki lauk með hönnun og útboði á byggingarframkvæmdum, eftir að hætt hafði verið við að byggja Fljótsdalsvirkjun með miðlun á Eyjabökkum.

Framkvæmdir hófust vorið 2003. Þær hafa í flestum atriðum gengið mjög vel ef undan eru skildir nokkrir erfiðir kaflar í gangaborun. Tímaáætlanir hafa til þessa staðist fyrir flesta verkþætti, en þó er gert ráð fyrir um tveggja mánaða seinkun á gangsetningu fyrstu vélasamstæðu vegna tafa í aðrennslisgöngum.

Á þessu ári og í fyrra var mest um 1.600 manns starfandi á svæðinu, og að jafnaði hefur um 25 til 30% vinnuaflsins verið Íslendingar.

Verkið er innan ramma kostnaðaráætlunar og var bókfærður kostnaður virkjunarinnar orðinn um 73 milljarðar uppfærður til verðlags í ágúst 2006 eða tæplega 70% af áætluðum heildarkostnaði sem er um 107,5 milljarðar króna án flutningsvirkja.

Fylling Hálslóns hófst í lok september 2006 eins og að var stefnt frá upphafi. Fylgst er með mannvirkjunum, leka úr lóninu og mögulegum jarðhræringum með margvíslegum mælingum, og allt hefur gengið eins og best verður á kosið.

Á árunum 2000 og 2001 var unnið mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar og þá fóru fram umfangsmiklar rannsóknir á umhverfisþáttum á virkjunarsvæðinu til viðbótar fyrri rannsóknum.

Skipulagsstofnun lagðist gegn framkvæmdinni og vísaði til umhverfisáhrifa og ófullnægjandi upplýsinga. Úrskurðurinn var kærður til umhverfisráðherra. Með kærunni fylgdu frekari rannsóknargögn og margvísleg lagarök um málsmeðferð.

Eftir ýtarlega umfjöllun féllst umhverfisráðherra á framkvæmdina í desember 2001 með 19 skilyrðum sem fylgt hefur verið eftir síðan. Þessi málsmeðferð var síðar staðfest í Hæstarétti Íslands.

Fjölmargar athugasemdir frá almenningi og félagasamtökum komu fram í matsferlinu og nokkrar þeirra sneru að jarðfræði svæðisins, þar með talið sprungum, jarðhita, eldvirkni, landsigi, lekt jarðlaga, og auk þess fjölluðu nokkrar athugasemdir um setmyndun, ástand jökla, hættumat og dýra- og plöntusvif í hafi.

Nú nýlega hafa athugasemdir frá jarðeðlisfræðingi einum hlotið mikla athygli. Þær hlutu þegar í stað vandaða umfjöllun réttbærra aðila og sérfræðinga. Eftirmál þessara athugasemda hafa ekki haft nýtt faglegt gildi fyrir framkvæmdirnar.

Á árinu 2004 fékk Landsvirkjun tvo jarðfræðinga til að kortleggja jarðhita í væntanlegu lónstæði Hálslóns. Þeir fundu áður óþekkt misgengi á Sauðárdal sem breytti viðteknum hugmyndum jarðvísindamanna um austurmörk sprungusveims norður af Kverkfjöllum. Rannsóknir sýndu að síðustu hreyfingar á misgenginu urðu fyrir um 4.000 árum.

Í framhaldinu lét Landsvirkjun yfirfara allar hönnunarforsendur fyrir stíflur við Hálslón með tilliti til jarðskjálfta og jarðskorpuhreyfinga. Ráðgert vöktunarkerfi var útvíkkað. Hönnun á stíflum var aðlöguð að nýjum forsendum. Í raun þurfti litlar breytingar að gera enda gerðu upphaflegar forsendur ráð fyrir jarðskjálftum og sprunguhreyfingum.

Samningar við Alcoa um orkusölu til Fjarðaáls á Reyðarfirði voru undirritaðir 15. mars 2003, en með því var afráðið að ráðist yrði í Kárahnjúkavirkjun. Forsenda samningsins var að arðsemismat virkjunarinnar skilaði ásættanlegri niðurstöðu. Ráðgjafar eigenda fyrirtækisins komust að þeirri niðurstöðu að afkastavextir virkjunarinnar yrðu 7,3% og núvirt sjóðstreymi reiknaðist jákvætt um 6,6 milljarða króna. Þetta þýddi jafnframt að arðsemi eigin fjár reiknaðist vera 12,8% sem var 1,8 prósentustigum yfir 11% kröfu sem gerð var um arðsemi eigin fjár.

Arðsemismatið var tekið til ýtarlegrar umræðu í iðnaðarnefnd og efnahags- og viðskiptanefnd og virkjunin samþykkt með miklum meirihluta á Alþingi, 44 atkvæðum gegn 9, 16. apríl 2002.

Landsvirkjun hefur nú endurskoðað arðsemismatið fyrir virkjunina með tilliti til upplýsinga sem liggja fyrir um áfallinn virkjunarkostnað og endurskoðaðar forsendur um helstu rekstrarliði.

Niðurstaðan úr þessari endurskoðun er að jákvætt núvirði virkjunarinnar er tæplega 4,4 milljarðar króna umfram þá 11% kröfu sem gerð er á eigið fé. Þetta er um 2,2 milljarða kr. lækkun frá því í upphaflegu arðsemismati. Miðað við þessa niðurstöðu mætir Landsvirkjun kröfum um vexti á lánsfé og eigendur geta vænst 11,9% arðsemi eigin fjár.

Stíflurnar þrjár við Hálslón verða fullbúnar í byrjun desember 2006 en frágangsvinna við stíflutopp og vegtengingu við Kárahnjúkastíflu mun teygja sig fram á næsta sumar. Borun aðrennslisganga sem verða 40 km löng frá Hálslóni niður að stöðvarhúsi í Fljótsdal mun væntanlega ljúka um miðjan nóvember 2006.

Þá tekur við umfangsmikil frágangsvinna í göngunum en gert er ráð fyrir að henni ljúki fyrir 1. maí 2007, þegar áætlað er að hleypa vatni á göngin. Borun aðrennslisganga að Ufsarlóni sem verða 10 km löng mun hefjast í byrjun næsta árs og á að ljúka sumarið 2008.

Samsetning á vélbúnaði og rafbúnaði í stöðvarhúsi verður í fullum gangi fram á næsta sumar en fyrstu prófanir hefjast kringum áramótin. Gert er ráð fyrir að hefja keyrsluprófanir á fyrstu vélasamstæðu í maí n.k. og að afhending raforku frá virkjuninni geti hafist í júní á næsta ári.

Vinna við Jökulsárveituframkvæmdir, það er Ufsarstíflu og Hraunaveitu, mun komast á fullt skrið á næstu mánuðum og standa fram á sumar 2008. Allt bendir til þess að verkefninu verði lokið með fullum skilum og árangri.

Hæstvirtur forseti

Þrjátíu ár eru síðan umræða um orkufrekan iðnað á Austurlandi hófst. Árin eru saga vonbrigða fyrir flesta Austfirðinga allt til ársins 2003 er skrifað var undir samninga um byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álvers í Reyðarfirði.

Staðan í atvinnumálum Austurlands einkenndist af fækkun starfa í frumvinnslugreinum, fólksfækkun, stöðnun í byggingariðnaði, lágu fasteignaverði og samdrætti í þjónustugreinum með örfáum undantekningum.

Atvinnulífið á Austurlandi var í samdrætti sem nam samtals 3% af starfandi mönnum frá 1999 til 2003. Starfsmönnum í landbúnaði, sjávarútvegi og iðnaði fækkaði um 10% meðan samdrátturinn í hótel- og veitingarekstri var nokkru meiri. Störfum í samgöngum og fjármálaþjónustu fækkaði einnig um 5%. Nokkrar atvinnugreinar voru í vexti en samtals stóðu allar þjónustugreinar á Austurlandi í sama stað 2003 og þær höfðu verið 1999.

Frá 2003 til 2005 hefur starfandi mönnum fjölgað samtals um 26% á Austurlandi. Mest er fjölgunin í mannvirkjagerð þar sem hefur orðið fjórföldun starfa en næstum þreföldun starfa í ýmissi þjónustu við atvinnulífið. Hótel- og veitingarekstur hefur bætt við sig 45% starfa frá 2003. Fræðslustarfsemi hefur aukist um 28% en aðrar greinar nokkuð minna. Opinber stjórnsýsla hefur dregist saman og er nú með um það bil jafn marga starfandi og árið 1998.

1.760 manns störfuðu við mannvirkjagerð á Austurlandi árið 2005 samkvæmt upplýsingum Hagstofu. Íslenskum ríkisborgurum við þá grein hafði þá fjölgað um 170 en erlendum um 1.150 frá 2003. Þessar tölur eru með fyrirvörum en sýna umfang og áhrif.

Ekki er að sjá að uppgangurinn við framkvæmdirnar hafi valdið samdrætti í mannaflanotkun annarra greina.

Að loknu framkvæmdatímabili má gera ráð fyrir því að samfélagið leiti jafnvægis og út úr því komi nýtt og sterkara samfélag.

Hæstvirtur forseti

Talið er að um 400 manns muni starfa með beinum hætti í álverinu á Reyðarfirði þegar fullum afköstum verður náð árið 2009. Um 20 manns munu starfa við rekstur Kárahnjúkavirkjunar. Erfitt er að segja til með nákvæmni um fjölda afleiddra starfa á Austurlandi í tengslum við rekstur álvers og virkjunar. Ekki er ólíklegt að fjöldi afleiddra starfa geti orðið í kringum 450-500 störf. Það er um 14% viðbót við vinnumarkaðinn eins og hann var 2005 að frádregnum áhrifum stóriðjuframkvæmdanna á vinnumarkaðinn sem komin eru fram nú þegar.

Störf við álverið á Reyðarfirði auka fjölbreytni atvinnulífsins á Austurlandi. Auk þess er um hlutfallslega vel launuð störf að ræða sem fylgir mikið atvinnuöryggi. Nú þegar liggja fyrir hjá Fjarðaáli 1.700 umsóknir um störf í álverinu og ráðið hefur verið í um 200 störf. Fjarðaál hefur sett sér það markmið, að um helmingur starfsmanna verði konur. Hvort það markmið næst skal ósagt látið, en athyglisvert var að um 350 konur á Austurlandi þágu boð Alcoa nýlega þar sem kynnt voru meðal annars atvinnutækifæri kvenna í Fjarðaáli.

Á næstu misserum er spáð að útflutningur áls aukist hratt og að hlutdeild álútflutnings vaxi einnig umtalsvert. Milli áranna 2005 og 2008 er spáð að útflutningur áls aukist um 190% að magni til og að álframleiðsla verði orðin um 26% af útflutningi á vöru og þjónustu árið 2008. Til samanburðar er gert ráð fyrir að hlutdeild sjávarafurða verði svipuð það ár, eða um 28% af útflutningi vöru og þjónustu.

Vegna aukinnar hlutdeildar áls í útflutningi þjóðarbúsins er líklegt að sveiflur álverðs á heimsmarkaði hafi áhrif til þess að hagsveiflan á Íslandi færist nær hagsveiflu stærri iðnríkja.

Með hliðsjón af fyrri athugun á þjóðhagslegum áhrifum stóriðjuframkvæmda á Austurlandi var reiknað með 1-1,5% meiri hagvexti að meðaltali á ári á tímabilinu 2003-2006 en ella. Þess skal þó getið að upphaflega var búist við minni þátttöku erlends vinnuafls en raunin varð á.

Áætlað er að langtímaáhrif á landsframleiðslu verði um 1% og um 0,7% á þjóðartekjur.

Upplýsingar sem fyrir liggja benda eindregið til þess að Kárahnjúkavirkjun og álverið í Reyðarfirði verði íbúum Austurlands og öllum landsmönnum til hagsældar og heilla um langa framtíð.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum