Hoppa yfir valmynd
30. mars 2007 Innviðaráðuneytið

Rekstrarumhverfi ferðaþjónustu gott á Íslandi

Skattaumhverfi á Íslandi er betra til fyrirtækjarekstrar en í samanburðarlöndunum, umfang í ferðaþjónustu hefur aukist hlutfallslega mest á Íslandi, virðisaukaskattur er á öllum stigum lægri en í samanburðarlöndum.

Þetta er meðal niðurstaðana í skýrslu sérfræðinga sem falið var að bera saman rekstrarumhverfi ferðaþjónustu á Íslandi, Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Verkefnið var unnið á vegum Ferðamálastofu fyrir samgönguráðuneytið og kynnti Sturla Böðvarsson samgönguráðherra helstu niðurstöður skýrslunnar í ræðu sinni við setningu aðalfundar Samtaka ferðaþjónustunnar á Akureyri í dag.

Um umfang ferðaþjónustu segir að það hafi aukist hlutfallslega mest á Íslandi af samanburðarlöndunum þegar skoðuð séu árin 1999 til 2005 eða um 32,5% í gistinóttum talið. Vöxturinn í Svíþjóð er 12,8%, 7,5% í Noregi en í Danmörku er engin aukning á þessu tímabili.

Í skýrslunni kemur fram að þar sem hlutfall ferðaþjónustu á Íslandi af vergri landsframleiðslu sé hærra en í samanburðarlöndunum sé atvinnugreinin mikilvægari í efnahagslífinu en ferðaþjónustan í samkeppnislöndunum er. Telja skýrsluhöfundar að meiri hlutfallsleg aukning í ferðaþjónustu hér á landi en í samanburðarlöndunum sé í samræmi við þau rekstrarskilyrði sem atvinnugreininni eru hér búin og séu að mörgu leyti betri en í umræddum löndum.

Þættir sem koma verr út á Íslandi en í samanburðarlöndunum eru hærri stýrivextir, gengissveiflur eru örari þótt þær virðist lítil áhrif hafa á komur ferðamanna til landsins og í þriðja lagi er áfengisgjald hér umtalsvert hærra þótt Noregur leggi einnig á há áfengisgjöld. Þá segir að almennt sé verðlag hærra hérlendis en í samanburðarlöndunum en munurinn hafi þó minnkað.

Skýrsluna er unnt að skoða í heild hér.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum