Hoppa yfir valmynd
20. maí 2008 Matvælaráðuneytið

Viðbrögð viðskiptaráðherra við skýrslu starfshóps um heimildir fjármálafyrirtækja til gjaldtöku o. fl.

Skýrsla starfshóps á vegum viðskiptaráðherra um heimildir fjármálafyrirtækja til gjaldtöku o.fl. (pdf 323Kbytes)

Starfshópur sem viðskiptaráðherra skipaði 29. ágúst sl. til að gera úttekt á lagaumhverfi að því er varðar viðskipti neytenda og banka í ljósi nútímaviðskiptahátta, einkum með tilliti til gjaldtöku fjármálafyrirtækja og rafrænna greiðslukerfa, hefur skilað skýrslu.

Megin niðurstaða skýrslunnar og aðgerðir viðskiptaráðherra eru eftirfarandi:

Seðilgjöld heyra sögunni til

Starfshópurinn fjallaði í fyrsta lagi um seðilgjöld og aðrar fylgikröfur sem fyrirtæki og aðrir kröfuhafar krefja neytendur um með aðstoð innheimtukerfis banka og sparisjóða.

Megin niðurstaða hópsins er sú að bankar og sparisjóðir heimili ekki fyrirtækjum eða öðrum kröfuhöfum að bæta fylgikröfum við aðalkröfu gagnvart neytendum.

Takmarkanir á álagningu uppgreiðslugjalda

Starfshópurinn leggur til að lögfestar verði reglur í lög um neytendalán um uppgreiðslugjald og að þar verði kveðið á um að gjaldtakan skuli eiga sér stoð í samningi og að lánveitandi geti ekki krafist uppgreiðslugjalds ef ástæða uppgreiðslu er gjaldfelling af hans hálfu.

Þá er lagt til að óheimilt verði að krefjast greiðslu uppgreiðslugjalds af eftirstöðvum láns í íslenskum krónum með breytilegum vöxtum sem greitt er upp fyrir þann tíma sem umsaminn er, ef upphaflegur höfuðstóll lánsins er að jafnvirði 50 milljónir króna eða minna.

Í þeim tilvikum sem heimilt er að semja um uppgreiðslugjald má fjárhæð gjaldsins að hámarki vera það tjón sem lánveitandi verður fyrir vegna uppgreiðslunnar. Ef kveðið er á um heimild til endurskoðunar vaxta í lánssamningi með föstum vöxtum skal miða útreikning uppgreiðslugjalds við tímann fram að næsta endurskoðunardegi vaxta.

Óheimilt að innheimta FIT kostnað nema með stoð í samningi

Í skýrslu nefndarinnar kemur fram að óheimilt er að innheimta svokallaðan FIT kostnað (kostnað vegna óheimils yfirdráttar) nema gjaldtaka eigi sér skýra stoð í samningi. Lagt er til að fest verði í lög að slíkur kostnaður skuli vera hóflegur og endurspegla kostnað vegna yfirdráttarins.

Aðgerðir viðskiptaráðherra í kjölfar skýrslunnar

1. Ráðherra mun nú þegar gefa út tilmæli um að bannað verði að bæta seðilgjöldum eða öðrum fylgikröfum við aðalkröfu sem greidd er á gjalddaga, nema sérstaklega sé samið um annað.

2. Lagt verður fram frumvarp á vorþingi til breytinga á lögum um neytendalán, nr. 121/1994 þar sem settar eru reglur um yfirdráttarkostnað (FIT-gjöld) og uppgreiðslugjald.

3. Ráðherra mun beina tilmælum til fjármálastofnana þess efnis að gott aðgengi neytenda að viðskiptaskilmálum sé tryggt um leið og heimilað verður að birta skilmála í samræmi við nútímaupplýsingatækni. Er þetta gert m.a. til þess að tryggja samkeppni um bestu kjör sem neytendum bjóðast.

4. Ráðherra mun fela Neytendastofu að gera sérstakt átak til kynningar á réttindum almennings í viðskiptum við fjármálastofnanir.

5. Skipuð verður nefnd sem falið verður að vinna frumvarp til laga um greiðslumiðla almennt og rafræn greiðslukerfi, þar með talin greiðslukort, heimabanka og hraðbanka.

6. Hafin verði vinna nú þegar í ráðuneytinu vinna við að bæta lagaumhverfi í fjármálaþjónustu almennt. Teknar verða saman reglur er varða réttindi og skyldur í hefðbundnum bankaviðskiptum, þ.m.t. um heimildir til gjaldtöku.

7. Þegar hefur verið lagt fram á Alþingi frumvarp viðskiptaráðherra til innheimtulaga þar sem lagður er lagagrunnur að innheimtustarfsemi og ráðherra veitt heimild til að setja þak á innheimtukostnað.

Reykjavík, 7. janúar 2008




Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum