Hoppa yfir valmynd
13. október 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Stefna mennta- og menningarmálaráðuneytis í íþróttamálum

Gefin hefur verið út stefnumótun mennta- og menningarmálaráðuneytis í íþróttamálum. Við mótun stefnunnar var horft til framtíðar og tekið mið af því sem áunnist hefur á undanförnum árum.

Stefnumótun mennta- og menningarmálaráðuneytis í íþróttamálum
Stefnumótun mennta- og menningarmálaráðuneytis í íþróttamálum

Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur birt stefnu sína í íþróttamálum. Hún er sameiginleg stefna þeirra aðila sem bera ábyrgð á málaflokknum, sem eru ríkið, sveitarfélögin og íþróttahreyfingin.  Stefnan byggist á því grundvallarsjónarmiði að almennt íþróttastarf á Íslandi skuli skipulagt af frjálsum félagasamtökum. Hún tekur að auki á öllum helstu þáttum íþrótta í félagastarfi og hvernig opinberir aðilar og atvinnulíf  geti stutt við það starf.  Þá er lögð sérstök  áhersla á að auka hreyfingu barna og unglinga á öllum skólastigum.
 
Í byrjun árs 2005 skipaði þáverandi menntamálaráðherra starfshóp til þess að fara yfir íþróttamál á Íslandi með það að markmiði að móta íþróttastefnu. Í nefndinni sátu fulltrúar ríkis, sveitarfélaga og íþróttahreyfingarinnar og skilaði sú nefnd áfangaskýrslunni „Íþróttavæðum Ísland“ í ársbyrjun  2006. Nefndin ræddi í vinnu sinni við fjölda fag- og fræðimanna, starfsfólk íþróttahreyfingarinnar, fulltrúa sveitarfélaga og ýmissa samtaka. Haustið 2008 fól ráðherra svo íþróttanefnd ríkisins að ljúka við gerð íþróttastefnunnar og byggja hana m.a. á endurmati stefnumótunar sem unnin var árið 1997 af starfshópi menntamálaráðuneytis, áfangaskýrslunni „Íþróttavæðum Ísland“ frá 2006 og öðrum áherslum mennta- og menningarmálaráðherra.

Stefna í íþróttamálum tekur mið af þeim lagaskyldum sem ríkið hefur samkvæmt íþróttalögum, alþjóðalögum og samningum sem tengjast opinberum aðilum og frjálsum félagasamtökum, sem fara með íþróttamál í landinu.  Auk þess birtist hún í framlögum á fjárlögum til íþróttamála og áherslum mennta- og menningarmálaráðherra hverju sinni. Til þess að vinna að framgangi stefnunnar er mikilvægt að aðilar sem bera ábyrgð á málaflokknum, þ.e. ríkið, sveitarfélögin og íþróttahreyfingin, hafi með sér samráð og samstarf. Byggt er á því grundvallarsjónarmiði að almennt íþróttastarf á Íslandi skuli skipulagt af frjálsum félagasamtökum. Þar er vísað til Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Ungmennafélags Íslands, sérsambanda, íþróttahéraða, íþróttafélaga og deilda um land allt. Stór hluti landsmanna tekur þátt í þessu starfi á einn eða annan hátt. Stefnan tekur einnig á öllum helstu þáttum íþrótta í félagastarfi og hvernig opinberir aðilar og atvinnulíf geti stutt við það starf. Þá er lögð sérstök áhersla á að auka hreyfingu barna og unglinga á öllum skólastigum. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á nauðsyn þess að bæta lífsstíl fólks og gegnir skólakerfið leiðandi hlutverki við að hvetja til hreyfingar og að auka þekkingu á gildi íþrótta. Við mótun stefnunnar var horft til framtíðar og tekið mið af því sem áunnist hefur á undanförnum árum. Sett eru fram skýr markmið og bent á leiðir til að framfylgja þeim. Stefna þessi gildir til ársins 2015 og verður hún þá endurmetin.

Helstu markmið eru eftirfarandi:

  • Umhverfi og skipulag íþróttastarfs í landinu verði bætt og  því skipaður verðugur sess í íslensku þjóðlífi.
  • Almenningsíþróttir verði efldar og landsmenn taki aukinn þátt  í íþróttum og almennri hreyfingu.
  • Íþróttaiðkun barna og unglinga í skóla og frjálsu félagastarfi íþróttahreyfingarinnar verði efld.
  • Keppnis- og afreksíþróttir verði efldar.  
  • Að sem flestir hafi tækifæri til þess að stunda íþróttir á því sviði sem þeir kjósa, hvort heldur er til ánægju, heilsubótar eða með afreksárangur í huga.  
  • Menntun og rannsóknir á sviði íþróttafræða verði efldar.
  • Íslenskt íþróttalíf verði ávallt laust við lyfjamisnotkun.
  • Uppbygging íþróttastarfs, hvort sem um er að ræða æfingar eða keppnir taki mið af því að allir hafi sömu tækifæri til þátttöku.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum