Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2012 Utanríkisráðuneytið

Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra fylgdi í dag úr hlaði skýrslu til Alþingis um utanríkis- og alþjóðamál þar sem fjallað er um helstu verkefni utanríkisþjónustunnar á síðustu 12 mánuðum.

Framsöguræðu ráðherra með skýrslunni má skoða hér.

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að:

  • Á hverju ári sinnir borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins, sendiráð og kjörræðismenn yfir eitt þúsund málum er varða réttindi og velferð Íslendinga erlendis. Um 40 þúsund Íslendingar búa í útlöndum og á fjórða hundrað þúsund Íslendingar fara um Leifstöð á ári hverju. Aðstoðarmál eru af ýmsum toga, allt frá liðsinni vegna veikinda, slysa eða andláta til útgáfu neyðarvegabréfa.
  • Nú er unnið að gerð aðgerðaráætlunar á grunni norðurslóðastefnu Íslands þar sem helstu verkefni verða skilgreind. Norðurskautsráðið eflist stöðugt og er samningurinn um leit og björgun á norðurslóðum sönnun þess, auk þess sem vinnu við gerð nýs samnings um viðbrögð við olíumengunarslysum vindur vel fram. Á síðasta ári skrifaði utanríkisráðherra undir tvíhliða samkomulag um vísindasamstarf á norðurslóðum við Noreg og yfirlýsingu um norðurslóðasamstarf við Rússland. Auk þessa hafa verið tekin skref í átt til aukins samstarfs við önnur ríki, svo sem Kína, Frakkland og Þýskaland.
  • Á þeim tíu mánuðum sem liðnir eru frá því að efnislegar viðræður hófust um aðild Íslands að Evrópusambandinu eru samningar hafnir um tæplega helming af þeim 33 samningsköflum sem semja þarf um, og er þeim lokið um þriðjung. Framundan eru samningar um veigamikil mál s.s. um landbúnað og sjávarútveg þar sem fast verður haldið á hagsmunum Íslands. Samningaferlið hefur leitt í ljós margvísleg tækifæri s.s. á sviði byggða- og atvinnumála, og í aðildarferlinu er varðaður vegur til upptöku nýs gjaldmiðils í sátt og samlyndi við aðrar þjóðir sem og fyrirheit um að í gegnum Evrópusamvinnuna verði leitað leiða út úr gjaldeyrishöftum.
  • EES-samstarfið veitir einstaklingum og fyrirtækjum aðgang að innri markaði Evrópu og leggur grunninn að öflugu mennta-, vísinda- og þróunarstarfi á Íslandi. Kostir EES-samstarfsins eru skilmerkilega færðir til bókar í nýlegri norskri skýrslu en af henni má einnig draga þá ályktun, í ljósi þróunar samningsins og aukins hlutverks Evrópuþingsins í löggjafarferli ESB, að frá lýðræðislegu sjónarhorni fari meinbugir á þátttöku Íslands vaxandi. Á vettvangi EES hefur ESA höfðað mál gegn Íslandi vegna brota gegn tilskipun um innstæðutryggingar og/eða meginreglu 4. gr. EES-samningsins um bann við mismunun. Málsvörn Íslands hefur verið komið á framfæri í höfuðborgum allra ESB-ríkja.
  • Ákvörðun Alþingis um viðurkenningu á sjálfstæði Palestínu var söguleg. Á alþjóðavettvangi hefur Ísland markvisst talað máli mannréttinda, friðar og sjálfbærrar nýtingar auðlinda. Á árinu voru stigin margvísleg skref í átt að aukinni samvinnu Íslands við önnur ríki og alþjóðastofnanir á sviði sjávarútvegs, jarðhita og jafnréttismála. Nefnd þingmanna úr öllum flokkum vinnur tillögu að fyrstu þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.
  • Í júní í fyrra samþykkti Alþingi fyrstu heildaráætlunina um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Þar náðist breið pólitísk samstaða um áherslur og markmið, meðal annars um aukningu framlaga til þróunarmála á komandi árum. Merkur áfangi í þróunarsamvinnu náðist í nóvember sl. þegar gert var samkomulag milli Íslands og Alþjóðabankans um uppbyggingu jarðhitanýtingar í Austur-Afríku.
  • Á vettvangi fjölþjóðlegrar viðskiptasamvinnu var gerður loftferðasamningur við Grænland sem greiðir fyrir flugsamgöngum milli ríkjanna. Fríverslunarviðræður EFTA við tíu ríki, þar á meðal Indland, var framhaldið á árinu og víst er talið að aukinn kraftur komist í fríverslunarviðræður við Kína eftir heimsókn forsætisráðherra Kína til Íslands nýverið.

Umræður um skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál hófust á Alþingi kl. 11 og verður framhaldið í dag.

Skýrslu utanríkisráðherra er að finna hér.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum