Hoppa yfir valmynd
7. september 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Kynning og opið samráð um frumvarp um breytingar á lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008, (landbúnaðarháskólar og samstarf opinbera háskóla).

Á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis, í samráði við opinberu háskólana, hefur verið unnið að drögum að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um opinberan háskóla, nr. 85/2008.

Á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis, í samráði við opinberu háskólana, hefur verið unnið að drögum að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um opinberan háskóla, nr. 85/2008. Þau fara nú í opið samráðsferli með birtingu á vef ráðuneytisins til að gefa öllum kost á að kynna sér efni þeirra og beina athugasemdum sínum og ábendingum til ráðuneytisins. Að því loknu verður farið yfir allar athugasemdir og þær hafðar til hliðsjónar við undirbúning endanlegsfrumvarps, sem ráðherra leggur fyrir Alþingi.

Veittur er frestur til að gera athugasemdir við frumvarpsdrögin til 17. september 2012. Óskað er eftir að athugasemdir verði settar skilmerkilega fram og með vísan til tiltekinna greina frumvarpsins, þegar það á við. Athugasemdir sendist í tölvupósti á: [email protected] með efnislínunni: „Breytingar á lögum um opinbera háskóla“.

Meginmarkmið frumvarps þessa er að allir opinberir háskólar búi við sama lagaumhverfi. Af því leiðir að í frumvarpinu er lagt til að starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla – Háskólans á Hólum verði felld undir lög um opinbera háskóla, nr. 85/2008, og lög um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, falli brott. Með þessu yrði tekið mikilvægt skref til að einfalda lagaumgjörð um opinberu háskólana.

Þá er jafnframt lagt til að samstarf opinberra háskóla verði lögfest, svo nefnt háskólanet. Opinberir háskólar hafa haft með sér samstarf frá árinu 2011 um margvíslega þætti er varðar stoðþjónustu og gæðamál auk annars sem telst til kennslu og rannsókna. Í frumvarpinu er lagt til að þessi samstarfsvettvangur verði enn frekar festur í sessi með sérstöku lagaákvæði og hlutverk slíks samstarfs skýrt nánar. Annað markmið  lýtur að því að samræma ákvæði laga um opinbera háskóla við tilteknar breytingar á lögum um háskóla, nr. 63/2006, sem samþykktar voru á 140. löggjafarþingi vorið 2012, þ. m. t. ákvæðum laganna um hæfisskilyrði starfsmanna háskóla.

Helstu tillögur í fyrirliggjandi frumvarpsdrögum:

Eins og að framan greinir er að því stefnt að allir opinberir háskólar búi við sama lagaumhverfi. Helstu tillögur frumvarps þessa má skipta upp í eftirfarandi fjóra þætti:

1.         Að samræma lagaumhverfi opinberra háskóla á Íslandi með afnámi laga um búnaðarfræðslu. Lagaumgjörð opinberra háskóla á Íslandi verði þannig samræmd og starfsskilyrði þeirra jöfnuð, m.a. með sambærilegri skipan háskólaráða. Með þessu mun lagaumgjörð er varðar starfsemi opinberu háskólana í senn verða einfaldari og skýrari en áður og jafna starfsskilyrði þeirra.

2.        Að lögfesta samstarfsnet opinberra háskóla, svo nefnt háskólanet, til að efla og formgera samstarf þeirra enn frekar. Verkefnastjórn samstarfsnetsins verði fest í sessi og er lagt til að hún fjalli um sameiginleg málefni háskólanna og beri ábyrgð á þeirri framkvæmd.

3.         Að opinberum háskólum verði veitt heimild til að taka gjald af nemendum með ríkisfang utan Evrópska efnahagssvæðisins í samræmi við það sem gert hefur verið á Norðurlöndunum.

4.         Að aðlaga tiltekin ákvæði laga um opinbera háskóla, nr. 85/2008 í samræmi við þær breytingar sem urðu á lögum um háskóla, nr. 63/2006, á 140. löggjafarþingi, t. a. m. ákvæðum um hæfisskilyrði starfsmanna háskóla.

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum