Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Viðurkenningar á degi leikskólans 

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra afhenti „Orðsporið“ til þeirra sem hafa þótt skara fram úr og unnið ötullega í þágu leikskóla og/eða  leikskólabarna.

Viðurkenningar á degi leikskólans
Viðurkenningar á degi leikskólans

Dagur leikskólans  er í dag haldinn hátíðlegur í sjötta sinn. Leikskólar landsins halda upp á daginn með ýmsum hætti til að vekja athygli á starfi leikskólakennara og til að kynna starfsemi leikskóla út á við. Ástæðan fyrir því að 6. febrúar er dagur leikskólans er sú að þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín.

Í tilefni dagsins voru veittar viðurkenningar sem nefnast Orðsporið til þeirra sem hafa þótt skara fram úr og unnið ötullega í þágu leikskóla og/eða  leikskólabarna.

Þeir sem hljóta viðurkenninguna Orðsporið 2013 eru:

  • Súðavíkurhreppur fyrir að vera með 6 klst.  gjaldfrjálsan leikskóla á dag fyrir öll börn á leikskólaaldri. Með því fá öll börn í sveitarfélaginu jöfn tækifæri til að sækja leikskólanám.
  • Kristín Dýrfjörð og Margrét Pála Ólafsdóttir sem hljóta sameiginlega viðurkenningu fyrir opinbera umfjöllun um leikskólastarf hvor á sínum vettvangi og frá ólíkum sjónarhornum. Það er ekki sjálfgefið að fjölmiðlar fjalli um skólamál á jákvæðan og uppbyggilegan hátt en þeim hefur báðum tekist að skapa og finna vettvang til þess.

Félagsmenn í Félagi leikskólakennara og Félagi stjórnenda leikskóla sendu inn tilnefningar til viðurkenningarinnar til sérstakrar valnefndar. Hægt var að tilnefna einstakan leikskólakennara, kennarahóp, verkefni, leikskóla, leikskólastjóra, stefnumótun, skipulag, foreldrasamstarf, sérkennslu, forvarnir, sveitarfélag eða annað sem vel hefur verið gert og er til fyrirmyndar í leikskólastarfi og aðkomu að því.

Alls bárust 31 tilnefning af fjölbreyttum toga. Í dómnefndinni voru fulltrúar frá Félagi leikskólakennara og Félagi stjórnenda leikskóla ásamt samstarfsaðilum um dag leikskólans. Hana skipuðu Ingibjörg Kristleifsdóttir formaður FSL, Haraldur Freyr Gíslason formaður FL, Hulda Jóhannsdóttir formaður Skólamálanefndar FL og FSL, Björk Óttarsdóttir sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneyti, Hrefna Sigurjónsdóttir framkvæmdarstjóri Heimilis og skóla, Klara E. Finnbogadóttir sérfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Torfhildur Sigurðardóttir formaður Kynningarnefndar FL og FSL.

Viðurkenningar á degi leikskólans

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum