Hoppa yfir valmynd
10. janúar 2014 Matvælaráðuneytið

Skýrsla starfshóps um afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum

Raforkuframkvæmdir á Vestfjörðum
Raforkuframkvæmdir á Vestfjörðum
Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun kynnti Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra orkumála skýrslu samstarfshóps um raforkumálefni á Vestfjörðum. Í skýrslunni er gefið yfirlit um þær aðgerðir sem unnið er að og jafnframt lagðar fram tillögur um frekari styrkingu raforkukerfisins á Vestfjörðum. 

Forsaga málsins er að árið 2009 skipaði þáverandi iðnaðarráðherra ráðgjafarhóp til þess að meta leiðir til að bæta raforkuöryggi á Vestfjörðum og skilaði hópurinn niðurstöðum sínum í febrúar 2011.  Í skýrslunni voru lagðar til ýmsar aðgerðir til að bæta afhendingaröryggi á Vestfjörðum.  Til að fylgja eftir þeim tillögum sem fram komu í skýrslunni var ákveðið að koma á föstum samstarfshópi sem hefði eftirfarandi verkefni:
  • að afla reglulega upplýsinga um þróun afhendingaröryggis og gæði raforku og uppsetts afls á Vestfjörðum,
  • að fara yfir áætlanir flutnings- og dreififyrirtækja varðandi uppbyggingu og endurbætur á raforkukerfinu,
  • að fylgjast með áætlanagerð Landsnets vegna mögulegrar styrkingar Vesturlínu og hringtenginga raforkuflutnings fyrir Vestfirði,
  • hafa frumkvæði að því að á næstu 4 árum verði gerð rammaáætlun fyrir raforkuframleiðslu og raforkuflutning á Vestfjörðum sem nái til minni og stærri virkjanakosta.
Samstarfshópurinn hefur nú skilað, í annað sinn, árlegri skýrslu sinni til iðnaðar- og viðskiptaráðherra.  
Skýrslan greinir m.a. frá yfirstandandi framkvæmdum til uppbyggingar flutnings- og dreifikerfis raforku á Vestfjörðum.  En þær eru m.a.:
  • Í Bolungarvík hófust framkvæmdir við byggingu 10 MW varaaflstöðvar.  Áætlað er að varaaflstöðin verði tekin í rekstur 2014.    
  • Framkvæmdir hafa verið við tengivirkin í Bolungarvík og á Ísafirði.  
  • Unnið hefur verið að endurbótum á Tálknafjarðarlínu 1 og Vesturlínu.
  • Orkubú Vesfjarða hefur eignast færanlega varaaflsstöð (1,2 MW vél í gám) sem verður tekin í notkun á næstunni.
Þessu til viðbótar, þá hefur ýmis greiningarvinna verið í gangi þar sem skoðaðar eru mögulegar aðgerðir til frekari styrkingar raforkukerfisins á Vestfjörðum. 

  • Flutningsfyrirtækið Landsnet vinnur að því að gera úttekt á valkostum til styrkingar flutningskerfis milli Breiðadals í Önundarfirði og Mjólkárvirkjunar annars vegar og Tálknafjarðar og Mjólkárvirkjunar hins vegar.  Skoðaðir voru fjölmargir möguleikar til tvöföldunar á 66 kV tengingum á svæðinu.  Ákvörðun um framkvæmdir liggur ekki fyrir.
  • Landsnet vinnur að undirbúningi á breytingu og endurnýjun á elsta hluta Ísafjarðarlínu 1.
  • Styrking og endurbætur á varaafli á sunnanverðum Vestfjörðum (sambærilegt og í Bolungarvík) er til skoðunar.
  • Bætt nýting raforkuvirkja með snjallneti (smartgrid) er til skoðunar þar sem búnaður sem greinir í rauntíma stöðugleika raforkukerfisins er í þróun.
  • Það er skoðun Landsnets að aukin orkuvinnsla smávirkjana á Vestfjörðum sé sá kostur sem skili hvað mestu til að byggja upp viðunandi afhendingar- og rekstraröryggi raforku til lengri tíma litið.
  • Í dreifikerfinu er stefnt að því að vinna áfram í þrífösun á eldri línum.
Samstarfshópurinn leggur fram nokkrar tillögur til úrbóta á Vestfjörðum.  Helst ber að nefna.:
  • Að fyrirtæki sem vinni í uppbyggingu innviða starfi saman, sérstaklega á svæði þar sem undirlendi er takmarkað eins og á Vestfjörðum.  Nauðsynlegt er að Vegagerðinni verði gert skylt að hanna alla vegi með lagnabelti fyrir rafmagns- og fjarskiptalagnir.
  • Nefndin leggur einnig til að skipulega verði unnið með afrennsliskort til þess að greina möguleika á minni og stærri vatnsaflskostum.  
  • Samkvæmt þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, sem samþykkt var á Alþingi í janúar 2013, er Hvalárvirkjun í orkunýtingarflokki. Á hinn boginn er óvíst með Glámuvirkjun.  Ef Glámuvirkjun fer ekki í nýtingarflokk þá er lagt til að skoðaðir verði aðrir og minni virkjanakostir á Glámu hálendinu.          
Í skýrslunni er fleiri tillögur að finna, en einnig niðurstöður viðhorfskönnunar meðal raforkunotenda á Vestfjörðum og ítarleg greining á mögulegum orkukostum á Vestfjörðum.

Góð reynsla hefur verið af samstarfshópi þessum sem skipaður er af heimamönnum, raforkufyrirtækjum og Orkustofnun. Lagt er til að sambærilegu starfi verið komið á sem skoði raforkukerfi Norð-Austurlands, þar sem einnig hefur borið á tíðum rekstrartruflunum.

Afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum