Hoppa yfir valmynd
20. mars 2014 Utanríkisráðuneytið

Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra lagði í dag fram skýrslu sína til Alþingis um utanríkis- og alþjóðamál. Hún nær yfir þann tíma sem liðinn er frá síðustu skýrslu; febrúar 2013.

„Gegnumsneitt hafa íslensk stjórnvöld leitast við að auka hagsæld á Íslandi með því að opna markaði fyrir íslenska framleiðslu, menningu og hugvit,“ sagði Gunnar Bragi við upphaf umræðunnar. „Þá er öryggi lands og þjóðar eitt af megin hlutverkum stjórnvalda. Ísland hefur ávallt farið þá leið að taka þátt í alþjóðasamstarfi, gert samninga við bandamenn okkar um varnir landsins og talað fyrir friði og mannréttindum.“

Á meðal þeirra atriða sem fram koma í skýrslunni eru:

  • Stefnan í utanríkisviðskiptum tekur mið af þeim öru breytingum sem eru að verða á efnahagskerfum heimsins. Utanríkisráðuneytið skoðar hvernig nýta megi þá möguleika sem standa Íslendingum til boða og hvernig tengsl við ný markaðssvæði verði styrkt. Áhersla verður á gerð fleiri fríverslunarsamninga, leitað leiða til að fullnýta möguleika sem felast í þeim samningum sem Ísland á þegar aðild að og áfram fylgst grannt með fríverslunarviðræðum Bandaríkjanna og ESB.
  • Staða Íslands í utanríkisviðskiptum er að mörgu leyti öfundsverð. Aðkoman að kjarnamarkaðssvæði okkar, innri markaði Evrópu, er tryggð með EES-samningnum. Viðskipti við Bandaríkin standa á grónum merg og bendir margt til þess að þar liggi ný tækifæri á næstunni.  Með samstarfi innan EFTA er Ísland hluti af víðfeðmu neti fríverslunarsamninga sem ná til stórs hluta heimsins. Þá eru tækifæri til að sækja á nýjar lendur á eigin forsendum, t.d. með fríverslunarsamningi við fjölmennustu þjóð heims, Kínverja, sem og eina þá fámennustu, Færeyinga.
  • Eitt af mikilvægustu verkefnum utanríkisþjónustunnar er aðstoð við íslenska ríkisborgara í neyð erlendis. Í hverri viku koma upp fjölmörg mál þar sem reynir á útsjónarsemi starfsmanna. Þetta byggir að töluverðu leyti á neti 244 kjörræðismanna, sem leggja á sig ómælt erfiði í sjálfboðavinnu við að rétta Íslendingum hjálparhönd.
  • Farsæl þróun mála á norðurslóðum skiptir Ísland miklu. Fyrir nokkrum mánuðum var stofnuð sérstök ráðherranefnd um málefni norðurlsóða sem tryggja á samræmda hagsmunagæslu Íslands.
  • Mikilvægum áfanga var náð í lok ársins 2013 þegar opnuð var íslensk sendiskrifstofa í Nuuk á Grænlandi. Nú undirbúa fulltrúar íslenskra og grænlenskra ráðuneyta samráð um viðskiptamál, en markmið þess er að draga úr hindrunum í viðskiptum og auðvelda samstarf.
  • Farsælt samstarf Íslands og Evrópusambandsins snýst um EES-samstarfið. Ný Evrópustefna stjórnvalda byggist á efldri hagsmunagæslu á vettvangi EES-samningsins og annarra gildandi samninga Íslands og ESB. Í stefnunni er lögð áhersla á skilvirka framkvæmd EES-samningsins, m.a. með því að efla samráð innan stjórnsýslunnar og við Alþingi.
  • Áherslur Íslands í þróunarsamvinnu eru á þrjú meginsvið: félagslega innviði, auðlindir og frið, auk tveggja þverlægra málefna: jafnréttismála og umhverfismála. Áfram er stefnt að því að veita sem nemur 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu þótt það verði ekki eins skjótt og gert hafði verið ráð fyrir.
  • Nefnd þingmanna um þjóðaröryggissstefnu hefur lagt fram tillögur um þjóðaröryggi sem nær til utanríkisstefnu, varnarstefnu og almannaöryggis. Á grundvelli tillagna nefndarinnar verður lögð fram tillaga til þingsályktunar fyrir Alþingi um þjóðaröryggisstefnu Íslands.
  • Samstarf við grannþjóðir í öryggismálum hefur farið vaxandi. Í síðasta mánuði samþykktu norrænir utanríkisráðherrar sameiginlega yfirlýsingu um að styrkja enn frekar samstarf um utanríkis- og öryggismál. Með yfirlýsingunni skapast sterk umgjörð um hagnýtt starf norrænu ríkjanna á þessu sviði. Í sama mánuði var brotið blað í loftrýmisgæslu NATO við Ísland þegar flug­sveitir frá Finnlandi og Svíþjóð tóku þátt í loftvarnarþjálfunarverkefni.

Skýrsla ráðherra

Framsöguræða ráðherra

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum