Hoppa yfir valmynd
3. mars 2015 Dómsmálaráðuneytið

Almennt góð reynsla af samningum landshlutasamtaka og Vegagerðarinnar um almenningssamgöngur

Tveggja ára reynsla landshlutasamtaka sveitarfélaga af samningum við Vegagerðina um umsjón og ábyrgð með almenningssamgöngum í hinum ýmsu landshlutum er almennt góð þrátt fyrir byrjunarörðugleika. Í sumum landshlutum hefur skóla- og starfsmannaakstur verið samtvinnaður við almenningssamgöngukerfi sem þykir hafa bætt þjónustuna til muna og eru fleiri landshlutasamtök að skoða þá leið.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í áfangaskýrslu starfshóps innanríkisráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Vegagerðarinnar um reynsluna af samningunum. Starfshópurinn hóf vinnu í febrúar 2014 og hefur á nokkrum fundum rætt framkvæmd samninganna og ýmis álitamál tengd henni. Var fljótlega kallað eftir upplýsingum frá landshlutasamtökunum um framkvæmd verkefnisins og birtast þær í áfangaskýrslunni. Miðað er við að starfshópurinn skili tillögum sínum, þar sem horft verður til reynslu af framkvæmd almenningssamgangna á landsbyggðinni og helstu áskorana sem snúa að framhaldi verkefnisins.

Á þessum tveimur árum sem liðin eru frá því að landshlutasamtök sveitarfélaga tóku við verkefninu þá virðist vera almenn ánægja með kerfið. Um verkefnið segir almennt í skýrslunni að flest landshlutasamtökin hafi lent í byrjunarörðugleikum sem hafa flestir verið leystir. Reksturinn hefur gengið vel hjá öllum aðilum fyrir utan Eyþing en þar hefur gengið erfiðlega og mikill hallarekstur verið á verkefninu. Helst má rekja það til ágreinings vegna tekna af leiðinni Reykjavík-Akureyri.

Þjónustan löguð að þörfum íbúa

Fram kemur í skýrslunni að flest landshlutasamtökin hafa lagað þjónustuna að hinum almenna íbúa. Ferðum hefur verið fjölgað, áætlunum breytt svo ferðirnar nýtist þeim sem stunda vinnu, sækja skóla og þjónustu milli bæjarfélaga. Þessar breytingar hafa lukkast mjög vel í flestum tilvikum og leitt af sér mikla fjölgun farþega á þessum tveimur árum. Aukningin milli áranna 2012-2013 var 13% og 38% milli áranna 2013 og 2014. Farþegum hefur fjölgað á flestum leiðum og á sumum leiðum hefur fjöldinn margfaldast. Einungis á þremur leiðum hefur orðið fækkun. 

Niðurfelling endurgreiðslu olíugjalds í þrepum á árunum 2013 og 2014 hefur haft í för með sér útgjaldaaukningu fyrir landshlutasamtökin sem ekki var gert ráð fyrir í samningum.  Vegna þessara aðgerða stjórnvalda hefur raunframlag styrkjanna lækkað sem því nemur en fjölgun  farþega hefur hins vegar einnig verið umfram væntingar sem að framan segir.

Þá segir meðal annars í samantekt skýrslunnar: Einkaleyfisrétturinn hefur ekki verið tryggður og virðast reglur um hann vera mjög óskýrar í ljósi þeirra dóma sem fallið hafa. Mikilvægt er að sett verði skýrari ákvæði í lög um einkarétt sveitarfélaganna til almenningssamgangna. Sá réttur þarf að ná til tiltekinna svæða en ekki einstakra leiða svo samtökin sjái hag í að þróa kerfið. Vegna þessa hafa aðrir aðilar séð sér hag í að keyra ofan í styrktar leiðir á háannatímum og taka farþegana sem annars ættu að skila sér inní kerfið. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur lýst þeirri afstöðu í bréfi til innanríkisráðherra að það sé með öllu ótækt að bjóða upp á slíkt lagaumhverfi fyrir rekstraraðila almenningssamgangna sem hafa í góðri trú tekið verkefnið að sér með samningum við Vegagerðina. Sambandið hvetur því ráðherra til þess að leggja fram frumvarp  sem ver hagsmuni samtakanna hið fyrsta.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum