Hoppa yfir valmynd
4. september 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fréttabréf stjórnenda ríkisstofnana 4. september 2015

Fréttabréf stjórnenda ríkisstofnana, 3. tölublað 17. árgangs, er komið út.

Af vef fjármála- og efnahagsráðuneytis

  • Heildarlög um stofnanakerfi ríkisins undirbúin
  • Fimm ára innleiðingaráætlun um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð

Upplýsingar og tilkynning um breytt verklag á undanþágulistum

Í vor féllu þrír dómar í Félagsdómi er varða útgáfu undanþágulista yfir þau störf sem undanþegin eru verkfallsheimild, skv. 19. gr. laga nr. 94/1986. Í kjölfar þeirra hefur Kjara- og mannauðssýsla ríkisins ákveðið að endurskoða og bæta verklag við útgáfu undanþágulista. Hið bætta verklag felur í sér að stofnanir munu þurfa að rökstyðja ákvarðanir sínar um veru starfa á listanum með mun ítarlegri hætti en gert hefur verið og þarf sá rökstuðningur að liggja fyrir áður en undanþágulistinn er birtur í Stjórnartíðindum. Þá verður samráð á milli stofnana og stéttarfélaga einnig eflt og rík áhersla lögð á að aðilar sem koma að gerð undanþágulistanna bregðist fljótt við samráðsbeiðnum. Verklaginu er ætlað að tryggja faglegra mat á undanþágum frá verkfallsheimild og stuðla að aukinni sátt með þau störf sem á listanum eru. Boðað hefur verið til fundar þann 11. september nk. kl. 13.15-15.00 í sal 132 í Öskju þar sem nýtt verklag verður kynnt. Einnig munu forstöðumenn stofnana fá bréf þar sem ferlið er útskýrt ítarlega.

Upplýsingar um stöðu ráðgjafarmála og tölfræði KMR

Kjara- og mannauðssýsla ríkisins hefur m.a. það hlutverk að veita ráðuneytum og stofnunum ráðgjöf tengda starfsmannamálum. Á tímabilinu 01.05.2015 til 31.08.2015 bárust rúmlega 130 fyrirspurnir um starfsmannamál til KMR í gegnum ráðgjafapóstinn, [email protected]. Algengustu fyrirspurnirnar að þessu sinni varða laun og starfskjör starfsmanna, hvernig standa eigi að ráðningu í starf, veikinda- og orlofsrétt,  sí- og endurmenntun starfsmanna og aðstoð við rökstuðningsbeiðnir. Kjara- og mannauðssýslan hvetur forstöðumenn stofnana og aðra starfsmenn sem hafa umsjón með starfsmannamálum að leita sér ráðgjafar með úrlausn vafamála með því að senda fyrirspurnir á tölvupóstfangið, [email protected]. Þá minnir Kjara- og mannauðssýslan á heimasíðu skrifstofunnar.

Kjarasamningsviðræður

Samninganefnd ríkisins hefur, f.h. fjármála- og efnahagsráðherra, gengið frá kjarasamningum við allnokkur stéttarfélög. Að meðtalinni niðurstöðu gerðardóms í málum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og 18 aðildarfélaga BHM hafa komist á kjarasamningar við 42.7% af stöðugildum starfsmanna ríkisins. Enn er ósamið við stéttarfélög innan ASÍ, BSRB og hluta aðildarfélaga BHM, ásamt félögum sem eru utan bandalaga og Kjararáð. Samanlagt eru þessi félög í forsvari fyrir 57,3% af stöðugildum starfsmanna ríkisins.

NIVA ráðstefna um vinnustaðaeinelti

Tveir starfsmenn Kjara- og mannauðssýslu ríkisins sóttu ráðstefnu á vegum NIVA um einelti á vinnustað í júní sl. Á námskeiðinu var farið yfir þróun vinnustaðaeineltisrannsókna á Bretlandi, Norðurlöndunum og í Ástralíu. Sérstök áhersla var lögð á rannsókn vinnustaðaeineltismála, innan og utan vinnustaða, greiningarfærni stjórnenda og muninn á stjórnunarvanda og eiginlegs vinnustaðaeineltis. Þá var einnig gerð grein fyrir endurhæfingarúrræðum einstaklinga sem verða fyrir vinnustaðaeinelti. Það var mat starfsmanna að námskeiðið hafi verið mjög gagnlegt og muni nýtast við ráðgjöf til stofnana. Vakin er athygli á að miðvikudaginn 11. nóvember n.k. verður fjórði hluti launaskólans, Mannauður og hæfni, haldinn á vegum Starfsmenntar. Hluti þess námskeiðis er tileinkaður einelti og áreitni á vinnustað og verður þar farið sérstaklega í rannsóknir á vinnustaðaeinelti, fyrirbyggjandi aðgerðir og lagalegar skyldur stjórnenda. Skráning fer fram á heimasíðu Starfsmenntar.

Námskeið í starfsmannarétti

Dagana 18. og 19. nóvember  nk. mun Kjara- og mannauðssýslan, í samstarfi við Starfsmennt, halda námskeið fyrir forstöðumenn, stjórnendur og mannauðsstjóra hjá hinu opinbera í starfsmannarétti.

Fjallað verður um upphaf starfsins, málsmeðferð við veitingu embætta og starfa og hverra sjónarmiða veitingarvalds ber að gæta við val á starfsmanni. Sérstaklega verður fjallað um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna, en þ.á.m. er tjáningarfrelsi og þagnarskylda, hlýðni- og trúnaðarskylda, réttur til launa og lífeyrisréttindi. Einnig verður fjallað um þau atvik og úrræði er snerta breytingar á störfum, tilflutning, niðurlagningu starfs, o.fl. Þá verður fjallað um starfslok starfsmanna ríkis og mismunandi málsmeðferðarreglur, eftir því hvaða ástæður liggja þeim til grundvallar. Hvetur KMR forstöðumenn og aðra stjórnendur sem koma að starfsmannamálum að skrá sig til þátttöku og kynna sér réttindi sín í starfsmenntunarsjóðum sem eftir atvikum veita styrki vegna námskeiðanna. Skráning á námskeiðið fer fram á vef Starfsmenntar.

Ný heimild í starfsmannalögum

Í sumar voru samþykkt á Alþingi lög nr. 82/2015 um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands. Mælt er fyrir um breytingu á lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem ber með sér að nú er heimilt , án þess að starf sé auglýst laust til umsóknar, að ákveða að starfsmaður sem er ráðinn ótímabundið til starfa flytjist um afmarkaðan tíma eða varanlega milli stjórnvalda enda liggi fyrir samþykki viðkomandi forstöðumanns fyrir flutningnum og starfsmannsins sjálfs. Kjara- og mannauðssýsla ríkisins hvetur þá sem hyggjast nýta sér þessa nýju heimild að hafa samband og fá leiðbeiningar um framkvæmd áður en heimildin er nýtt.

Vinnustofur um Jafnlaunastaðal

Námskeið og próf voru haldin á vordögum á vegum velferðarráðuneytisins í samstarfi við Endurmenntun fyrir úttektaraðila á Jafnlaunastaðlinum. Vottunaraðilar eru nú í því ferli að afla sér faggildingar hjá faggildingarsviði Einkaleyfastofu eða sambærilegum aðila á evrópska efnahagssvæðinu í samræmi við reglugerð nr. 929/2014 um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85:2012. Búið er að skipuleggja  fjórar vinnustofur í innleiðingu Jafnlaunastaðals í september og er hægt að skrá sig á vef Starfsmenntar. Námskeiðin eru hugsuð fyrir þá sem eru að íhuga innleiðingu staðalsins og fyrir þá sem er í innleiðingarferlinu. Námsskrá og nánari upplýsingar um kostnað og greiðslufyrirkomulag má nálgast á vef Starfsmenntar.

Heildarlög um stofnanakerfi ríkisins undirbúin

Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu fjármála- og efnahagsráðherra um að hefja undirbúning að gerð heildarlaga um stofnanakerfið. http://www.fjarmalaraduneyti.is/frettir/nr/19913 

Fimm ára innleiðingaráætlun um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð

Ríkisstjórnin hefur samþykkt fimm ára innleiðingaráætlun um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð. http://www.fjarmalaraduneyti.is/frettir/nr/19653

 


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum