Hoppa yfir valmynd
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Starfsemi ferðaþjónustufyrirtækja allt árið eykur arðsemi

Skýrsluhöfundur, rektor og ráðherra
Skýrsluhöfundur, rektor og ráðherra

Meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu um arðsemi í ferðaþjónustu er að starfsemi allt árið eykur arðsemi ferðaþjónustufyrirtækja auk þess sem stærð og staðsetning virðist ekki skipta máli. Skýrslan er unnin af Háskólanum í Bifröst fyrir Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og byggir hún á viðtölum við forráðamenn ferðaþjónustufyrirtækja vítt og breitt um landið.

Valin voru 21 fyrirtæki í úrtak í rannsókn á arðsemi fyrirtækja í ferðaþjónustu. Öll fyrirtækin sýndu jákvæð merki í rekstri sínum árin 2012 og 2013. Fyrirtæki í mismunandi greinum ferðaþjónustu voru skoðuð (hótel, ferðaskipuleggjendur, afþreying, veitingastaðir, farþegaflutningar og bílaleigur). Fyrirtæki sem höfðu starfsemi allt árið í farþegaflutningum, hótelrekstri, bílaleigum og viss fyrirtæki í afþreyingu juku hagnað sinn og arðsemi milli ára. Ekki var hægt að lesa úr ársreikningum að staðsetning og stærð fyrirtækja skipti máli hvað arðsemi snertir.

Þegar innri þættir vorur skoðaðir með viðtölum við forráðamenn fyrirtækjanna kom í ljós að kostnaður, verðlagning, sýnileiki og starfsfólk höfðu einnig áhrif á arðsemi. Þegar ytri þættir voru skoðaðir kom í ljós að gengi gjaldmiðils og stöðuleiki í efnahagsmálum höfðu áhrif á arðsemi. Rannsóknin leiddi í ljós að fyrirtækin þurfa að huga að skýrari markmiðssetningu, faglegri verðlagningu á vöru og þjónustu, meiri starfsemi utan háannatíma, styrkari áætlanagerð, auknum sýnileika vöru og þjónustu á netinu og að nýta betri aðgang að fjármagni til að stækka eða styrkja fjárhagsgrundvöll fyrirtækjanna.

Ferðaþjónustan hefur vaxið mjög hratt á undanförnum árum með tilheyrandi fjölgun fyrirtækja og starfsfólks. Erlendum ferðamönnum fjölgaði um 100% frá árinu 2009 (493.000) til 2014 (997.000). Á sama tíma hefur fjárhagsleg staða fyrirtækja í ferðaþjónustu verið að batna. Gert er ráð fyrir að útflutningstekjur af ferðamönnum haldi áfram að vaxa, úr um 350 milljörðum í ár og yfir 620 milljarða árið 2020.

Skýrsluhöfundur, rektor og ráðherra

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira