Hoppa yfir valmynd
16. mars 2016 Dómsmálaráðuneytið

Vegna umfjöllunar um málefni þolenda mansals og meint mansalsmál sem nú er til rannsóknar

Mansal er ein af helstu birtingarmyndum skipulagðrar glæpastarfsemi. Mansalsmál eru meðal flóknustu og erfiðustu mála sem koma til kasta lögreglu og á það líka við um þá sem veita brotaþolum þjónustu. Því miður hafa mál komið upp hérlendis á umliðnum árum sem tengjast slíkri ánauð, meðal annars á vinnumarkaði og tengt kynlífsþjónustu.

Þverfagleg nálgun og samstillt verklag er nauðsynleg forsenda þess að uppræta mansal og veita þolendum nauðsynlega aðstoð og vernd. Það þarf því góða samvinnu lögreglu við önnur stjórnvöld hvað varðar aðstoð og vernd fyrir brotaþola. Hér er einkum um að ræða samstarf lögreglu við heilsugæslu og félagsþjónustu sem sér um að útvega brotaþolum ýmiss konar aðstoð s.s. húsaskjól, framfærslu og heilbrigðisþjónustu í samvinnu við velferðarráðuneytið. Í því máli sem hefur verið til umfjöllunar og er til rannsóknar hjá embætti lögreglustjórans á Suðurlandi var framangreind samvinna virkjuð og hafði lögregla tafarlaust samband við félagsmálayfirvöld og var í samstarfi við þau.

Innanríkisráðuneytið leiðir samráð og samhæfingu þeirra stjórnvalda sem hafa lögbundnu viðbragðshlutverki að gegna þegar mansalsmál koma upp auk þeirra sjálfstæðu félagasamtaka sem vinna þarft og mikilvægt starf í baráttu gegn mansali. Áætlun um aðgerðir vegna mansalsmála er nú í endurskoðun, meðal annars í framhaldi af ábendingum sem gerðar hafa verið á alþjóðavettvangi og hér á landi en einnig breyttum áherslum í málaflokknum, m.a. vinnumansali. Mikilvægt er að fara vel yfir þær ábendingar sem fram hafa komið í því máli sem verið hefur til umfjöllunar. Verður tekið mið af þeim í þeirri umbótavinnu sem framundan er.

Vegna umfjöllunar um dvalar- og atvinnuleyfi er rétt að taka fram að innanríkisráðuneytið hefur ekki heimild að lögum til að beita sér í einstökum málum en úrlausn umsókna um slík leyfi eru á forræði annars vegar Útlendingastofnunar og hins vegar Vinnumálastofnunar. Fyrirkomulag dvalar- og atvinnuleyfa fórnarlamba mansals er lögbundið og verður því ekki breytt nema með aðkomu Alþingis.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum