Hoppa yfir valmynd
17. mars 2016 Utanríkisráðuneytið

Skýrsla ráðherra til Alþingis um utanríkis- og alþjóðamál

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra lagði í dag fram skýrslu sína til Alþingis um utanríkis- og alþjóðamál. Ráðherra sagði efnistök skýrslunnar bera þess merki að á síðustu misseri hafa verið einkar tíðindamikil, hvort sem horft er til alþjóða- og öryggismála, viðskiptamála, þróunarsamvinnu og þjóðréttarmála. Ekki er þó aðeins horft til síðasta árs í skýrslunni, heldur líka fram á við í hverjum málaflokki.

Gunnar Bragi sagði traust samstarf við helstu bandamenn um öryggi og varnir landsins væri afar mikilvægt herlausri þjóð. Atlantshafsbandalagið og varnarsamningurinn við Bandaríkin væru þannig með mikilvægustu stoðunum í öryggis- og varnarviðbúnaði Íslands. Samvinna Bandaríkjanna og Íslands ríkjanna á sviði varnar- og öryggismála hefði styrkst á ný undanfarin tvö ár, m.a. í ljósi versnandi horfa í öryggisumhverfi Evrópu. Sagði ráðherra íslensk stjórnvöld munu tryggja rekstur og viðhald mikilvægs varnarviðbúnaðar á Íslandi sem er mikilvægur hlekkur í sameiginlegum vörnum Atlantshafsbandalagsins.

Ráðherra sagði fríverslunarsamninga lykilatriði til að tryggja traust viðskipti á jafningjagrundvelli. Með hinum EFTA ríkjunum sé sérstaklega horft til þess að ljúka gerð fríverslunarsamninga við nýmarkaðsríki í Asíu, hraða gerð samninga við Mercosur-ríkin í Suður-Ameríku og að hefja endurskoðunsamnings EFTA og Kanada.

Gunnar Bragi minnist á stóra áfanga á alþjóðavísu; COP21 loftslagssamningsins í desember sl. og nýrra Heimsmarkmiða SÞ um sjálfbæra þróun sem samþykkt voru í september sl. Ísland tók virkan þátt í samningaviðræðum um markmiðin, framkvæmd þeirra og eftirfylgni. Nú þegar markmiðin hafa tekið gildi hefur ríkisstjórnin samþykkt aðgerðir og sérstaka fjárveitingu til að vinna að þeim.

Í þróunarsamvinnu sagði ráðherra vinnu við stefnu stjórnvalda á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands 2017–2021 á lokastigi og verður hún lögð fram á Alþingi á næstunni. Þá standi yfir samningaviðræður við Háskóla Sameinuðu þjóðanna um alþjóðastofnun Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og gert er ráð fyrir að frumvarp þess efnis verði lagt fram á vorþingi.

Þá minntist Gunnar Bragi á jafnréttisráðstefnur, undir heitinu Rakarastofa, sem ráðuneytið hefur staðið að, nú síðast hjá Atlantshafsbandalaginu í Brussel og Mannréttindaráði SÞ í Genf en fullt var út úr dyrum á báðum. Ráðherra hefur í framhaldinu ákveðið að halda slíkar ráðstefnur hjá öðrum alþjóðastofnunum, auk þess sem UN Women hefur sýnt hugmyndinni mikinn áhuga og mun Ísland láta þróa nokkurs konar verkfærakistu fyrir stofnunina um hvernig best sé að standa að rakarastofuráðstefnum.

Niðurskurður í rekstri utanríkisþjónustunar sl ár hefur haft áhrif á þátttöku í alþjóðasamstarfi og gert ráðuneytinu erfiðara að gæta íslenskra hagsmuna. Álag hefur hins vegar aukist, t.d. sinnir borgaraþjónusta ráðuneytisins yfir 30.000 erindum árlega. Þá finna starfsmenn sendiskrifstofa fyrir vaxandi áhuga á Íslandi og íslenskum vörum og eftirspurn eftir þjónustu þeirra hefur aukist jafnt og þétt. Fyrir höndum er að styrkja sendiráðið í Brussel með það að markmiði að auka áhrif Íslands á vettvangi EES-samningsins og að opna að nýju sendiskrifstofu í Strassborg en frá því að henni var lokað í hagræðingarskyni árið 2009 hefur Ísland verið eina aðildarríki Evrópuráðsins sem ekki hefur fasta viðveru í borginni.

Framsöguræða utanríkisráðherra

Skýrsla um utanríkis- og alþjóðamál til Alþingis

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum