Hoppa yfir valmynd
27. júlí 2016 Dómsmálaráðuneytið

Sáttameðferð til þess fallin að leysa mikinn hluta ágreiningsmála

Innanríkisráðuneytið hefur gefið út skýrslu um árangur af meðferð sáttameðferðar en með breytingum á barnalögum árið 2012 (lög nr. 61/2012 og nr. 144/2012) var lögfest það nýmæli að foreldrar eru skyldugir til að leita sátta áður en krafist er úrskurðar eða höfðað mál vegna forsjár og fleira. Lögin tóku gildi í janúar 2013. Markmið sáttameðferðar er að aðstoða foreldra við að semja um þá lausn sem barni er fyrir bestu.

Í október 2015 var sett af stað verkefni í innanríkisráðuneytinu sem miðaði að því að kanna áhrif sáttameðferðar vegna forsjár- og lögheimilismála. Til að fá heildstæða mynd af því hvaða áhrif breytingin árið 2013 hafði í för með sér var óskað eftir tölfræðigögnum frá sýslumannsembættum og héraðsdómstólum fyrir árin 2011-2015 og þau borin saman í því skyni að kanna þau áhrif sem sáttameðferð hefur haft á fjölda rekinna dómsmála eftir breytinguna og hvort hið breytta fyrirkomulag þjóni tilgangi sínum. Jafnframt voru niðurstöður dómstóla í þessum málum kannaðar með tilliti til þess hvort sáttameðferð og afstaða í útgefnu sáttavottorði hefði haft áhrif á niðurstöðu dómsmála.

Rannsóknir þykja sýna að sáttameðferð sé til þess fallin að leysa mikinn hluta ágreiningsmála milli foreldra sem ella þyrfti að leysa með úrskurði eða dómi auk þess að spara tíma og fé, auka ánægju aðila með niðurstöðu máls og leiða til bættra samskipta foreldra.

Niðurstöður könnunarinnar sýna fram á að skyldubundin sáttameðferð þjónar tilgangi sínum. Kemur það fram í fækkun dómsmála um forsjá- og lögheimili á landsvísu. Þar sem slíkum málum fækkar í dómskerfinu en fjölgar hjá sýslumannsembættum er hægt að álykta að foreldrum takist í auknum mæli að ná samkomulagi og leysa ágreining sinn með samningi sín á milli. Einkar áhugavert er einnig að aðeins í um helmingi mála þar sem sáttavottorð er gefið út hjá sýslumanni er mál höfðað fyrir dómstólum en árið 2015 voru gefin út 80 sáttavottorð hjá sýslumanni vegna forsjár- og eða lögheimilismála en samtals höfðuð 44 mál hjá dómstólum. Gefur þetta til kynna að þótt foreldrum takist ef til vill ekki að ná sátt um öll atriði þjóni sáttameðferð samt sem áður tilgangi sínum í um helmingi mála þar sem sáttavottorð um að sátt hafi ekki náðst er gefið út.

Niðurstaða skýrslunnar dregur fram afar jákvæða mynd af sáttameðferð hjá sýslumanni þar sem foreldrum tekst í auknum mæli að ná sátt. Þá er framangreindur árangur ekki síst mikilvægur þar sem forsjármál eru afar íþyngjandi fyrir alla og þá einkum börn.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum