Hoppa yfir valmynd
6. september 2016 Forsætisráðuneytið

Umbótatillögur á skattkerfinu

Verkefnisstjórn um breytingar og umbætur á skattkerfinu hefur skilað af sér skýrslu til Samráðsvettvangs um aukna hagsæld um hvernig hægt sé að einfalda skattkerfið og gera það skilvirkara. Um er að ræða 27 tillögur sem snúa að breytingum á skattkerfinu í heild sinni. Megináhersla verkefnisstjórnarinnar var að koma með tillögur sem miða að því að skattkerfið afli nægjanlegra tekna fyrir samneyslu, sé einfalt, gagnsætt og skilvirkt. Ennfremur að það sé fyrirsjáanlegt, stöðugt, samkeppnishæft og styðji við hagstjórn landsins.

Verkefnisstjórnin, sem hóf störf í febrúar á þessu ári, var skipuð sex sérfræðingum í skattmálum. Dr. Daði Már Kristófersson, dósent í hagfræði og forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands fór fyrir verkefnisstjórninni en hún var jafnframt skipuð þeim Völu Valtýsdóttur lögfræðingi, dr. Axel Hall hagfræðingi, Halldóri Benjamín Þorbergssyni hagfræðingi, Elínu Elmu Arthursdóttur frá ríkisskattstjóra og Alexander Edvardssyni löggiltum endurskoðanda. Verkefnisstjórnin hefur þegar kynnt tillögur sínar fyrir Samráðsvettvangnum. Verkefnisstjórnin var sjálfstæð í vinnu sinni og leitaði ekki álits einstakra meðlima Samráðsvettvangsins meðan á vinnunni stóð.

„Ljóst er að umbætur og aukin hagkvæmni í skattinnheimtu hafa umtalsverð áhrif á hegðun og lífskjör einstaklinga en ríflega 4 af hverjum 10 krónum renna til hins opinbera í formi skatta. Við höfðum viss markmið að leiðarljósi í okkar vinnu en þrátt fyrir þau þá veita tillögurnar áfram fullt svigrúm fyrir breytileg samfélagsleg markmið löggjafans,“ segir Daði Már Kristófersson.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira