Hoppa yfir valmynd
Forsætisráðuneytið

Aðgerðaáætlun fyrir Vestfirði

Nefnd sem vann aðgerðaráætlun á sviði samfélags- og atvinnuþróunar fyrir Vestfirði hefur skilað ríkisstjórninni skýrslu. Nefndin leggur áherslu á að flýta þurfi uppbyggingu innviða á Vestfjörðum og vinna markvisst að því að gera svæðið samkeppnishæft við aðra landshluta sem búsetukost, fyrir fyrirtæki á samkeppnismarkaði og í samgöngum.

Í niðurstöðu nefndarinnar kemur fram að skortur á sterkum innviðum hafi staðið fjölbreyttum atvinnutækifærum fyrir þrifum á Vestfjörðum og þar sem nútímasamskiptatækni skorti sé landshlutinn í verri samkeppnisstöðu til að laða að yngra fólk til búsetu. Tryggja þurfi í fjárlögum næstu ára að lögð verði áhersla á eflingu innviða á Vestfjörðum á sviði orku, samgangna og fjarskipta. Styttri vegalengdir milli byggðakjarna og öruggari vegir skapi möguleika til mótunar stærri og lífvænlegri atvinnu- og búsetusvæða. Öryggi í orkumálum, bættar samgöngur og bætt fjarskipti ásamt framboði á góðri menntun og tryggri heilbrigðisþjónustu séu allt þættir sem veita fólki á öllum aldri öryggi og bæti búsetuskilyrði. Þættir sem þyki hluti af sjálfsögðum lífsgæðum í nútímasamfélögum verði að vera til staðar á Vestfjörðum eigi atvinnulíf og samfélag þar að geta dafnað.

Í tillögugerð nefndarinnar hefur verið lögð áhersla á eftirfarandi fjóra þætti:

  • Fjölga íbúum
  • Fjölga störfum
  • Nýta sóknarfæri og auka þannig verðmætasköpun
  • Treysta byggð með eflingu innviða

Skýrslu nefndarinnar er skipt upp í fjóra hluta. Fyrsti hluti skýrslunnar fjallar um þróun og stöðu búsetu á Vestfjörðum. Í öðrum hluta skýrslunnar er farið stuttlega yfir sérstök tækifæri í vaxtargreinum. Í þriðja hluta skýrslunnar er fjallað um stór og viðamikil framfaraverkefni fyrir Vestfirði. Þar má m.a. nefna samgöngumál, uppbyggingu heilbrigðisþjónustu til framtíðar, skattamál, orkumál, menntun og menningu, húsnæðismál, aukna samvinnu sveitarfélaga og svo framvegis. Í fjórða og síðasta hluta skýrslunnar er tekið á einstökum verkefnum, sem hægt er að kalla minni verkefni, en það er von og trú nefndarinnar að hægt sé að koma þeim strax til framkvæmda samhliða sóknaráætlun Vestfjarða 2015-2019.

Skipun nefndarinnar var samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar 31. maí 2016 og var vinnan unnin undir forystu forsætisráðuneytisins.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira