Hoppa yfir valmynd
27. október 2016 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Hofstaðir áfram í eigu ríkisins

Hofstaðir í Mývatnssveit - mynd

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, kynnti í gær í ríkisstjórn skýrslu starfshóps sem hafði það verkefni að greina möguleika og vinna tillögur að hugsanlegri uppbyggingu og skipulagi að Hofstöðum í Skútustaðahreppi í Mývatnssveit. Ríkisstjórnin samþykkti að halda jörðinni í eigu ríkisins á meðan skoðaður verði nánar kostnaður við þá uppbygginu sem lögð er til í skýrslunni.

Hofstaðir í Mývatnssveit hafa verið í eigu og umsjón ríkisins síðan í júlí 2015, eftir að eigendur jarðarinnar féllu frá. Að mati starfshópsins sameinar Hofstaðalandið það besta sem náttúra og saga Mývatns- og Laxársvæðisins hefur upp á að bjóða og hefur ótvírætt varðveislugildi. Á síðastliðnum áratugum hafa farið þar fram umfangsmiklar náttúru- og fornleifarannsóknir og meðal annars hafa fundist þar merkar fornminjar, sem talið er að megi rekja aftur til landnámsaldar. Ljóst er að staðurinn hefur að geyma fleiri minjar og til að mynda uppgötvaðist þar á dögunum stæðilegur eldaskáli fá víkingaöld, sem bætir enn við þekkingu á svæðinu og gerbreytir skilningi á Hofstöðum og miðstöðvarhlutverki staðarins á víkingaöld.

Að mati starfshópsins eru mikil tækifæri fólgin í þverfaglegu vísindasamstarfi stofnana á svæðinu í samvinnu við Skútustaðahrepp, s.s. Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, Umhverfisstofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs, Landgræðslu ríkisins og Minjastofnunar Íslands. Telur starfshópurinn að samstarf þessara stofnana í landi Hofstaða geti verið frjór jarðvegur fyrir miðlun upplýsinga um svæðið og styðja við frekari náttúru- og fornleifarannsóknir, auk þess sem það myndi auka við skilning á sögu og þróun svæðisins og þekkingu á Mývatns- og Laxársvæðinu. Er því lagt til að jörðin haldist áfram í opinberri eigu og að sett verði á fót þekkingarsetur í landi Hofstaða. Var það niðurstaða ríkisstjórnar að kanna betur kostnað við slíka uppbyggingu.   

Skýrsla starfshóps um Hofstaði í Mývatnssveit. Með samvinnu að leiðarljósi - Ávinningur sameiginlegs þekkingarseturs á Hofstöðum (pdf-skjal)

 

 

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum