Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2016 Forsætisráðuneytið

Fjölmargir ræddu stöðu mannréttinda á Íslandi á fundi hjá SÞ

Mannréttindi á Íslandi rædd á fundi mannréttindaráðs SÞ í Genf. - mynd
Fulltrúar kringum 60 ríkja voru á mælendaskrá á fundi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf í dag þegar fjallað var um stöðu mannréttinda á Íslandi. Í kjölfar inngangsræðu Ragnhildar Hjaltadóttur, ráðuneytisstjóra innanríkisráðuneytis og formanns sendinefndar Íslands, tóku margir til máls með spurningar og ábendingar. Í kjölfarið munu íslensk stjórnvöld taka afstöðu til tilmæla sem fram koma í þeim umræðum.

Sendinefnd Íslands á fundinum skipa fulltrúar innanríkisráðuneytis, velferðarráðuneytis, utanríkisráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis. Jafnframt fylgdust fulltrúar þessara aðila með útsendingu fundarins í innanríkisráðuneytinu í dag.

Upptöku af fundinum má sjá hér á vef Sameinuðu þjóðanna

Í ræðu sinni lagði Ragnhildur Hjaltadóttir áherslu á þýðingu mannréttinda og sagði úttektir SÞ vera farveg til að efla mannréttindi aðildarríkjanna sem gætu þannig stutt hvert annað í því verkefni. Hún sagði mannréttindamál vera í forgangi hjá íslenskum stjórnvöldum, landið væri friðsælt og löng hefð fyrir lýðræði í réttarríki og verndun mannréttinda.

Ráðuneytisstjórinn sagði íslensk stjórnvöld meðvituð um að mannréttindi væru ekki sjálfsagður hlutur, þau þyrftu sífellt að vera í umræðunni, ekki síst vegna minnihlutahópa. Því tækju íslensk stjórnvöld UPR verkefninu fagnandi. Hún sagði mörg tilmæli í fyrri UPR úttekt hafa snúist um réttindi fatlaðs fólks og að of hægt hefði gengið að fullgilda samning SÞ um þau réttindi. Henni væri því ánægja að því að tilkynna að Alþingi hefði samþykkt að fullgilda samninginn og það hefði verið gert 24. september 2016. Þá hefði verið unnið að því að koma á fót sjálfstæðri Mannréttindastofnun í samræmi við Parísar-samkomulagið svo og aðgerðaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2016 til 2019.

Undir lok ræðunnar gerði Ragnhildur málefni útlendinga að umtalsefni og sagði að þrátt fyrir margfalt fleiri umsóknir um hæli á Íslandi á þessu ári en fyrri ár hefði tekist að hraða málsmeðferð og bæta ferla við vinnslu hælisumsókna. Einnig sagði hún menntamál þýðingarmikil og lagði áherslu á að við umbætur á öllum sviðum mannréttinda ættu stjórnvöld mjög góða samvinnu um málaflokkinn þvert á ráðuneyti.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum