Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2017 Forsætisráðuneytið

Stofnun stýrihóps um mannréttindiundirbúin

Innanríkisráðuneytið undirbýr nú skipun stýrihóps Stjórnarráðsins um mannréttindi. Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra kynnti málið á ríkisstjórnarfundi í gær. Þá upplýsti ráðherra einnig að lokið væri allsherjarúttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála á Íslandi og er það í annað sinn sem slík úttekt fer fram hér á landi.

Stýrihópur um mannréttindi

Unnið verður að því að koma á fót stýrihóp Stjórnarráðsins um mannréttindi skipuðum fulltrúum allra ráðuneyta. Þannig yrði komið á föstum samráðsvettvangi til að tryggja stöðugleika í verklagi og aðkomu allra ráðuneyta að málaflokknum. Stýrihópurinn myndi jafnframt eiga samstarf og samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga, frjáls félagasamtök og aðra aðila eftir því sem þörf krefur og tilefni er til.

Forsaga stofnunar stýrihópsins er sú að þáverandi innanríkisráðherra lagði fyrir Alþingi árið 2016 skýrslu um mannréttindi. Meginmarkmiðið var að auka samvinnu ráðuneytisins og Alþingis og bæta uppslýsingagjöf til þingsins um málaflokkinn. Í mannréttindaskýrslunni er bent á að þó að innanríkisráðuneytið beri ábyrgð á mannréttindum sem málaflokki varði hann allt Stjórnarráðið, stjórnsýsluna og sveitarfélög og því sé öflug samvinna um málaflokkinn nauðsynleg. Þá sé brýnt að stuðla að virkri þverpólitískri umræðu og samstöðu um aukið vægi mannréttinda í stjórnsýslunni og tryggja þannig stöðugleika í málaflokknum, óháð breytingum á vettvangi stjórnmálanna.

Undanfarin ár hafa starfað hópar með fulltrúum nokkurra ráðuneyta til að vinna að ákveðnum verkefnum sem tengjast innleiðingu alþjóðlegra mannréttindaskuldbindinga eða eftirliti með þeim. Sem dæmi má nefna innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra og allsherjarúttekt mannréttindaráðs SÞ á stöðu mannréttinda hér á landi (UPR). Samstarf af þessu tagi hefur gefist afar vel og er lagt til að það verði fest í sessi á breiðari grundvelli en áður. Í mannréttindaskýrslunni var þannig lagt til að komið yrði á fót mannréttindateymi Stjórnarráðsins. Samræmist sú tillaga jafnframt áherslu Stjórnarráðsins á mótun stefnu um samhenta stjórnsýslu.

Allsherjarúttekt á mannréttindamálum lokið

Hinn 16. mars síðastliðinn lauk úttekt mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála hér á landi, svokallaðri Universal Periodic Review úttekt,UPR-úttekt. Skoðunin felur í sér jafningjaúttekt á stöðu mannréttindamála þar sem hvert ríki getur beint ábendingum til annarra aðildarríkja um það sem betur má fara að þeirra mati ásamt því sem vel er gert og talin ástæða til að kynna frekar fyrir alþjóðasamfélaginu. Þetta er í annað skiptið sem slík úttekt er gerð á Íslandi en sú fyrsta fór fram á árunum 2011-2012. Jafningjaúttektin er mikilvægt tæki mannréttindaráðs SÞ til að gefa öllum aðildarríkjum, líka þeim sem telja sig hafin yfir gagnrýni, tækifæri til að hlusta og nýta ábendingar annarra ríkja til að efla mannréttindavernd sína enn frekar.

Vinnuhópur með fulltrúum velferðarráðuneytisins, utanríkisráðuneytisins, mennta- og menningarmálaráðuneytisins, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og innanríkisráðuneytisins skilaði í ágúst 2016 skýrslu til mannréttindaráðsins um stöðu mannréttindamála á Íslandi vegna úttektarinnar. Í skýrslunni var rakið hvernig íslensk stjórnvöld höfðu brugðist við þeim tilmælum sem fram komu í fyrstu úttektinni og helstu breytingum sem höfðu átt sér stað á tímabilinu.

Í nóvember 2016 sat svo sendinefnd Íslands fyrir svörum í fyrirtöku mannréttindaráðsins, sem fram fór í Genf, um framkvæmd mannréttindamála. Í úttektinni tóku 66 ríki til máls og beindu þau alls 167 ábendingum til Íslands. Lýstu mörg ríkjanna yfir ánægju með stöðu mannréttindamála á Íslandi og var jafnrétti kynjanna m.a. sérstaklega nefnt í því sambandi, sem og fullgilding Samnings SÞ um réttindi fatlaðra, aðgerðir gegn heimilisofbeldi og eftirfylgni með ábendingum úr fyrstu UPR-úttektinni. Stjórnvöld samþykktu 133 ábendingar.

Niðurstöður úttektarinnar má finna í skýrslu mannréttindaráðs SÞ og viðauka við hana  einnig.

Íslensk þýðing skjalanna verður birt á vef ráðuneytisins á næstu dögum. Jafnframt er stefnt er að því að kynna niðurstöður úttektarinnar og stýrihóp Stjórnarráðsins í mannréttindum á opnum fundi á næstunni.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum