Hoppa yfir valmynd
12. júní 2017

Dómsmálaráðherra sótti ráðherrafund um Schengen samstarfið

Frá fundinum í Lúxemborg. - mynd

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra sótti ráðherrafund í Lúxemborg í tengslum við Schengen samstarfið í síðustu viku. Meðal helstu málefna fundarins voru fyrirhugaðar breytingar á Schengen upplýsingakerfinu, nýtt evrópskt upplýsingakerfi um ferðaheimildir, útlendinga- og hælismál, endursendingar útlendinga og öryggismál.

Fyrsta mál á dagskrá var tillaga að nýju evrópsku kerfi um ferðaheimild (European Travel Information and Authorisation System - ETIAS). Tillagan var lögð fram í nóvember s.l. og hefur verið til meðferðar í sérfræðinganefnd um ytri landamæri síðan. Í grófum dráttum mun EITAS-kerfið virka þannig að allir útlendingar, sem eru undanþegnir vegabréfsáritunarskyldu og hyggja á ferðalag til eins eða fleiri ríkja Schengen, þurfa að sækja um heimild í ETIAS til ferðalagsins, áður en lagt er af stað. Þannig veitir kerfið útlendingum heimild eða eftir atvikum synjun til ferðalags inn á Schengen-svæðið áður en þeir leggja af stað. Með tilkomu kerfisins mun frávísunum á ytri landamærastöðvum fækka og mun kerfið þannig stuðla að skilvirkara og öruggara landamæraeftirliti. ETIAS ferðaheimild kemur þó ekki í stað landamæraeftirlits, sem útlendingur sætir eftir sem áður við för yfir ytri landamæri. Segja má að fyrirmynd kerfisins sé bandaríska ESTA-kerfið. Fyrirhugað er að ETIAS-kerfið komist í gagnið árið 2022.

Á fundinum í Lúxemborg gerði dómsmálaráðherra athugasemd við meðferð málsins, nánar tiltekið að ekki hefur náðst samkomulag um fjárhagslega aðkomu Íslands og hinna þriggja samstarfslanda Schengen, Liechtenstein, Noregs og Sviss, að ETIAS kerfinu. Þessu máli verður fylgt eftir á tvíhliða fundi með formennsku Möltu í næstu viku.

Þessu næst ræddu ráðherrar tillögur að breytingum á Schengen-upplýsingakerfinu (Schengen Information System – SIS). Tillögurnar voru lagðar fram í desember s.l. og hafa síðan verið til meðferðar í sérfræðinganefnd um Schengen-regluverkið. Tillögurnar eru í þremur liðum og varða notkun SIS við lögreglu- og dómsmálasamvinnu í sakamálum, landamæraeftirlit og endursendingar útlendinga í ólögmætri dvöl á Schengen svæðinu. Á fundinum í Lúxemborg gerði dómsmálaráðherra m.a. athugasemd við þá tillögu að öllum þátttökuríkjum Schengen verði skylt að halda landsafrit af Schengen-upplýsingakerfinu. Sú framkvæmd er að mati Íslands ekki til þess fallin að tryggja aukið öryggi og óhindraða starfsrækslu Schengen upplýsingakerfisins.

Þriðja mál á dagskrá var staða útlendinga- og hælismála í Evrópu. Fengu ráðherrarnir m.a. kynningu frá Frontex, evrópsku landamærastofnuninni, og evrópsku stuðningsskrifstofunni í hælismálefnum, EASO. Á fundinum gerði ráðherra Þýskalands tillögu um að breytingar á Dyflinnarreglugerðinni verði settar til hliðar í bili og teknar upp að nýju eftir að sátt hefur náðst um aðrar reglugerðarbreytingar á vettvangi hælismála hjá Evrópusambandinu. Þær reglur teljast ekki þróun á Schengen eða Dublin samstarfinu og er Ísland því ekki bundið af þeim. Breytingar á Dyflinnarreglugerðinni voru upphaflega lagðar fram vorið 2016 og hafa síðan verið til meðferðar í sérfræðinganefnd. Grundvallarágreiningur er hinsvegar meðal þátttökuríkjanna um ákveðna þætti breytinganna sem hefur hindrað afgreiðslu málsins. Tillögu þýska ráðherrans var vel tekið á fundinum og má því búast við því að frekari umræður um breytingar á Dyflinnarreglugerðinni verði settar á ís í bili.

Einnig ræddu ráðherrarnir baráttuna gegn hryðjuverkum.

Fjórða mál á dagskrá voru endursendingar útlendinga á Evrópuvísu, en síðastliðin tvö ár hefur áhersla verið lögð á skilvirkari framkvæmd endursendinga þeirra útlendinga sem ekki hafa heimild til dvalar í Evrópu.

Að lokum ræddu ráðherrarnir eitt af stærstu verkefnunum á vettvangi dóms- og innanríkismála um þessar mundir, verkefnið um upplýsingakerfi og rekstrarsamhæfingu þeirra Á það rætur sínar að rekja til skýrslu framkvæmdastjórnarinnar frá árinu 2016 um upplýsingakerfi: Stronger and Smarter Information Systems for Borders and Security.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum