Hoppa yfir valmynd
17. september 2017 Dómsmálaráðuneytið

Íslenska ríkið sýknað í máli um dómaraskipan

Íslenska ríkið var á föstudag sýknað af kröfum tveggja hæstaréttarlögmanna sem voru meðal umsækjenda um stöður dómara við Landsrétt. Stefnendur gerðu kröfu um skaðabætur og miskabætur í kjölfar þess að ráðherra vék frá niðurstöðu hæfnisnefndar um dómaraefni. Þá var í héraðsdómnum fallist á að það sjónarmið ráðherra að það að auka vægi dómarareynslu við mat á umsækjendum væri málefnalegt sjónarmið.

Í dómnum kemur fram að mat hæfnisnefndarinnar hafi verið haldið efnislegum annmörkum og hafnaði dómurinn því kröfu stefnenda um að leggja matið til grundvallar dómsniðurstöðu. Dómurinn taldi þannig ekki sannað að stefnendur hefðu verið meðal 15 hæfustu umsækjenda. Dómurinn taldi að vegna þessara efnislegu annmarka hefði ráðherra átt að óska eftir nýju áliti dómnefndarinnar. Þá er komist að þeirri niðurstöðu í dómnum að tillaga ráðherra hafi hvorki bitnað á orðspori né æru stefnenda og því er miskabótakröfu þeirra hafnað.

Ráðherra vill ítreka það sem hún upplýsti við meðferð málsins um að hún byggði tillögu sína til Alþingis á starfi og niðurstöðu dómnefndarinnar. Þótt hún hafi verið ósammála forsendum nefndarinnar taldi hún álitið ekki haldið slíkum ágöllum að rétt væri að virða það að vettugi. Þar sem ráðherra byggði tillögur sínar á niðurstöðu dómnefndarinar taldi héraðsdómur að meginstefnu að sömu annmarkar væru á málsmeðferð ráðherra og áliti dómnefndarinnar. Nú liggur hins vegar fyrir með niðurstöðu héraðsdóms að ráðherra var í raun ekki stætt á að fylgja niðurstöðu nefndarinnar. 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum