Hoppa yfir valmynd
7. desember 2017 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Áform um lagasetningu um samnýtingu jarðvegsframkvæmda til að greiða fyrir ljósleiðaralagningu

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið undirbýr nú innleiðingu á tilskipun Evrópusambandsins nr. 2014/61/EB og áformar í því skyni að leggja frumvarp fyrir Alþingi er varðar samnýtingu jarðvegsframkvæmda á sviði fjarskipta-, raforku- og veitukerfa. Meginmarkmið tilskipunarinnar snúa að því að draga úr kostnaði við uppbyggingu háhraða fjarskiptaneta.

Áform þessi eru nú kynnt með vísan til samþykktar ríkisstjórnarinnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og stjórnartillagna og reglna um starfshætti ríkisstjórnar. Evrópusambandið (ESB) hefur lagt áherslu á uppbyggingu fjarskipta og í því sambandi hefur það talið nauðsynlegt að ýta undir samlegð með öðrum innviðaframkvæmdum, til að mynda raforku-, veitu- og vegaframkvæmdum.

Tilskipunin veitir fjarskiptafyrirtækjum annars vegar heimild til að nýta fyrirliggjandi innviði á öðrum sviðum og hins vegar til að taka þátt í jarðvegsframkvæmdum sem eru fyrirhugaðar í því skyni að greiða fyrir ljósleiðaralagningu. Til að slíkt sé mögulegt, þ.e. samlegð og samnýting, þarf að auka kortlagningu og byggja upp gagnagrunna um fjarskipta-, raforku- og veitukerfi ásamt tengdum kerfum. Einnig þarf að kveða á um skyldu rekstraraðila til að veita upplýsingar um þessa innviði og fyrirhugaðar framkvæmdir. Slíkar upplýsingar þurfa vera vistaðar í miðlægum gagnagrunni sem er aðgengilegur fjarskiptafyrirtækjum.

Tilskipunin kveður m.a. á um eftirfarandi verkefni:

  • Að koma á fót miðlægum gagnagrunni um fjarskiptainnviði. Upplýsingar í gagnagrunninum verði aðgengilegar og nothæfar fyrir rekstraraðila. Aðgerðir til að tryggja rétt netrekenda til þátttöku í jarðvegsframkvæmdum við uppbyggingu innviða á öðrum sviðum, t.d. raforku- og veitukerfa og e.t.v. vegaframkvæmdum.
  • Aðgang netrekenda að fyrirliggjandi innanhússlögnum til að bjóða fram háhraða gagnaflutningsþjónustu.
  • Aðgerðir til að upplýsa um margskonar leyfisveitingaferli, t.d. á sviði umhverfis- og skipulagsmála og á sama tíma einfalda þau eftir því sem best er á kosið.
  • Að útnefnt verði eftirlitsstjórnvald með framkvæmd tilskipunarinnar, m.a. um gagnagrunnsgerð og miðlun upplýsinga, auk þess er gerð krafa um að til staðar verði óháður úrskurðaraðili sem geti skorið úr um ágreiningsmál sem kunna að vakna um framkvæmd tilskipunarinnar.

Frestur til þess að koma að umsögnum og ábendingum er veittur til og með 22. desember næstkomandi og skulu þær sendar á netfangið [email protected].

Ráðuneytið bendir á að þegar frumvarpsdrög liggja fyrir verður einnig gefinn kostur á samráði í samræmi við 9. gr. samþykktar ríkisstjórnarinnar um undirbúning stjórnarfrumvarpa.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum