Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Drög að lagafrumvarpi um lögheimili til umsagnar

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að frumvarpi til laga um lögheimili og aðsetur. Unnt er að senda umsagnir um drögin til 15. janúar nk. og skulu þau send á netfangið [email protected].

Lög um lögheimili, nr. 21/1990, tóku gildi þann 1. janúar 1991 og lög um tilkynningar aðsetursskipta, nr. 73/1952, tóku gildi þann 30. desember 1952. Lög um lögheimili hafa því haldið gildi sínu í um 26 ár og lög um tilkynningar aðsetursskipta í 65 ár. Þjóðfélagsgerð hefur tekið allmiklum breytingum á gildistíma laganna. Í því samhengi má benda á að Ísland gerðist aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, þar sem m.a. er kveðið á um frjálsa fólksflutninga, einnig hefur tölvu- og netvæðing átt sér stað og þjóðin gekk í gegnum efnahagshrun sem varð til þess að margir sóttu sér vinnu erlendis. Atvinnuþátttaka og menntun kvenna hefur aldrei verið meiri og aukin krafa er um jafnrétti og jafnræði. Óvígð sambúð er nú viðurkennt sambúðarform, samkynhneigðir hafa rétt til að ganga í hjúskap og við skilnað hjóna og sambúðarslit er orðið algengara að börn séu með jafna búsetu hjá foreldrum. Loks eiga margir fleiri en eitt heimili, þá annað til dæmis í heilsárshúsum í sveitum landsins eða jafnvel erlendis. Framangreind dæmi sýna að þjóðfélagsaðstæður hafa breyst sem kalla á breytingar á lögheimilislögum sem og lögum um tilkynningar aðsetursskipta.  

Markmið lagasetningarinnar eru m.a. að tryggja að löggjöf um lögheimili og skráningar aðseturs samræmist þörfum og samfélagsháttum nútímans, hún sé skýr og auðskiljanleg. Nauðsynlegt er talið að samræma skráningu landsmanna, gera hana miðlæga og stuðla að því að hún verði ávallt sem réttust og fari að mestu leyti fram með rafrænni skráningu.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn