Hoppa yfir valmynd
6. desember 2018 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Samstarfsyfirlýsing um landbúnað og náttúruvernd undirrituð

Undirritun á Hvanneyri - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, undirrituðu á Hvanneyri í dag yfirlýsingu um að vinna saman að málefnum landbúnaðar og náttúruverndar. Yfirlýsinguna má meðal annars rekja til átaks í náttúruvernd sem byggir á sáttmála ríkisstjórnarinnar.

Samstarfinu er ætlað að ná til verkefna í náttúruvernd á jörðum bænda. Mögulegar aðgerðir verða skilgreindar að lokinni greiningarvinnu sem verður fyrsta skref verkefnisins. Þar verður meðal annars hugað að aðgerðum á svæðum og gagnvart tegundum sem þarf að vernda ásamt endurheimt og uppbyggingu vistkerfa.

Bændasamtökin og ráðuneytið hafa áður átt í samstarfi um loftslagsmál og landbúnað með góðum árangri. Í yfirlýsingunni kemur fram að mikil tækifæri eru fólgin í góðu samstarfi bænda og stjórnvalda á sviði náttúruverndar. Bent er á að bændur á Íslandi eru vörslumenn lands og stór hluti þess í þeirra umsjón. Bændur geta sinnt þessu vörsluhlutverki með sjálfbærri nýtingu lands svo þeir geti skilað því í jafngóðu eða betra ástandi en þeir tóku við því. Dæmi um þetta eru samstarfsverkefni bænda og stjórnvalda við uppgræðslu lands og ræktun skóga.

„Ég fagna auknu samstarfi við bændur en með þessari yfirlýsingu förum við saman í nýsköpun í náttúruvernd. Samstarfið mun leiða af sér tillögur um hvernig bændur geti tekið meiri þátt í náttúruverndarstarfi. Það má sjá fyrir sér að það gæti tekið til verndaraðgerða vegna ákveðinna tegunda, endurheimt vistkerfa, t.d. votlendis og umsjón með landi sem þarfnast verndar. Að undirrita samstarfsyfirlýsinguna á Hvanneyri var síðan sérstakt ánægjuefni enda er til fyrirmyndar hvernig þar og á nærliggjandi jörðum hefur tekist að samþætta blómlegan landbúnað við mikilvægar aðgerðir til verndar náttúrunni,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

„Við bændur erum ánægðir með samstarfsyfirlýsinguna og hún lofar góðu. Bændur eru vörslumenn lands og vita að þeir hafa skyldum að gegna í náttúruvernd. Nýtingin þarf að vera sjálfbær og ekki ganga á rétt komandi kynslóða til að nýta og njóta þess. Það hafa bændur gert meðal annars með skynsamlegri landnýtingu, skógrækt og uppgræðslu þar sem þörf er á. Með samstarfsyfirlýsingunni stefnum við að því að auka enn frekar samstarf með stjórnvöldum á sviði umhverfismála og það er gleðiefni,“ segir Sindri Sigurgeirsson.

Undirritunin fór fram í Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Bændasamtökin munu nú í framhaldinu vinna sameiginlega að því að móta næstu skref um samstarfið og þau verkefni sem undir það munu falla.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum