Hoppa yfir valmynd
10. desember 2018 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfis- og auðlindaráðherra ræðir um plast og orku á Loftslagsráðstefnu SÞ

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Teresa Ribera, umhverfisráðherra Spánar, ræddu orkumál í pallborði í dag.  - mynd

Ráðstefna aðildarríkja Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna stendur sem hæst í Katowice í Póllandi og fundir ráðherra hófust í dag.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, sækir ráðstefnuna og tók í dag þátt í pallborði á vegum Alþjóðaorkumálastofnunarinnar ásamt Teresu Ribera, umhverfisráðherra Spánar. Til umræðu var árleg skýrsla stofnunarinnar um orkuþörf í heiminum sem nýverið kom út. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að losun frá orkuframleiðslu fer vaxandi á ný eftir nokkurra ára jafnstöðu og að miklar breytingar þurfi að verða í fjárfestingu í orkuframleiðslu ef takast eigi að ná settu marki um minnkun losunar í orkugeiranum á næstu tveimur áratugum.

Guðmundur Ingi lagði meðal annars áherslu á mikilvægi þess að hræðast ekki nauðsynlegar breytingar á orkukerfum heimsins, því þær væru til góðs. Mikilvægt væri að ná fram orkuskiptum og hætta brennslu jarðefnaeldsneytis.

Í gær tók ráðherra þátt í pallborði um plastmengun ásamt aðstoðarumhverfisráðherra Bretlands og fleirum á hliðarþinginu Sustainable Innovation Forum. Fram kom að fleiri en 700 milljón plastflöskur hefðu verið keyptar í heiminum frá miðnætti og þangað til pallborðið hófst um hádegisbil. Rætt var um mikilvægi þess að bregðast af festu við plastmengun og Guðmundur Ingi lagði áherslu á mikilvægi þessi að fólk hætti að kaupa einnota hluti. Það að berjast gegn plastmengun væri eitt af hans baráttumálum og á Íslandi væru þegar ákveðnar aðgerðir í farvatninu til að draga úr plastmengun.

Frá pallborði um plastmengun í gær.

Á morgun hefjast umræðufundir ráðherra, þar sem m.a. á að ræða hvernig leggja á grunn að endurmati á skuldbindingum ríkja árið 2020. Á miðvikudag flytur umhverfis- og auðlindaráðherra yfirlýsingu Íslands á aðildaríkjaþinginu.

Meginviðfangsefni Loftslagsráðstefnunnar nú, sem er sú 24. í röðinni, er að ganga frá samkomulagi um regluverk um framkvæmd Parísarsamningsins, sem m.a. varðar losunarbókhald og skýrslugjöf, þannig að tölur og upplýsingar verði settar fram með samhæfðum og sambærilegum hætti hjá öllum ríkjum samningsins.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum