Hoppa yfir valmynd
18. janúar 2019 Forsætisráðuneytið, Innviðaráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Tekjusagan - gagnagrunnur um þróun lífskjara

Helstu atriði:

- Hægt að skoða þróun ráðstöfunartekna og áhrif skatta og bóta.
- Vefur sem eykur gagnsæi og gagnast bæði stjórnvöldum og almenningi.
- Raungögn til að byggja umræðu um lífskjaraþróun á.


Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra opnaði vefinn tekjusagan.is á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum í dag. Vefurinn veitir aðgang að gagnagrunni um lífskjör landsmanna sem byggir á ópersónugreinanlegum upplýsingum úr skattframtölum allra einstaklinga á Íslandi frá árinu 1991 til 2017. Hver sem er getur skoðað þróun ráðstöfunartekna mismunandi hópa, áhrif skatta og bóta auk félagslegs hreyfanleika. Verkefnið hefur tvisvar verið kynnt á samráðsfundum stjórnvalda með aðilum vinnumarkaðarins og hefur svo þróast áfram í samskiptum forsætisráðuneytisins og heildarsamtaka á vinnumarkaði en síðustu tvo mánuði hafa 80 einstaklingar úr ráðuneytum og samtökum á vinnumarkaði haft aðgang að vefnum með það að markmiði að gera hann sem bestan úr garði.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir Tekjusöguna vera mikilvægt innlegg í samráð stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. „Það er þörf á áreiðanlegum og óumdeildum gagnagrunni með launatölfræði sem allir hafa aðgang að til að hægt sé að leggja mat á launaþróun auk áhrifa skatta og bóta með óumdeildum og áreiðanlegum hætti. Ég tel að með Tekjusögunni séum við komin með styrkan grundvöll undir umræður um kjaramál,“ segir Katrín og bætir við: „Það er lykilatriði fyrir stjórnvöld að hafa aðgang að áreiðanlegum upplýsingum þegar kemur að stefnumótun og ákvarðanatöku. Tekjusagan gerir okkur kleift að sjá hvernig lífskjör mismunandi hópa hafa þróast, hvaða hópum hefur vegnað vel og hvaða hópar þurfa sérstaka athygli.“

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra: „Þessi vinna er, eftir því sem við komumst næst, einstök á evrópska vísu. Aldrei áður hefur verið farið í jafn yfirgripsmikla og ýtarlega gagnasöfnun og rannsókn á lífskjaraþróun á Íslandi. Það er ánægjulegt að sjá að okkur hefur miðað áfram og að allir hafa það betra þótt, eins og fram kom í máli forsætisráðherra, módelið sýni okkur hópa sem hafa ekki notið eins mikils vaxtar og við vildum. Það gefur okkur um leið tækifæri til að bregðast við því með markvissum aðgerðum.“

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra: „Gögn og gagnasöfnun eru mikilvægur þáttur í samfélaginu í dag. Þetta verkefni gerir okkur kleift að tala um staðreyndir á nýjan og gagnsæjan hátt. Á grundvelli þeirra upplýsinga sem fást í Tekjusögunni getum við mótað stefnu á markvissari hátt en áður. Það vekur sérstaka athygli mína að sjá staðfestingu á því að félagslegur hreyfanleiki sé einstaklega mikill á Íslandi. Það segir mér að við búum í landi tækifæranna.“

 

Hér að neðan má sjá nokkur dæmi úr Tekjusögunni:

Forsætisráðherra fór yfir hvernig hægt er að kalla fram upplýsingar um þróun lífskjara nokkurra hópa og sýndi eftirfarandi dæmi.


MYND 1: ALLAR TÍUNDIR Á VINNUMARKAÐI Í SAMBÚÐ MEÐ 1-2 BÖRN Á ÖLLU LANDINU SEM EIGA FASTEIGN.

Myndin sýnir að mikill lífskjarabati hefur orðið almennt á vinnumarkaði, þó með nokkru bakslagi á árunum í kjölfar bankahrunsins.


MYND 2: EINSTÆÐAR MÆÐUR MEÐ 1-2 BÖRN Í 2. TEKJUTÍUND – LEIGUMARKAÐUR - Á ALDRINUM 25-34 ÁRA.

Myndin sýnir hvernig staða einstæðra mæðra á aldrinum 25-34 ára í 2. tekjutíund með 1-2 börn á leigumarkaði hefur þróast frá 1991. 





MYND 3: ELDRI BORGARAR, ALLIR 66 ÁRA OG ELDRI Í SAMBÚÐ Í EIGIN HÚSNÆÐI.

Hér má sjá þróun á kjörum eldri borgara í sambúð og eigin húsnæði. 




MYND: HREYFANLEIKI Á MILLI TÍUNDA – ALLIR Á VINNUMARKAÐI – 3. TEKJUTÍUND– Á ALDRINUM 25-29 ÁRA.

Hér má skoða hvernig fólk hefur hreyfst á milli tekjutíunda yfir ákveðin tímabil og hversu stórt hlutfall færist upp eða niður eða stendur í stað. Slík greining er góður mælikvarði á félagslegan hreyfanleika og benda gögnin sterklega til þess að félagslegur hreyfanleiki sé mikill á Íslandi.

Einfaldur aðgangur að gagnagnótt

Tekjusagan skiptist í tvo hluta, annars vegar launaumslagið sem lýsir þróun mánaðarlegra tekna, skatta og bóta ríkis og sveitarfélaga á tímabilinu 1991-2017 á föstu verði ársins 2017 og hins vegar lífshlaupið sem lýsir hreyfingu einstaklinga á milli tekjutíunda yfir tíma.

Tekjusagan byggir á svokallaðri gagnagnótt eða gríðargögnum (e. Big Data) sem unnin eru upp úr öllum skattframtölum einstaklinga á Íslandi frá 1991 til 2017. Samtals eru fleiri hundruð þúsund línur í Excel-töflureikningum settar fram með Power BI frá Microsoft sem gerir notendum auðvelt að kalla fram upplýsingar úr þessum flókna gagnagrunni með einföldum hætti. Unnt er að velja hóp eftir tekjutíund, aldri, búsetu, hjúskaparstöðu, barnafjölda og tegund húsnæðis. Einnig er hægt að bera saman tvo ólíka hópa.

Tekjusagan er unnin af forsætisráðuneytinu í samstarfi við Analytica og Metadata. Allar nánari upplýsingar um Tekjusöguna er að finna á www.tekjusagan.is.


Efnisorð

Heimsmarkmiðin

8. Góð atvinna og hagvöxtur
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum