Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2020 Innviðaráðuneytið

Ungt fólk öflugustu málsvararnir fyrir umferðaröryggi

Fjögur íslensk ungmenni taka þátt í ráðstefnu YOURS. Frá vinstri: Kolbrún Guðný Þorsteinsdóttir, starfsmaður Samgöngustofu, Fannar Freyr Atlason, Atli Þór Jónsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Karín Óla Eiríksdóttir, Embla Líf Hallsdóttir og Helena Dögg Magnúsdóttir, starfsmaður Landsbjargar. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ávarpaði síðdegis í gær ráðstefnu YOURS, samtaka ungmenna sem berjast fyrir umferðaröryggi, sem haldin er í Stokkhólmi. Ráðherra tók einnig þátt í vinnustofu þar sem ungmenni og fólk í áhrifastöðum ræddu um leiðir til að efla umferðaröryggi. Vinnustofan sem Sigurður Ingi tók þátt er undanfari og hluti 3. heimsþings um umferðaröryggi sem haldið er í Stokkhólmi næstu daga.

Fjögur íslensk ungmenni sitja ráðstefnuna en yfirskrift hennar útleggst á íslensku „Hingað og ekki lengra“ (e. Enough is enough). Yfirskriftin vísar til þeirrar kröfu ungmenna um allan heim að stjórnvöld og samfélag taki höndum saman um að fækka alvarlegum slysum og dauðaslysum í umferðinni.

Á ráðstefnunni hafa um 200 ungmenni frá 75 löndum hvaðanæva úr heiminum sagt frá reynslu sinni og baráttumálum. Staðan væri mjög ólík eftir heimshlutum en á heimsvísu látast 500 börn á dag í umferðarslysum. Þátttakendur voru sammála um mikilvægi þess að ungmenni væru þátttakendur í stefnumótun og ákvarðanatöku í umferðaröryggismálum og  að ungt fólk yrði að vera þar í forystu. 

Ungt fólk öflugustu málsvararnir

Sigurður Ingi hrósaði ungu fólki og þátttakendum ráðstefnunnar fyrir að taka frumkvæði í baráttunni fyrir bættu umferðaröryggi. Breyta þurfi hugarfari og umferðarmenningu um heim allan og þar muni ungt fólk verða öflugustu málsvararnir. Ráðherra sagði stefnu íslenskra stjórnvalda mjög skýra. Öryggi væri leiðarljós í samgönguáætlun landsins og liggi til grundvallar í allri stefnumótun, aðgerðaáætlun og framkvæmdum til að tryggja öryggi allra vegfarenda í umferðinni.

Ráðherra sagði frá góðri reynslu stjórnvalda að auka samráð og samstarf við ungt fólk við stefnumótun. Fulltrúar ungmenna hafi verið á samgönguþingi unga fólksins og nú væri í fyrsta sinn unnið með börnum og ungmennum við mótun nýrrar samgönguáætlunar. Einnig hafi ráðstefna sem haldin var í haust um börn og samgöngur með þátttöku ungmenna haft mikla þýðingu, sem ráðuneytið stóð að í samvinnu við Samgöngustofu, Vegagerðina og Samband íslenskra sveitarfélaga. 

Fjögur íslensk ungmenni á ráðstefnunni

Landsbjörg hefur átt í nánu samstarfi við YOURS og á þeirra vegum fóru tveir fulltrúar ungu kynslóðarinnar; Atli Þór Jónsson  og Fannar Freyr Atlason sem báðir eru í 10. bekk í Laugalækjarskóla. Þeir eru báðir virkir í ungliðastarfi Landsbjargar og félagar í unglingadeildinni Árnýju í Reykjavík. Með þeim var einn starfsmaður Landsbjargar. Samgöngustofa sendi sömuleiðis tvö ungmenni á ráðstefnuna, þær Emblu Líf Hallsdóttur, björgunarsveitarkonu og starfsmann ungmennaráðs Mosfellsbæjar og Karín Ólu Eiríksdóttur, björgunarsveitarkonu í Þorbirni í Grindavík en hún stóð að umferðaröryggisráðstefnu í bæjarfélaginu í fyrra. Með þeim fór starfsmaður úr fræðsludeild Samgöngustofu sem sér um fræðslu og forvarnir umferðaröryggismál.

Um YOURS

YOURS eru frjáls félagasamtök sem starfa á heimsvísu og sinna umferðaröryggi. YOURS var stofnað árið 2009 í framhaldi af fyrstu ráðstefnunni fyrir ungt fólk um umferðaröryggis (e. First World Youth Assembly for Road Safety) sem haldin var árið 2007 undir merkjum Alþjóða Heilbrigðisstofnunarinnar og fleiri aðila. YOURS er rödd ungs fólks og félagi í United Nations Road Safety Collaboration (UNRSC). Markmið YOURS er að finna leiðir til að virkja ungt fólk til verka í umferðaröryggismálum. YOURS kemur með vinnusmiðjur í hvert land fyrir sig og skilur eftir hugmyndabanka og verkfærakistu sem unga fólkið vinnur með áfram sem miðar að því að gera samfélagið öruggara fyrir þau sjálf og alla aðra sem að málinu koma. Í framhaldinu fylgir YOURS vinnunni eftir og styður við það unga fólk sem hefur tekið við keflinu í sínu landi.

  • Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, á vinnustofu ráðstefnunnar þar sem ungmenni og stjórnmálafólk ræddi umferðaröryggi. - mynd
  • Frá ráðstefnu YOURS, amtaka ungmenna sem berjast fyrir umferðaröryggi í Stokkhólmi. - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum