Hoppa yfir valmynd
8. október 2020 Innviðaráðuneytið

Breytingar á fyrirkomulagi og eftirliti með greiðslu fargjalda í almenningssamgöngum í samráðsgátt

Drög að frumvarpi um breytingu á lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila inn umsögn er til og með 21. október nk.

Tilgangur frumvarpsins er að opna fyrir og styðja við skilvirkari leiðir við greiðslu fargjalda í almenningssamgöngum og veita skýrar heimildir um eftirlit og viðurlög. Markmiðið er farþegar geti stigið inn í vagna um hvaða dyr sem er og þurfi ekki að sýna vagnstjóra fram á greiðslu fargjalds. Slíkt fyrirkomulag væri til þess fallið að efla þjónustu við farþega, stytta biðtíma á biðstöðvum og auka skilvirkni.

Greiðsla fargjalda í almenningssamgöngum hefur í auknum mæli færst frá því að farþegar greiði fargjald hjá vagnstjóra yfir í fyrirframgreidd kort eða rafrænar lausnir. Eftirlit með því að fargjöld hafi verið greidd er hins vegar enn að mestu í höndum vagnstjóra þegar farþegi stígur um borð. 

Í frumvarpinu er kveðið með skýrum hætti á um skyldu farþegar til að framvísa gildum farmiða og rétt flutningsaðila til að sannreyna að fargjald hafi verið greitt. Einnig er lagt til að veitt verði heimild til að leggja vanrækslugjald á farþega sem ekki geta sýnt fram á greiðslu fargjalds og skýr ákvæði um endurskoðun slíkra ákvarðana. Með nýjum ákvæðum um fyrirkomulag og eftirlit væri því hægt að taka upp nýtt eftirlit þar sem eftirlitsmenn sannreyna greiðslu farþega með slembiúrtaki. Slíkt fyrirkomulag er við lýði víða hvar í nágrannalöndunum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum