Hoppa yfir valmynd
15. október 2020 Dómsmálaráðuneytið

Skipt búseta barna á Alþingi

Dómsmálaráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi um breytingar á barnalögum þar sem lagt er  til að foreldrar, sem fara sameiginlega með forsjá barns án þess að búa saman geti samið um skipta búsetu barns við tilteknar aðstæður. 

Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir breytingum á ýmsum öðrum lögum til að tryggja þau réttaráhrif sem fylgja skiptri búsetu barns. Frumvarpið er endurflutt frá fyrra þingi.

Í framsögu dómsmálaráðherra kom fram að markmið þeirra breytinga sem lagðar væru til í frumvarpinu séu að stuðla að sátt og jafnari stöðu þeirra foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barns og ákveða að ala það upp saman á tveimur heimilum. Ekki er gert ráð fyrir að búseta barns verði að vera nákvæmlega jöfn á báðum heimilum, en gert er ráð fyrir því að barn búi álíka jafnt til skiptis hjá foreldrum. Að öðru leyti er það í höndum foreldra að útfæra það fyrirkomulag sem hentar best þörfum barnsins.

Frumvarpið felur í sér almennar breytingar á ákvæðum um framfærslu barns og meðlag sem munu auka samningsfrelsi foreldra. Í frumvarpinu er lagt til að afnema skyldu til að staðfesta samning foreldra um meðlag við skilnað, sambúðarslit eða við ákvörðun um forsjá eða lögheimili barns. Þess í stað er lögð áhersla á að foreldrar sem búa ekki saman beri sameiginlega ábyrgð á framfærslu barns.

Einnig felur frumvarpið í sér að barnalög beri skýrlega með sér þær forsendur sem verða að liggja til grundvallar samningum foreldra um tiltekið fyrirkomulag forsjár, búsetu og umgengni. Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að foreldrar geti samið með ýmsum hætti og er mikilvægt að foreldrar átti sig á því hvenær heimild til að semja um skipta búsetu barns á við.

Aukinn réttur barns til áhrifa á eigin mál

Í frumvarpinu er lagt til það nýmæli að barn geti haft frumkvæði að því að sýslumaður boði foreldra til samtals til að ræða fyrirkomulag forsjár, lögheimilis, búsetu og umgengni. Með breytingunum hefur barn kost á að tjá foreldri afstöðu sína og geta foreldrar eftir atvikum samið um eða gert kröfur um breytingar á fyrirliggjandi ákvörðunum. Með þessu nýja ákvæði í barnalögum er stefnt að því að styrkja rétt barns til að beita sér í málum sem líkleg eru til að hafa grundvallaráhrif á velferð þess og líðan.

Markmið breytinga á barnalögum er að stuðla að sátt og jafnari stöðu foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barns og ákveða að ala það upp á tveimur heimilum. Lagt er til að lögfesta ákvæði um heimild foreldra sem ekki búa saman en fara sameiginlega með forsjá barns til að semja um skipta búsetu barns við tilteknar aðstæður. Einnig er lagt til að lögin beri með sér að forsenda þess að foreldrar semji um sameiginlega forsjá verði sú að foreldrar geti unnið saman á fullnægjandi hátt og haft samráð um málefni barns. Þá er lagt til það nýmæli að barn geti haft frumkvæði að því að sýslumaður boði foreldra til samtals til að ræða fyrirkomulag forsjár, lögheimilis, búsetu og umgengni. Að auki er gert ráð fyrir breytingu á ákvæðum um framfærslu og meðlag með áherslu á aukið samningsfrelsi foreldra.

Sjá nánar: https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=151&mnr=11

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum