Hoppa yfir valmynd
23. október 2020 Innviðaráðuneytið

Frumvarp um tilfærslu póstmála til Byggðastofnunar í samráðsgátt

Birt hafa verið í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna tilfærslu póstmála frá Póst- og fjarskiptastofnun til Byggðastofnunar. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila umsögn er til og með 4. nóvember 2020.

Með tilfærslu póstmála frá Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til Byggðastofnunar er leitast við að tryggja jafnan rétt landsmanna til alþjónustu póstsins, sem lýst er í lögum um póstþjónustu. Ýmis rök mæla með því að Byggðastofnun taki að sér verkefni póstmála, m.a. við að samhæfa betur byggðasjónarmið og póstmál. 

Frumvarpið er hluti af heildaryfirferð á lagaumhverfi PFS en stefnt er að því að það verði lagt fram samhliða frumvarpi til nýrra heildarlaga um Póst- og fjarskiptastofnun. Frumvarpið er þó byggt upp með þeim hætti að það geti staðið sjálfstætt, þ.e. óháð fyrirhuguðum breytingum á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun.

Tilgangur frumvarpsins, sem samið var í samvinnu við PFS og Byggðastofnun, er að mæla fyrir um lagabreytingar sem nauðsynlegar eru til að færa stjórnsýslu og eftirlit með póstþjónustu frá PFS til Byggðastofnunar. Markmiðið er að Byggðastofnun hafi sömu heimildir og skyldur og PFS fyrir tilfærsluna og að áfram verði tryggð hagkvæm, skilvirk og áreiðanleg póstþjónusta um land allt og til og frá landinu

Helstu lagabreytingar

Lagðar eru til breytingar á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun (nr. 69/2003) sem fela í sér að fella úr gildi verkefni stofnunarinnar á sviði póstmála. 

Lagt er til að þau ákvæði sem kveða á um verkefni og skyldur PFS í lögum um stofnunina verði færð í lög um póstþjónustu(nr. 98/2019). Er sú leið er í samræmi við lagaframkvæmd annarra ríkisstofnana sem sinna verkefnum á fleiri en einu sviði, svo sem Þjóðskrá Íslands. 

Lagt er til að í lögum um Byggðastofnun (nr. 106/1999) verði kveðið á um að hlutverk Byggðastofnunar verði að annast framkvæmd laga um póstþjónustu. Þá er lagt til að gerðar verði tímabærar lagfæringar á lögum um Byggðastofnun er snúa að heimildum til að innheimta tiltekin þjónustugjöld, skýrslugjöf stofnunarinnar og fjárvörslu.

Verkefnahópur með fulltrúum frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, PFS og Byggðastofnun mun undirbúa vandaðan flutning málaflokksins  og gæta þess að þekking og reynsla hjá Póst- og fjarskiptastofnun í málaflokknum nýtist Byggðastofnun áfram á meðan tilfærslunni stendur. 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum