Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2020 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Frumvarp til laga um Fjarskiptastofu í samráðsgátt

Drög að frumvarpi til laga um Fjarskiptastofu hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila umsögn er til og með 13. desember 2020.

Í frumvarpinu felst heildarendurskoðun á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun. Eitt meginmarkmið þess er að stofnunin geti tekist á við kröfur tímans en á fáum sviðum er viðvarandi jafn hröð tækniþróun eins og raun ber vitni á sviði fjarskipta og netöryggis. Mikilvægt er því að leita leiða til þess að stofnunin geti þjónustað samfélagið sem best til framtíðar.

Fjarskipti gegna lykilhlutverki í nútímasamfélagi og eru grundvöllur fyrir þjónustu á svo mörgum öðrum sviðum, því er sérstaklega mikilvægt að huga að því að öll umgjörð sé eins og best verður á kosið. Þrátt fyrir að Ísland standi mjög framarlega í alþjóðlegu samhengi hvað varðar grunnlag fjarskipta, þ.e. gæði og fjölda háhraðanettenginga á landsvísu, þá er einnig mikilvægt að tryggja næsta lag, þ.e.a.s. öryggi fjarskiptanna, til að fjarskiptagrunnvirkin nýtist sem best. Nauðsynlegt er að aðhafast til þess að halda í við tækniþróun, og nýta þau tækifæri sem bjóðast til úrbóta. 

Lagarammi sem stofnunin vinnur eftir hefur tekið miklum breytingum á undanförnum misserum. Sem dæmi um nýlegar lagabreytingar má nefna ný póstlög nr. 98/2019, ný lög um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða nr. 78/2019, og lög nr. 125/2019 um ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraðafjarskiptaneta. Þá eru nú til umfjöllunar á Alþingi frumvarp til nýrra fjarskiptalaga og frumvarp til laga um landslénið .is, sem hvoru tveggja hafa áhrif á starfsumhverfi Póst- og fjarskiptastofnunar.

Meginþungi verkefna stofnunarinnar snýr að fjarskipta- og netöryggismálum, en póstmál eru aðeins um 6% af starfsemi stofnunarinnar. Í kjölfar greiningar á verkefnum stofnunarinnar hefur einnig verið lagt til að eftirlit með póstmálum flytjist frá Póst- og fjarskiptastofnun. Ákvæði er varða flutning eftirlits með póstþjónustu verða lögð fram í öðru frumvarpi.

Með frumvarpinu er ætlunin að einfalda og skýra regluverkið sem gildir um þá stofnun sem fer með eftirlit og stjórnsýslu á fjarskiptamarkaði. Meginmarkmiðið er að stuðla að því að stofnunin mæti væntingum og þörfum samfélagsins í heimi fjarskipta og netöryggis, með því að gera stofnuninni kleift að styrkja þá þætti stofnunarinnar er snúa að tæknilegum verkefnum, en á næstu árum munu verkefni stofnunarinnar á sviði netöryggismála aukast til muna.

Til að endurspegla betur verkefni stofnunarinnar er lagt til að stofnunin fái nýtt nafn, Fjarskiptastofa.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum