Hoppa yfir valmynd
26. mars 2021 Dómsmálaráðuneytið

Reglugerð sett um embætti ríkislögreglustjóra í fyrsta sinn

Dómsmálaráðuneytið hefur birt reglugerð um embætti ríkislögreglustjóra en þetta er í fyrsta skipti síðan embættið var stofnað árið 1997 að reglugerð er sett um starfsemi þess. Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar um embættið frá því í febrúar 2020 kom meðal annars fram að óeining hefði verið um valdmörk þess og samskipti og samvinna milli lögreglustjóra og ríkislögreglustjóra hefðu verið ófullnægjandi. Í úttektinni kom einnig fram að lögregluráð sem þá var nýstofnað yrði kjörinn vettvangur aukins samstarfs og samhæfingar en einnig var bent á að þörf væri á að setja reglugerð um embættið.

Tilgangur reglugerðarinnar er að bæta úr framangreindu, kveða nánar á um starfsemi, hlutverk og ábyrgð ríkislögreglustjóra samkvæmt lögreglulögum og stuðla að nauðsynlegri samhæfingu og samræmingu í störfum lögreglu. Kveðið er á um þessi atriði í fyrsta kafla reglugerðarinnar.

Í öðrum kafla reglugerðarinnar er fjallað nánar um æðstu stjórn lögreglunnar og hlutverki ráðherra, ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra lýst. Þá er fjallað um hlutverk ríkislögreglustjóra gagnvart ráðherra þegar kemur að ráðgjöf um löggæslumálefni og eftirfylgni áætlana um starfsemi lögreglu. Í þessum kafla er einnig fjallað um lögregluráð og hlutverk ríkislögreglustjóra gagnvart lögreglustjórum.

Í þriðja kafla reglugerðarinnar er fjallað um hlutverk ríkislögreglustjóra þegar kemur að samhæfingu og samræmingu í störfum lögreglu. Í kaflanum er fjallað um verklag þegar kemur að útgáfu samræmdra verklagsreglna og siðareglna. Í kaflanum er einnig kveðið á um að ríkislögreglustjóri skuli samræma ferli við ráðningar í störf og framgang innan lögreglu sem og við endurskipanir lögreglumanna í embætti. Framangreind ákvæði taka mið af tilmælum GRECO um sama efni.

Í fjórða kafla reglugerðarinnar er fjallað um samræmdar kröfur til ökutækja, einkennisfatnaðar og sérhæfðs búnaðar vegna verkefna lögreglu og hlutverk ríkislögreglustjóra þegar kemur að innkaupum og langtímaleigu lögregluembætta. Í kaflanum er einnig fjallað um rekstur upplýsingakerfa lögreglu og hlutverk ríkislögreglustjóra þegar kemur að því að vinna úr tölfræðiupplýsingum lögreglu.

Fimmti kafli reglugerðarinnar fjallar um sérstök verkefni sem ríkislögreglustjóri hefur með höndum samkvæmt lögreglulögum og í samræmi við nánari ákvörðun ráðherra. Má þar m.a. nefna málefni almannavarna, alþjóðasamvinnu- og samstarf á sviði löggæslu- og öryggismála, starfrækslu mennta- og starfsþróunarseturs, starfrækslu sérsveitar, greiningardeildar, fjarskiptamiðstöðvar og landamærasviðs.

Reglugerðina má finna hér á vef stjórnartíðinda

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum