Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2021 Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór ræddi við Antony Blinken

Ráðherrafundur Norðurskautsráðsins, tvíhliða samskipti og samstarf á alþjóðavettvangi voru til umræðu á símafundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna í dag. 

Antony Blinken tilkynnti í ræðu á dögunum að hann myndi leiða sendinefnd Bandaríkjanna á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins sem haldinn verður í Reykjavík 20. maí. Í samtali sínu í dag ræddu þeir Guðlaugur Þór um fyrirhugaða heimsókn Blinkens hingað til lands og hvers vænta megi af fundi Norðurskautsráðsins. 

Tvíhliða samskipti Íslands og Bandaríkjanna voru einnig til umræðu en í ár eru áttatíu ár liðin frá því að þau tóku upp formlegt stjórnmálasamband og sjötíu ár frá undirritun varnarsamningsins. Eins hafa samskipti ríkjanna á sviði efnahagsmála farið vaxandi, dæmi um það er formlegt efnahagssamráð sem nú hefur farið fram tvisvar frá 2019.

„Fyrirhuguð heimsókn Tony Blinken hingað til lands sýnir ekki aðeins áhuga nýrrar ríkisstjórnar í Bandaríkjunum á Norðurskautsráðinu heldur einnig vilja hennar til að halda áfram þeirri góðu samvinnu sem Ísland og Bandaríkin hafa átt um árabil. Slíkar heimsóknir veita mikilvægt tækifæri til að efla tengsl ríkjanna enn frekar, þeim báðum til hagsbóta,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. 

Ráðherrarnir ræddu jafnframt öryggis- og varnarsamstarf, mannréttindi og loftslagsmál. 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum