Hoppa yfir valmynd
25. október 2022 Utanríkisráðuneytið

Kvenkyns utanríkisráðherrar funduðu um stöðu kvenna og mannréttinda í Íran

Frá fundi ráðherranna. - mynd

Alvarleg mannréttindabrot í Íran, ekki síst gegn konum og börnum, voru í brennidepli á fjarfundi sextán kvenkyns utanríkisráðherra sem fram fór á dögunum. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sótti fundinn sem haldinn var að frumkvæði Mélanie Joly, utanríkisráðherra Kanada. Í kjölfar fundarins gáfu ráðherrarnir út sameiginlega yfirlýsingu þar sem ofbeldi stjórnvalda í Íran er fordæmt, kallað er eftir sjálfstæðri rannsókn á vegum Sameinuðu þjóðanna og stuðningi heitið við konur í Íran.

Fulltrúar íranskra mótmælenda ávörpuðu fundinn og lýstu reynslu sinni af ástandinu í landinu og gafst ráðherrunum tækifæri til að spyrja þá út í stöðu mála. Einnig ávarpaði Åsa Regnér varaframkvæmdastjóri UN Women fundinn.

Í ávarpi sínu beindi Þórdís Kolbrún máli sínu til fulltrúa mótmælenda en Ísland er á meðal ríkja á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna sem hafa skorað á Íran að láta fara fram óháða rannsókn á dauða Mahsa Amini og virða mannréttindi kvenna og minnihlutahópa í landinu.

„Ofsafengin harka stjórnvalda gegn mótmælendum vekur upp óhug og depurð. Ég dáist að hugrekki ykkar og allra þeirra sem mæta grimmilegum viðbrögðum stjórnvalda. Það er skylda okkar sem kvenkyns utanríkisráðherrar að sýna samstöðu með konum í Íran og styðja baráttu ykkar og málstað,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Ísland beitir sér fyrir aukinni virðingu fyrir mannréttindum í Íran á vettvangi helstu alþjóðastofnana. Á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna er Ísland í forsvari fyrir árlegri ályktun sérstaks skýrslugjafa um ástand mannréttindamála í Íran. Ísland styður einnig að komið verði á fót rannsóknarnefnd til að afla og varðveita sönnunargögn með áherslu á brot gegn konum og börnum í yfirstandandi ofbeldishrinu í Íran sem skila ætti inn skýrslu til mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna.

Ísland framfylgir jafnframt þvingunaraðgerðum sem Evrópusambandið hefur ákveðið að grípa til gagnvart Íran vegna aðildar þarlendra stjórnvalda að ofsóknum gegn friðsömum mótmælendum. Aðgerðirnar sem nú hefur verið gripið til felast í frystingu eigna og ferðabanni til Evrópu.

Þetta var í þriðja sinn sem kvenkyns utanríkisráðherrar funda en á fyrri fundum var fjallað um bága stöðu kvenna og stúlkna í Afganistan og afleiðingar heimsfaraldurs COVID-19 fyrir konur og stúlkur.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum