Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Mikill áhugi á vinnustofu um aðlögun að loftslagsbreytingum

Mjög góð þátttaka var á fyrstu vinnustofu um aðlögun að loftslagsbreytingum, sem haldin var í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skipaði í haust stýrihóp sem hefur það hlutverk að vinna tillögu að efnisþáttum og skipulagi fyrir gerð landsáætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum.

Vinna stýrihópsins felur í sér viðamikið og reglubundið samráð og samstarf við helstu fag- og hagaðila. Þátttakendur á þessari fyrstu vinnustofu komu m.a. frá Stjórnarráðinu, stofnunum, fyrirtækjum, sveitarfélögum, Ungum umhverfissinnum, háskólasamfélaginu og  Samtökum fjármálafyrirtækja.  Dr. Sigrún Karlsdóttir, náttúruvárstjóri á Veðurstofu Íslands, tók að sér að leiða vinnustofuna og taka utan um verkefni dagsins en ráðgjafafyrirtækið Alta sér um framkvæmd samráðsferlisins í samstarfi við ráðuneytið.

Á vinnustofunni var lögð áhersla á náttúruvá og var megin viðfangsefnið að auka skilning og fá yfirsýn yfir það hvaða mögulegu aðlögunaraðgerðir kunni að falla að náttúruvárhluta aðlögunarstefnu stjórnvalda Í ljósi loftslagsvár sem gefin var út á síðasta ári. Röð vinnustofa, sem einnig byggja á markmiðum aðlögunarstefnunnar, munu fylgja í kjölfarið og verður þar m.a. fjallað um skipulagsmál, vatns- og fráveitumál, samgöngur, landbúnað, ferðaþjónustu, vátryggingar- og fjármálastarfsemi, sjávarútveg og fiskeldi í sjó

Loftslagsbreytingar eru þegar farnar að hafa áhrif á íslenskt samfélag og lífríki bæði með beinum og afleiddum hætti, en breytingar í veðráttu, hitastigi, gróðurfari, fánu og flóru hafa þegar gert vart við sig um allt land. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar er kveðið á um að unnin verði aðgerðaáætlun um samfélagslega aðlögun að loftslagsbreytingum á grunni fyrirliggjandi aðlögunarstefnu. Til að búa samfélög undir að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga þurfa ákvarðanataka og aðlögunaraðgerðir að byggja á bestu fáanlegu vísindalegu upplýsingum og fela í sér að tekið sé tillit til áhættumats og viðmiða um ásættanlega áhættu fyrir samfélag og lífríki frammi fyrir loftslagsbreytingum. 

Stýrihópinn skipa þau Jens Garðar Helgason, formaður, Anna Hulda Ólafsdóttir, skrifstofustjóri Veðurstofu Íslands, Hrönn Hrafnsdóttir, sérfræðingur Samband íslenskra sveitarfélaga, Hugrún Elvarsdóttir, verkefnastjóri Samtök atvinnulífsins og Finnur Ricart Andrason, frá Ungum umhverfissinnum.

  • Halla Sigrún Sigurðardóttir, skrifstofustjóri Loftslagsskrifstofu, flutti erindi á vinnustofunni. - mynd
  • Þátttakendur í vinnustofu um aðlögun að loftslagsbreytingum. - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum