Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2022 Dómsmálaráðuneytið

Vitundarvakning gegn kynferðisofbeldi í aðdraganda jóla

Vitundarvakningu dómsmálaráðherra, Neyðarlínunnar, ríkislögreglustjóra og hinna ýmsu samstarfsaðila gegn ofbeldi verður fram haldið með áherslu á að vinna gegn ofbeldi og áreitni í aðdraganda hátíðanna. Þetta er í samræmi við tillögur starfshóps um forvarnir og vitundarvakningu gegn kynbundnu ofbeldi en starfshópinn skipa Sigríður Björk Guðjónsdóttir, Guðfinnur Sigurvinsson, Hildur Sunna Pálmadóttir og Eygló Harðardóttir.

Um er að ræða þriðja áfanga vitundarvakningar gegn kynferðisofbeldi sem hófst í mars á þessu ári og er áherslan á hinar ýmsu skemmtanir og viðburði í aðdraganda jólanna. Almenningur er hvattur til að skemmta sér vel og að góð skemmtun er þegar við öll getum verið örugg fyrir kynferðislegu ofbeldi og áreitni.  Ef áhyggjur vakna er rétt að leita til 112.

Markmið stjórnvalda er að fjölga tilkynningum og fækka brotum. Í nýrri skýrslu ríkislögreglustjóra um kynferðisbrot fyrstu 9 mánuði ársins kemur fram að tilkynnt var um 195 nauðganir.  Í 20% tilvika var um að ræða eldri brot, þ.e. brot sem áttu sér stað fyrir árið 2022. 

Neyðarlínunni hefur verið falin umsjón með vitundarvakningunni í samstarfi við ríkislögreglustjóra, lögregluembættin og hina fjölmörgu samstarfsaðila sem hafa komið að vakningunni. Á ofbeldisgátt 112 má nú jafnframt finna Leiðarvísi um réttargæslukerfið fyrir þolendur kynferðisbrota (112.is) í samræmi við ákvörðun dómsmálaráðherra. Þar er meðal annars að finna svör við spurningum svo sem hvernig hægt er að tilkynna kynferðisbrot, hvert er hægt að leita til að fá aðstoð, hvað gerist þegar kynferðisbrot er kært og góð ráð frá þolendum sem hafa verið með mál í réttarvörslukerfinu, fagaðilum og starfsfólki lögreglu og héraðssaksóknara.

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra:

Í aðdraganda og yfir hátíðarnar eru fjölmargir viðburðir skipulagðir á vegum vinnustaða, vinahópa og fjölskyldna þar sem við viljum koma saman og gleðjast.  Með vitundarvakningunni ítrekum við að góð skemmtun felur aldrei í sér ofbeldi. Skilaboðin eru skýr í tengslum við hátíðarnar, að ofbeldi verði ekki liðið og að beiting þess hafi afleiðingar.“

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum