Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2007 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Samgönguverðlaun veitt í fyrsta sinn vorið 2007

Samgönguráðherra hefur ákveðið að veita samgönguverðlaun. Viðurkenningin verður veitt árlega þeim einstaklingi, samtökum eða stofnun sem þykir hafa lagt fram verðmætan skerf á einhverju sviði samgöngumála. Veitt verða peningaverðlaun auk verðlaunagrips.

Leitað verður tilnefninga og mun starfshópur meta þær og/eða koma sjálfur með ábendingar. Starfshópurinn leggur tillögu sína um verðlaunahafa fyrir samgönguráðherra til ákvörðunar. Verðlaunin verða fyrst veitt vorið 2007 fyrir verkefni sem unnin hafa verið eða komið fram á síðasta ári.

Allar hliðar samgöngumála falla undir samgönguráðuneytið en þau eru flugmál, siglingamál og vegamál, en einnig ferðamál, póstmál og fjarskipti. Með samgönguáætlun eru lagðar línur tólf ár í senn fyrir hvern þessara þátta og undir áætlunina falla einnig öryggisáætlanir fyrir hvert svið samgangna.

Samgönguverðlaun geta því tekið til verkefna á öllum þessum sviðum. Þau geta verið veitt fyrir verkefni sem þegar hafa komið til framkvæmda svo sem á sviði hönnunar, framkvæmda, markaðsaðgerða, forvarna eða öryggismála en einnig fyrir hugmyndir eða áætlanir á þessum sviðum sem talin eru geta verið til framdráttar samgöngumálum landsmanna.

Öllum er frjálst að koma með tilnefningar til samgönguverðlauna. Æskilegt er að samtök og stofnanir á hverju sviði samgangna hafi frumkvæði og brýni menn til dáða á sínu sviði. Tilnefningar þurfa að hafa borist samgönguráðuneytinu eigi síðar en 1. mars 2007. Þeim þurfa að fylgja rökstuðningur fyrir ábendingu og óskað er eftir að nafn tengiliðs fylgi. Tilnefningar sendist á tölvunetfangið [email protected] eða til samgönguráðuneytis, Hafnarhúsinu við Tryggvagötu.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum