Hoppa yfir valmynd
24. ágúst 2007 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Ræddi fjarskipti og samgöngumál á ársfundi SSNV

Á ársfundi Samtaka sveitarfélaga í Norðurlandi vestra sem nú stendur á Húnavöllum sagði Kristján L. Möller samgönguráðherra að hafinn væri undirbúningur að flutningi á málefnum sveitastjórna frá félagsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis.

Samgönguráðherra á ársfundi SSNV
Kristján L. Möller flutti ræðu á ársfundi SSNV í Húnaveri.

Samgönguráðherra sagði sveitastjórnarmálin áhugaverðan málaflokk eins og samgöngumál. ..Hann er líka snúinn og ríkisstjórn og sveitarfélög takast gjarnan á um fjárframlög og verkaskiptingu. Gera má ráð fyrir að það verði meðal verkefna Alþingis í vetur að fjalla um breytingar á þessari skipan,” sagði ráðherra meðal annars.

Í ræðu sinni minnti samgönguráðherra á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir meðal annars að í rammafjárlögum fyrir næstu fjögur ár verði lögð mikil áhersla á eflingu innviða samfélagsins á sviði samgangna og fjarskipta. Hann sagði greiðar samgöngur og örugg fjarskipti ráðandi þætti varðandi búsetu í landinu. ,,Þess vegna verður að hraða því eins og kostur er að ljúka uppbyggingu vegakerfisins með öruggum heilsársvegum sem tengja öll byggðarlög landsins.” Ráðherra sagði að í Norðvesturkjördæmi yrði unnið að vegagerð fyrir tæpa þrjá milljarða króna á þessu ári og fyrir um fimm milljarða á næsta ári.

Þá vék Kristján L. Möller að fjarskiptum og sagði að hraða ætti þeirri uppbyggingu GSM-farsímaþjónustunnar sem nú stæði yfir. Einkum væri horft til Vestfjarða og Norðausturlands varðandi það að hraða framkvæmdum. Einnig sagði hann framundan útboð á auknum háhraðatengingum og kvað áætlanir standa til þess að síðla næsta árs gæti dreifbýlið setið við sama borð og þéttbýli hvað varðaði háhraðatengingar.

Á fundi SSNV ræddi Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál, Grétar Þór Eyþórsson, forstöðumaður rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Bifröst, ræddi byggðamál og Anna G. Björnsdóttir hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga kynnti stöðu sveitarfélaganna gagnvart EES samningnum.

Samgönguráðherra á ársfundi SSNV
Sveitastjórnarmenn víða af Norðurlandi vestra sitja nú 15. ársfund SSNV á Húnavöllum.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum