Hoppa yfir valmynd
20. júní 2016 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Samstarfshópur um málefni Mývatns skilar skýrslu til ráðherra

Mývatn
Mývatn

Samstarfshópur um málefni Mývatns hefur skilað skýrslu með ábendingum og samantekt á upplýsingum um ástand vatnsins og mögulegar aðgerðir til að draga úr neikvæðum áhrifum og efla rannsóknir og vöktun. Í skýrslunni segir m.a. að rétt sé að ríkisvaldið og Skútustaðahreppur vinni saman að umbótum í fráveitumálum og öðrum aðgerðum til að draga úr innstreymi næringarefna í Mývatn.

Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði samstarfshópinn 17. maí sl. og óskaði eftir því að hann skilaði samantekt um ástand mála í Mývatni, orsakir þess vanda sem þar er nú við að búa og hugsanlegar aðgerðir til að bæta þar úr, m.a. á sviði fráveitumála. Hópinn skipuðu átta fulltrúar frá stofnunum, hagsmuna- og umhverfisverndarsamtökum, Skútustaðahreppi og ráðuneytinu. Tilgangur samantektarinnar var að aðstoða stjórnvöld við ákvarðanatöku varðandi mögulegar aðgerðir sem gætu komið að gagni til að draga úr álagi af manna völdum á lífríki vatnsins. Auk samantektar á þeim upplýsingum sem ráðherra óskaði eftir setti hópurinn einnig fram nokkrar ábendingar sem stjórnvöld gætu haft til hliðsjónar varðandi næstu skref. Mun umhverfis- og auðlindaráðherra leggja skýrsluna og hugmyndir starfshópsins fram í ríkisstjórn í framhaldinu.

Undanfarin tvö ár hafa verið miklir blómar af blábakteríum í Mývatni, sem hafa varað óvenju lengi og hafa neikvæð áhrif á marga þætti í lífríki vatnsins og Laxár. Slæmt ástand vatnsins hefur vakið upp spurningar um hvort mannlegir þættir, s.s. innstreymi fráveituvatns, eigi þar hlut að máli og hvort hægt sé að bæta þar úr. Umræða um málið var m.a. á Alþingi í maí sl. og óskaði ráðherra eftir skýrslunni í kjölfar hennar.

Í skýrslunni kemur m.a. fram að vísindamenn telja að neikvæðar breytingar í lífríki Mývatns bendi til næringarefnaauðgunar. Þótt ekki teljist sannað að slíkt sé helsta orsök vandans sé engu að síður nauðsynlegt að draga úr losun næringarefna á borð við fosfór og nitur í vatnið. Bent er á að þegar séu kröfur um slíkt á grundvelli laga um vernd Mývatns og Laxár. Sveitarstjórn Skútustaðahrepps hefur brugðist við þeim kröfum m.a. með því að fá tillögu um hreinsun skólps frá þéttbýlinu í Reykjahlíð, en hefur bent á að slíkar lausnir séu dýrar og að erfitt sé fyrir lítið sveitarfélag að standa undir ströngum kröfum um hreinsun fráveituvatns.

Í skýrslunni er bent á að krafa um hreinsun fráveituvatns eigi við um fleiri svæði en Reykjahlíð. Því sé rétt að gera heildstæða áætlun um úrbætur í fráveitumálum sem fyrst og vinna eftir henni. Slík áætlun ætti ekki að tefja úrlausn mála, heldur tryggja að tekið sé heildstætt á fráveitumálum. Eðlilegt sé að skoða aðkomu ríkisvaldsins að fjármögnun umbótaverkefna í fráveitumálum í Skútustaðahreppi í ljósi þess að gerðar eru sérstakar kröfur um fráveitumál þar á grundvelli laga um vernd Mývatns og Laxár. Einnig er bent á aðgerðir sem hægt er að grípa til í því skyni að minnka innstreymi næringarefna frá landbúnaði og landgræðslu.

Varað er þó við væntingum um að hægt sé að snúa neikvæðri þróun lífríkisins á skömmum tíma. Vistkerfi Mývatns sé flókið og sveiflukennt, sem geri erfitt um vik að greina frumorsakir neikvæðra breytinga. Í úttekt sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið lét gera á innstreymi næringarefna og birt var í febrúar 2016 kom fram að langstærstur hluti af innstreymi næringarefna var með lindavatni og niturbindingu blábaktería, en mjög lítill hluti kom með fráveituvatni og frá landbúnaði. Vísindamenn telja ekki fullljóst hvað veldur þróun mála í Mývatni, en hún sé þó um margt svipuð því sem búast má við í vötnum sem fá of stóran skammt næringarefna. Af þeim sökum er æskilegt að reyna að takmarka innstreymi þeirra frekar en nú er gert. Æskilegt sé að efla vöktun og rannsóknir, m.a. til að greina betur innstreymi næringarefna og hugsanlegar orsakir breytinga í lífríki vatnsins.

Skýrsla samstarfshóps um Mývatn: Ástand mála, orsakir vanda og mögulegar aðgerðir (pdf)

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum