Hoppa yfir valmynd
8. janúar 2016 Forsætisráðuneytið

Skýrsla stýrihóps um framkvæmd EES-samningsins: Þunginn í vinnu stjórnvalda verði færður framar í ferlið.

Stýrihópur um framkvæmd EES-samningsins hefur skilað forsætisráðherra skýrslu sem kynnt var í ríkisstjórn í morgun. Þar kemur fram að meginþunginn í vinnu stjórnvalda sé við innleiðingu laga og reglna, en síður við að fylgjast með þegar reglurnar eru samdar á vettvangi Evrópusambandsins (ESB). Þessu þurfi að breyta, bæði til þess að hafa aukin áhrif og til þess að innleiðing gangi í kjölfarið betur og innan settra tímamarka. Lykilatriði sé að forgangsraða og fylgjast þá mjög vel með völdum málaflokkum þar sem hagsmunir Íslands eru stærstir.

Hinn 11. mars 2014 samþykkti ríkisstjórn Íslands nýja Evrópustefnu sem byggist á því að efla skuli hagsmunagæslu á vettvangi samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins) og annarra gildandi samninga Íslands og ESB. Þar er lögð áhersla á skilvirka framkvæmd EES-samningsins. Stefnunni fylgdi aðgerðaáætlun þar sem kveðið var á um að koma skyldi á fót stýrihópi um framkvæmd samningsins undir forsæti forsætisráðuneytis með þátttöku skrifstofu Alþingis.  

Stýrihópurinn var skipaður 2. júlí 2014 til þriggja ára.  

Helstu áskoranir eru að mati stýrihópsins erfiðleikar við að fylgjast með löggjöf í mótun hjá ESB og hafa efnisleg áhrif á hana, seinagangur við upptöku gerða í EES-samninginn, tafir við innleiðingu gerða í landsrétt, flókið ferli við þinglega meðferð EES-mála og skortur á skýrari ferlum og verkfærum til samhæfingar milli ráðuneyta og samráðs við hagsmunaaðila á sviði EES-mála. Þá leiðir takmarkaður mannafli og sérfræðiþekking hjá ráðuneytum og opinberum stofnunum í samspili við forgangsröðun verkefna til þess að oft reynist vandkvæðum bundið að sinna EES-samningnum sem skyldi. 

Stýrihópurinn kynnti sér fyrirkomulag mála, einkum í Noregi og Liechtenstein, og setur m.a. fram eftirtaldar tillögur að úrbótum:

  • Ríkisstjórnin samþykki árlega, að höfðu samráði við Alþingi og hagsmunaaðila, lista yfir þau mál í lagasetningarferli hjá ESB, sem metin eru forgangsmál út frá íslenskum hagsmunum. Sérstaklega verði fylgst með þessum málum, sjónarmiðum íslenskra stjórnvalda komið á framfæri og reynt að hafa áhrif eftir megni og tilefni. Drög að slíkum lista fylgja skýrslu hópsins.
  • Ráðuneytin leitist við að hefja vinnu við innleiðingu gerða fyrr en nú er. Stefnt sé að því að undirbúningi sé að mestu lokið þegar gerð er samþykkt á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar.
  • Innleiðingarfrumvörp verði auðkennd sérstaklega á þingmálaskrá og sett í forgang. Þau geymi að jafnaði einungis ákvæði sem leiðir af viðkomandi EES-skuldbindingu.
  • Séð verði til þess að ráðuneyti geti birt stjórnvaldsfyrirmæli til innleiðingar á EES-gerðum án verulegs kostnaðar.
  • Settur verði á laggirnar miðlægur EES-gagnagrunnur þar sem færðar verði inn upplýsingar um ferli EES-gerða frá upphafi til enda.
  • Stjórnarráðið fái tímabundið framlag til að ráða fjóra starfsmenn í tvö ár sem aðstoði ráðuneytin við að vinna á brýnum upptöku- og innleiðingarhalla.
  • Leitast verði við að ávallt sé nægur mannafli og sérfræðiþekking á EES-málum til staðar hjá Stjórnarráðinu og öðrum opinberum stofnunum.
  • Utanríkis- og forsætisráðuneytið vinni að því að samræma vinnubrögð og efla miðlægt utanumhald um framkvæmd EES-samningsins. 

Skýrsla stýrihóps um framkvæmd EES-samningsins

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum