Æðsta stjórnsýsla

 Fjármálaáætlun 2018-2022 

1.   Umfang

Starfsemi  á  þessu  málefnasviði  er  á  ábyrgð  forsætisráðherra.  Það skiptist  í  þrjá málaflokka, en þeir eru:

  • Embætti forseta Íslands.
  • Ríkisstjórn.
  • Forsætisráðuneyti.

Embætti forseta Íslands. Undir þennan lið fellur rekstur forsetaembættisins. Forseti Íslands gegnir margvíslegum embættisskyldum þjóðhöfðingja innanlands og erlendis.

Ríkisstjórn. Undir þennan lið falla laun ráðherra og aðstoðarmanna. Hlutverk ráðherra er að fara með og bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum, hver á sínu málefnasviði samkvæmt ákvæðum forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna.

Forsætisráðuneyti. Undir þennan lið fellur rekstur aðalskrifstofu forsætisráðuneytisins, fasteigna ráðuneytisins og Stjórnarráðsins, úrskurðarnefndar um upplýsingamál o.fl. Hlutverk forsætisráðuneytisins er m.a. að tryggja faglega umgjörð um störf ríkisráðs, ríkisstjórnar og ráðherranefnda, auk þess að veita faglega ráðgjöf um verkaskiptingu milli ráðherra og ráðuneyta þeirra. Þá veitir forsætisráðuneytið forsætisráðherra faglega ráðgjöf um þau málefni sem undir ráðuneytið heyra á hverjum tíma, þar á meðal um þjóðhagsmál og þjóðlendumál. Forsætisráðuneytið fer jafnframt með forystu og samhæfingu innan Stjórnarráðs Íslands og stjórnarfar almennt. Framþróun faglegra og vandaðra verkferla og vinnubragða þvert á ráðuneyti, svo sem á sviði stjórnarfars, löggjafarmála, stefnumótunar, áætlanagerðar og verkefnastjórnunar er og verður veigamikill þáttur í starfseminni. Nýjungum er svo miðlað til annarra eða milli ráðuneyta í margvíslegum samstarfshópum og í Stjórnarráðsskólanum.

Í eftirfarandi töflu má sjá fjárhagslega þróun málefnasviðsins og einstakra málaflokka á tímabilinu 2015–2017.

2.   Starfsemi og helstu áskoranir

Embætti forseta Íslands.

Undir  málaflokkinn fellur rekstur forsetaembættisins.  Það  er  viðvarandi  verkefni  að treysta umgjörð embættisins í samræmi við stöðu forseta Íslands sem þjóðhöfðingja, æðsta handhafa framkvæmdarvalds og annars handhafa löggjafarvalds í landinu og tryggja þannig að forsetinn fái sinnt embættisskyldum sínum innanlands og erlendis af kostgæfni og virðuleik.

Ríkisstjórn.

Undir  málaflokkinn  fellur  launaliður  ráðherra  í  ríkisstjórn  og  aðstoðarmanna  þeirra. Liðurinn tekur breytingum í samræmi við fjölda ráðherra og aðstoðarmanna á hverjum tíma.

Forsætisráðuneyti.

Undir málaflokkinn fellur aðalskrifstofa forsætisráðuneytisins og tengd verkefni  sem ekki verða auðveldlega felld undir önnur málefnasvið og málaflokka.

Umfang og áherslur í starfsemi og rekstri forsætisráðuneytisins ráðast mjög af stefnumálum og áherslum ríkisstjórnar hverju sinni og verkaskiptingu samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta. Þeirri áskorun sem fylgir breytingum við ríkisstjórnarskipti er mætt með sveigjanlegu skipulagi og starfsfólki sem verður að vera reiðubúið og hæft til að laga sig skjótt að nýjum áherslum og verkefnum. Við myndun nýrrar ríkisstjórnar í janúar 2017 voru stjórnarmálefni flutt frá forsætisráðuneytinu, þ.e. málefni þjóðmenningar, Þingvallaþjóðgarður, Hagstofa Íslands, Vísinda- og tækniráð o.fl. Rekstrarlegt umfang og velta ráðuneytisins hefur dregist saman sem því nemur. Á móti fluttist Seðlabanki Íslands til ráðuneytisins en auk þess fékk ráðuneytið stöðu sem almennt hagstjórnarráðuneyti ásamt fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Seðlabanki Íslands er ekki á fjárlögum og hefur flutningur bankans til ráðuneytisins því ekki áhrif á rekstarlegt umfang ráðuneytisins samkvæmt fjárlögum. Í samræmi við breytingar sem gerðar hafa verið á stjórnarmálefnum sem heyra undir ráðuneytið hefur skipuriti þess verið breytt og skrifstofum þess fækkað um tvær.

Á umliðnum árum hefur verið unnið að umbótum á ríkisstjórnarstarfinu. Þær umbætur hafa m.a. verið unnar á grundvelli nýrra laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, og reglna um starfshætti ríkisstjórnar. Framþróun í ríkisstjórnarstarfinu hefur haldið áfram í tíð núverandi ríkisstjórnar og voru nýjar reglur um starfshætti ríkisstjórnar samþykktar í mars 2017. Einn megintilgangur breytinganna er að lengja þann tíma sem ráðherrar hafa til að kynna sér mál annarra ráðherra sem ráðgert er að taka upp í ríkisstjórn og vanda undirbúning og auka samráð vegna þeirra.

Forsætisráðuneytið hefur sömuleiðis á umliðnum árum unnið mikið starf á sviði löggjafarmála og gegnir skrifstofa löggjafarmála þar lykilhlutverki en öll þingmál ríkisstjórnar eru yfirfarin á skrifstofunni. Verkefnin hafa aukist nýverið með því að málfarslegur og lagatæknilegur yfirlestur frumvarpa og þingsályktunartillagna færðist til ráðuneytisins frá Alþingi. Í mars 2017 samþykkti ríkisstjórnin nýjar reglur um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og stjórnartillagna. Markmið reglnanna er að auka enn frekar gæði þingmála, þar á meðal með auknu samráði við vinnslu þeirra. Það er stöðug áskorun að uppfylla þarfir og væntingar um fjölda lagabreytinga á hverju ári að frumkvæði ríkisstjórnar en gæta um leið að vönduðum undirbúningi. Þá hefur ráðuneytið haft forystu um markvissar aðgerðir til að bæta framkvæmd EES-samningsins sem væntanlega munu bera árangur innan tíðar.

Með stjórnarmálefnum á sviði hagstjórnarmála sem flutt hafa verið til forsætisráðuneytisins með forsetaúrskurði er ljóst að áhersla og áskoranir ráðuneytisins á sviði þjóðhagsmála munu aukast. Sem dæmi um verkefni á þessu sviði sem heyra undir ráðuneytið er endurskoðun á ramma peningastefnu Seðlabankans og stofnun stöðugleikasjóðs en kveðið er á um bæði þessi verkefni í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Skrifstofa þjóðhagsmála mun fá aukið hlutverk við hagstjórn almennt og þjóðhagsmál í víðum skilningi, svo sem með eftirfylgni með stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og markmiðum í málefnasviðsstefnum fjármálaáætlunar. Í því felst að fylgjast með framgangi mála ríkisstjórnarinnar í samráði við önnur ráðuneyti og gera reglulega framvinduskýrslur fyrir forsætisráðherra og ríkisstjórn. Undir verksvið skrifstofunnar felst einnig að hafa umsjón með ráðherranefndum um efnahagsmál og ríkisfjármál, sbr. 9. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands. Skrifstofan mun halda utan um störf Þjóðhagsráðs en hlutverk þess er að fjalla um stöðuna í efnahagsmálum og ræða samhengi opinberra fjármála, peningastefnu og vinnumarkaðar í tengslum við helstu viðfangsefni hagstjórnar hverju sinni. Þá fer skrifstofan með málefni Seðlabanka Íslands, m.a. samskipti um peningastefnu og gengisstefnu, og leggur tillögur fyrir forsætisráðherra og ráðherranefnd.

Önnur verkefni sem varða Stjórnarráðið í heild eru undirbúningur að sameiginlegum vef Stjórnarráðsins og Stjórnarráðsskólinn sem annast meðal annars nýliðafræðslu, til dæmis varðandi siðferðileg gildi í opinberum störfum, og kynningu á breytingum í starfsumhverfi ráðuneyta eins og vegna nýrra laga um opinber fjármál.

Framtíðarsýn og meginmarkmið forsætisráðuneytisins

Meginmarkmið forsætisráðuneytisins er að skapa forsætisráðherra trausta og faglega umgjörð þannig að hann fái sem best sinnt forystuhlutverki sínu í íslensku samfélagi m.a. á vettvangi ríkisstjórnar, ráðherranefnda og á Alþingi og fyrir hönd þjóðarinnar á erlendum vettvangi og í alþjóðasamskiptum.

Framtíðarsýn forsætisráðuneytisins er áframhaldandi framþróun og samhæfing faglegra og gagnsærra vinnubragða á vettvangi ríkisstjórnar, í ráðherranefndum, á sviði þjóðhagsmála og löggjafarmála.

Nánar verður gerð grein fyrir markmiðum og aðgerðum í starfi forsætisráðuneytisins í ríkisaðilastefnu ráðuneytisins sem unnin verður og birt í samræmi  við ákvæði laga um opinber fjármál.

3.   Fjármögnun                                                      

 

 

Áætlun

Áætlun

Áætlun

Áætlun

Áætlun

Útgjaldarammi í m.kr.

2018

2019

2020

2021

2022

3 Æðsta stjórnsýsla .......................................

1.992

2.559

2.548

3.087

1.759

 

 
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn